19.11.1964
Neðri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

58. mál, innlent lán

Frsm. meiri hl (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það um heimild fyrir ríkisstj. til að taka innlent lán, sem hér liggur fyrir, er flutt af hæstv. ríkisstj. í Ed. og hefur verið samþykkt þar. Fjhn. þessarar hv. d. hefur fjallað um málið, svo sem fram kemur í nál. á þskj. 98, og ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Eins og þar kemur fram, mun einn nm., hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, skila séráliti, sem er á þskj. 96.

Það hefur tíðkazt mjög í mörgum löndum, þar sem verðlag hefur verið sæmilega stöðugt, að afla fjár til ýmissa framkvæmda á vegum hins opinbera með því að bjóða út skuldabréfalán. Hér hjá okkur hefur þetta verið lítið notað nú um langa hríð, og eins og segir í aths. við lagafrv., er ein meginástæðan til þess sú, að verðlag hefur verið hér mjög óstöðugt nú um langt skeið og þess vegna ekki líklegt, að menn mundi fýsa að festa sparifé sitt í slíkum skuldabréfum. Nú hefur orðið á þessu nokkur breyting, þannig að segja má, að verðlag sé nú nokkru stöðugra en áður. En samkv. þessu frv. er þó einnig gert ráð fyrir því að fara hér nokkuð nýja leið í sambandi við útgáfu þessara skuldabréfa, þ.e.a.s. að skuldabréfin verði verðtryggð, svo sem getið er í 2. gr. frv., þ.e.a.s. með því að binda vexti af bréfunum og afborganir vísitölu. Það er von manna, að þetta geti orðið til þess að afla fjár á þennan hátt, og væri mjög æskilegt fyrir ríkið að þurfa þeim mun minna að leita á náðir lánsstofnana um fjáröflun til nauðsynlegra framkvæmda. Því verður það að teljast, að þetta nýmæli, sem hér er upp tekið, hafi ýmsa þá kosti, sem gera mjög æskilegt, að það verði reynt til hlítar, hvort hér er ekki um æskilega og vænlega leið að ræða til þess að afla slíks fjár.

Meiri hl. n., eins og ég sagði, hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv., þó með einni breytingu, sem er ekki efnisbreyting. Það er í 3. gr. frv. vísað til 1. nr. 70 1962, það eru lög um tekjuskatt og eignarskatt. Nú var það á s.l. Alþingi, að samþykktar voru breytingar á þeim 1. frá 1962 og þær síðan felldar inn í meginmál hins gamla frv. og 1. gefin út að nýju hinn 17. júlí s.l., þannig að eðillegra virðist vera að vísa nú í þessum l. til þeirra l., sem þá voru gefin út, þau eru nr. 55 1964, og því er þessi brtt. flutt, að í stað „70 1962“ í 3. gr. komi: 55 1964. Þessi villa, sem hér hefur slæðzt inn, á sér sína eðlilegu skýringu í því, að þetta frv. mun hafa verið tilbúið nokkru áður en ný skattalög voru gefin út, og var þá að sjálfsögðu við samningu frv. vísað til þeirra l., sem þá voru í gildi, en hafði síðan láðst að breyta því, eftir að hin nýju lög voru gefin út.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta, og eins og ég sagði, þá leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.