04.11.1964
Sameinað þing: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (3147)

209. mál, hjúkrunarmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það fellur í minn hlut að svara 2. og 3. lið þessarar fsp.

1962 samþykkti Alþingi ný lög fyrir Hjúkrunarskóla Íslands, en samkv. ákvæðum 2. gr. þeirra laga starfar skólinn nú undir yfirstjórn menntmrn., en starfaði áður undir yfirstjórn heilbrmrn. Svo sem kunnugt er, var fyrri áfangi hjúkrunarskólans reistur á árunum 1953–1959, en síðari áfanganum var frestað. Í honum áttu m.a. að vera allar kennslustofur stofnunarinnar, auk fullkomins eldhúss, borðstofu og setustofu, svo og íbúð fyrir skólastjórann, ásamt viðbót við heimavist, er svaraði til vaxandi þarfa. Fram að þessu hefur skólinn því þurft að reka alla starfsemi sína í húsnæði, sem upphaflega var einungis ætlað fyrir heimavist hans. Hjúkrunarskólanum hefur verið brýn þörf á auknu kennsluhúsnæði. Skortur á nauðsynlegum fjárveitingum hefur hins vegar valdið því, að ekki hefur verið unnt að hefjast handa um framkvæmdir við viðbótarbyggingu skólans. Hins vegar hefur verið unnið að undirbúningi slíkra framkvæmda.

Skólanefnd hjúkrunarskólans hefur fyrir alllöngu komið sér saman um stærð viðbótarbyggingarinnar og fyrirkomulag hennar og uppdráttum að byggingunni er nú að fullu lokið. Er öll viðbótarbyggingin talin vera um 7.540 rúmmetrar að stærð og kostnaðaráætlun nemur um 18 millj. kr. Þá hefur verið gengið frá útboðslýsingu að kennsludeildinni, en það er sá hlutinn, sem allir eru sammála um að brýnust þörf sé á að koma upp. Verður kennsludeildin um 5.000 rúmmetrar að stærð, en samkv. áætlun húsameistara ríkisins mun kosta um 4 millj. kr. að gera þennan hluta byggingarinnar fokheldan. Í fjárlagafrv, fyrir árið 1965, 20. gr., er gert ráð fyrir 7 millj. kr. fjárveitingu til byggingar hjúkrunarskóla. Með þessari fjárveitingu, ef þessi till. hlýtur samþykki hins háa Alþingis, — en vart mun ástæða til að gera ráð fyrir öðru, en að svo verði, — mun hægt að hefjast handa af fullum krafti um byggingu kennsludeildar hjúkrunarskólans þegar á næsta ári, eða strax og útboði verksins er lokið og samningar hafa verið gerðir við væntanlegan verktaka. Hér er um að ræða þá fjárhæð, sem athuganir hafa sýnt, að unnt verði að vinna fyrir á næsta ári.

Á undanförnum 5 árum hafa að meðaltali útskrifazt úr hjúkrunarskólanum um 35 hjúkrunarkonur á ári. Er þetta of lág tala og augljós þörf á aukningu nemendafjöldans, svo að hægt verði að taka í notkun og reka hinar nýju sjúkrastofnanir, sem á næstu árum mun komið upp í landinu. Í heimavist hjúkrunarskólans eru nú um 90 nemendur, en gert er ráð fyrir, að hún stækki, svo að nemendum þar fjölgi upp í 130. Utan skólans er gert ráð fyrir að búi 100–120 nemendur, sumpart í sjúkrahúsum og sumpart á einkaheimilum í Reykjavík eða nágrenni. Getur þá fjöldi nemenda í skólanum orðið 230–250 alls. En til þess að þetta megi takast, er ekki einungis nauðsynlegt, að veitt verði það fé, sem nú er farið fram á í frv. til fjárl., heldur og að fjárveitingavaldið sjái sér fært að samþykkja enn frekari fjárveitingar á næstu tveimur árum a.m.k., svo að unnt verði að halda viðstöðulaust áfram framkvæmdum við viðbótarbyggingu hjúkrunarskólans, þar til henni er að fullu lokið. Með því móti einu er hægt að gera ráð fyrir, að skólinn geti tekið að fullu til starfa í nýjum húsakynnum innan 2–3 ára. Hins vegar mun hin nýja kennsludeild væntanlega verða tilbúin mun fyrr, en hún á að leysa úr brýnustu þörf.

Enda þótt húsnæðisskortur hafi staðið hjúkrunarskólanum fyrir þrifum, er það þó mála sannast, að annað vandamál steðjar að honum, sem í eðli sínu er engu siður alvarlegt fyrir vöxt hans og viðgang, en það er skorturinn á hæfum og sérmenntuðum kennurum til starfa við skólann. Með úrskurði kjaradóms um laun og kjör ríkisstarfsmanna hinn 1. júli 1963 var gerð veruleg bót á launakjörum fólks, sem vinnur að hjúkrunarstörfum, en þá var því skipað í 13. launaflokk opinberra starfsmanna. Kennurum í hjúkrunarskóla var þá skipað í 18. launaflokk. Hins vegar er þess að geta, að til þess að öðlast full réttindi sem kennari í hjúkrunarfræðum er nauðsynlegt, að viðkomandi takist á hendur alllangt framhaldsnám erlendis, sem er mjög kostnaðarsamt. Munurinn á launum hjúkrunarkvenna og hjúkrunarkennara samkv. skipun í launaflokka samkv. kjaradómi er á hinn bóginn ekki mikill og sannleikurinn er sá, að hjúkrunarkonurnar geta í flestum tilfellum fengið fullt svo góð eða jafnvel betri kjör með því að starfa við sjúkrahúsin heldur, en fást við kennslu við skólann. Fastir kennarar við skólann eru nú aðeins 3 utan skólastjóra, en heimild er fyrir 6 kennarastöðum og við stækkun skólans mun skapast þörf á enn fleiri kennurum við skólann. Eins og ég sagði áðan, hefur reynzt mjög erfitt að fá nægilega marga og nægilega vel menntaða kennara við skólann. Þetta mál er allt hið erfiðasta viðfangs, en lausn þess hins vegar mjög brýn og mun allt verða gert til að leysa það á viðunandi hátt og tryggja hjúkrunarskólanum þannig næga kennslukrafta í náinni framtíð. Skólanefnd hjúkrunarskólans vinnur nú að samningu nýrrar reglugerðar fyrir skólann.