18.12.1964
Efri deild: 34. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

106. mál, söluskattur

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Í sambandi við þessa tillögu vil ég aðeins taka fram eftirfarandi:

Almannarómur telur, að veruleg undanbrögð viðgangist í landinu í sambandi við skil á söluskattinum. Þetta hefur komið fram í umræðum hv. alþm., fleiri en eins og fleiri en tveggja. En ég vil benda á, að í þessum efnum hefur verið lagt inn á nýja braut við stofnun eftirlitsdeildar hjá embætti ríkisskattstjóra, og það er svo skammt um liðið, síðan það embætti tók til starfa, að það er ekki ástæða til að draga í efa eða tortryggja, að innheimta komist í viðhlítandi horf.

Ég tel ástæðu til að taka fram, að það er af minni hálfu alger forsenda fyrir stuðningi við þetta frv. um hækkun söluskattsins, að eftir því sé gengið af hálfu ríkisvaldsins, að álagður skattur verði innheimtur og komist til skila til ríkissjóðs. Og ég vona, að það sé afstaða allra hv. alþm. og um það þurfi ekki að hafa mörg orð, að innheimtum og álögðum skatti sé skilað og það sé ríkt eftir því gengið af embættismönnum ríkisvaldsins, að svo sé gert.

Með þessar forsendur í huga tel ég óþarft enn sem komið er að samþykkja þá till., sem fyrir liggur, enda þótt það sé eðlileg málsmeðferð og mætti gjarnan athuga síðar meir, ef ástæða þætti til að aðstoða þennan nýja embættismann við vinnubrögð. En að svo stöddu málí tel ég ekki ástæðu til að leggja þeim embættismanni starfsreglur og mun því ekki greiða atkv. með þeirri tillögunni.