10.03.1965
Sameinað þing: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í D-deild Alþingistíðinda. (3276)

218. mál, aðstoð til vatnsveitna

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. svör hans. Um þau vil ég segja þetta. Í fyrsta lagi hefur sú skýring, sem vegamálastjóri gaf um aðaldreifiæð í kauptúnum eða kaupstöðum, að það mundi ná til frystihúsa eða sláturhúsa, ekki við nein sérstök rök að styðjast, heldur mundi verða skilgreining á því, hver yrði aðaldreifiæð, eins og það hefur verið í l. um stofnæð. Það mundi að sjálfsögðu vera aðalleiðslan í gegnum kaupstaðinn eða kauptúnið, sem yrði kölluð aðaldreifiæð, en ekki bundið sérstaklega við þessar stofnanir. Hitt þykir mér miklu skipta, að það atriði, sem hann vék að síðar, hæstv. ráðh., um vatnsveiturnar í sveitunum, hefur reynzt mjög erfitt þeim sveitarfélögum eða bæjarsamtökum, sem hafa staðið fyrir vatnsveitum, vegna þess að skilgreiningin á stofnæð hefur verið bundin við það, að þegar fyrsta dreifiæðin væri tekin, væri stofnæðinni lokið. Það skiptir mestu máli, að þessum ákvæðum verði þannig breytt, að þeir njóti, sem eiga að njóta og hef ég ekkert við það að athuga, þó að það verði gert með rýmri skilgreiningu á l., en verið hefur til þessa, að það verði rýmkað á þessu, því að hér, eins og kemur fram í áliti vegamálastjóra, getur verið um svo óverulegan hluta af kostnaði að ræða, að l. ná í raun og veru ekki til þessara vatnsveitna, en þeim fer mjög fjölgandi, eins og kunnugt er, á síðari árum.

Ég tek svo undir það með hæstv. ráðh., að fjárveitingar til vatnsveitnanna hafa verið allt of litlar og eru enn og ég minnist þess, og ég held, að ég fari rétt með það, að ég hafi á öllum þingum reynt að fá þessu þokað nokkru hærra, en verið hefur og t. d. við síðustu afgreiðslu fjárlaga vildi ég taka undir till. rn. um að hækka fjárveitinguna í 3 millj. kr. Hér er um mjög kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða og nauðsyn þeirra þarf ekki að skilgreina. Ég treysti hæstv. ráðh. og hans rn. til þess að beita sér fyrir lagfæringu á þessum atriðum, bæði viðvíkjandi l. og auknum fjárveitingum til framkvæmdanna.