01.04.1965
Sameinað þing: 37. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2706)

100. mál, vegáætlun fyrir árin 1965--68

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. birti allnýstárlega tilkynningu og hana ekki ómerkilega í ræðu sinni hér í kvöld. Hann skýrði frá því, að hæstv. ríkisstj. væri að koma saman eða jafnvel búin að koma saman viðreisnaráætlun fyrir Vestfirði. Ég veit ekki betur, en hæstv. ríkisstj. hafi verið með viðreisnaráætlun fyrir allt landið í 6 ár, svo að það eru ekki neinar fréttir út af fyrir sig, þó að hún komi nú með viðreisnaráætlun fyrir einn landshluta í ofanálag á landsviðreisnaráætlanir sínar, sem hún er búin að vera með í 6 ár, viðreisn ofan á viðreisn. Hæstv. ráðh. gat þess, að á næstu 4 árum yrði varið 171.6 millj. kr. til Vestfjarða, sem sundurliðast þannig, að til hafnargerða eigi að koma 71.8 millj. kr., til vega 67.7 millj. kr. og til flugvalla 32.1 millj. kr.

Nú skal ég taka það strax fram og bið hæstv. samgmrh. að muna það, að ég lýsi yfir eindreginni ánægju minni yfir þessari ákvörðun hæstv. ríkisstj. og tel hana mikilsverða fyrir þetta hérað. Hæstv. fjmrh. gat þess, að af þessu fé, þessum 171.6 millj., ætti helmingurinn að vera innlent fé, en helmingurinn fengist að láni úr erlendum sjóði. Þar sem helmingurinn á að vera innlent fé, vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvaða fé er það? Eru það kannske þessi venjulegu framlög til vega, brúa, hafna og flugvalla? Eru þau tekin inn núna og kölluð viðreisnaráætlun? Ef framlög á þessari vegáætlun, sem hér eru till. um til Vestfjarðavega, eru einhver viðreisnaráætlun, er þá ekki viðreisnaráætlunin yfir allt landið, því að allir eiga að fá eitthvað af þessum fjárveitingum? Mér skilst, að viðreisnaráætlunin sjálf sé ekki nema helmingurinn af þessu, hitt séu venjulegar fjárveitingar ríkisins til þessara framkvæmda og er þess vegna ekki nein viðreisnaráætlun frekar, en hefur verið, frá því að farið var að veita fé á fjárlögum á Íslandi til einhverra framkvæmda. En ég tek það fram, að hinn helmingurinn er mikils virði fyrir okkur Vestfirðinga, sannarlega mikils virði og þakkarverður.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. samgmrh., af því að hæstv. fjmrh. er nú ekki viðstaddur: Þegar verið er að telja þetta fram. þessar 86 millj. kr., innlenda féð, er þá búið að draga frá niðurskurðinn eða er hann kannske inni í upphæðinni?

Hv. 11. landsk. þm. (MB) hélt hér ágæta ræðu í kvöld. Hann var reyndar ekki í sem beztu skapi, en hver vill lá honum það? Menn vita ekki, hvernig er búið að fara með hann. Þetta er sá þm. úr stjórnarliðinu, sem ég hef hælt mest og síðast í ræðu minni um daginn, þegar við vorum að ræða vegáætlunina. Og þó að hann trúi því ekki, er það satt, að mér er kunnugt um, að hann beitti sér, eins og ég hef áður sagt, af dugnaði og samvizkusemi til að vinna að þessum málum. Svo er hann með hnútur í minn garð. Ég er alveg steinhissa á manninum. Það er til nokkurs að vera að hæla honum.

En af hverju líður honum svona illa núna? Ég held ég sjái það alveg í hendi minni. Hann hefur fengið ofanígjöf hjá ríkisstj. Fyrir hvað? Fyrir að segja okkur þm. frá því, að lánsféð eigi ekki að koma inn á vegáætlun og eigi ekki að skipta því á Alþ.

Fyrir að ljóstra því upp, sem ég sagði hér frá á mánudagskvöldið. Þetta hefur honum aldrei verið ætlað að gera. En hann og þeir félagar hans voru hreinskilnir og sögðu okkur frá hlutunum alveg eins og þeir voru — og heiður sé þeim. Ég á kannske ekki að vera að rekja þetta, sem hann var að finna að við mig, en ég skal drepa á örfá atriði.

Hann segir, að ég hafi lýst vegaástandinu á Vestfjörðum öfgafullt og gert allt of mikið úr því, hve vegirnir væru slæmir. Ég veit ekki til, að nokkur þm. hafi talað hér um vonda vegi á Íslandi öðruvísi, en að bæta alltaf við í ræðum sínum „að undanteknum Vestfjörðum“. Þeir eru yfirleitt taldir verst settir allra. Ég held, að það sé alveg rétt. Eða þykja hv. þm. vegirnir góðir? Nei, honum þykir það ekki. Hann þekkir þetta alveg eins og ég. En hann fann að því, að þegar ég taldi upp, hve mikið væri af ólögðum vegum þar og tók beint upp úr skýrslu vegamálastjóra, — ekki var það tilbúningur minn, — hafi ég ekki nefnt það, að þ. á m. séu vegir í byggðarlögum, sem eru komin í eyði. Af hverju fóru þau í eyði? Ég veit ekki nema það séu einhvers staðar víðar á landinu bæir eða byggðarlög komin í eyði líka, þar sem eru þjóðvegir enn þá. Og hann vildi halda því fram, að lýsing mín á Vestfjarðavegunum væri þung ádrepa á hv. þm. Hermann Jónasson, af því að hann væri búinn að vera svo lengi þm. Hann um það. En er hann með þessu að sneiða að félaga sínum, hv. 2. þm. Vestf., Sigurði Bjarnasyni, því að þar eru sveitirnar, sem eru komnar í eyði. Ég held, að hann hefði ekki átt að vera að minna á þetta. — En það er hvorugum þeirra að kenna, alls ekki. Það er fyrst og fremst því að kenna, að hið opinbera hefur ekki séð um í tæka tíð að koma þessum samgöngumálum í viðunandi horf. Honum þótti það eiginlega vítavert, að till. okkar á Alþ., sem við höfum flutt allt frá 1959, skyldu ekki hafa verið fluttar áður. Merkilegt, að við skyldum byrja á þessu 1959. Það er ein skýring til á því. Þá var nefnilega viðreisnin að byrja, og allt verðlag fór upp og þurfti þess vegna meira fé. En svo má spyrja hann aftur: Hvernig stóð á því, að aldrei var nefnt að fá lánsfé til vega á Íslandi allan þann tíma, sem áður var liðinn? Ég minnist þess, að Sjálfstfl. var í ríkisstj. óslitið frá 1944–1956, í 12 ár, óslitið í 12 ár. Hvar eru till. þeirra um lánsfé til Vestfjarðavega á þessum 12 árum? Ekki hef ég séð þær. Og ef framsóknarmenn hafa syndgað í 2 ár, vinstristjórnarárin, hafa hinir syndgað í 12. Annars held ég, að allir viti það, að það var almennt litið svo á, í öllum flokkum, fram á allra síðustu ár, að það væri ekki við hæfi að taka lán til vegagerðar á Íslandi og var ekki heldur gert. En það skeður svo fyrir nokkrum árum, að ríkisstj. fer sjálf að taka lán til vega, og þá er það, sem við herðum kröfur okkar um að fá lán til Vestfjarðavega. Það er því ómögulegt, held ég, að finna að því við okkur, að við höfum flutt slíkar till. í 5 ár — og þetta er sjötta árið. En hafi verið sanngjarnt að veita lán til vega á Vestfjörðum. af hverju drápu þeir þá frv. okkar 1959? Af hverju drápu þeir aftur frv. sams konar 1960? Svo fer ríkisstjórnin að lána sjálf til vega hérna kringum Reykjavík, ekki neinar smáupphæðir, heldur í tugum millj. kr. Samt vísa þeir til ríkisstj. frumvarpi um lán til Vestfjarðavega 1961, aftur 1962, og brtt. við fjárl. fyrir árið 1963 um lán til veganna á Vestfjörðum drepa þeir, — og aftur árið 1964. Hvernig stendur á þessu, að mennirnir gera þetta öll þessi ár, ef það er svo lofsvert sem það er að koma nú með lánsfé?

Þá vék hv. þm. að því, að ég hefði farið að segja frá samtölum okkar Vestfjarðaþm. á fundum, sem við höfðum. Ég hefði farið að segja frá þeim í ræðu. Hvað meinar hv. þm.? Áttum við að þegja yfir þessu eða hvað? Ekki vorum við beðnir að þegja yfir neinu. Yfir hverju átti að þegja? Var það eitthver leyndarmál? Nei, það stóð ekki til, að við færum að þegja yfir því, að sniðganga átti vegal. og fara fram hjá vegáætluninni og fram hjá Alþingi með lántökur til vega á Vestfjörðum. Það datt okkur ekki í hug. En hann bar það ekki á mig, að ég hefði sagt rangt frá nokkrum hlut. Nei, ég fór að segja frá þessu, en að ég segði rangt frá, nei, það sagði hann aldrei. Þarna kemur það, sem ég held að honum líði illa út af, að ég hafi ljóstrað því upp, sem átti að fara leynt.

Þá fann hann ýmislegt að till. okkar, sem við flytjum við vegáætlunina. Þ. á m. varð honum skrafdrjúgt um einn hlut. Hann segir, að við gerum till, um að taka út fjárveitingar til nokkurra vega, já taka þær bara út, þurrka þær út og hann nefndi þær. En hann sleppti hinu, að við settum aðrar inn. Nú, hvað var þá vítavert við að taka út laga upphæð og setja hærri upphæð inn? Er það ekki lofsvert eða hvað meinti maðurinn með þessu, að það væri vítavert að taka út lága upphæð til einhvers vegar og setja miklu hærri upphæð inn? Er þetta orðið vítavert hér á Alþ.? Ekki er nú málstaðurinn góður. Við lögðum til, að það yrði miklu meira fé varið til veganna, og það liggur fyrst og fremst í því, að við leggjum til, að þetta lánsfé komi á tveimur árum, en ekki fjórum. Og við teljum, að það sé fyllilega sanngjarnt miðað við það, sem aðrir landshlutar fá, sérstaklega hérna í kringum Reykjavík. Þegar þessir sömu menn sem eiga sæti í fjvn. koma með till. um það að taka 274 millj. kr. lán til vega hérna í kringum Reykjavík á 4 árum, þá þurfum við, sem flytjum þessa till., ekki að skammast okkar fyrir það, að við viljum fá þessar 32 millj. á tveimur árum, miðað við ástand veganna á báðum stöðum.

Hv. þm. fann að því, að við værum með till. um marga vegi, sem þeir hafi ekki verið með og hann hafði orð um það, að þetta væru vegir, sem skiptu ekki miklu máli, þessir sem við værum með, þeir skiptu ekki svo miklu máli. Hvaða vegir eru það? Það eru vegirnir um byggðina, um sveitirnar, um sjálf byggðarlögin, innanhéraðsvegirnir. Við lítum nefnilega þannig á, að þó að það sé nauðsynlegt að fá vegi yfir heiðar eða gegnum heiðar og það jafnvel á skömmum tíma, megi ekki vanrækja svo hroðalega byggðavegina eins og gert er í þeirra till. Fólkið, sem þarna býr, þarf að komast á góðu vegina, það þarf að koma afurðum sínum frá sér og nauðsynjum sínum að sér og því viljum við bæta úr með því að leggja nokkra fjárveitingu til sem flestra vega. Samkv. þeirra till. eiga milli 20 og 30 vegir á Vestfjörðum ekki að fá einn einasta eyri í 4 ár. Þeir hafa að vísu gert bragarbót á einum 2–3 vegum. Ég sé, að Gemlufallsheiði er nú komin allt í einu inn í till., ekki frá þessum hv. þm. reyndar, það er frá ríkisstj. sjálfri. Það er ríkisstj. sjálf, sem er farin að flytja till. um einstaka vegi, fjárveitingu í einstaka vegi á Vestfjörðum. Af hverju? Af því að hinir gleymdu þeim. Ég minnti um daginn á eina fjárveitingu í till. fjvn. Hún er um 55 þús. kr. fjárveitingu til Flateyrarvegar í 4 ár. Nú kemur ríkisstj. og bætir um, því að hún mun vera með till. um, að þangað skuli varið 555 þús. kr. En það er athyglisvert, að ríkisstj. skuli nú þurfa að ganga svona í spor sinna eigin starfsmanna.

Þá minntist hv. þm. á þáltill. þeirra Gísla Jónssonar og Kjartans J. Jóhannssonar á þinginu 1963, sem var samþ. og allir voru sammála um, um að framkvæma rannsókn á samgöngumálum Vestfjarða. Og allt er þetta eiginlega byggt á þeirri till. Það er ekki þessi ríkisstj. eða þessir þm. stjórnarflokkanna núna, sem eru að vinna að þessu, það eru Gísli Jónsson og Kjartan. Og þeir eiga sannarlega skilið viðurkenningu fyrir sín góðu störf. Það skal ég taka undir. En þessi till. var m.a. um það, að Framkvæmdabankinn skyldi ljúka þessari rannsókn fyrir árslok 1963, þá átti hún að vera búin. Þetta var rétt fyrir kosningar, sem till. var samþ., kosningarnar 1963. Það var á útmánuðunum, ef ég man rétt. En eftir kosningar bar minna á henni. Og þegar allt árið var liðið og komið fram á árið 1964, leyfðum við okkur, ég og hv. 1. þm. Vestf., að leggja fram fsp. hér á Alþ. um það, hvað liði rannsókninni. Það voru góð og skýr svör, sem hæstv. félmrh. kom með. Já, till. var send upp í Framkvæmdabanka. Þar með var lokið hlutverki ríkisstj., sagði hæstv. ráðh. Framkvæmdabankinn sendi hana Efnahagsstofnuninni, Efnahagsstofnunin sendi hana Seðlabankanum og Seðlabankinn skrifaði bréf út til Parísar, en það var ekkert svar komið eftir heilt ár og meira vissu þeir ekkí. Svona var nú ástatt þá. Þetta var krafturinn á því, en það voru líka nýafstaðnar kosningar. Við ýttum svolítið við þeim, þessum mönnum þá, við stjórnarandstæðingar á Vestfjörðum. Og þá fór bankastjóri Framkvæmdabankans af stað vestur, en hann kom ekkí nema á örfáa staði. En það er sama, þá kom skriður á málið og eitthvað hefur verið gert síðan. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir hjá hæstv. fjmrh. í kvöld, að þessari rannsókn sé alls ekkí lokið eða tillögugerð um viðreisnina alls ekki lokið. Samt eru nú liðin 2 ár síðan þessi till. var samþ.

Eitt má ég til með að minna hinn ágæta hv. þm., 11. landsk. á, þegar hann er að víta okkur fyrir frammistöðuna í samgöngumálum Vestfjarða, að í fjöldamörg ár höfðu Vestfirðingar 19–20% af nýbyggingarfé vega á hverjum fjárl., en í fyrra var það lækkað niður í rúm 14% og aftur núna eru það rúm 14%. Ekki hafa fjárveitingarnar þá aukizt hlutfallslega miðað við aðra landshluta þrátt fyrir þörfina. Ef Vestfjarðakjördæmi hefði haldið sínum hlut, hefði það fengið um 3 millj. kr. meira af fjárveitingu hvert ár, en það fær núna, eða um 12 millj. á þessu 4 ára tímabili. Þetta hefði víst munað um. En því miður er nú svona komið, að það virðist eiga að halda Vestfjörðum föstum í þessu hlutfalli af fjárveitingunum. Ég skal ekki meira ræða um það, því að ég er svo ánægður yfir lánsfénu, sem bætir svo mikið úr, að maður getur gleymt hinum smærri syndum, þegar svo raknar fram úr sem nú er.

Hv. 2. þm. Vestf. (SB) talaði hér í kvöld og þakkaði hæstv. ríkisstj., eins og rétt var af honum. Hann átti að þakka henni og það gerum við allir. En því miður höfum við ekkert að þakka í 6 undanfarin ár, en það er gott að hafa nú tækifæri til þess. Hann skýrði frá því, hvernig væri hugsað að lánsféð skiptist niður á árin, 7.2 millj. þetta ár, 7.3 millj. 1966, 11½ millj. 1967 og 8 millj. árið 1968. Ég hef ekkert við þetta að athuga sérstaklega, en einhvern veginn rak ég augun í það, að á árinu 1967 er upphæðin miklu hærri, en öll hin árin. Er búizt við, að árið 1967 verði ákaflega hættulegt fyrir vegina á Vestfjörðum? (Gripið fram í: Þetta er hlaupár.) Er það hlaupár? Já, það er hlaup í upphæðinni. Ég hef gaman af þessari tölu, ákaflega gaman af henni. Mér sýnist það vera upp undir 60% hærri hluturinn þetta ár heldur en árin á undan. En hver veit, hvað skeður þetta ár? Hættan getur verið líka 60% meiri þetta ár en önnur ár, svo að það er bezt að vera ekkert að finna að þessu út af fyrir sig.

Hæstv. samgmrh. ræddi hér um þessi mál svo sem vera bar í kvöld. Ég þarf ekki að víkja að mörgu í ræðu hans, en þeim mun betur að einu atriði. Hann drap eitthvað á það í þessari ræðu sinni, að ég hefði kvartað undan því á mánudaginn, að vegir í einstökum byggðarlögum á Vestfjörðum hefðu orðið útundan í fjárveitingum alllengi og það allt frá því fyrir viðreisn. Og það þarf ekki að leita lengi að því, það er hægt að benda á hvern veginn á fætur öðrum, sem ekki hefur fengið einn einasta eyri í 5–8 ár. Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé af því, að þm. Vestfjarða hafi ekki tekið þessa vegi með. Nei, það er ekki af því. Það er af því, að stjórnarliðið á Alþ. felldi till. um, að þessir vegir fengju fjárveitingar, sem við fluttum till. um. En ég verð að segja, að hæstv. ráðh. bar hér fram mjög alvarlegar ásakanir til mín. Ég gat ekki skilið, að hann ætti við annan en mig. Hann sagði, að því hefði verið haldið fram og ég hef haldið því fram í ræðu minni á mánudaginn, að ríkisstj. ætlaði ekki að taka lánsfé til Vestfjarðaveganna á vegáætlun. Þetta væru getsakir, þetta væru dylgjur um, að ríkisstj. ætlaði sér að brjóta lög. M.ö.o.: hæstv. ráðh. segir, að ég hafi farið með ósannindi um það, sem ég hélt fram þá. Ef þetta hafa verið dylgjur, ef þetta hafa verið getsakir, hef ég ekki sagt rétt frá upplýsingum þeim, sem stuðningsmenn stjórnarinnar sögðu okkur Vestfjarðaþm. Og nú ætlast ég til þess, að hæstv. ráðh. standi við það, að ég hafi farið með ósannindi á mánudaginn. Ef einhverjir eru hér inni, sem þá voru á þessum fundum tveimur — og þeir eru hér einhverjir, — þá vænti ég þess, að þeir segi nú hreinskilnislega frá því, hvort þetta er satt eða hvort það er ósatt, að þeir hafi sagt okkur frá þessu, að það ætti ekki að taka lánsfé til vega á Vestfjörðum inn á vegáætlun. Nú ætla ég að reyna á hvað þeir gera, hvort þeir þegja eða segja hreinlega frá. Ef hæstv. ráðh. veit það rétta í þessu, skora ég á hann að skýra frá því. Ef ég hef aftur á móti farið rétt með — og ég ætla ekki að rengja þá, þessa félaga okkar, sem voru með okkur, hv. þm. Matthías Bjarnason, Sigurð Bjarnason og Birgi Finnsson, um að þeir sögðu rétt frá, mér dettur það ekki í hug, — en ef ég hef farið rétt með og þeir hafa líka farið rétt með, hvað er þá ráðh. að fara? Er það þá nokkuð annað en það, að hann hefur ekki manndóm til að viðurkenna það, að hann varð að hætta við fyrirætlun, sem hann var búinn að segja frá áður og fleirum, en þessum mönnum? Ég ætla að bíða og sjá til, hvaða svör koma frá hæstv. ráðh. og hvað þeir hv. þm., sem voru viðstaddir á þeim fundum, kunna að segja um þetta, þá kannske ég fái að gera aths. á eftir.