03.02.1965
Sameinað þing: 24. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við þáltill. þessa um vegáætlun fyrir næstu 4 ár vil ég segja nokkur orð.

Vegamálin eða samgöngumálin í okkar landi eru eitt af þýðingarmestu málum. Þau eru allt í senn að vera samgöngumál, þau eru menningarmál, félagsmál og efnahagsmál. Allir þessir þættir grípa inn á það að hafa betri samgöngur og á síðustu áratugum hefur áunnizt mikið þar að lútandi. En öllum er það ljóst, að betur má, ef duga skal og þess vegna varð Alþingi sammála um það fyrir áramótin 1964 að leggja á þjóðina 100 millj. kr. nýja skatta til þess að þoka þessum málum nokkuð á leið. Hitt verður að segjast, að því miður hefur árangurinn af þeirri skattallagningu ekki orðið svo mikill sem skyldi, og þessi vegáætlun mun einnig valda okkur nokkrum vonbrigðum þar um.

Í sambandi við afgreiðslu vegal. og þess nýja þáttar í vegamálum, sem hér er nú upp tekinn með vegáætluninni, vil ég skýra frá því, að hér voru á frumstigi málsins uppi tvær stefnur eða tvær leiðir, sem bent var á til þess að leysa vegamálin í framtíðinni. Í fyrsta lagi var frv. okkar framsóknarmanna, sem flutt var hér á Alþingi 1960–1961, um vega- og brúasjóð. Meginmál þess frv. var að taka hluta af sérsköttum þeim, sem á umferðina eru lagðir, þ.e. benzínskattinn og þungaskattinn og tekjur af þessum sköttum áttu að ganga til nýbygginga í vega- og brúargerð. Það, sem við töldum höfuðkost þeirrar stefnu, sem þar var lögð til, var það, að á þann hátt yrði tryggt, hvað nýbygging í vega- og brúargerð yrði mikil í framtíðinni, í sambandi við það, að þessi tekjuöflun átti eingöngu að ganga til nýbyggingar. Rök okkar fyrir því, að ríkissjóður annaðist áfram kostnaðinn af stjórn vegamála, af viðhaldinu og önnur þau útgjöld, sem nú er aflað sérstakra tekna til, voru þau, að ríkissjóður héldi eftir nokkrum hluta af sérsköttunum, sem var gúmmígjaldið og leyfisgjaldið, auk þess öllum hinum venjulegu tolltekjum. Stefna sú, sem mörkuð var með vegalagafrv. og síðar vegal., var hins vegar sú, að vegasjóðurinn skyldi sjá um alla þætti vegamálanna, þ.e. allt frá stjórn þeirra og til allra framkvæmdanna. Á þessari aðferð eru þeir höfuðgallar, að viðhald veganna hlýtur að aukast meira ár frá ári, en tekjur til vegasjóðsins. Enn fremur hlýtur stjórn vegamála og annar slíkur kostnaður að aukast nokkuð verulega. ekki sízt, ef efnahagsmálin verða í því ástandi framvegis, sem þau eru í nú. Það var og sjálfsagt, ef sú leið væri valin, sem valin var, að láta hina sérstöku skatta til vegamálanna bera algerlega uppi kostnað við vegagerðina í landinu, að taka alla sérskattana inn í þá tekjuöflun. Þetta var hins vegar ekki gert með vegal. og nú eru því á fjárl. íslenzka ríkisins 138 millj. kr. áætlaðar vegna leyfisgjalda af bifreiðum. Og ef gera má ráð fyrir, að reynsla þessa árs, 1965, verði svipuð og ársins 1964, munu tekjur af leyfisgjöldum verða a.m.k. í kringum 150 millj. kr. Þetta þýðir það, að ríkissjóður hefur í sérskatta af bifreiðum í landinu eða umferðinni í landinu um 100 millj. kr. umfram það, sem hann leggur til vegamálanna, því að það eru 47 millj. kr. En því er svo við að bæta, að almennar tolltekjur af bifreiðum og varahlutum til bifreiða, slík tekjuöflun ríkissjóðs var á árinu 1963 um 330 millj. kr. Það má því gera ráð fyrir, að á árinu 1965 verði þessi tekjuöflun ríkissjóðs hartnær 400 millj. kr.

Mér sýnist því, ef dæmið er gert upp á milli ríkissjóðs annars vegar og umferðarinnar í landinu hins vegar, þ.e. það, sem tekið er af bílum í leyfisgjöldum, benzínskatti, þungaskatti, gúmmígjaldi og af venjulegum tolltekjum, verði þessar tekjur í heild um 700–800 millj. kr., ef þetta er borið saman við árið 1963, en þá urðu þessar tekjur 350 millj. kr. rúmlega. Þess vegna munu í hlut ríkissjóðs koma 500 millj. kr. umfram það, sem fer til vegamálanna í landinu. Og það er mín skoðun, að íslenzka þjóðin hafi í raun og veru ekki efni á því að láta umferðina greiða svo mikið í almennar þarfir gegnum ríkissjóðinn umfram það, sem fer til vegamálanna. Í okkar landi er svo mikið af óunnum verkefnum á sviði vegamála, að það er óhugsandi að láta umferðina í landinu verða slíka tekjulind án þess að auka vegaféð verulega. Þess vegna er það staðreynd, að þrátt fyrir þá breytingu, sem við gerðum hér á s.l. ári og lögðum okkur allir sem einn fram um að leysa, náum við ekki þeim árangri, sem að er stefnt, vegna þess að hlutur ríkissjóðs er gerður allt of mikill. Það verður að vera stefna hv. Alþingis, að allir sérskattar á umferðina í landinu gangi til vegamálanna óskiptir, en ekki falli stór hluti þeirra til ríkissjóðs, eins og nú er gert með leyfisgjöldunum.

Þetta vildi ég segja við þessa fyrri umr. um vegáætlunina, því að það er sýnilegt af þeirri vegáætlun, sem hér liggur fyrir, að við náum ekki þeim árangri, sem við ætluðum okkur og nauðsyn ber að ná.

Samkv. þeirri vegáætlun, sem hér liggur fyrir, er eins og fram kom í ræðu hæstv. samgmrh., gert ráð fyrir því, að tekjur samkv. áætluninni verði um 262 millj. kr. á. árinu 1965. Af þessu fara um 10 millj. kr. til stjórnar vegamála. Við þennan lið er það að athuga, að auðvitað hlýtur hann að verða hærri ,en hér er gert ráð fyrir á 4 ára tímabilinu, ef þróun í efnahagsmálum verður eins og nú horfir. Það má gera ráð fyrir kauphækkun hér í landinu og þá hækkar þessi liður að sjálfsögðu.

Annar liðurinn, sem er viðhaldsféð, er 90 millj. kr. og er það 10 millj. kr. hækkun frá því, sem er á árinu 1964. Hæstv. ráðh. gat þess, að nauðsyn bæri til að auka viðhald vega í landinu, bæði vegna þess, að þeir lengjast, umferðin eykst á þeim og bílarnir, sem um vegina fara, eru þyngri ár frá ári og þurfa vegirnir eðlilega meira viðhald vegna þessara atriða allra. En ef við berum nú saman 4 ára tímabilið frá 1962–1965 og tímabilið frá 1965–1968, sem við gerum nú ráð fyrir að fara að afgreiða, kemur í ljós, að árið 1962 reyndist kostnaður við vegaviðhaldið í landinu um 62 millj. kr. En á árinu 1965 er gert ráð fyrir, að hann verði 90 millj. kr. Hækkunin á þessu 4 ára tímabili er því um 30 millj. kr. En hækkunin á næsta 4 ára tímabili á að verða 15 millj. kr. Vegaviðhaldið á að hækka úr 90 í 105 millj, kr. á 4 ára tímabili. Sýnist hv. þm., að hér sé verið að tryggja gott vegaviðhald á næstu 4 árum? Ég held, ef við berum saman reynslu síðustu ára, þegar viðhaldið hækkaði þó svo mikið sem raun ber vitni um og berum það saman við það, sem fram undan er, verði ekki talið, að vel sé fyrir þessu séð, enda kemur það í ljós í skýrslu, sem fylgir vegáætluninni, þar sem gerður er samanburður á viðhaldsfénu. Þar kemur í ljós, að það er ekki vel fyrir þessum málum séð. Á bls. 42 í þáltill. um vegáætlunina er gerður samanburður um viðhaldskostnað þjóðvega og þá er árið 1949 lagt til grundvallar. Viðhaldskostnaður á hvern ekinn km. miðað við verðlag 1949, var 12.7 aurar, en árið 1968 er gert ráð fyrir, að hann verði 5.3 aurar. Á tímabilinu frá 1965–1968 er gert ráð fyrir, að verði 5.9 1965, 5.7 1966, 5.5 1967 og 5.3 1968. Þetta er þá miðað við það, að verðlag í landinu haldist óbreytt. En sjá má af þessu, þegar það er haft í huga, hvað umferðin hlýtur að aukast á þessu tímabili, að það er ekki vel fyrir þessu séð. Þess vegna er ég sannfærður um það, að við verðum á tímabilinu að auka verulega fjármagnið til veganna í landinu, ef sæmilega á að vera fyrir viðhaldi veganna séð. Það verður ekki gert með því að auka viðhaldið úr 90 millj. í 105.

Ef við lítum svo á framkvæmdaáætlunina. kemur í ljós, að til nýrra vega er ætlað: Í fyrsta lagi til hraðbrauta 10 millj. kr. Af því fara 6.8 millj. kr. í afborganir af lánum, sem nú eru fyrir hendi í sambandi við Keflavíkurveginn. En 3.2 millj. kr. eru ætlaðar til annarra framkvæmda á ári þetta tímabil. Geta nú hv. alþm. gert sér grein fyrir því, hvað mikið yrði gert í framkvæmdum í hraðbrautum, ef fjármagnið verður ekki aukið. Enda þótt mér sé það ljóst, að við verðum að leysa þau framkvæmdaatriði með lántöku, mundi þessi fjárveiting ekki nægja til þess að greiða nema afborgun og vexti af sáralitlu láni, eins og augljóst er, þegar við berum það saman við framkvæmd þá sem orðin er í Keflavíkurveg, og 6.8 millj. þar nægja aðeins til greiðslu afborgana og vaxta af lánunum.

Í þjóðbrautir eru áætlaðar 24.8 millj. kr. í ár og 21.8 á næsta ári. En af þessu er framkvæmdafé 16.6 millj. kr. fyrsta árið, en fer upp í 22 millj. kr. síðasta árið. Hinn hlutinn fer til þess að greiða vexti og afborganir af þeim framkvæmdum, sem fyrr eru unnar. Augljóst er, að ef gera á stórátök í framkvæmdum í þjóðbrautum, eins og rætt er um hér í vegáætluninni, t.d. Siglufjarðarveg, Múlaveg, og svo koma ótal fleiri stór verkefni, reynast þessar fjárhæðir harla litlar.

Til landsbrauta er gert ráð fyrir, að framkvæmdafé verði um 22 millj. kr. 1965, 20 millj. kr. 1966 og komist upp í 28½ millj. í lok framkvæmdatímabilsins. Þessar fjárhæðir, sem hér er um að ræða, eru svipaðar fjárhæðir eða lítið eitt hærri, en verið hefur undanfarin ár og svipuð fjárhæð og fór til framkvæmdanna á s.l. sumri. Það er einnig ljóst, að þarna verða ekki gerð þau stórátök, sem gert var ráð fyrir, að hægt yrði að leysa, þegar vegal. voru samþykkt. Tekjuöflunin, sem þá var séð fyrir, nægir ekki nema að litlu leyti til þess að leysa verkefnin, vegna þess að það var ekki gengið eins og gera átti í það að taka alla sérskattana, sem á umferðina voru lagðir, til vegamálanna.

Þegar nú kemur að því að framkvæma vegáætlunina til næstu 4 ára, er ljóst, að það verður ekki gert með þeirri tekjuöflun, sem hún gerir ráð fyrir, nema verulegt lánsfé verði til framkvæmdanna á tímabilinu. Við afgreiðslu vegáætlunar nú verður að taka með lánsheimild til framkvæmda í öllum vegaflokkunum, þ.e. hraðbrautum, þjóðbrautum og landsbrautum, og það á að verða hlutverk Alþingis að skipta þessum lánsfjárheimildum einnig á milli hinna stærri vega og milli kjördæma í landsbrautunum. Það er í raun og veru ekki hægt að hugsa sér að hafa þá framkvæmd á þeim málum, sem verið hefur, að einstaka þm. og einstaka kjördæmi hafa gengið fram í því að útvega sér fé í þennan og þennan veginn. Það verður að vera heildarstefna i þeim málum og hún verður að vera mörkuð af Alþingi sjálfu. Þess vegna verður að koma inn í vegáætlunina eða jafnhliða vegáætluninni að afgreiða heimild til lántöku vegna vegaflokkanna og skipta því fé á milli kjördæmanna, en þm. og vegamálastjóri skipta því svo aftur innan kjördæmisins, eins og um fjárveitingu væri að ræða. Þetta þarf að taka upp í sambandi við afgreiðslu vegáætlunarinnar.

Ég vil svo, um leið og ég lýk máli mínu, undirstrika, að það á að vera stefna hér á hv. Alþingi, að allir sérskattar, sem lagðir eru á bifreiðar í landinu, eiga að ganga beint til vegamálanna. Þar á ég við, að leyfisgjaldið gangi þangað einnig, eins og benzínskatturinn og þungaskatturinn núna. Og ríkissjóður á að leggja fram af tolltekjum sínum, sem hann fær vegna umferðarinnar í landinu, fé vegna stjórnar vegamála og til viðhalds þjóðvega. Þetta er stefnan, sem við verðum að marka og ná að koma henni í framkvæmd, því fyrr, því betra.