09.02.1965
Efri deild: 42. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

3. mál, launaskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Út af því máli, sem hér hefur borið á góma í sambandi við launaskattinn að gefnu tilefni frá hv. 9. þm. Reykv., tel ég rétt, vegna þess að svo stendur á, að ég mun vera sá eini meðal hv. þm., sem sæti á í verðlagsnefnd, að upplýsa með örfáum orðum, hvaða meðferð þessi mál hafa fengið í verðlagsnefndinni.

Okkur hefur skilizt það eða a.m.k. meiri hl. verðlagsnefndarinnar, að sá skilningur hafi verið lagður í júnísamkomulagið af hálfu hæstv. ríkisstj., að launaskattinum ætti ekki að velta yfir á neytendur. Þess vegna hefur það verið meginreglan, þegar verðlagsnefnd hefur tekið ákvarðanir um verðlagningu á þeirri framleiðslu, sem launaskatturinn hvílir á og háð er verðlagsákvæðum, að leyfa ekki verðhækkanir til samræmis við launaskattinn. Það hefur verið sú meginregla, sem fylgt hefur verið. Annað mál er það, að samkv. gildandi lögum um starfshætti verðlagsnefndar ber að gæta þess, að verðlagningunni sé þannig háttað, að það skapi starfsgrundvöll fyrir vel rekin fyrirtæki, eins og það mun vera orðað í l. um verðlagseftirlit, þannig að okkur er ekki heimilt að setja verðlagsákvæði þannig, að það valdi fyrirsjáanlegum taprekstri. Það væri hugsanlegt dæmi, að þannig stæði á, að það, að fyrirtækin tækju á sig launaskattinn, fengi bikarinn til að fljóta yfir í þessum efnum, og þá væri erfitt að komast hjá því að heimila fyrirtækjunum að hækka verðlagið með tilliti til hans. En ég minnist þess ekki, að slík dæmi hafi enn þá komið fyrir, þannig að segja má, að hin ríkjandi regla hafi verið sú, að launaskatturinn hefur ekki komið inn í verðlagið.

Hins ber auðvitað að gæta, sem hæstv. félmrh. tók fram, að það eru auðvitað ekki allar vörur og öll þjónusta, sem háð er verðlagsákvæðum, og þegar svo er, er það möguleiki, að fyrirtækin velti skattinum af sér yfir í verðlagið. Þó lít ég nú að vísu svo á, að það þurfi engan veginn að vera víst, að verðlagið sé látið hækka með tilliti til launaskattsins. Það verður háð aðstöðu viðkomandi fyrirtækja á markaðinum og hvaða reglum þau fylgja með tilliti til verðlagningar. Ef maður gerir ráð fyrir því, að þau fyrirtæki, sem þarna eiga hlut að máli, hafi áður verðlagt vöru sína þannig, að það gefi þeim sem mestan hagnað, eða með tilliti til þess, hvað markaðurinn ber, ætti það að vera þannig, að þau kæmu til þess að bera skattinn, því að eftirspurnin á markaðinum vex auðvitað ekki, þó að slíkur launaskattur sé lagður á, þannig að sölumöguleikarnir vaxa ekki. Hafi fyrirtækin hins vegar hagað verðlagningu sinni þannig, að þau taki ekki það hæsta verð, sem þeim er heimilt, getur launaskatturinn gefið þeim tilefni til þess að hækka vöruverðið sem honum nemur. Það er sem sagt komið undir atvikum, hvort launaskatturinn fer inn í verðlagið, þegar fyrirtæki eru óháð verðlagsákvæðum, en um það hljótum við að mínu áliti að vera sammála, hæstv. ráðh., að sá möguleiki getur verið fyrir hendi.

Ég taldi rétt að upplýsa þetta, fyrst málið hefur borið hér á góma.