02.02.1965
Neðri deild: 36. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

3. mál, launaskattur

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð til andsvars því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði nú síðast. Ef einhver vafi leikur á því, að ákvæði l., að því leyti sem þau snerta vörubílstjóra, fari í bága við það samkomulag, sem gert var, skal ég vera fyrstur manna til þess, að það verði athugað og það rætt, hvort rétt er sú skoðun, sem hann heldur fram, að hér sé um brot á samkomulaginu að ræða. Það er vissulega ekki ætlun ríkisstj. eða mín, sem flyt þetta frv., að svo sé. Við erum hér í góðri trú. Annars vildi ég skjóta því til hv. þm., þar sem hann nefndi t.d. fólksflutningsbíla í þessu sambandi, að ef fólksflutningsbílstjórinn á ekki að greiða launaskattinn, hver á þá að greiða hann?