14.12.1964
Sameinað þing: 19. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

1. mál, fjárlög 1965

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, fjórir þm. af Austurlandi, að flytja nokkrar brtt., sem ég leyfi mér að mæla fyrir með fáeinum orðum.

Það er þá fyrst stærsta málið, en það er till. um að heimila hæstv. ríkisstj. að taka allt að 20 millj. kr. lán til vegagerðar á Austurlandi. Þannig er máli varið, að nú er búið að taka mikið á annað hundrað millj. að láni til vegagerða í landinu, en enn þá hefur ekkert verið tekið að láni af fé til að verja til vegagerða á Austurlandi. Þetta viljum við ekki una þegjandi við, þar sem því verður ekki á móti mælt, að einmitt á Austurlandi eru mjög mikil verkefni óunnin í vegagerð og meiri en víðast annars staðar á landinu. Við teljum mjög sanngjarnt, að þessi lántökuheimild verði samþ., samanborið við það, sem annars staðar hefur verið gert, og við leyfum okkur að vísa á tvennt sérstaklega í sambandi við verkefnin og lántökuna, ef samþ. verður.

Annað er að gera jarðgöng undir Oddsskarð, og m,un verða hægt að komast af með 10 millj. eða svo í þá framkvæmd. Hún er ekki dýr, eins og allir sjá, því að það er ekki nema eins og verð á vænum mótorbát, en á hinn bóginn mundi þetta valda byltingu í samgöngum við Neskaupstað, sem er stærsti kaupstaður austanlands og vaxandi framleiðslubær, eins og önnur byggðarlög þar um slóðir. Er því lífsnauðsyn að koma þessum kaupstað í öruggt vegasamband við aðra hluta landsins, en það mundi verða, ef úr þessu yrði, því að ef menn græfu sig gegnum kambinn, sem myndar efsta hluta skarðsins, mundi oftast nær verða fært þessa leið. Því sjá allir, að hér er um stórmál að ræða, en kostnaður ekki mikill.

Á hinn bóginn höfum við svo í huga aðalleiðina umhverfis landið, sem liggur að sjálfsögðu um Austurland og á að liggja umhverfis landið, þegar ráðið v erður fram úr því að gera samband á landi um Skeiðarársand. Þá liggur þar hringvegur um landið. En á þessari hringleið er ákaflega langur ólagður kafli á Austurlandi eða mikið á annað hundrað km, sem þar eru ólagðir enn af þessari merku hringleið um landið, aðalvegi landsins, aðalvegi þjóðarinnar, því að segja má, að þetta sé aðalvegur þjóðarinnar. Sambærilegt óleyst verkefni er hvergi annars staðar til á landinu, og því mundi okkur þykja sanngjarnt, að það væru svo sem 10 millj. teknar að láni og settar í að þoka dálítið áfram þessum vegi, þessari hringleið. En ef við þurfum að búa við þær fjárveitingar, sem ætlaðar eru á fjárlögum smátt og smátt í þennan hringveg, þá mun sönnu næst, að það líða tugir ára, unz búið er að byggja leiðina upp, og slíkt er með öllu óþolandi og ranglátt miðað við það, sem þó er unnið annars staðar í landinu að samgöngubótum.

Við viljum vænta þess, að hv. þm. sýni fulla sanngirni í þessu máli og styðji okkur í því að fá þessa lántökuheimild samþykkta og þá í því trausti, að hæstv. ríkisstj. mundi vilja nota hana til að koma þarna á nokkru jafnræði frá því, sem nú hefur verið um sinn, síðan lántökur fóru að tíðkast til vegagerða.

Þá eigum við hér nokkrar till. um auknar fjárveitingar til hafnargerða, en þannig er ástatt á Austurlandi, eins og allir hv. þm. vita, að þar hefur skipaferð aukizt stórkostlega, margfaldazt á síðustu árum, vegna þess að nú er farin að veiðast þar síld í stórum mæli. Hefur þetta orðið mjög mikill búhnykkur fyrir landsmenn alla, og þarf ekki að lýsa því. Þetta þýðir, að endurbæta verður hafnarmannvirki og bryggjur og alla aðstöðu við sjóinn á öllu Austurlandi, ef ekki á að verða algert öngþveiti. Og nokkuð hefur verið sýndur litur á þessu með fjárveitingum í fjárl., en ekki nægilega að okkar dómi, og gerum við því nokkrar till. um endurbætur í þessu frá því, sem hv. fjvn. ráðgerir. Skal ég fara örfáum orðum um hverja fyrir sig og byrja nyrzt.

Á Bakkafirði er síldarverksmiðja og söltun, og þarf að endurbæta og lengja nokkuð bryggjustúfinn, sem fyrir var, eins og allir geta skilið. En það eru aðeins ætlaðar 50 þús. kr. til þess í till. fjvn., sennilega fyrir einhver mistök, því að verkefnið er þannig vaxið, að sú fjárveiting, sem hugsuð er í till. fjvn., er ekki í samræmi við annað frá henni. En við stingum upp á, að í þessu skyni verði veittar 250 þús., því að þarna er um að ræða verkefni, þar sem hlutur ríkissjóðs verður aldrei undir 600 þús. kr. Viljum við vona, að þetta verði tekið til greina, og má vel vera, að við frestum þessari till., þegar til atkvgr. kemur, til 3. umr., og mun það þá verða tekið fram, ef ofan á verður, til þess að hv. fjvn. geti athugað nánar, hvort hér hafa ekki orðið mistök.

Þá er það Borgarfjörður eystri, sem er smápláss, en þar er líka síldarverksmiðja og söltun, nú tvær söltunarstöðvar, en eiginlega ekki mögulegt fyrir báta af venjulegri síldarbátastærð, eins og þeir nú eru orðnir, að athafna sig við land. En slíkt getur ekki staðizt, því að þessi staður liggur vel við á margan hátt. Leggjum við til, að greiðar verði farið þarna en hv. fjvn. stingur upp á eða veittar 600 þús. í stað 400 þús.

Ég bið menn að afsaka, að ég ruglaðist í röðinni og lenti yfir í stafrófsröð og ætla því að halda henni úr þessu og nefna þá næst Breiðdalsvík. Þar er einnig síldarbræðsla og söltun nokkur og bryggjustúfur nothæfur. En þar þarf að koma garður, ef sómasamlega á að vera hægt að afgreiða skipin, og sá garður kostar alltaf nokkuð á aðra millj. kr. Fjvn. hefur aðeins stungið upp á 100 þús. kr., en við leggjum til, að þetta verði hækkað upp í 250 þús. kr.

Þá er Búðareyri í Reyðarfirði. Þar er verið að byggja myndarlegan hluta af fyrirhugaðri höfn og nokkuð komið áleiðis, og sú höfn hefur sannarlega borgað sig, því að þar hafa verið afgreidd feikna verðmæti, síðan hafizt var handa um að koma henni upp. Það er enn ógreitt af því, sem búið er að vinna, úr ríkissjóðsparti 484 þús., og síðan þarf að halda áfram með nýjan áfanga endilega, sem krefur 520 þús. kr. úr ríkissjóði. Samtals verður þetta því sem næst ein millj., en tillögur hv. fjvn. eru um 300 þús., og leyfum við okkur því að leggja til, að fjárveitingin verði færð í 500 þús.

Þá er það Fáskrúðsfjörður. Þar er myndarleg bræðsla og mjög mikil söltun og afar mikið um að vera. Þar þarf að byggja plön við sjóinn, uppfyllingar og laga til, ef nokkur von á að vera um, að hægt sé að halda þessu sæmilega áfram sem horfir. En þetta mundi verða alls, sem yrði að leggja fram, um 1 300 000 kr. af ríkissjóðs hendi, en fjvn. hv. leggur aðeins til 300 þús., og viljum við vona, að samkomulag geti orðið um að hækka þetta í 500 þús., og yrði þá enn nálægt þriggja ára áætlun af ríkissjóðs hálfu um hans framlag á móti.

Þá er Höfn í Hornafirði. Þar er ekki hafin síldarmóttaka enn þá, en ég vil láta í ljós sem mína skoðun, að skammt muni undan, að svo verði. Staðurinn liggur þannig miðað við nýtízkuveiði og aðstöðu alla, og getur vel farið svo, áður en langt liður, að þangað verði flutt síld bæði að austan, utan af hafinu, og að sunnan. Þannig breytast þessi mál nú ört. En eins og stendur hefur þar ekki verið hafin síldarmóttaka, en þar er vaxandi útgerð með góðum árangri nálega vetur, sumar, vor og haust, en sá annmarki, að þar er erfið innsigling, sem margir þekkja, grunnsævi mikið á innsiglingunni, og þar þarf að eiga sér stað dýpkun með stækkandi bátum og skipum, og þeir þurfa líka að eignast nýjan hafnsögubát. Verður lágmarksfjárhæð í nýtt plan, þ.e.a.s. ríkissjóðsframlagið, um 2 millj. kr. En hv. fjvn. stingur upp á 500 þús., sem er þá miðað við, að 4 ár taki ríkið að leggja fram í þessa áætlun. En við förum ekki frekar í þetta en að leggja til, að þetta verði hækkað í 600 þús. kr. Hefðum við kannske átt að leggja til, að þetta verði sett í hæsta flokk fjárlaga, sem er 700 þús., miðað við verkefnið, en varð nú ofan á að stinga upp á 600 þús.

Mjóifjörður heitir lítið pláss, sem einu sinni var stærra, því að það var fyrr á árum mikil hvalstöð og síldarútvegur mikill, áður en Norðfjörður óx, en borgin kom í Neskaupstað, þannig að starfsemi í Mjóafirði hefur farið minnkandi. En þó þurfa þeir að hafa sinn lendingarstað, sem er bryggja, en ekki hafnarmannvirki að öðru leyti. Hana þarf að lagfæra. Er stungið upp á 100 þús. af fjvn., en við vildum mega fara fram á 150 þús. í þessu skyni.

Seyðisfjörður er gamall síldarbær, sem nú er orðinn síldarbær á ný, og er þar mokað á land gífurlegum verðmætum, bæði til vinnslu þar á staðnum og brottflutnings. Söltunarstöðvar eru þar mjög margar og bætast við árlega. Síldarbræðsla er enn sem komið er aðeins ein, en stækkandi mjög, og þar fer líka fram umhleðsla á síld til flutnings norður í land, þar sem æðimargar bræðslur eru, sem kunnugt er. Og allt á þetta að vaxa mjög. Bæði er fyrirhugað að stækka síldarbræðslur ríkisins á Seyðisfirði, sérstaklega að byggja þar meira þróarrými, einnig til að styðjast við í sambandi við flutningana á síldinni. Þarna þurfa tugir síldarbáta og skipa að komast að til afgreiðslu í senn, og má segja, að algert öngþveiti ríki, þannig að byggja verður ný bólverk og lagfæra þau, sem fyrir eru. En áætlunin, sem fyrir liggur, er þannig, að gert er ráð fyrir tæplega 3 millj. kr. framlagi af ríkisins hendi, sumpart unnið og sumpart óunnið. Okkur sýnist ekki sanngjarnt að hafa þessa höfn annars staðar en í hæsta flokki og þar verði lagðar fram 700 þús. í staðinn fyrir 600, sem ráðgert er í frv. Er sönnu næst með þetta og sumt af því stærra; sem ég hef nefnt, að 700 þús. er auðvitað of lítið, miðað við það, sem þarf að gera þarna á stuttum tíma vegna vaxandi viðskipta.

Stöðvarfjörður heitir pláss sunnarlega á Austfjörðum, sem hefur haft vænlega smábátaútgerð, en nú er þessi fjörður að verða síldarfjörður, eins og allir aðrir á Austurlandi, og vonandi kemur þar bræðsla, maður vonar næsta sumar, til að styðja söltunina. Þar á sér stað söltun, en það er erfitt að halda henni áfram, ef ekki kemur lítil bræðsla til að taka áfgangana, því að eins og nú er orðið, getur farið svo, að ekki sé hægt að taka nema 40% af förmunum til söltunar, og þá er öngþveiti algert, ef ekki eru bræðslur til að taka við því, sem, eftir er. Vonum við því, að þar komi bræðsla fyrir næsta sumar, og alla vega er þarna um svo mikið vaxandi umferð að ræða, bæði af heimaskipum og aðkomuskipum, að bæta verður við hafnarbryggjuna, sem um leið er hafnargarður. Það eru að vísu ætlaðar í þessu skyni 200 þús. í fjárlfrv., en við leyfum okkur að leggja til, að það verði hækkað í 300 þús.

Þá kemur loks Vopnafjörður, af því að ég fylgdi stafrófsröðinni, en ekki þeirri landfræðilegu, eins og ég hafði hugsað mér. Það er sama að segja um hann og hin stærri plássin á Austurlandi. Umferðin hefur margfaldazt. Og þar er öngþveitið kannske einna mest á öllu Austurlandi vegna skorts á aðstöðu til að afgreiða skipin, því að þar hefur fram að þessu einvörðungu verið ein lítil bryggja. Stundum hafa legið 2 og jafnvel 3 flutningaskip í biðröð á höfninni eftir því að komast að, og síldarskip hafa legið í tuttugufaldri röð — eða hver veit hvað. Þannig hefur verið algert öngþveiti í allri afgreiðslu við höfnina til stórtjóns fyrir framleiðsluna. Nú er verið að brjótast í að bæta úr þessu, og eru áætlanir til að byrja með að byggja allvæna bryggju, þ.e. hafskipabryggju, sem jafnframt þjónaði síldarflotanum. Er áætlað að ríkissjóður verði að láta í það tæpar 3 millj. kr., og þykir okkur dálítið undarlegt; að hv. fjvn. skuli ekki treysta sér til að hafa þessa merkilegu höfn og þennan framleiðslustað í hæsta flokki, en honum eru ekki ætlaðar nema 600 þús. af hendi hv. fjvn. Leggjum við því til, að Vopnafjörður komist í hæsta flokk og framlagið verði 700 þús. og er þó lítið miðað við verkefnin, sem ég var að enda við að lýsa.

Fleiri tillögur höfum við ekki lagt fram við þessa 2. umr., en undirbúum að flytja nokkrar tillögur til viðbótar við 3. umr. Læt ég þetta nægja.