21.12.1964
Neðri deild: 35. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

106. mál, söluskattur

Jón Skaftason:

Gott kvöld, góðir hlustendur. Mér kemur ekki á óvart, þótt einhverjir ykkar kynnu að hugsa sem svo, að eitthvað óvenjulegt sé nú á ferðinni, úr því að útvarpsumr. frá Alþingi eigi sér stað tæpum þrem sólarhringum fyrir jól. Þetta er rétt. Nú er verið að leggja síðustu hönd á afgreiðslu fjárl. ríkisins fyrir árið 1965, og er söluskattsmálið í raun réttri einn þáttur þeirrar afgreiðslu. Í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar hefur það gerzt, að álögur ríkisins á þjóðina hækka um 900—1000 millj. á einu einasta ári. Sé haft í huga, að heildarfjárlög ríkisins námu 882 millj. árið 1958, síðasta árið áður en núv. stjórnarsamsteypa tók völdin, sést, hversu alvarlegir hlutir eru á ferðinni nú. Þetta eina dæmi sýnir í hnotskurn, hversu til hefur tekizt um stjórn efnahagsmála þjóðarinnar í tíð hæstv. ríkisstj. Tærandi verðbólgueldur eyðir innviðum þjóðfélagsbyggingarinnar, sem komin er að falli, og hart er að þurfa að segja það, að stjórnendur landsins kynda þar vel undir. Í lýðræðisþjóðfélagi sem okkar ber brýna nauðsyn til þess, að þegnarnir geri sér vel ljóst, hvert stefnir um landsstjórnina hverju sinni, greini á milli orsaka og afleiðinga og þekki sjálfan kjarna málanna, en láti ekki blindast af sjónhverfingum þeirra, sem vondan málstað þurfa að verja. Hver skyldi vera dómur sögunnar um landsstjórnina á valdatímabili núv. hæstv. ríkisstj.? Ég vil reyna að ráða í hann í ljósi leiðbeininga, sem fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, sá reyndi stjórnmálaforingi, gaf í síðustu áramótaræðu sinni í árslok 1962. Hann sagði þá m.a.:

„Hins vegar játa ég það hispurslaust, að enn hefur ekki tekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar, enda þótt rétt sé, að þjóðin standi í dag betur að vígi en fyrir 3 árum til að fást við hana. En takist ekki að sigrast á verðbólgunni, gleypir hún fyrr eða síðar ávexti þess, sem bezt hefur tekizt. Er þá unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir höndum.

Hér er skýrt og skorinort talað af hálfu hæstv. forsrh. Takist ekki að sigrast á verðbólgunni, gleypir hún fyrr eða síðar ávexti þess, sem bezt hefur tekizt, segir hinn aldni stjórnmálaforingi. Og hann gerði meira og það, sem ólíkt mennilegra er en framferði samráðh. hans. Hann viðurkenndi ósigur sinn í verki og sagði sf sér stjórnarforustu, er verðbólguglíman var töpuð og stjórnin stóð uppi ráðalaus og gat ekki komið fram löggjöf á þingi, sem hún hafði bundið heiður sinn við að framkvæma.

Nóvemberdagarnir á s.l. ári voru dimmir dagar fyrir stjórnarliðið í fleiri en einum skilningi. Ef höfð er í huga sú hreinskilna játning, sem fram kemur í þessum tilvitnuðu orðum fyrrv. forsrh., verður lágkúran í sjónarspili eftirmanna hans og samráðh. öllum auðsæ. Þeir rembast líkt og rjúpan við staurinn við að telja þjóðinni trú um, að stjórnarstefnan hafi reynzt vel og allt það, sem aflaga hafi farið, sé stjórnarandstæðingum að kenna. Væri ekki svo mikið í húfi fyrir þjóðina alla, mundu tilburðir þessir vekja aðhlátur hjá flestum og í hæsta lagi meðaumkun yfir því, hvernig valdasýkin fer annars með mæta menn. Þannig skrifar hæstv. forsrh. í sitt Reykjavíkurbréf í gær:

„Fjárlögin hækka að þessu sinni nokkuð eins og oftast áður. Fjölbreyttari þjóðfélagsstarfsemi hefur í för með sér aukin útgjöld hins opinbera. Þjóðin krefst fullkomnari þjónustu á öllum sviðum, nauðsynlegra framkvæmda í þágu atvinnu- og menningarlífs. Sjálf fjölgun landsmanna krefst aukinna útgjalda, t.d. til menntastofnana, heilbrigðisstofnana, trygginga og lýðhjálpar.“

Hér eru augljós sannindi sett fram um vissár staðreyndir í bland við gróf ósannindi, en varazt umfram allt að geta um aðalorsakir hækkunar fjárl., sem er verðbólgustefna stjórnarinnar. Fjárl. hækka að þessu sinni nokkuð, eins og oftast áður, segir hæstv. forsrh. Hlustendur geta sjálfir dæmt um sannleiksgildi þessa í ljósi þessara upplýsinga. Fjárlög 1958 námu 882 millj. kr., fjárlög 1959 1146 millj. kr., fjárlög 1960 1501 millj. kr., fjárlög 1961 1588 millj. kr., fjárlög 1962 1752 millj. kr., fjárlög 1963 2189 millj. kr., fjárlög 1964 2696 millj. kr. og væntanleg fjárlög ársins 1965 nær 3600 millj. kr.

Á árum vinstri stjórnarinnar, 1957 og 1958, var árleg meðaltalshækkun fjárl. samkv. niðurstöðum ríkisreikningsins 80.6 millj. kr., en árið 1959—1963 um 320.7 millj. kr., og fyrirsjáanlegt er, að árin 1964 og 1965 munu stórhækka þetta meðaltal. Þó eru fjárveitingar til verklegra framkvæmda hlutfallslega lægri síðustu árin af heildarútgjöldum fjárl. en oftast áður. Sannleikurinn er sá, að ofvöxt fjárl. í tíð núv. ríkisstj. má að langsamlega stærstum hluta rekja til verðbólgustefnu hennar, hvað sem ráðh. vilja þar um villa. En upphaf þeirrar stefnu má rekja til ársins 1960, er samtímis var ákveðin stórfelld gengislækkun og vaxtahækkun. Að tvær svo veigamiklar og mótverkandi efnahagsaðgerðir séu framkvæmdar í senn, mun einsdæmi í hinum siðmenntaða heimi, en má e.t.v. finna hliðstæðu meðal frumstæðra þjóða í hinni svörtu Afríku eða Suður-Ameríku.

Fyrir nokkrum vikum þurfti brezka verkamannastjórnin að framkvæma róttækar efnahagsráðstafanir vegna svipaðra aðstæðna og hér voru til staðar 1960. Hún lét vaxtahækkun nægja, en leit ekki við því að fella gengi pundsins, enda hefði það nægt til þess að fella hana strax.

Óðaverðbólgan er staðreynd. Fjárlög ríkisins hafa hækkað á stjórnartímabilinu langt umfram vöxt verðlags, kaupgjalds og þjóðartekna, og ber það sérstakri snilli hæstv. fjmrh. gott vitni, enda mun sagan sennilega minnast hans sem stórtækasta skattinnheimtumanns á íslenzkan almenning. Undan skulu þó teknir gjaldendur stóreignaskattsins, en af þeim hefur hann aðeins innheimt um 400 þús. kr. á þessu ári og endurgoldið þeim 360 þús. kr. á árinu á undan af innheimtum skatti.

Vísitala vöru og þjónustu héfur hækkað um 100 stig á stjórnartímabilinu, framfærsluvísitalan um 64 stig, en kaupgjaldsvísitalan aðeins um 55 stig, enda vantar 5 manna verkamannafjölskyldu um 30 þús. kr. á ári til þess að hafa nægilegt til lífsframfæris samkv. framfærsluvísitölunni, sem þó er óraunhæf. Ólafur Thors hefur, eins og áður er um getið, kveðið upp dóm um slíka stjórnarstefnu. Ráðh. eru þrátt fyrir þetta ekki af baki dottnir. Þeir forherðast bara í syndinni. Bjarni Benediktsson skrifar síðast í Morgunblaðið í gær, að framkoma stjórnarandstæðinga geti ekki skapað þeim traust. Þvert á móti afhjúpi hún ábyrgðarleysi þeirra og getuleysi til þess að marka jákvæða stjórnarstefnu.

Það er furðulegt að sjá hæstv. forsrh. rita um jákvæða stjórnarstefnu, eða hvað finnst hv. hlustendum?

Á miðju þessu ári tókst allvíðtækt samstarf milli ríkisstj. annars vegar og samtaka launþega og atvinnurekenda hins vegar um ráðstafanir til stöðvunar óðaverðbólgunni. Álmennt var júnísamkomulaginu fagnað af landsmönnum, en ýmsir drógu heilindi ríkisstj. í efa, ekki sízt verðbólgukónganna í Sjálfstfl., sem þar eru ráðamiklir valdamenn og hafa nærzt á verðbólgu líkt og púkinn á fjósbitanum forðum. En lengi skal manninn reyna, og tilraun þessi var sjálfsögð. Árangur hennar lét ekki á sér standa. Verðlag hefur haldizt óbreytt síðari hluta ársins og vinnufriður ríkt. Samkomulagið varð hins vegar fyrir alvarlegu áfalli, er skattar og útsvör voru birt á s.l. sumri, svo há og óvænt voru þau gjöld. Launþegar mótmæltu, fengu vilyrði um lækkun eða aðstoð við greiðslu gjaldanna., sem munu nú endanlega svikin. Launþegasamtökin hafa þó haldið samkomulagið að fullu. Með frv.-flutningi um stórfellda hækkun söluskattsins og fleiri gjalda er aftur vegið að grundvelli júnísamkomulagsins á hinn ófyrirleitnasta hátt og með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Hæstv. ríkisstj. lætur sér nægja að kasta fyrirvaralaust inn í þingið frv. um nýjar skattaálögur á almenning, sem nema milli 300 og 400 millj. kr., án þess að ræða við eða láta samningsaðila júnísamkomulagsins vita. Aðferðin er henni lík. Þegar samningamenn launþegasamtakanna mótmæla efni frv. sem svikum við gert samkomulag og vara við afleiðingunum, eru 68 millj. kr. af viðbótarsöluskattsreikningnum, sem nam upphaflega 308 millj., niður felldar og það svo útbásúnað í ræðum og blöðum stjórnarinnar sem sérstakt eðallyndi og góðmennska. Ekki veit ég, hversu margir trúa þeirri skýringu. Ég get ekki trúað henni, m.a. af því, að ég var áhorfandi að atburðum þeim, sem áttu sér stað innan veggja þessa virðulega húss í nóvembermánuði fyrir rúmu ári, er þvingunarlögin voru dregin til baka við síðustu umr. í síðari deild. Þá réð óttinn við valdamissinn og hyggindi þess, sem veit sig sigraðan, gerðum hæstv. ríkisstj. Svipuð ástæða mun enn þá ráða mestu um söluskattslækkunina. Seglin eru rifuð af hagkvæmnisástæðum.

En er hæstv. ríkisstj. neydd til þess að hverfa frá stöðvunarstefnunni? Lítum á dæmið, eins og það blasir nú við, á grundvelli þeirra upplýsinga, sem er að finna í grg. og ræðum hæstv. ráðh. Til þess að halda óbreyttum niðurgreiðslum á næsta ári og greiða 3% kauphækkun hjá því opinbera, sem stafar af hækkun söluskattsins, segir í grg., að afla þurfi 239 millj. kr. Væri söluskatturinn ekki hækkaður, yrði engin kauphækkun hjá því opinbera, sem þýddi, að fjárhæð þessi lækkaði um 42 millj. kr. Vandinn er þá sá að fá 197 millj. til aukinna niðurgreiðslna á næsta ári. Er slíkt ómögulegt með hærri áætlun ríkistekna ellegar sparnaði? Af ríkisreikningum 4 ára af valdatímabili stjórnarinnar sést, að ríkistekjurnar hafa samtals farið 690 millj. fram úr áætlun, og þó hefur því stöðugt verið haldið fram við hverja fjárlagaafgreiðslu af talsmönnum stjórnarinnar, að henni sé fjár vant. Hæstv. fjmrh. hefur og upplýst í umr., að 220 millj. af þessum umframtekjum séu enn þá handbærar. Enn fremur hefur sami ráðh. upplýst, að álagður tekju- og eignarskattur 1964 fari 46 millj. fram úr fjárlagaáætlun. Innflutningsáætlunin fyrir árið 1962, sem samin var í Efnahagsstofnuninni, reyndist vera 23% of lág, enda fóru ríkistekjur það árið um 17% fram úr tekjuáætlun fjárl. Ég nefni þetta sem dæmi um nákvæmnina við áætlun ríkistekna á fjárl. En fleira kemur til um möguleika á hærri tekjum en fjárlagafrv. 1965 ráðgerir. Á næsta ári sparast ríkissjóði útgjöld, sem þar eru nú upp á 95.5 millj. kr., þar sem niður á að falla hagræðingarstyrkur frystihúsanna og uppbætur á fiskverðið, en tekjur ríkissjóðs vegna þessara útgjalda haldast áfram. Enn fremur mætti koma við nokkrum sparnaði í ríkisútgjöldum, og vil ég til upplýsingar aðeins nefna, að ýmis kostnaður vegna ráðuneytanna hefur vaxið úr 820 þús. kr. árið 1958 í 10 millj. árið 1963, kostnaður vegna ferðalaga á ráðstefnur úr 2.2 millj. kr. í 6.3 millj. kr. og kostnaður vegna gestamóttöku úr 630 þús. í 1.8 millj. Eru hér aðeins fá dæmi nefnd, sem vel mætti spara á, og bæði Jónas Haralz og Jóhannes Nordal hafa bent á sparnaðarleiðina sem færa leið til þess að ná endum saman.

Ég þykist með þessu hafa fært að því sterk rök, að ríkissjóður þurfi ekki þær viðbótartekjur, sem frv. þetta ráðgerir, til þess að halda óbreyttum niðurgreiðslum á næsta ári. Þar til liggja aðrar orsakir. Gerum hins vegar ráð fyrir því versta, að þetta reynist rangt hjá mér og ríkissjóður verði að fá auknar tekjur. Þá hefði ég mjög alvarlegar athugasemdir fram að færa við sjálfa tekjuöflunarleiðina, sem ég tel að hleypi óhjákvæmilega nýrri verðbólguskriðu af stað. Fyrir því er löng reynsla, að almennur söluskattur hefur hækkað vöruverð og þjónustu um margfalt hærri upphæð en sjálfum söluskattinum nemur. Ekkert verðlagseftirlit hefur getað komið í veg fyrir þetta. Mér er tjáð, að Reykjavíkurborg undirbúi nú hækkun rafmagns, hitaveitu og strætisvagnagjalda og meira en vafasamt sé, hvort hún láti sér nægja þá hækkun, sem af viðbótarsöluskattinum leiðir, úr því að hún fær tækifæri til þess að fara af stað. Svipað munu aðrir gera. Mér er því spurn: Hefði ekki verið betra að láta óhjákvæmilega verðhækkun koma fram á fáum tilgreindum vörutegundum, reyna að halda varnarlínunni í verðbólgustríðinu og koma þannig í veg fyrir, að allt færi af stað? Ég óska sérstaklega eftir því, að einhver hæstv. ráðh., sem á eftir mér tala, svari þessari spurningu. En fleira er athugavert við söluskattinn en að hann sé óskynsamlegur, eins og á stendur. Hann hefur hér reynzt óréttlátastur allra skatta, og það er á almannavitorði, að hann kemst illa til skila í ríkissjóðinn. Þannig hef ég fengið upplýst, að söluskatturinn skili sér verr í ár en í fyrra, þrátt fyrir aukna veltu.

Í 1. hefti Fjármálatíðinda þ.á. ritar aðalefnahagsráðunautur ríkisstj. grein, þar sem hann varar við frekari hækkun söluskattsins, þar sem mikil hætta sé á undanbrögðum frá söluskattsgreiðslu, ef skatturinn hækkar nokkuð verulega, eins og hann segir orðrétt. Þá var söluskatturinn 5 1/2%, en verður 7 1/2% eftir samþykkt þessa frv. Þá má ekki gleyma varnaðarorðum hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, að vísu nær 10 ára gömlum, sem hélt þá grátklökkva fordæmingarræðu um söluskattinn, kvað hann skatta ranglátastan og að skattsvik væru hvergi meiri en í sambandi við hann. Getur það verið, að hæstv. ráðh. hafi nú skipt um skoðun, jafnskoðanafastur og hann er að eðlisfari?

Hæstv. ríkisstj. virðist staðráðin í að knýja mál þetta fram í krafti síns meiri hluta. Ég vil þó á síðustu stundu ítreka þau viðvörunarorð, sem stjórnarandstæðingar hafa haft uppi í báðum deildum gegn slíku framferði. Verði frv. þetta samþykkt, mun fleira á eftir fylgja. Sveitarfélögin munu öll sigla í kjölfarið, enda kemur aukin verðbólga ekkert síður við rekstrarútgjöld þeirra en ríkissjóðsins. Árið 1960 fengu sveitarfélögin um 56 millj. úr jöfnunarsjóði af söluskatti, sem þá nam 280 millj. kr. í allt. Á næsta ári eiga þau að fá 74 millj. af 900—1000 millj. kr. söluskatti. Hlutdeild sveitarfélaganna í söluskatti hefur þannig vaxið um 32% á þessum tíma, en hlutur ríkissjóðs yfir 320%. Er þetta réttlátt? Landbúnaðarvöruverð mun hækka vegna kauphækkunarinnar, og öll þjónustu- og framleiðslufyrirtæki, sem vinna fyrir innlendan markað, munu hækka sína vöru og þjónustu. Aðeins útflutningsframleiðslan og þá sérstaklega sjávarútvegurinn, sem sæta verður erlendu markaðsverði á hverjum tíma, getur ekki velt byrðunum af sér á aðra. Fiskiðnaðurinn missir á næsta ári fjárhagsstuðning, sem hann nýtur nú, sem jafngildir 10% vinnulaunahækkun. Þar við bætist 3% væntanleg kauphækkun, 1% launaskattur og orlofshækkun. Fróðir menn meta þetta á við 24% kauphækkun a.m.k. hjá þessum eina atvinnuvegi. Þar á ofan bætist, að kjarasamningum sjómanna hefur víðast verið sagt upp frá næstu áramótum og sjómenn munu ekki sætta sig við óbreytt fiskverð á næsta ári. Hnúturinn er því riðinn fast að þessum undirstöðuatvinnuvegi, og ég verð að segja það alveg eins og er, að mér finnst furðulítið geð þeirra forsvarsmanna sjávarútvegsins, sem sitja á Alþingi fyrir Sjálfstfl. og þegja eins og steinninn, þegar þannig er fram farið.

Ég hef reynt, eftir því sem tími og geta leyfir, að aðvara hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluta hennar við afleiðingunum af því að samþykkja þetta frv. Ég er sannfærður um, að aðrar og betri leiðir eru til í þeim vanda, sem til staðar er, eins og ég hef bent á. Mín skoðun er sú, að ein alvarlegustu mistök hæstv. ríkisstj., sem orðin eru þó býsna mörg, hafi verið gengisfellingin í ágúst 1961, sem allt færði úr böndunum. Lærði hæstv. ríkisstj. virkilega ekkert af þeim mistökum? Svo er ekki að sjá af framlagningu þessa frv. Skattaálögur hæstv. ríkisstj. eru nú komnar á það stig, að lengra verður ekki haldið án stórfelldra stéttaátaka. Skattastefna, sem í því er fólgin að hækka sífellt byrðarnar á þeim efnaminni í þjóðfélaginu, en hlífa þeim ríku, eins og gert er í sambandi við innheimtu stóreignaskattsins og með flestum þeim skattalagabreytingum, sem hæstv. ríkisstj. hefur fengið samþykktar undanfarið, felur auk þess í sér hróplegt ranglæti. Þetta finnur hver sæmilegur maður og viðurkennir og ekkert síður þeir, sem veittu stjórnarflokkunum brautargengi í síðustu kosningum. E.t.v. má segja, að engir hafi orðið fyrir jafnmiklu áfalli og einmitt þeir í sambandi við meðferð stjórnarinnar í skattamálunum, því að við í andstöðufylkingunni bjuggumst aldrei við miklu úr þeirri áttinni. Þessu til sönnunargildis get ég ekki stillt mig um að skýra frá því, að rétt áður en ég fór í þessar umr., hringdi til mín vel metinn sjálfstæðismaður í útgerð og sjómannastétt, búsettur í Reykjaneskjördæmi, og bað mig blessaðan að gera mitt til þess að fella þessa stjórn. Til þess hefur hún margfaldlega unnið.

Ég vil svo að endingu óska landsmönnum á landi og á sjó gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.