09.11.1964
Efri deild: 12. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

58. mál, innlent lán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir góðar undirtektir undir þetta mál og skilning hans á meginstefnu þess. Ræða hans gefur mér tilefni til þess að gera örfáar viðbótarathugasemdir.

Það er í fyrsta lagi út af verðtryggingu sparifjár almennt og lífeyris. Varðandi verðtryggingu lífeyris mun hafa verið samþ. hér þáltill. fyrir nokkrum árum um athugun á því máli, og var Ólafi Björnssyni prófessor, hv. 10. þm. Reykv. og formanni fjhn. þessarar d., falið að semja grg, um það mál. Hann samdi um það mjög ýtarlega álítsgerð, sem fyrir nokkru var afhent þeim hæstv, ráðh., sem það mál heyrir undir, og tel ég, að í þeirri grg. hafi verið mjög gagnlegar upplýsingar og athuganir um það mál.

Varðandi verðtryggingu sparifjár almennt er það náttúrlega ákaflega stórt mál og veigamikið, og ég tek undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v., að hér er um ákaflega stórt mál og þýðingarmikið að ræða. Það eru margar þjóðir aðrar, sem hafa kannað það gerla, hvernig hægt væri að koma fyrir verðtryggingu sparifjár. Á einstaka stað hefur verið farið út í slíkar ráðstafanir, þó að takmörkuðu leyti og tímabundið, og þetta er mál, sem vissulega þarfnast gaumgæfilegrar athugunar við. Við verðum þó að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir því, að ef við eigum að verðtryggja í einu eða öðru formi sparifé í bönkum og sparisjóðum landsins almennt, þá er trúlegt, að þar á móti verði að koma sams konar ákvæði varðandi útlánin, þ.e.a.s. þeir, sem fá lán í bönkum og sparisjóðum, m.ö.o. þeir, sem taka þetta sparifé að láni verði þá um leið að taka á sig einhvers konar verðbindingu eða vísitölutryggingu, þannig að skuld þeirra hækki þá í svipuðu hlutfalli við það, sem sparifjárinnlögin hækka af völdum verðbólgu. Trúlegt er, að ef að stefnu til ætti að fara inn á þessa braut, tæki það nokkurn tíma að koma því í kring, því að ég geri ekki ráð fyrir, að lánsstofnanir gætu tekið á sig verðtryggingu sparifjár, þótt með einhverjum atbeina ríkisins væri, án þess að útlán kæmu þá annaðhvort samtímis eða á undan. En ég geri ráð fyrir því, að um mörg útlánin sé þannig farið, að það taki nokkurn tíma að koma þessu í kring, a.m.k. varðandi þau útlán, sem þegar hafa verið veitt, og miklir erfiðleikar á því eftir á að koma slíkum ákvæðum að, ef það er þá mögulegt. En um leið og ég geri þessa aths., vil ég undirstrika, að ég held, að ég sé alveg sammála hv. 3. þm. Norðurl. v. um nauðsyn þess að reyna að finna einhverjar leiðir til að verðtryggja spariféð almennt.

Varðandi einstök atriði frv. gerði hv. þm. fyrst aths. út af því, að í frv. er ekki ákveðið um lánstíma, vexti og önnur lánskjör, heldur lagt á vald ráðh. Til þessa liggja sérstakar ástæður, ekki aðeins þær, að mjög oft hefur það verið í slíkum frv., að ekki hefur verið í sjálfum l. ákveðið um þessi atriði. En vegna þess að hér er um nýjung að ræða og tilraun, hefur ekki verið gert ráð fyrir að bjóða út 75 millj. kr. lánið í einu lagi, heldur þreifa fyrir sér um undirtektir með hluta af þessu láni, og á undirtektunum hinum fyrstu getur það oltið, hvort þætti rétt að hafa sömu kjör á seinni hlutanum eða ekki, bæði um lánstíma, vexti og jafnvel um þá tegund vísitölu, sem lánið yrði miðað við. Ég vil segja, að þetta er ein af meginástæðunum til þess, að ekki hefur verið talið rétt að festa þetta í l., sem þyrfti þá kannske að gera breytingu á fljótlega, þegar séð er um undirtektir manna undir hina fyrstu tilraun.

Í 4. gr. er ríkisstj. heimilað í samráði við fjvn, að verja þessu fé til framkvæmda á vegum ríkisins og til greiðslu á skuldum ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs. Hv. þm. telur, að æskilegra væri að hafa það ákveðnara í l. og meir bundið, til hverra framkvæmda fénu skuli varið. Að vísu má geta þess, að um allmargra ára skeið hefur ríkisstj. tekið lán og jafnvel stórlán, án þess að ákveðið væri í l., til hvers þeim skyldi varið, og á ég þar sérstaklega við vörukaupalánin eða PL—480 eða ICA-lánin, sem hafa verið tekin um 6—7 ára skeið árlega og frá upphafi hefur verið svo farið, að ríkisstj. hefur án atbeina Alþingis úthlutað þeim lánum. Það er aðeins í eitt skipti, það var á árinu 1959, sem ákveðið var um hluta þessara lána í fjárl., til hvers þeim skyldi varið, og stóð það í sambandi við það, að þá var hér minnihlutastjórn í landinu, en annars hefur það verið í hendi stjórnanna öll þessi ár.

Ég segi ekki, að þannig eigi að vera um allar lántökur, síður en svo. En eins og ég gat um hér áðan, eru það vissar framkvæmdir samkv. framkvæmdaáætluninni, sem enn hefur ekki verið aflað fjár til að fullu, og það eru þær, sem á að verja þessu fé til, og ég skal telja þær hér upp. Ég nefndi tvær þeirra áðan, en það eru raforkusjóður, það eru vegamál, það eru hafnir, það eru sjúkrahús, það er atvinnubótasjóður og það er kísilgúrverksmiðja. Það eru þessi atriði, sem gert er ráð fyrir að féð fari til.

Þá minntist hv. þm. á það ákvæði í 5. gr., að ríkisstj. væri síðar heimilt að gefa út ný verðbréf eða spariskírteini vegna innlausnar á þeim, er upphaflega verða út gefin. Eins og kemur fram og hv. þm. taldi, að upphæðin væri hér óákveðin, þá er það að vissu leyti svo. En ég held, að tilgangurinn skýrist í grg. á bls. 2, næstsíðustu mgr., þar sem segir: „Í 5. gr. frv. eru ákvæði, er heimila ráðh. að gefa út ný bréf í stað þeirra, sem út verða dregin eða endurgreidd.“ Þannig er vitanlega ætlunin með þessu nýmæli sú, að aðeins sé heimilt að gefa út ný bréf í stað þeirra, sem ríkissjóður þarf að innleysa, og þá aldrei hærri upphæð en sem því nemur. Hins vegar má vel vera við athugun, að rétt væri að víkja til orðalagi á 5. gr., til þess að þetta yrði alveg skýlaust.

Ég ætla, að það séu ekki fleiri atriði, sem ég þarf að gera að umtalsefni, en ég sem sagt þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir undir frv. og vona, að það fái góðar undirtektir hjá öllum hv. þdm.