19.12.1964
Neðri deild: 33. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

106. mál, söluskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Sú hækkun söluskatts, sem þetta frv. boðar, hefur vakið mikið umtal utan þings, aftur á móti minna innan þings, því að þeir, sem flytja það og ætla að samþykkja það, hafa ekkert um það að segja, og þeir bíða eftir því í ofvæni, eins og krakkar eftir jólagjöf, að umræðunum ljúki. En hvar sem menn hittast utan þings, þá er ekki um annað meir talað en þetta frv., þessar nýju álögur. Það vaknaði von hjá mönnum s.l. vor eftir samningana, sem þá voru gerðir, að nú mundi eiga að fara a.m.k. hægar á verðbólgustefnunni en áður. Sú von dofnaði nokkuð í ágúst, þegar skattseðlarnir komu, en þó dó hún ekki út, sérstaklega eftir að fulltrúi ríkisstj. var búinn að koma í útvarp og tilkynna það, að hann vildi lækka skattana aftur. En þegar á reyndi og átti að fara að lækka þá fyrir árið 1964, brást það. En hafi einhver von lifað enn fram í þennan mánuð, að nú ætti eitthvað að hægja ferðina í verðbólgumálunum, þá er sú von a.m.k. dauð nú, þegar menn sjá framan í þetta frv. Það hefur enginn stuðningsmaður ríkisstj. mótmælt því einu orði mér vitanlega, að söluskattur er ranglátasti skatturinn, sem hægt er að finna til þess að afla tekna í ríkissjóð. Hann hefur fyrst og fremst það einkenni, að hann leggst þyngst á þá, sem flesta hafa að fæða og klæða, en þar að auki er hann þeirrar náttúru, ef á að nota hann til að greiða niður vöruverð, að hann hækkar vöruverðið sjálfkrafa aftur, hann vindur upp á sig. Það er því eins og að hella vatni í hrip að nota söluskatt til þess að greiða niður vöruverð.

En hvernig stendur á því, að stjórnarflokkarnir, — eða forustumenn stjórnarflokkanna, er bezt að hafa það. — eru tiltölulega ánægðir með að flytja slíkt frv. sem þetta? Ég held, að ástæðan hljóti að vera sú, að þeir telji sig yfirleitt ekki vera þunghenta á þjóðinni í skattaálögum, og málgögn þessara flokka hafa lagt mikla áherzlu á það, að munur sé á viðreisnarstjórninni eða t.d. vinstri stjórninni í álögum á þjóðina, það sé ólíkt. Og þegar þeir túlka þennan nýja skatt í blöðum sínum, stjórnarflokkarnir, þá nota þeir ekki fyrirsögnina um hækkun skatta, ekki heldur að fjárl. t.d. eigi að hækka um rúmar 1000 millj. á einu ári, ekki að vísitala framfærslukostnaðar muni hækka um 5 stig, nei, ekkert af þessu tagi, heldur nota þeir fyrirsögnina: 3% kauphækkun. Það er boðskapurinn, sem þeir telja að þjóðin eigi fyrst og fremst að taka eftir.

En er það svo, að stjórnarflokkarnir hafi efni á því að ásaka stjórnarandstæðinga fyrir þunga skatta á þjóðina, eins og þeir hafa gert, blöð þeirra hafa gert svo að segja vikulega og árlega að undanförnu? Þetta hefur verið yfirgnæfandi, þessi áróður flokkanna um vinstri stjórnina, hvað hún hafi lagt miklar álögur á þjóðina, og telja sig svo að segja alveg syndlausa og heilaga í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir, að það sé vegna þessarar sannfæringar hjá stjórnarflokkunum, sem þeir taka sér þetta svo ósköp létt, þótt þeir flytji frv. um 2% hækkun á söluskatti. Og allir kannast við, hvernig þeir hafa túlkað skattalækkanirnar að undanförnu. Ég man ekki betur en stjórnarflokkarnir hafi talið sig hafa afnumið skatta af almennum launatekjum þrisvar sinnum, alltaf eru þeir að afnema skattana, sem þeir voru áður búnir að afnema. Þetta hefur verið heildarsvipurinn á túlkun þeirra í skattamálum. Síðast í gær var klausa í Morgunblaðinu, að vísu ekkert óvenjuleg, en ein af þessu tagi, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á það mætti einnig minna, þegar framsóknarmenn látast nú vera miklir andstæðingar hárra skatta, að enginn fjmrh. hefur gengið lengra í skattpíningu á Íslandi, fyrr og síðar, en Eysteinn Jónsson, núv. formaður Framsfl.“ Mér sýnist því kominn sannarlega tími til að gefa málgögnum stjórnarflokkanna kost á að sýna það með einhverjum tölum, að þeir hafi eitthvað fyrir sér í þessu, því að ég man ekki eftir, að þeir hafi nokkurn tíma birt eitt einasta dæmi um það í tölum, að skattar hafi verið þyngri á þjóðinni í tíð vinstri stjórnarinnar heldur en nú, heldur bara sagt þetta órökstutt. Nú vil ég hjálpa þeim að láta einhver rök í té, svo að þeir geti flutt málið þannig hér eftir, sem þeir hafa vanrækt hingað til.

Mælikvarði á álögur á þjóðina eru ríkisreikningarnir, að vísu ekki tæmandi, en þó nokkuð mikilsverður mælikvarði á það, hvernig álögur hafa verið á þjóðina að undanförnu, og enginn rengir ríkisreikningana, býst ég við, svona að öllum jafnaði. En tekjur ríkissjóðs skv. ríkisreikningunum eru allar fengnar með álögum á þjóðina, fyrst og fremst sköttum og tollum.

Og hvernig hafa þessar álögur verið á undanförnum árum? 1956 voru þær 752.5 millj., 1957 848.6 millj., 1958 voru þær 913.7 millj., 1959 fara þær upp í 1059.9 millj., en þá voru líka stjórnarflokkarnir núverandi teknir við. 1960 verða þær 1487.7 millj., þá er viðreisnin hafin. 1961 verða þær 1664.6, 1962 eru þær 2051 1/2 og 1963, síðasta árið, sem ríkisreikningur er til yfir, eru þessar álögur 2517.4 millj. Hækkanirnar á álögunum, sem koma fram í ríkistekjunum samkvæmt ríkisreikningum, eru þá þessar: 1957 hækka þær um 96.1 millj. frá árinu áður, 1958 um 65.1 millj. frá árinu áður, 1959 um 146.2, 1960, þegar viðreisnin kom til, 427.8 millj., 1961 er hækkunin 176.9 millj., 1962 hækka álögurnar um 386.9 millj. og 1963, þá er met, 465.9 millj. Þannig hafa þá álögurnar „lækkað“ eða hitt þó heldur, síðan þessi ríkisstj. tók við. Hækkanirnar urðu að meðaltali á árunum 1957 og 1958, þegar vinstri stjórnin var við völd, 80.6 millj. á ári, en hækkanirnar hin árin, frá 1959 til 1963, þegar þessir stjórnarflokkar voru teknir við, eru ekki 80.6 millj. að meðaltali á ári, heldur 320.7 millj. að meðaltali á ári eða fjórfalt á við það, sem áður var. Þetta segja ríkisreikningarnir, hvernig núverandi stjórnarflokkar hafa minnkað álögurnar á þjóðina.

En það er til annar mælikvarði á álögurnar, enn þá nákvæmari en þetta, því að ríkisreikningur segir ekki álit. Það er hægt að leggja álögur á þjóðina, án þess að þær komi fram í fjárl. eða ríkisreikningi, og það hefur verið gert. Ég tel því mjög æskilegt fyrir stjórnarflokkana sjálfa, að þeir reyni að bera saman árin 1958 og 1965, að því leyti sem hægt er að sjá þessar álögur, hverjar þær verða 1965, og það er hægt að sjá það þó nokkuð vel. Ég nefni árið 1958, vegna þess að viðreisnarflokkarnir hafa talið það ár einna svívirðilegast í skattpíningu á þjóðina. Þeir ættu því að þola vel samanburðinn við þetta ár, núverandi stjórnarflokkar. 1958 voru ríkistekjurnar skv. ríkisreikningi 913.7 millj., eins og ég sagði áðan, en við það má bæta söluskatti, sem gekk í útflutningssjóð og ekki kom inn í fjárl., um 75 millj., og auk þess má bæta við þessa upphæð 7 millj., sem var hluti af stríðsgróðaskatti og gekk þá til bæjar- og sveitarfélaga.

Ég held, að þá sé ég í aðalatriðum búinn að nefna álögurnar á þjóðina árið 1958. Þetta verður þá samtals 995.7 millj. En hvernig eru horfurnar um árið 1965? Mér virðist, að væntanleg fjárl. muni nema, eftir því sem ég kemst næst, um 3540 millj., og er ég þá búinn að taka tillit til hækkunarinnar, sem búið er að samþ. á söluskattinum hér í hv. Alþingi, — 3540 millj., sýnist mér, að fjárl. muni verða, eftir því sem nú horfir. En verða nú álögurnar ekkert meira en það, sem fjárl. segja? Jú, þær hafa orðið það a.m.k. undanfarin ár. 1962 urðu þær 302.6 millj. kr. hærri en fjárl., eða 17%, og 1963 urðu tekjurnar 322 millj. kr. hærri en fjárl. sögðu til, eða 15%. Er það þá nokkur goðgá að gera ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs, þar með álögur á þjóðina, fari eitthvað fram úr áætlun fjárl. 1965? Er hæstv. ríkisstj. allt í einu orðinn svona lélegur búmaður, miðað við það, sem hún var, þegar hún hefur verið að undirbúa fjárlfrv., að hún hafi ekki ætlað sér einhvern afgang? Ég er ekki að segja, að hún ætli sér 17% afgang. Ég þori ekki heldur einu sinni að áætla henni 15% afgang. En væru það nokkrar öfgar að áætla henni helminginn af þessu, eða um 8%? Mér finnst það ekki. En hvað yrði það mikið? Mér sýnist, að það yrðu um 283 millj., sem leggjast þá við fjárlagaupphæðina.

En það er fleira en þetta, sem má bæta við fjárlagaupphæðina, ef maður á að sjá álögurnar, sem nú eru orðnar á þjóðina og ekki voru 1958, álögur, sem eru utan við öll fjárlög og ríkisreikning. Launaskattur var lagður á í sumar, og skv. upplýsingum, sem fyrir liggja frá ríkisstj. sjálfri, mun hann nema a.m.k. um 64 millj. á aðra en ríkissjóð sjálfan, því að hlutur ríkissjóðs er að sjálfsögðu í fjárl. Til er stofnun, sem heitir Póstur og sími. Þessi stofnun hefur allríflegar tekjur, og allar eru þær tekjur teknar með gjöldum af notendunum. Þessar tekjur Pósts og síma hafa hækkað frá 1958 um 239 millj. Það er eitt fyrirbrigðið af álögum, sem ekki voru 1958, þessi hækkun á póst- og símagjöldum. Þá má nefna framlag til vega og brúa í landinu. Skv. þeirri vegáætlun, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir þingið, kemur ekki inn á fjárl. nema eitthvað 47 millj. af heildarupphæðinni, hitt kemur allt í sköttum á þjóðina utan við fjárl. og ríkisreikning, og það eru skv. þessari áætlun 215 millj. Þá kemur sá hluti söluskatts, sem ekki rennur í ríkissjóð, heldur til bæjar- og sveitarfélaga. Sá hluti er ekki inni í fjárl. Það eru um 150 millj.

Og loks kem ég að einum lið, sem er fyrirferðarmeiri en aðrir, en það er sú hækkun, sem orðið hefur á útsvörum, fasteignagjöldum og aðstöðugjöldum hjá bæjar- og sveitarfélögum í landinu. Allir vita, að bæjar- og sveitarfélög hafa orðið að hækka þessi gjöld stórkostlega vegna þeirra álaga, sem ríkið hefur lagt á þessi sveitarfélög, og v egna þeirrar verðbólgu, sem ríkt hefur að undanförnu. Þar hef ég ekki samanburð við árið 1958, af því að fullnægjandi upplýsingar skortir um það, hvernig þessar álögur voru þá, en ég hef aftur á móti samanburð við árið 1960, svo að líklegt er, að hækkunin frá 1958 sé eitthvað meiri, og það er þá ekki ríkisstj. í óhag, þótt ég noti árið 1960 í þessu sambandi. Ég hef fengið yfirlit yfir það, hvað þessi útgjöld hafa verið undanfarin 5 ár, þ.e. öll útsvör, fasteignaskattur og aðstöðugjöld, þar með talin veltuútsvör, sem áður voru. 1960 voru þau 440.7 millj. Ég nefni tölurnar aðeins í heilum hundruðum þúsunda, en ég hef þær, held ég, bæði í krónum og aurum, ef á þarf að halda. Já, 1960 voru þessar álögur á fólkið af hálfu bæjar- og sveitarfélaga 440.7 millj. Árið eftir eru þær komnar upp í 499.4, 1962 eru þær orðnar 588.6, 1963 eru þær komnar í 781.3, og 1964 eru þær 1021.8 millj. Hvað verða þær 1965? Þessar álögur bæjar- og sveitarfélaga hafa vaxið frá 1960 um 132% eða hér um bil um 33% að meðaltall á hverju ári. Ef maður gerir nú ráð fyrir, að þær hækki miklu minna á næsta ári, eða um 20%, verða þær a.m.k. orðnar um 1226 millj. eða í kringum 785 millj. kr. meiri en þær voru 1960.

Þó að ég nefni þessar tölur um álögur á þjóðina utan fjárl., þá er ekki þetta tæmandi. Ég get minnt á nokkrar álögur, sem ég hef alls ekki tekið með, eins og skatt á landbúnaðarafurðir, skatt til iðnlánasjóðs, skatt af ríkisábyrgðarlánum, hækkun á afnotagjöldum útvarps og síðast, en ekki sízt, vaxtahækkunina í landinu. Ég þori ekki að gera neina áætlun um, hvað þetta nemur miklu, og sleppi því þess vegna. Hinu, sem ég taldi, bæti ég við fjárlagaupphæðina, sem ég geri ráð fyrir að verði. Þá eru þessar álögur orðnar um 5312 millj. á móti 995 millj. árið 1958. Það er ekki svo, að álögurnar séu fjórfaldar, eins og ríkisreikningarnir gefa þó í skyn, heldur eru þær svo að segja fimmfaldar.

Til þess að gera, sér betur grein fyrir þessari þróun í álögum, í sköttum á þjóðina, í byrðum á fólkið, hef ég skipt þeim niður á 5 manna fjölskyldur í landinu og farið eftir mannfjölda, eins og hann var 1958 og verður væntanlega 1965 og ég hef gert áætlun um. Auðvitað leggjast byrðarnar mjög misjafnlega á fólk, en svo að gleggri mynd fáist af því, hvernig álögurnar eru, hvernig þróunin hefur verið, þá er rétt að finna út, hvað þetta samsvarar mikilli upphæð á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu að meðaltali.

1958 voru landsmenn 170156. Það samsvarar því, að 5 manna fjölskyldur hafi verið 34031, og álögurnar þá, eins og ég nefndi hér áðan, um 995.7 millj., — það samsvarar því, að það hafi verið 29259 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. En upphæðinni 1965, sem ég hef gert hér áætlun um og ég hef greint allýtarlega frá, hef ég skipt líka niður á 5 manna fjölskyldur. Mannfjöldinn ætti að verða á næsta ári, með sams konar fjölgun og frá því í fyrra, um 194500. Það samsvarar því, að fimm manna fjölskyldur væru 38900. Hvað verða þá álögurnar að meðaltali á hverja 5 manna fjölskyldu? Þær verða ekki 29 þús. rúm eins og 1958, heldur um 137 þús. kr. Að þessu athuguðu finnst mér, að ég hafi gefið málgögnum stjórnarflokkanna umhugsunarefni núna í jólaleyfinu, svo að þau geti velt því fyrir sér, hverjir séu meiri skattpíningarmenn, framsóknarmenn eða viðreisnarmenn.

Alþfl. hélt flokksþing fyrir stuttu. Hann samþ. þar nýja stefnuskrá fyrir flokkinn og birti hana í Alþýðublaðinu fyrir skömmu. Flokkurinn valdi það form á þessari nýju stefnuskrá, að hún er að ytra útliti nokkuð svipuð tíu boðorðum guðs, þ.e.a.s. stefnuskráin er sett upp í tíu punktum. Fyrirsögnin í leiðaranum í Alþýðublaðinu, þar sem skýrt er frá stefnuskránni, er: Tíu punktar. Móse hafði það tíu boðorð, en það skiptir ekki höfuðmáli, þetta gæti verið vegna þess, að flokkurinn sé orðinn svo vanur því að setja punkt við gömlu stefnuskrána, að hann noti þetta hugtak. Tíu boðorð Móse eru orðin gömul. Ég heyri nefnt, að þau séu orðin jafnvel 4—5 þúsund ára gömul. Tíu punktar Alþfl. eru nokkru yngri, ég held ekki nema eitthvað fjögurra eða fimm vikna. Boðorð Móse hafa reynzt vel, svo vel, að ég held, að flestir geti skrifað undir hér um bil allt í þeim tíu boðorðum enn í dag. Hins vegar er ekki komin nægjanleg reynsla á tíu punkta Alþfl., en þó virðist mér, að nú séum við að fá ofurlitla hugmynd um, hvernig eigi að framkvæma þá, hvað felist í þeim. Fyrsti punkturinn, fyrsta boðorðið hjá Alþfl. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, það sem flokkurinn leggur mesta áherzlu á: „30. flokksþing jafnaðarmanna samþykkti, að þátttaka Alþfl. í ríkisstj. skuli miðast við þessi markmið: Fyrsti punktur: Víðtækt samkomulag um kaupgjalds- og kjaramál og frið á vinnumarkaðinum ásamt stöðvun verðbólgunnar.“ Þetta er fyrsta boðorðið. Það er ekki hægt að gera kröfu til þess, að Alþfl. sé búinn að framkvæma alla þessa tíu punkta, því er ekki hægt að búast við. En ég fæ ekki betur séð en þeir séu núna að byrja að framkvæma fyrsta punktinn, stöðvun verðbólgunnar. Byrjunin er þetta frv. um hækkun söluskattsins. Verði framkvæmdin á hinum punktunum níu eins og þetta, þá veit ég ekki, hvað lengi Alþfl.-menn geta verið í þessari ríkisstjórn. Ég veit ekki nema það verði að fara að gefa þeim vegabréf strax, enda verða vegabréf bráðum gefin út, að því er ég bezt veit.