15.12.1964
Efri deild: 30. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

102. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv., sein hér er til umr., er einn meginkjarninn í þeirri löggjöf, sem búskapur hvílist yfirleitt á, því að þessi löggjöf, jarðræktarlögin, eins og þau hafa verið og eins og þau eru lögð hér fram, þjóna tvenns konar tilgangi í land

búnaði. Annars vegar marka þau stefnuna í leiðbeiningastarfsemi innan landbúnaðarins undir starfsemi Búnaðarfélags Íslands og héraðsráðunautanna undir starfsemi búnaðarsambandanna í landinu. Hins vegar markar þessi löggjöf það framlag, sem ríkið greiðir til vissra framkvæmda innan landbúnaðarins, svo að hér er ekki um þýðingarlitið málefni að ræða. Það er nokkuð öruggt, að þegar jarðræktarlögin voru sett í upphafi, 1923, þá var meginkjarni þeirra að styrkja bændur til framkvæmda, að reyna að gera þeim kleift að notfæra sér þá tækni, sem tímarnir buðu þá upp á, en að vísu var miklu ófullkomnari en nú þekkist. Og þessi löggjöf hefur m.a. verið virkur þáttur í því að ýta undir alla tækni, sem landbúnaðinum hefur mátt verða til góðs á undanförnum árum. Það er því ekki undarlegt, þó að þessi löggjöf hafi komið einstaka sinnum til endurskoðunar, og margan undrar á því, hversu lengi það hefur dregizt nú að endurskoða jarðræktarl., ekki sízt, þegar litið er til þess, hversu gífurlegar verðlagsbreytingar hafa verið í landinu að undanförnu. Þeim mun ríkari ástæða hefði verið til að hraða miklu meira en reynslan hefur sýnt endurskoðun þessarar löggjafar.

Búnaðarfélagi Íslands var það þegar ljóst snemma á árinu 1960, eftir að hin nýja ríkisstj. hafði setzt að völdum og fellt gengið og sett efnahagsmálalöggjöfina, að jarðræktarlögin gátu ekki staðið óbreytt áfram, ef þau áttu að þjóna bændastéttinni jafnvel og þau höfðu áður gert. Þess vegna var það eitt af fyrstu verkum þess búnaðarþings, sem þá kom saman, í ársbyrjun 1961, að skipa mþn. til að endurskoða jarðræktarl. Og aðalverkefni n. átti að vera það að færa jarðræktarl. til samræmis með framlög þess opinbera miðað við það, sem þau hefðu verið, áður en efnahagsmálalöggjöfin hafði verið sett.

Hæstv. landbrh. kom inn á endurskoðun laganna, hver gangur hefði verið í þeim efnum á undanförnum árum. Það er búið að skipa margar nefndir til að fjalla um þessa löggjöf, fyrst mþn. búnaðarþings, og 1962 skipaði hæstv. landbrh. menn til þess að endurskoða löggjöfina. En enda þótt stjórnskipuð nefnd hefði skilað álíti í málinu, fékk það ekki framgang, þannig að það kom ekki fram á sjónarsviðið samt sem áður, og held ég þó, að það hafi verið samkomulag hjá þeirri nefnd um meginbreytingar á löggjöfinni.

Það er margsinnis búið að ýta á eftir endurskoðun jarðræktarl. af Búnaðarfélagi Íslands og búnaðarþingi, og það hefur einnig verið gert af einstaka þm. hér á hv. Alþingi, en eigi hefur það borið neinn verulegan árangur. En á s.l. hausti skeður það, að þegar verið er að semja um verðlag á landbúnaðarafurðum, þá blandast inn í málið þau framlög, sem ríkið greiðir til vissra framkvæmda í landbúnaðinum, og það loforð er gefið, að jarðræktarframlög skuli hækka um sem næst 30% miðað við þær framkvæmdir, sem voru gerðar á árinu 1963. Og þetta var sá grundvöllur, sem stjórn Búnaðarfélags Íslands og hennar starfsmenn ásamt Landnámi ríkisins höfðu að leiðarljósi við endurskoðun jarðræktarl. og þetta frv. grundvallaðist á í meginatriðum. En á það vil ég benda, og það er vert, að það komi strax fram, að það er tekið fram í þessu frv., sem er lagt fram af hæstv. ríkisstj., með leyfi forseta:

„Á tímabilinu frá 1959 til og með 1964 hefur kostnaður við ræktun túna úr mýrlendi, svo að eitt dæmi sé tekið, hækkað úr 8190 kr. í 14389 kr. eða um tæp 76% á ha samkv. virðingu Landnáms ríkisins vegna lántöku bænda úr ræktunarsjóði.“

Mér kemur því kynlega fyrir sjónir sá útreikningur, sem hæstv. ráðh. talaði hér um í ræðu sinni. Honum ber engan veginn saman við það, sem gefið er í skyn í því frv., sem hér liggur fyrir framan okkur á borðinu og er lagt fram af hæstv. ríkisstj. Á sama tíma og jarðræktarframlögin eiga að hækka að meðaltali um 30%, stendur það skýrum stöfum, að framlögin hafa rýrnað það mikið, að þau hafa rýrnað um 76% síðan 1959, þannig að það er rösklega þriðjungur af hækkuninni, sem á að taka inn í þetta frv., sem hér er til umr. Á þetta vil ég benda, og ég hygg, að þær tölur, sem í frv. standa, fái staðizt, þegar þær eru kannaðar reikningslega. En ég er ekkert að efast um það, að samkomulag hefur orðið í meginatriðum um þetta mál á milli þeirra aðila, sem áttu að endurskoða þetta, út frá þeim sjónarhól eða vettvangi, sem þessum aðilum var falið að endurskoða löggjöfina. Um það skal ég ekki deila. En það er ýmislegt, sem þó er vert að benda á í þessu frv. Það er í fyrsta lagi, að það, sem jarðræktin grundvallast í meginatriðum á hjá allflestum landsmönnum, framræsla lands og þurrkun lands, sá liðurinn, sem jarðræktin hvílir að megninu á, hækkar langminnst eða úr 65% í 70%, og er það, held ég, eini liðurinn, sem hækkar jafnlítið. En það líður langur tími, frá því að land er þurrkað og grafið, framræst, sem kallað er, þar til full afnot koma af því. Þess vegna er það tilfinnanlegt fyrir bændur að verða að leggja í jafnmikinn kostnað sjálfir og fá ekki arðinn af þeim kostnaði fyrr en eftir mörg ár. Og þess vegna finnst mér, að hér hefði þurft að stíga skrefið lengra en gert er, að þessi liður hefði einnig mátt hækka um 30%, eins og margir aðrir liðir þessa frv. Og á það er vert að benda, að bændur hafa beðið stórfellt tjón af þeim völdum, milljónatugi er óhætt að segja. Enda þótt ég geti ekki nefnt nákvæmar tölur, þá er óhætt að segja, að þar sé um að ræða milljónatugi. Og þeir aðilar, sem staðið hafa í umbótum á undanförnum árum og hefðu átt að fá þessa milljónatugi, fá þá aldrei. Þeir eru búnir að gera sínar framkvæmdir og til þeirra ná þessi framlög ekki.

En hvað hefur orðið um þessa milljónatugi? Það skal ég ekkert segja um, en næst er að álykta, að þeir hafi horfið í dýrtíðarhít hæstv. ríkisstj. í stað þess að græða upp landið, eins og þessi löggjöf, sem hér er til umr., gerði ráð fyrir frá upphafi vega, að hún var lögfest.

Það er vitað mál líka, að allur byggingarkostnaður í landinu hefur hækkað geysimikið síðan 1959, og þau framlög, sem hafa verið greidd til þeirra umbóta, hafa skammt hrokkið og þau munu skammt hrökkva með þeim hækkunum, sem hér er lagt til, enda þótt í því sé kannske nokkur bót frá því, sem verið hefur.

En það er líka, eins og hæstv. ráðh. minnti á, einkennilegt, að þýðingarmikill liður, sem tekinn hefur verið upp í þetta frv., skuli hafa verið felldur út af hæstv. ríkisstj., að mér skilst, það er til vatnsveitna. Nú er það svo, að einstaka aðilar fá framlag eða lán frá því opinbera, ef þeir verða að leggja í kostnaðarsamar framkvæmdir við vatnsveitur og vatnsöflun til heimilanna, sem er nú miklu kostnaðarsamari og líka miklu nauðsynlegri en var áður fyrr, og það er ekki sízt mjólkurframleiðslan, sem hefur krafizt þess, að alltaf væri til staðar nægjanlega mikið og gott vatn á hverju heimili, auk þess sem það er nauðsynlegt fyrir allt heimilisfólk, að þar sé enginn skortur á hvað allar heilbrigðisráðstafanir snertir. Þess vegna vildi ég mælast til þess, að hæstv. landbrh., — ég segi ekki, að hann þurfi að endurskoða sína afstöðu, því að ég geri ráð fyrir, að hann sé sjálfur persónulega ekki mótfallinn þessu, heldur að hann beiti áhrifum sínum til þess, að þessi liður komist aftur inn í frv. og við getum þegar tekið hann inn í þetta sinn og byrjað að létta undir með þeim bændum, sem leggja í kostnaðarsamar vatnsveitur heima hjá sér. Það eru margir, sem verða að leiða vatnið marga km og kannske yfir hallalítið land, þar sem þarf að kaupa dýrar vatnsleiðslupípur og kostnaðurinn það mikill, að það er næstum útilokað fyrir bændur eina saman án nokkurs tilstyrks eða nokkurra hagstæðra lána í því skyni að leggja af mörkum það, sem til þarf, nema bíða af því verulegan fjárhagslegan skaða. Þess vegna er nauðsynlegt, að þetta ákvæði verði tekið inn í þessa löggjöf, einmitt inn í jarðræktarl. En ég vil í þessu sambandi benda á, að hér hafa þm. á undanförnum árum flutt till. í þessum efnum, enda þótt þær hafi ekki náð fram að ganga, og því æskilegt, að þeir, sem áhrif hafa í þessum efnum, beiti sér fyrir því, að annar eins nauðsynjaliður og þessi verði þegar upp tekinn.

Ég ræddi um það nokkkuð í sambandi við frv., sem var hér til umr. fyrir nokkru, frv. til l. um búfjárrækt, að ráðunautastarfsemin í landinu væri svo þýðingarmikil, að þar bæri ríkinu að koma eins langt á móts við búnaðarsamböndin og unnt væri. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þeirri hækkun, sem er í þessu frv. til jarðræktarráðunauta, 65% af þeirra launum verði greidd af því opinbera. En launin eru í mörgum tilfellum minni kostnaðarliður hjá búnaðarsamböndum en ferðakostnaðurinn, og því hefði verið mjög æskilegt, að ríkið hefði getað tekið á sig jafnmikið í launum ráðunautanna og í ferðakostnaðinum, jafnmikið hvort tveggja. Og 800 þús., enda þótt það eigi að renna til búnaðarsambandanna í þessu skyni, eins og hæstv. ráðh. hefur getið hér um, það er ekki stór upphæð. Þegar farið er að skipta henni á milli allra búnaðarsambanda landsins, þá segir það litið upp í þann kostnað, sem búnaðarsamböndin verða að taka á sig vegna þessarar þjónustustarfsemi, sem er nauðsynleg og útilokað með öllu að ganga þar skref til baka frá því, sem verið hefur, en aftur á móti þarf þessi starfsemi að eflast til mikilla muna.

Ég fagna því, að ný og betri vísitala virðist vera sett í þetta frv. eða betra fyrirkomulag en verið hefur, og vona ég, að það muni svo reynast í framtíðinni eins og til er ætlazt. En nokkuð er maður þó hvekktur orðinn á þessum vísitölum, vegna þess að það má að sjálfsögðu finna þær eftir ýmsum leiðum. Og ég vænti, að þeir aðilar, sem eiga að finna leið til að reikna út þá vísitölu, sem hér er getið um, finni þá réttu leið, sem jafnan getur fært bændunum það hlutfall, sem þeir eiga að hafa samkv. þessari löggjöf frá opinberum aðilum. En öruggari og tryggari leið í þessum efnum er sú, sem við framsóknarmenn höfum lagt til í okkar jarðræktarlagafrv., sem liggur fyrir hv. Nd. og er 46, mál Alþingis. Þar er í öllum greinum lagt til, að ríkið greiði visst hlutfall af kostnaði framkvæmdanna og vissum aðilum sé falið að reikna það út árlega, hver kostnaðurinn er, en það eru Búnaðarfélag Íslands, Teiknistofa landbúnaðarins, sem eiga að láta sína sérfræðinga meta árlega kostnaðinn við hverja framkvæmd fyrir sig eða líkt og gert er nú, þegar verið er að virða framkvæmdir til lántöku hjá stofnlánadeild landbúnaðarins. Þetta tel ég miklu öruggari og betri leið til þess að ná því marki, sem hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. virðast vilja ná með þeirri vísitölu, sem nú er sett inn í það frv., sem hér liggur fyrir. En hitt er líka óþolandi, ef vísitala er fastsett með sérstakri löggjöf og getur alls ekki þjónað sínum tilgangi, eins og gert var 1960 og bændastéttin hefur orðið að liða stórkostlega fyrir á fjölmörgum sviðum.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að lagasetningin frá í fyrra, breytingarnar á l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, sá kaflinn, sem snýr að Landnámi ríkisins og 25 ha ákvæðinu, hafi orðið til þess að ýta við bændum til þeirra framkvæmda. Það er nú svo. Það kann vel að vera, að það þurfi að ýta við bændum. En sannanlega hefur ekki veitt af því að ýta við hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, því að hún hefur verið ákaflega svifasein, þegar um landbúnaðinn er að ræða, og það sannar þessi lagasetning kannske einna bezt. Þess vegna er það, að bændastéttin býr nú við mun lakari aðstöðu í þjóðfélaginu en nokkru sinni áður. Og ég vonast eftir því, að bændasamtökin í landinu, sem hafa sterka aðstöðu í þessum efnum, að ýta við stjórnarvöldum landsins, beiti starfsemi sinni í þeim efnum, því að sannarlega veitir ekki af að ýta við þeim háu herrum, sem þar ráða ríkjum, svo að eitthvað kunni að fást til hagsbóta bændastéttinni. Drátturinn á endurskoðun jarðræktarl. sýnir fyrst og fremst seinaganginn í þessum efnum, en enginn hefur deilt um það, að nauðsynlegt hafi verið að hefja endurskoðun á þessari löggjöf. Þess vegna ber að fagna því, að það hefur þó tekizt að ýta svo við hæstv. ríkisstj., bæði af einstökum þm. og stéttasamtökunum í landinu og búnaðarfélagsskapnum í heild, að hún hefur ekki séð sér fært annað en leggja jarðræktarlaga- og búfjárræktarlagafrv. fram á hv. Alþingi, enda þótt hún gangi þar á allan hátt miklu skemmra en óskir og vonir bændastéttarinnar hafa staðið til.

20 millj. kr. eru ekki stór upphæð, þegar á að skipta þeim niður á 6000 bændur í landinu og framkvæmdir þeirra. Það er ákaflega lítill hluti af öllum þeim kostnaði, sem bændastéttin leggur í árlega. En mér fannst tónninn í ræðu hæstv. ráðh. vera sá, að hérna væri gert vel, hérna væri verið að færa bændunum 20 millj. fram yfir það, sem þeir hefðu haft, og sannarlega ber að fagna þeirri upphæð, svo langt sem hún nær. En hún nær allt of skammt. Það skemmsta, sem hægt er að ganga í þessum málum, er að samþykkja það frv., sem við höfum flutt, framsóknarmenn, hér á hv. Alþingi.