18.11.1964
Sameinað þing: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3185)

214. mál, héraðslæknar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það þarf ekki að fjölyrða um þá erfiðleika, sem fólk á við að búa, sem býr við læknisleysi. En ég vil vekja athygli á því, að ríkissjóði sparast fé með þessum hætti, að ekki fást læknar. Dettur mér í hug að spyrja hæstv. heilbrmrh., hvort ekki sé hægt að verja nokkru fé af þeim læknislaunum, sem þarna sparast, til þess að greiða fyrir flutningi sjúkra manna úr þeim héruðum, sem engan lækni hafa og verða þar af leiðandi að búa við miklu dýrari sjúkraflutninga en aðrir. Það væri, held ég, það minnsta, sem gert væri, að verja fé til að greiða fyrir flutningi á þessum sjúklingum, því að vitað er, að fólkið verður að leita um langar leiðir, þegar það hefur engan lækni í sínu héraði. Þetta finnst mér vert að taka til athugunar og skjótra framkvæmda, svo að fólkið viti, að það fái þessa aðstoð til þess að flytja sjúka.