10.02.1965
Sameinað þing: 26. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (2800)

48. mál, efling Akureyrar sem skólabæjar

Flm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Umrædda till., sem er á dagskrá, flyt ég ásamt samflokksmönnum mínum, hv. 1. þm. Norðurl. e., Karli Kristjánssyni og hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundssyni. Í grg. fyrir till. þessari eru rakin nokkuð ýtarlega meginrökin fyrir því máli, sem till. fjallar um. Vil ég leyfa mér að vísa til hennar um aðalmálsástæður og röksemdir, jafnframt því sem ég vil leyfa mér að fara nokkrum almennum orðum um till. nú við þessa umr.

Efni till. er einkum þríþætt: Í fyrsta lagi, að ríkisstj. láti gera áætlun um framtíðarstaðsetningu sérskóla og annarra menningarstofnana. Í öðru lagi, að Akureyri verði efld sem skólabær. Og í þriðja lagi, að stefnt verði að því, að háskóli starfi á Akureyri í náinni framtíð.

Hér á landi hefur lengi verið rætt um nauðsyn þess að efla jafnvægi í byggð landsins, sem kallað er og stundum við heldur daufar undirtektir og jafnvel hefur gætt sterkrar andstöðu af sumra hálfu gegn hugmyndinni um viðhald og eflingu landsbyggðarinnar. Hafa menn þá litið á það sem óhjákvæmilega þróun, sem ekki væri ómaksins vert að hamla á móti, þótt byggðin drægist saman í stórum landshlutum og fólksflutningar ættu sér sífellt stað á eitt landshornið, með þeim afleiðingum, að fólki fækkaði bæði beint og að tiltölu í öðrum landshlutum en þeim, sem fólkið flyzt til. Þessi þróun er öllum kunn og óþarfi að skýra hana nánar, enda hefur það oft verið gert hér í umr. á hv. Alþingi. Það er rétt, að þessi þróun er ekkert séríslenzkt fyrirbrigði, heldur almennt og alþjóðlegt fyrirbæri, sem sett hefur svip sinn á sögu þessarar aldar um allan heim að meira eða minna leyti. Í sumum löndum hefur beinlínis verið beitt gagngerum og áhrifamiklum aðgerðum til þess að örva slíka þróun, þar sem hún hefur verið liður í hraðri uppbyggingu áætlaðs hagkerfis eða þjóðfélagsmótunar, sem að var stefnt. Í öðrum löndum hefur þróunin orðið án beinna áætlana, heldur var um að ræða vaxandi áhrif auðmagnsins á atvinnulífið og staðsetningu atvinnutækja og afleiðingar tæknibyltingar, sem óhjákvæmilega fóru í þessa átt. Í mörgum greinum var þessi þróun því eðlileg og að ýmsu leyti óhjákvæmileg. Um það ætti varla að verða ágreiningur.

Vöxtur borga og bæja hefur vissulega oft verið tákn vaxandi gengis meðal þjóða, bæði hvað snertir menningu og atvinnulíf. Fjölbreytt atvinnulíf og starfsgreining í þjóðfélaginu hefur leyst orku og hugvit úr læðingi og átt sinn þátt í efnalegum framförum. En flestum er nú að verða ljóst, að vöxtur eða ofvöxtur einnar borgar er síður en svo heillavænlegur, þegar til lengdar lætur, ekki aðeins frá sjónarmiði þeirra staða, sem straumurinn liggur frá, heldur allt eins fyrir stórborgina sjálfa. Menn eru farnir að finna, að það eru takmörk fyrir því, hversu hollur vöxtur og útþensla er borginni sjálfri. Menn eru ekki lengur sannfærðir um, að einhliða vöxtur einnar eða mjög fárra borga sé sjálfsagður hlutur og svo eðlileg þróun, að það sé ekki ómaksins vert að hamla gegn henni. Og einkum á þetta við um ofvöxt höfuðborganna, sem er orðið alþjóðlegt vandamál og víða um heim er nú reynt að sporna við frekari útþenslu höfuðborganna. T.d. er á Norðurlöndum vakin hreyfing fyrir því að finna ráð til þess að létta á höfuðborgunum, m.a. með því að dreifa ríkisstofnunum víðar um löndin, en verið hefur. Jafnframt eru uppi ráðagerðir um öfluga aðstoð við atvinnuvegina úti um landsbyggðina, bæði með beinum fjárframlögum og ýmsum ívilnunum við einstaklinga og fyrirtæki. Með því vinnst það tvennt, sem auðvitað er það sama, að fólk unir sér í heimabyggð sinni eða landshluta og fólksstraumurinn til höfuðborgarinnar stórminnkar. Á þennan hátt er unnið að jafnvægi í byggð landsins með virkum aðgerðum.

Það er athyglisvert, einkum í sambandi við þá till., sem hér er til umr., að norsk mþn., sem kosin var til að gera till. um dreifingu ríkisstofnana, hefur mælt með því, að um 20 stofnanir, sem hingað til hafa haft aðsetur í Osló, verði fluttar þaðan til annarra staða. Það er álit n., að stofnanir þessar séu eins vel staðsettar utan höfuðborgarinnar sem innan hennar. Þetta er vissulega athyglisvert. Við Íslendingar höfum ástæðu til þess að veita þessu alveg sérstaka eftirtekt. En í sambandi við þessa till., sem hér liggur fyrir, vekur þó hvað mesta athygli það álit hinnar norsku mþn., að hún telur næsta lítil vandkvæði á að flytja ýmsar menntastofnanir og alveg sérstaklega sérskóla frá höfuðborginni og staðsetja þá í öðrum bæjum og borgum Noregs. Helzta vandkvæðið, segir n. í því sambandi, gæti orðið, að skortur yrði hæfra stundakennara, en fyrir það má girða með því að koma upp sérstökum skólamiðstöðvum eða skólabæjum, þar sem fleiri skólar en einn, væru starfandi og staðsettir.

Eins og við flm. þessarar till. höfum gert grein fyrir í grg. okkar, sem prentuð er með till., teljum við brýna nauðsyn bera til þess, að farið verði að vinna að því í alvöru að dreifa um landið opinberum skrifstofum og stjórnsýslustofnunum, fyrst og fremst í þjónustuskyni og til hagsbóta fyrir almenning og atvinnuvegi úti um land og einnig til þess að létta á höfuðborginni sem slíkri, enda er Reykjavík þegar orðin að tiltölu allt of stór miðað við landsbyggðina.

Ein aðalástæðan til hins mikla vaxtar Reykjavíkur er sú stefna að staðsetja þar flestar ríkisstofnanir og opinber fyrirtæki. Hér er ekki um stjórnsýslustofnanir einar eða skyldar stofnanir að ræða, heldur flestar skóla-, mennta- og menningarstofnanir o.s.frv. Þessi stefna hefur leitt til ofrausnar í garð höfuðborgarinnar, sem hún á kannske fullt í fangi með að taka við og landsbyggðin þolir ekki til lengdar að sjá af. Því er kominn tími til að snúa þessum straumi við. Við flm. teljum rétt að ýmsu leyti að hefjast handa í þessu máli með því að gera áætlun um framtíðarstaðsetningu skóla og annarra menningarstofnana, enda líklegt, að almenn samstaða mundi fást um það öðru fremur að dreifa sérskólum meira um landið, en verið hefur.

Um það verður ekki efazt, að á næstu árum og áratugum þarf skólakerfið hér á landi að vaxa mjög verulega og færast yfir á miklu víðara svið. Aukin skólaganga og menntun er hvarvetna talin til undirstöðuþátta efnahagslegrar uppbyggingar. Menningarframfarir og efnahagsframfarir haldast í hendur, enda munu flestir á einu máli um, að svo sé. En mun þá ekki vera nauðsynlegt, að við förum að gera okkur grein fyrir í tæka tíð, hvernig þessi þróun mætti verða með sem hagfelldustu móti og með það fyrir augum, að uppbygging skólakerfisins mætti verða einn liðurinn í raunverulegri eflingu landsbyggðarinnar í framtíðinni?

Reynslan er ólyginn vottur þess, að staðsetning skóla hefur feikileg áhrif á byggðaþróun og heimilisfesti manna. Reykjavík hefur notið þess í ríkum mæli, að hæfileikamenn úr öllum landsfjórðungum hafa sótt þangað til náms á mótunarskeiði æskuáranna og fest þar rætur og ílenzt þar með ýmsum hætti og ekki átt afturkvæmt til heimahaganna, jafnvel þótt þeirra væri rík þörf, einkum til framkvæmda- og forustustarfa, enda hafa margir komizt vel af í höfuðborginni, komizt þar vel til manns, orðið henni og stundum öllu landinu að góðu gagni. En hinu er ekki að leyna, að höfuðborgin hefur beinlínis sogað til sín allt of stóran hluta hæfileikamanna, sem þörf er fyrir úti í byggðum landsins.

Í till. okkar flm. þessa máls er m.ö.o. skorað á ríkisstj. að láta gera áætlun um sérskóla, sem þjóðin kann að þarfnast í náinni framtíð og leitazt verði við að dreifa þeim sem hagfelldast um landið. Orðið sérskóli má þó ekki skilja í of þröngri merkingu í þessu sambandi. Þannig ætlumst við að sjálfsögðu til þess, að bygging menntaskóla og annarra almennra framhaldsskóla komi hér einnig til álita, því að bæði mun þörfin fyrir þá fara vaxandi, auk þess sem þeir ráða e.t.v. mestu um framtíðarstörf og staðfestu æskufólksins. Þá felst það einnig í till., að gerð verði áætlun um uppbyggingu annarra mennta- og menningarstofnana en skóla. Ég tel, að þar komi fyrst til álita efling bókasafna og bætt aðstaða til sjálfstæðs náms og fræðiiðkana svo og stofnun listasafna, a.m.k. í öllum fjórðungum landsins, en um það þarf að setja löggjöf, sem geri ráð fyrir eðlilegum fjárstuðningi ríkisins við slík menningarfyrirtæki gegn framlögum annars staðar frá.

Í till. segir, að í sambandi við fyrirhugaða áætlun um framtíðarstaðsetningu skóla skuli miða að því að efla Akureyri sem skólabæ og gera ráð fyrir háskóla þar í náinni framtíð. Þetta atriði till. er m.a. borið fram í þeirri trú, að æskilegt og hagfellt sé að ýmsu leyti að mynda skólamiðstöðvar og Akureyri hafi öðrum stöðum fremur skilyrði til þess að verða mikill skólabær, enda eðlilegt, að Akureyri sé efld á sviði menningarmála til nokkurs mótvægis við höfuðborgina. Ég vil þó vara við þeim skilningi á þessari till., að við flm. ætlumst algerlega til þess, að allir skólar, sem ekki hljóta staðsetningu í Reykjavík, verði settir niður á Akureyri. Það vakir ekki fyrir okkur. Við viljum þvert á móti, að fleiri möguleikar séu kannaðir. En hins vegar er okkur ríkt í huga, að á Akureyri verði svo fjölbreytt skólalíf, að Akureyri megi bera nafnið skólabær með réttu, enda er efling bæjarins, sem almenns skólabæjar, ef til vill nauðsynlegur undanfari þess, sem hlýtur þó að verða fyrr eða síðar, að þar rísi háskóli með meiri eða minni deildaskiptingu í þágu Norðlendinga.

Ég vil engu spá um það, hvenær sú stund rennur upp, að háskóli eða háskóladeild taki til starfa á Akureyri. En það kann að vera skemmra undan, en margur hyggur. Og að mínum dómi er hér ekki um lítilsvert atriði að ræða fyrir framtíð landsins. Það má enn vitna til aðgerða Norðmanna í svipuðu máli og við svipaðar aðstæður: Í Noregi er nú að taka til starfa nýr háskóli og er hann staðsettur í einum af nyrztu bæjum landsins, Tromsö, sem ýmsum mun ekki þykja stór, sízt á heimsmælikvarða og ekki einu sinni á mælikvarða Norðurlandaþjóða, því að í Þrymsey kváðu búa vart meira en 13.000 manneskjur og bærinn er þannig aðeins lítið eitt stærri, en Akureyri. Allir vita, að háskóli er í Osló, en Norðmenn líta svo á, að það sé til styrktar efnahags- og menningarframförum í Norður–Noregi, að þessi landshluti hafi sinn eigin háskóla. Margt er líkt um byggðarþróun í Noregi og á Íslandi og úrbótaþarfir svipaðar í báðum löndum. Hugmyndin um háskóla á Akureyri þarf því að verða að veruleika fyrr en síðar.

Í sambandi við till. þessa þykir mér rétt að benda á, að við flm. höfum, svo og sá stjórnmálaflokkur, sem við fylgjum, bæði nú á þessu þingi og áður, markað almenna afstöðu um nauðsyn þess að efla landsbyggðina og ég lít á þessa till. um framtíðarstaðsetningu skóla sem einn lið í því stóra máli og alls ekki þann ómerkasta. En þó að afstaða Framsfl. sé skýrt mörkuð í þessu máli, dettur mér ekki í hug að ætla, að aðrir flokkar geti ekki tekið undir ýmsa þætti þess, og einkum þykir mér líklegt, að um þá till., sem hér liggur fyrir, ætti að geta orðið samstaða í meginatriðum. Ég er sannfærður um, að hér er um athyglisvert mál að ræða, sem nauðsynlegt sé að gera sér fulla grein fyrir.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.