09.12.1964
Sameinað þing: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (2904)

39. mál, verðtrygging sparifjár

Flm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Ég hef ásamt 4 öðrum hv. þm. Framsfl. leyft mér á þskj. 40 að flytja till. til þál. um verðtryggingu sparifjár, en tillgr, sjálf hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa 5 manna mþn. til að athuga, með hverjum hætti verði við komið verðtryggingu sparifjár að öllu eða einhverju leyti. N. skal skila áliti svo fljótt sem kostur er.“

Ég tel ástæðulítið að fylgja till. þessari úr hlaði með mjög langri ræðu, þar sem henni fylgir all ýtarleg grg. Sá verðbólguvöxtur, sem hér hefur ríkt undanfarandi ár, er nú kominn á það stig, að hugsandi mönnum hrýs hugur við. Að vísu má segja, að svipaðrar óheillaþróunar gæti í ýmsum viðskiptalöndum okkar, en þó hvergi nærri í neitt svipuðum mæli og hér hjá okkur síðustu tvö árin. Allir hljóta að viðurkenna, að hækkandi framleiðslukostnaður á útflutningsafurðum Íslendinga umfram þær hækkanir, sem viðskiptalönd okkar eru reiðubúin til þess að samþykkja og greiða, leiðir til hvers kyns vandræða og jafnvel stöðvunar á ýmsum þáttum útflutningsframleiðslunnar fyrr eða síðar.

Á undanförnum árum hefur verið reynt hér að hamla gegn verðbólguvexti með ýmsum hætt, m.a. með lagasetningu, samningum og fræðslustarfsemi, en árangur þessa hefur verið all takmarkaður. Flm. þessarar till. telja, að nú sé tímabært að grípa til nýrra úrræða í glímunni við verðbólgudrauginn. Þeir telja, að verðtrygging sparifjár og vísitölubinding útlána þess fjár sé ekki einasta sanngirnismál, heldur einnig til þess fallin að draga úr verðþenslu og stuðla að jafnvægi í efnahagslífinu, sem nú skortir mjög á. Við trúum því enn fremur, að með verðtryggingu sparifjárins muni aukning spariinnlána í bankakerfinu verða það mikil, að grundvöllur skapist til þess að fullnægja þörfum atvinnuveganna fyrir eðlileg stofnlán og rekstrarlán og væri þá ekki svo lítið unnið.

Á valdatímabili hæstv. núv. ríkisstj. hefur orðið veruleg töluleg aukning á spariinnlánum í bankakerfinu, eins og oft áður, þegar vel hefur árað til lands og sjávar. Af þessu hefur verið mjög gumað og að mínum dómi meira, en efni standa til. Ef hafðar eru í huga þær verðhækkanir, sem orðið hafa síðustu árin, svo sem rétt er að gera, þegar verið er að ræða um aukningu sparifjárins, sést að raunveruleg aukning þess, miðað við kaupmátt eða framkvæmdamátt, getur ekki talizt mjög stórvægileg. En verðhækkunarvísitala sýnir vel, hvernig þjóðin hefur farið með þá borgara, sem gegnt hafa því þarfa hlutverki að leggja inn sparifé sitt í lánastofnanir landsins. Þessu verður að breyta. Þjóðfélagið getur ekki leyft sér lengur að meðhöndla sparifjáreigendur, sem margir hverjir eru gamalt fólk, á þennan hátt. Vísitölukerfið, sem hæstv. ríkisstj. fékk að mestu afnumið á árinu 1960, hefur nú verið tekið upp á flestum sviðum aftur. Hagsmuni stéttanna á að tryggja með þessu. Það gegnir því furðu, að hinni fjölmennu stétt sparifjáreigenda skuli ekki veitt svipuð trygging á hagsmunum sínum af hendi þjóðfélagsins og það þeim mun frekar sem hagsmunir sparifjáreigenda hafa verið svo herfilega fyrir borð bornir á undanförnum árum eins og ég hef hér lítillega drepið á. Það leiðir svo af sjálfu sér, að eigi að verðtryggja spariféð, sem lagt er í lánastofnanir landsins, verður jafnframt því að vísitölubinda útlán þess fjár. Lántakendum þess er þá gert skylt að endurgreiða hverja lánaða krónu með sama verðgildi og hún hafði, þegar hún var lánuð. Er það fullkomið sanngirnismál og líklegt til þess að hafa heillavænleg áhrif á yfirspennt efnahagslíf landsmanna.

Ég legg svo til, herra forseti að, að þessari umr. lokinni verði máli þessu vísað til hv. fjvn.