04.11.1964
Sameinað þing: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

209. mál, hjúkrunarmál

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. báðum fyrir svör við fsp. mínum. Það hafa komið þar fram greinargóðar upplýsingar um, hvernig þessi mál standa og að þar er við ýmis vandamál að etja, sem verið er að vinna að lausn á, a.m.k. sumum hverjum og ég hef í rauninni ekki öðru við það að bæta, sem ég sagði í orðum mínum hér áðan, heldur en því, að ég treysti því, að í þessu máli verði haldið áfram að vinna af fullri alvöru og krafti að lausn þeirra, þangað til viðunandi skipan er komin þar á. Og ég vil undirstrika það, sem kom greinilega fram hjá hæstv. menntmrh., að það má ekki láta það atriði eftir liggja að tryggja hjúkrunarskólanum á næstu árum næga og hæfa kennslukrafta og ég hygg, að það verði að finna ný úrræði til þess, m.a., eins og ég benti á, kæmi þá til greina að styrkja sérstaklega þau kennaraefni, sem vildu nú á næstu missirum eða árum leggja út í þetta bráðnauðsynlega nám.