05.05.1965
Sameinað þing: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í D-deild Alþingistíðinda. (3326)

220. mál, félagsheimilasjóður

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi, nánar tiltekið 13. maí 1964, var samþ. þál. um endurskoðun l. um félagsheimili og eflingu félagsheimilasjóðs. Ályktun þessi hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara endurskoðun á gildandi l. um félagsheimili með það fyrir augum, að félagsheimilasjóður verði efldur og eðlileg skilyrði heilbrigðs félags- og menningarlífs verði sköpuð í sem flestum byggðarlögum landsins. Jafnframt verði athugaðir möguleikar til að ráða fram úr þeim vandræðum, sem fjárskortur félagsheimilasjóðs hefur valdið einstökum héruðum. Stefnt verði að því í hinni fyrirhuguðu löggjöf um félagsheimili, að forráðamönnum þeirra verði framvegis gert kleift að efla menningarlega fræðslu- og skemmtistarfsemi í ríkara mæli, en unnt hefur verið fram að þessu. Endurskoðuninni skal lokið fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþ.“

Þannig hljóðaði þessi ályktun. Ekki fréttist neitt um þær mundir, sem Alþ. kom saman á næstliðnu hausti, að þessari endurskoðun væri lokið, eins og þó var ákveðið að verða skyldi í ályktuninni frá 13. maí í fyrra og nú er liðið að lokum þessa þings og enn hefur ekkert af þessu máli heyrzt. Mér þótti því rétt að leggja fram fsp. til hæstv. ríkisstj. um þetta mál og þær liggja fyrir á þskj. 471. Fsp. mínar eru þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað hefur ríkisstj. gert til framkvæmda á þál. um endurskoðun l. um félagsheimili og um eflingu félagsheimilasjóðs, sem samþ. var á Alþ. 13. maí 1964? Hvað hefur ríkisstj. gert eða hefur í hyggju að gera til fjáröflunar fyrir félagsheimilasjóðinn, til þess að hann geti greitt vangoldin framlög til félagsheimila, sem reist hafa verið eða eru í byggingu?“

Vænti ég svars frá hæstv. ríkisstj. við þessum fsp.