29.03.1965
Sameinað þing: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2694)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var aðallega í tilefni af upplýsingum, sem hér komu fram í ræðu hv. 3. þm. Vestf., en hann sagði hér frá því, að hann hefði fulla vissu um það, að ríkisstj. hefði ákveðið að taka lán úr flóttamannasjóði Evrópu til vegaframkvæmda á Vestfjörðum, sem næmi 32 millj. kr., vegna framkvæmda þar vestra á næstu 4 árum. Hv. þm. skýrði hér mjög greinilega frá því, hverjar voru hans heimildir, tilgreindi hér frásagnir tiltekinna þm. í þessum efnum og ég verð því að ætla, að hér sé rétt frá skýrt og að hæstv. vegamálaráðh. viti fyllilega deili á þessu máli. Ef þetta er rétt, sem hér hefur fram komið og ég verð að ganga út frá að sé rétt, hlýt ég eð átelja það, að hæstv. ráðh. skuli standa að því að ætla á skýlausan hátt að brjóta sett lög í landinu, þ.e.a.s. vegalögin. Samkv. vegal. er alveg tvímælalaust tekið fram, eins og stendur nákvæmlega í 11. gr. vegal.:

„Í vegáætlun skulu taldir allir þjóðvegir svo og nýbyggingar þjóðvega á þeim tíma, sem áætluninni er ætlað að gilda.“

Og annars staðar í l. er beinlínis gert ráð fyrir því, að það skuli tilgreina, hvernig fjár skuli aflað til framkvæmdanna, hverrar um sig. Nú getur ekki farið á milli mála, að hæstv. ráðh. veit mæta vel um þetta. Hann hefur staðið að því, eins og tilteknir þm. á Vestfjörðum hafa hér upplýst, að lofa Vestfirðingum láni í þessa tilteknu vegi, en hann virðist ætla að standa þannig að málinu, að hann kjósi heldur að brjóta vegal. og hafa þessa framkvæmd utan vegalaga. Hv. 3. þm. Vestf., sem hér gaf þessar upplýsingar, sagði, að hann og fleiri samþm. hans hefðu að vísu átt erfitt með að átta sig á því, hvernig stæði á því, að hæstv. ríkisstj. kysi að hafa þennan hátt á. Hver getur ástæðan verið? Hver er ástæðan til þess, að menn hafa þetta pukur á? Ef það er meiningin að taka lán úr tilteknum sjóði til vegaframkvæmda og það er búið að ákveða þetta, það er búið að tilkynna þm. þetta, það er búið að ákveða, í hvaða vegi féð skal fara, hvernig stendur þá á því, að hæstv. ríkisstj. kýs þá leið að brjóta sett lagaákvæði í þessum efnum? Hv. 3. þm. Vestf. hafði ekki fundið út úr þessu, hann gat ekki séð neina frambærilega ástæðu. En ég verð að segja, að mér sýnist ég sjá í það. hvernig stendur á því, að þessi háttur er á hafður. Það er alveg greinilegt, að hér er, þótt menn þurfi til þess að brjóta lög, verið að reyna að skáskjóta sér fram hjá öðru. Það er verið að reyna að taka ákveðna upphæð út fyrir, til þess að aðrir geti ekki þarna, borið sig saman við á neinn hátt, til þess að það þurfi ekki að koma fram kröfur frá öðrum, sem ættu jafnmikinn kröfurétt til þess. Ég verð að segja, að hér er um ófagra lýsingu á vinnubrögðum að ræða, þegar hæstv. ríkisstj. er farin að viðhafa þau vinnubrögð, að hún gengur fram hjá meiri hl. Alþ. í máli eins og þessu, brýtur sett lög, vinnur að því að taka lán til tiltekinna framkvæmda, tilkynnir það stjórnarstuðningsmönnum, en öðrum ekki lengi vel, úthlutar þessu í tiltekna vegi og ætlar að fara á bak við Alþ., meðan verið er að afgreiða vegamálin sem heild hér, og ráðh. hlustar á lýsingar sem þessar hér og segir ekki eitt einasta orð um.

Þetta er ófögur lýsing á því, hvernig vinnubrögðum er nú komið, hvernig settar reglur og þingræðislegar reglur eru hér þverbrotnar. Ég skal taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að það er víst enginn vafi á því, að það er full þörf á, að þeir á Vestfjörðum fái þá lánsupphæð, sem hér standa líkur til að þeir geti fengið til vegaframkvæmda þar. Það leikur enginn vafi á því, að þeir þurfa á öllu þessu fé að halda. Og ég deili ekki á ríkisstj. fyrir það að reyna að vinna að því að útvega þetta fé, heldur fyrir það, hvernig að málinu er staðið. Hæstv. ríkisstj. veit það og hæstv. ráðh., sem nú situr hér við þessar umr., að honum ber skylda til að fara eftir settum lögum og reglum. Og hann getur ekki brotið alveg tvímælalausan rétt á þm., sem um þessi mál eiga að fjalla. Það er Alþ., sem á að taka endanlegar ákvarðanir í þessum efnum og ef svona verður haldið áfram, hvar endar það þá? Ætli næsti ráðh., sem tekur við af þessum, því að auðvitað hlýtur að koma að því, að annar ráðh. taki einhvern tíma við af honum, geti þá ekki farið eitthvað svipaða leið, farið fram hjá Alþ., ákveðið þar sínar lántökur þvert gegn því, sem fyrir er mælt í l., og hvíslað því að sínum stjórnarstuðningsmönnum: Þetta eigið þið nú að hafa, þetta getið þið nú tilkynnt, áður en alþm. hafa fengið að heyra um það. Svona vinnubrögð á að vita, því að þau vitanlega ná engri átt. Ég hefði nú viljað skora á hæstv. samgmrh. að reyna þó að bæta nokkuð úr því, sem þegar hefur verið ranglega gert í þessum efnum, með því m.a. að hlutast til um, að þetta fyrirhugaða lán verði tekið inn á vegáætlun og haft þar og gerð hér full grein fyrir því, í hvaða vegi þetta lán á að fara.