18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (2636)

64. mál, skjólbelti

Flm. (Oddur Andrésson):

Herra forseti. Þegar vér lítum til sögunnar, sem segir, að í árdaga hafi landið verið viði vaxið milli fjalls og fjöru, eins og raunar rannsóknir allra síðustu tíma hafa sannað, þá undrumst vér, hvað það er í dag bert og blásið. En til þess liggja að sjálfsögðu ýmsar ástæður og skulu þær ekki raktar hér. Fullvíst má telja, að ekki hefði landið verið fýsilegt til landnáms, ef það hefði verið svo nöturlega kalt og skjóllaust á landnámsöld sem það er í dag. En það var einmitt fyrir birkiskóginn, sem skýldi landinu, að landnámsmenn gátu haldið hér búskaparháttum og lífsvenjum sinna fyrri heimkynna og m.a. ræktað korn, auk þess sem búféð bjargaðist vetur sem sumar í skjóli skógarins

Nú á síðari árum hefur verið tekin upp kornyrkja að nýju hér á ýmsum stöðum í landinu af mikilli bjartsýni og trú á landsins gæði. Sannarlega má telja það oftrú að hefja ræktun korns án þeirra frumskilyrða, sem þurfa að vera fyrir hendi til að hefta vinda um akurlöndin. Klemenz Kristjánsson á Sámsstöðum hefur verið fremstur í flokki kornræktarmanna og hann hefur komið upp nokkrum skjólbeltum. Með samanburðartilraunum hefur hann sannað, að mjölvisaukning í byggi er frá 15 og allt upp í 60% við að njóta skjóls miðað við skjólleysi. Józkar tilraunir sýna enn fremur, að 20% meðalaukning uppskeru fæst við skjólbelti og er þar eins og á Sámsstöðum ætíð mestur munur, þegar sumur eru köld og stutt.

Árið 1759 voru fluttar kartöflur inn til Íslands af séra Birni Halldórssyni í Sauðlauksdal. Síðan hafa þær verið ræktaðar hér, að vísu á fyrstu árunum í mjög smáum stíl, en síðan í æ vaxandi mæli og eru nú orðnar mjög þýðingarmikill liður í neyzlu þjóðarheildarinnar og allveruleg búgrein í ýmsum héruðum landsins. Nú er á hverju ári sáð niður ca. 10 þús. tunnum af kartöflum og með þeim borið a.m.k. 20 þús. sekkir af áburði. Að verðmæti er þetta um 11 millj. kr. og þar að auki vinna, sem þarf til að koma þessu fyrir.

Í venjulegu eða meðalárferði má vænta ca. 100 þús. tunna uppskeru af þessu. Það er að verðmæti 65–70 millj. kr. Á síðasta ári, sem var mjög óhagstætt kartöfluræktinni, komu upp af þessu sáðmagni ekki nema ca. 50 þús. tunnur af kartöflum. Enn fremur má bæta því við, að nýting er miklum mun lakari, þegar sprettan er lítil, þannig að minni hlutur kemur fram af markaðshæfri vöru. Við sjáum af þessu, að það er geysilega mikið fjárhagsatriði að reyna að koma í veg fyrir slík áföll sem þetta í sumar. Ég veit að vísu, að það er ekki hægt að útiloka frost á köldum nóttum með skjólbeltum eða skógi. Hins vegar er það staðreynd, að skjólið flýtir vextinum á hinum hlýrri dögum, eykur meðalhitann. Þess vegna yrði vöxturinn kominn lengra á veg, þegar að hallandi sumri færi að verða hætta á næturfrostum. Þess vegna tel ég, að það sé mjög rík nauðsyn til þess að tryggja, að kartöfluræktin og landbúnaðurinn í heild verði ekki fyrir svo tilfinnanlegum skakkaföllum sem næturfrostin ollu í ágústmánuði s.l. sumar.

Með ræktun skjólbelta um akurlendin mætti mjög bægja frá þessari hættu. En vegna þess, hversu skógargróðurinn vex hægt og það er ekki hægt að búast við árangri af skjólbeltum, fyrr en að nokkrum tíma liðnum, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að bændurnir einir saman taki á sig allan þann kostnað, sem því fylgir, því að fyrst og fremst er allt slíkt unnið fyrir framtíðina.

Þáltill., sem hér liggur fyrir, kveður á um að fela hæstv. ríkisstj. að semja frv. um aukinn stuðning við ræktun skjólbelta í landinu. Hafís hefur á undanförnum árum ekki lagzt að landinu og eldgos, þó að þau hafi verið nokkuð tíð, hafa lítinn usla gert og verið mest til skemmtunar landslýðnum, að því er manni hefur virzt. En við megum ekki gera ráð fyrir því, að saga fyrri tíma geti ekki endurtekið sig. Þess vegna getur farið svo, að það verði fyrir vaxandi þjóðfélag jafnvel lífsnauðsyn að tryggja það, að framleiðslan geti orðið sem jöfnust og orðið fyrir sem minnstum skakkaföllum af því, ef einhver hluti landsins yrði fyrir eldgosi eða hafísinn legðist upp að landi og árferði yrði kalt, sérstaklega á Norðurlandi, þar sem hann hefur alltaf mest áhrif.

Ég orðlengi þetta svo ekki frekar, en leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta, að umr. um málið verði frestað og málinu vísað til hv. allshn. til umsagnar.