21.12.1964
Sameinað þing: 21. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

1. mál, fjárlög 1965

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi áttum við þm. Vestfjarða fund með okkur um vegamál Vestfirðinga. Við vorum allir sammála um nauðsyn þess að fá lán, sem um munaði, til fjárfrekustu veganna á Vestfjörðum, leitast við að ryðja þannig úr vegi erfiðustu þröskuldunum á þeim vegum, sem loka heilum héruðum hálft árið, eins og mönnum er kunnugt um. Hv. stuðningsmönnum ríkisstj. meðal Vestfjarðaþingmanna var falið að leita eftir stuðningi hæstv. ríkisstj. við þetta mál. Mér er kunnugt um, að þeir hafa gert það og lagt sig nokkuð fram um það, og þeir hafa tjáð okkur það nú að undanförnu oftar en einu sinni, að þeir ættu þennan stuðning hæstv. ríkisstj. vísan, því að bæði hæstv. samgmrh. og hæstv. fjmrh. hefðu heitið því að verða við þessum óskum Vestfjarðaþingmannanna. Við hinir, sem flutt höfum slíkar till. um lán til Vestfjarðavega þing eftir þing, höfum því beðið og vonað, að þessar till. kæmu fram að tilhlutan hæstv, ríkisstj., eins og hún mun hafa gefið þessum hv. þm. fyrirheit um. Við höfum því enga till. flutt um þetta efni nú, af því að á slíkri till. var von. Við töldum það sjálfsagðan hlut eftir þeim upplýsingum að dæma, sem víð fengum, að hæstv. ríkisstj. hlutaðist til um það við hv. fjvn., að hún flytti slíka till. Nú er komið í ljós, að það hefur hæstv. ríkisstj. ekki gert. En það hefur komið annað í ljós, sem ég tel athyglisverðara þó. Það eru þau orð, sem hæstv. samgmrh. lét falla hér áðan. Hann segir orðrétt, ef ég hef náð því orðrétt, sem ég vona: „Ef það verður niðurstaðan að taka fleiri vegi inn, þá verður aflað lánsheimilda.“ — Ef það verður niðurstaðan! Er þetta lausnin á málinu, sem hv. þm. af Vestfjörðum, stuðningsmenn ríkisstj., hafa unnið að og hafa unnið vel að, að fá svo þessa yfirlýsingu, þegar verið er að ljúka 3. umr. fjárl., vitandi það, að við höfum beðið eftir þessari tryggingu fyrir lausn þessa máls, beðið með að flytja till, í málinu, og nú eru eftir nokkrar mínútur eða í hæsta lagi einn eða tveir tímar, þar til á að vera lokið þessum umr.?

Ég tel, að við verðum hér fyrir alvarlegum vonbrigðum, og mig grunar, að þessir hv. þm., sem hafa átt viðræðurnar við hæstv. ríkisstj., hafi líka orðið fyrir vonbrigðum. En fyrst svona er komið, þá er ekki annað fyrir okkur að gera, hv. 1. þm. Vestf. og hv. 5. þm. og mig, sem flutt höfum slíkar till. ár eftir ár og urðum nú fyrir þessum vonbrigðum, en að flytja skrifl. till., sem ég hér með afhendi hæstv. forseta og bið hann að leita afbrigða fyrir. Það er brtt. við 22. gr. fjárl. Flutningsmenn eru Sigurvin Einarsson, Hannibal Valdimarsson og Hermann Jónasson: „Að taka allt að 20 millj. kr. lán til vegabóta á Vestfjörðum í samráði við þm. Vestf. og vegamálastjóra.“

Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 221 ásamt hv. 1. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Vestf. um, að af fjárveitingunni, sem í frv. er ætluð til flugvalla í landinu í heild, komi 3 1/2 millj. til flugvalla á Vestfjörðum. Hér er ekki um hækkun á heildarfjárveitingunni að ræða. Ég tel mig ekki þurfa að ræða lengi um nauðsyn Vestfirðinga á bættum flugsamgöngum, svo oft og rækilega hefur það áður verið gert hér á hv. Alþingi. Á Vestfjörðum er aðeins einn flugvöllur, sem notaður er fyrir hinar venjulegu farþegaflugvélar. Sá flugvöllur er á Ísafirði. En þessi flugvöllur er lokaður öllum þeim Vestfirðingum, sem utan Ísafjarðardjúps búa, a.m.k. hálft árið í allri venjulegri vetrarveðráttu. Má því nærri geta um þörf annarra byggðarlaga vestra fyrir flugsamgöngur, og má þar fyrst og fremst nefna fjölmennasta byggðarlagið utan Ísafjarðar, sem er Patreksfjörður, en þar er aðeins lítill flugvöllur enn þá. Á Hólmavík er líka of stuttur flugvöllur fyrir stærri vélar. En jafnframt er þessi þörf engu síður í Dýrafirði, Önundarfirði og víðar. Það munu allir sjá, að það er ekki til of mikils mælzt að ætla þessa upphæð í þessu skyni.

Þá flyt ég brtt. á þskj. 217. Er hún um 25 þús. kr. fjárveitingu til minningar um Jón Thoroddsen að Reykhólum. Það er engu slegið föstu um það, með hvaða hætti þetta verði gert, heldur aðeins að það skuli gert á Reykhólum, það sem verður aðhafzt í þessu skyni. Ég lít svo á, að það beri að minnast merkra Íslendinga heima í þeim héruðum, sem hafa fóstrað þá. Ýmsum þessara manna hafa verið reistir minnisvarðar í höfuðborginni, og er gott um það að segja. Þeir voru synir þjóðarinnar í heild, og það fer vel á því, að þeirra sé minnzt í höfuðstað landsins. En þessir merku menn eiga ekki og mega ekki með öllu hverfa úr þeim byggðarlögum, þar sem þeir fæddust, þar sem þeir ólust upp, þar sem þeir lifðu og þar sem þeir störfuðu að meira eða minna leyti. Byggðin og fólkið þar heima á að eiga þá áfram með einhverjum sýnilegum hætti, og því flyt ég þessa till. Jón Thoroddsen, sem fæddur er á Reykhólum, fluttist að vísu kornungur þaðan, en hann var alltaf tengdur Reykhólum og Reykhólasveit traustum böndum. Það sýnir m.a. kvæðið „Hlíðin mín fríða“, sem hann yrkir um Barmahlíð, sem er rétt hjá Reykhólum, og þetta kvæði yrkir hann 13 ára gamall. Hann varð síðan sýslumaður Barðstrendinga og sat bæði í Flatey og Haga. Hann varði beztu manndómsárum sínum í þessu héraði. Þar skrifaði hann, þar orti hann, og þar var hann embættismaður. Ég hef áður flutt till. hliðstæða þessari um Eggert Ólafsson. Henni var mjög vel tekið, og hún var samþ. hér á síðasta þingi, og ég geri mér vonir um, að þessi till. muni hljóta svipaðar undirtektir.