01.03.1965
Efri deild: 47. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

3. mál, launaskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir, að ég fæ að taka til máls, þó að ég hafi í raun og veru lokið mínum rétti. En það, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði áðan, þegar hann kom með stærðfræði sína og hagfræði til skjalanna. Hann komst að þeirri niðurstöðu með dæmi, sem hann tók, að hafi hlutirnir verið þannig, að 300 þús. kr. þurfti til að byggja íbúð og 150 þús. kr. fengust að láni upp í það, og væri nú aftur svo, að 600 þús. þyrftu og 300 þús. fengjust, væri aðstaðan nákvæmlega sú sama og áður hefði verið. Stærðfræði er góð, en hún nær ekki öllu. Hagfræði er góð, en stundum er eins og hún sé aðeins til að gripa til hennar í viðlögum í og með. Lífið lætur hvorki stærðfræði né hagfræði marka sér bás eða reikna sig fullkomlega út. Og af því að ástandið er nú þannig, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft við dýrtíðinni betur en hún hefur gert, hefur hún ekki heldur haft við í þessum efnum. Sá hlutur, sem húsbyggjandinn þurfti að standa straum af utan lánsins, er erfiðari nú en hann var áður, vegna þess að lánamarkaðurinn hefur þrengzt og vegna þess að kaup hefur ekki stigið til jafnt við lífskostnaðinn og dýrtíðina. Þess vegna er þetta reikningsbókardæmi, sem hv. 10. þm. Reykv. lagði fram, ekki það, sem við getum látið gilda, þegar við erum að meta, hvers þarf í þessum efnum.

Hv. 4. þm. Vestf. vildi halda því fram, að hann hefði ekki farið með neitt skrum við 2. umr. þessa máls hér í d. Ég veit nú ekki, hvað hann metur skrum hjá öðrum, en mér virðist, að það sé örðugt að afsanna það, að nokkuð hafi kennt skrumsins hjá honum, og mér finnst líka, að glöggt dæmi um það hafi verið leiðari í Morgunblaðinu, sem tók upp úr ræðu hv. þm. og taldi það eitt af því, sem hægt væri að lofa núv. ríkisstj. fyrir, hvernig hún hefði séð fyrir þessum málum. Og enn er það áframhaldandi skrum, sem hv. þm. gerir sig sekan um, þegar hann reiknar prósenthækkun á lánum fyrr og nú og ber saman við prósenthækkun á byggingarkostnaði. Hann vill vitanlega hafa reikningsbókaraðferðina, sem hv. 10. þm. Reykv. vildi nota, en hann blandar þannig málin með skrumi, að hann tekur ekki nema 70 þús. kr. lán, þegar hámarkið var 100, og ber saman við 150 þús. kr. lánið nú og fær þá út 114% í hækkun lánanna. Raunveruleikinn er ekki þetta, og þetta er í raun og veru að leitast við að gylla það, sem er ekki gull. Ef hann hefði farið rétt með, hefði hann átt að segja: Byggingarkostnaðurinn hefur hækkað um 64%, en lánin um 50, — og viðurkenna, að einnig frá því sjónarmiði hallaði á.

Annars finnst mér ekkert athugavert við það, þó að þessar umr. hafi dálítið tognað. Ég tel, að hv. 4. þm. Vestf. hafi gefið tilefni til þess, en ásaka hann ekkert fyrir það, vegna þess að mér virðist, að í þessum umr. hafi það komið fram, að greinilegt er, að hið svonefnda stjórnarlið má gera betur en það hefur gert til þess að standa sig eins og þörf er á og eins og aðstaða ætti að vera til, svo sem nú er komið háttum og tekjuöflun þjóðarinnar.