10.11.1964
Efri deild: 13. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

51. mál, hreppstjórar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ein elzta félagslega heildin í þjóðfélagi okkar Íslendinga er hreppurinn, og Grágás, sem er elzta lögbók Íslendinga, hefur nokkur ákvæði um skipan hreppanna og hlutverk þeirra, og með setningu tíundarlaganna 1096 var einnig aukið hlutverk hreppanna og þeim falin forusta í framfærslumálum sveitanna sérstaklega. Í okkar fornu löggjöf eru einnig mjög merk lagaákvæði í sambandi við hreppana, fyrir utan framfærsluskylduna, um tryggingamálin sérstaklega, sem talið er að hafi ekki þá átt sér neina hliðstæðu í samtímalöggjöf nágrannaríkja okkar.

Það er einkennandi, að sjálfstjórn hreppanna var mjög mikil eða segja má alger í hinu forna þjóðveldi innan tiltekinna marka, sem landslög settu, því að það var ekkert stjórnvald sett yfir þá fyrstu aldirnar, eftir að land byggðist, umfram allsherjarvaldið, sem var hjá Alþingi, eins og kunnugt er, en allsherjarframkvæmdavald nær ekkert. Hrepparnir, má segja, að hafi verið undirstaðan, hreppaskipting og meðferð hreppsmálefna undirstaða og upphaf sveitarstjórna hér á Íslandi.

Þegar Jónsbók var lögtekin 1281, voru flest ákvæði Grágásar svo og eldri lagasetningar um framfærslu og aðra starfsemi hreppanna tekin upp í hana, og fór svo um aldir, að ákvæði Jónsbókar um hlutverk hreppanna héldust óbreytt að heita mátti, allt til ársins 1781, en þá er sú breyting gerð, að með konungsbréfi var allt vald í ýmsum málefnum hreppanna, ýmsum tilteknum málum og þar á meðal í framfærslumálum einnig, fengið í hendur sýslunefndarmönnum, en hreppstjórar fara þá með vald í umboði þeirra.

Síðan má segja, að lítil breyt. hafi verið gerð á málefnum hreppanna þar til árið 1907, er ný sveitarstjórnarlög voru sett. Eins og ég sagði áðan, snerta hin fornu lög okkar um hreppana fyrst og fremst sveitarstjórnarmálin, en það er vegna þess, að allsherjarvald ríkisins var þá lítið sem ekkert.

Hin almenna löggjöf um sveitarstjórnarmál á Íslandi hefur verið mjög dreifð þar til nýlega, að sett voru heildarlög um þau efni, og þau komu til framkvæmda 1. jan. 1962. En þau lög höfðu ekki nein bein ákvæði um störf hreppstjóranna, elns og eðlilegt er, þar sem þeir voru fyrst og fremst umboðsmenn framkvæmdavaldsins — allsherjarframkvæmdavaldsins.

Þetta hefur aðeins verið rifjað upp vegna þess, að hér er fjallað um einn þeirra tiltölulega fáu þátta í stjórnarfarsmálefnum okkar, sem á sér óslitna ævaforna erfðavenju. Og þó að sveitarstjórnarmálefnin séu nú á dögum að miklu leyti í höndum oddvitanna og hreppsnefndanna, þá eru störf hreppstjóranna enn afar þýðingarmikil fyrir dreifbýlið í landinu. Það má segja, að nú á dögum bresti að mestu lagaákvæði um hreppstjórana og störf þeirra. Helztu ákvæði eru í gamalli reglugerð frá 29. apríl 1880. Það er eins og vænta má, að reglugerðin er ekki lengur í sem beztu samræmi við starfsháttu nútímaþjóðfélags og ýmislegt, sem öðruvísi mætti vera og betur fara. Ég hef hins vegar álitið, að enn væru hættir þannig í byggðaskipun, að æskilegt væri að viðhalda áfram þeirri skipan, að hreppstjórar annist tiltekin og óhjákvæmileg störf í þágu framkvæmdavaldsins og í þágu almennings.

Það hefur því þótt nauðsynlegt að setja nýjar reglur um störf hreppstjóranna og aðhæfa þau sem bezt nútímaaðstæðum og reyna jafnframt að hagnýta störf þeirra sem bezt, en kunnugt er, að fjöldi góðra og hæfra manna skipa þessar stöður í dag og hafa löngum skipað þær. Það varð því að ráði að taka til meðferðar í dómsmrn. undirbúning að frv. til l. um hreppstjóra, sem hér liggur fyrir, og í það eru tekin helztu almennu atriðin, sem varða stöðu hreppstjóranna. Það er hins vegar gert ráð fyrir því, að þessari löggjöf fylgi síðar reglugerð, sem mundi kveða nánar á um einstök og sundurliðuð atriði starfa þeirra, sem væru þess eðlis, að betur eigi heima í reglugerð en löggjöfinni sjálfri.

Það má segja, að ástæðan fyrir því, að ég efndi til þessarar endurskoðunar, var nauðsynin á að lagfæra laun hreppstjóranna. En eftir að sú athugun hófst, fannst mér eðlilegra að hafa endurskoðunina nokkru víðtækari, og niðurstöður þess koma fram í því frv., sem hér liggur fyrir.

Ef við víkjum að nokkrum atriðum frv., sem telja má nýmæli og rétt er að gera grein fyrir nú, þá er það fyrst í 2. gr., að þar er sagt, að þegar starf hreppstjóra losnar, þá skuli sýslunefnd kjósa hlutbundinni kosningu, ef óskað er, 3 íbúa í hlutaðeigandi hreppi til hreppstjórastarfs, og skipar sýslumaður einn þeirra hreppstjóra. Það eru í raun og veru ekki nýmæli í þessu. Það er þannig nú, að sýslunefndirnar eiga að tilnefna 3 menn, en er sagt berum orðum hér, að það skuli kjósa þessa menn hlutbundinni kosningu, ef óskað er. Það má

segja, að í raun og veru sé það meginregla, sem gildi í sambandi við þessi mál, ef leitt er frá margs konar hliðstæðum ákvæðum um sveitarstjórnarmál, og hygg ég, að það hafi verið framkvæmt í víssum tilfellum einnig svo. En ég taldi miklu eðlilegra, að bein ákvæði væru um það, ef þess væri óskað í sýslunefnd, að hlutfallskosning væri við höfð, og í samræmi við almennar reglur um sveitarstjórnarmál.

Í 3. gr. eru almenn ákvæði, sem hreppstjórar þurfa að uppfylla til stöðunnar, og er ekkert sérstakt eða nýtt um það að segja.

Í 4. gr. eru ákvæði um það, að heimilt skuli í reglugerð að setja ákvæði um aldurshámark fyrir hreppstjóra að fenginni umsögn sýslunefndar þar um. Það eru engin ákvæði um aldurshámark hreppstjóra nú, en hins vegar eru störf þeirra þess eðlis og svo þýðingarmikil, að það er kannske ástæða til þess að setja ákvæði um aldurshámark, t.d. lögreglustjórn, að svo miklu leyti sem hún er framkvæmd í umboði sýslumanns, og kynni kannske að vera ástæða til að gera það eitthvað í ríkari mæli, þá er það náttúrlega vafasamt, þegar menn eru komnir yfir hið almenna aldurstakmark, 70 ára aldur, að það verði ekki annmarkar á því að uppfylla þá skyldu, sem þeim kynni að verða á herðar lögð. Ég hef hins vegar ekki lagt til, að þetta verði beint ákveðið í frv, um aldurshámarkið, að hin almenna regla um aldurshámark embættismanna skuli um það gilda, heldur gert ráð fyrir því, að ráðh. hafi heimild til að ákveða þetta, en mundi þó áður fá umsögn þeirra, sem gerst til þekkja, sýslunefndanna og þar á meðal auðvitað sýslumannanna, um þetta mál. Ég veit ekki, hvað hv. n., sem fær þetta til meðferðar, kann um þetta að sýnast, og kemur sjálfsagt til álita að ákveða beinlínis aldurshámarkið. Það mundi ég láta í hendur n. að ákveða um, ef henni sýndist svo. Hef ég ekkert við það að athuga, að því verði breytt, en fannst að sumu leyti, að eðlilegt gæti verið að hafa þennan hátt á.

Í 6. gr. eru ákvæði um störf hreppstjóra, og hún er ekki ýtarleg, eins og hv. þm. sjá. Það er sagt, að þeir séu umboðsmenn sýslumanns hver í sínum hreppi, þeir fari með lögregluvald, annist innheimtu opinberra gjalda, fógetagerðir og fleiri störf í umboði sýslumanns, svo og önnur störf, eins og þar stendur, sem nánar kann að vera kveðið á um í reglugerð.

Sem dæmi um störf hreppstjóra má nefna það, að þeir fara með lögregluvaldið að vissu leyti í umboði sýslumannsins, annast fógetagerðir, uppskriftir búa og halda uppboð. Hreppstjórar eru og úttektarmenn. Þeir standa fyrir utankjörfundarkosningu og eru oddvitar undirkjörstjórna. Jafnframt annast hreppstjórar fjölmörg önnur störf, sem varða héraðsmálefni almennt; svo að í reyndinni má segja, að þeir séu á margan annan hátt, sem hvorki er ákveðið í lögum né reglugerð, fyrirsvarsmenn í hreppi sínum, sem byggist þá á fornri hefð og venju. En eins og ég vék að áðan, hefði ég talið eðlilegra, að öll nánari ákvæði um störfin, framar því, sem tiltekið er í þessari grein, yrðu síðar, að frv. samþykktu, ef að lögum verður, sett í reglugerð.

Þá vil ég koma að ákvæðinu um laun hreppstjóra í 7. gr. Það er vikið að því í athugasemd við gr., hver laun hreppstjóra hafi verið fyrir fardagaárið 1963—64. Það eru 5778 kr. fyrir hreppstjórastarf í hreppi með 100 íbúa eða færri, en síðan hækkuðu þau um 693 kr. fyrir hverja byrjaða 50 íbúa. Þar segir einnig, að fram á síðustu ár hafi launin hækkað í samræmi við almennar launabreytingar ríkisstarfsmanna, en eftir að launaákvæði kjaradóms komu til. framkvæmda, hafa launin verið hækkuð um 1.5% aðeins, og var það gert til bráðabirgða.

Bæði vegna launahækkana opinberra starfsmanna á árinu 1963 og einnig vegna þess, að talið hefur verið, að í launum hafi hreppstjórar dregizt nokkuð aftur úr, þá er nú lagt til að hækka launin í 7500 kr. í minnstu hreppunum, innan við 100 íbúa, og hækkunin vegna hverra 50 íbúa verði 900 kr. í stað 693 kr. áður. Þetta er innan við 50% hækkun á launum hreppstjóranna frá því, sem áður hefur verið.

Í minnstu hreppunum, sem eru innan við 100 íbúa, mundu launin þannig verða, eins og ég sagði, 7500 kr., árslaunin, í hreppum með 100—150 íbúa 8400 kr. og síðan hækka um 900 kr. við hverja 50 íbúa, þannig að þegar hrepparnir eru t.d. komnir upp í 800 íbúa, eins og t.d. Vopnafjörður og Ölfushreppur, þá eru launin orðin 20 000 kr. með þessu ákvæði og hækka upp í 22 þús., en voru 15 480 kr., þegar þau síðast voru greidd. Ef hreppur er kominn upp í allt að 1500, segjum eins og Njarðvíkurhreppur t.d., þá yrðu launin 31 800 kr. Og stærsti hreppurinn, sem er Selfosshreppur, sem er með allt að 2000 íbúa, þá mundu launin verða 41 700 kr. og geta komizt upp í 46000 kr., en í þeim hreppi gátu launin hæst komizt upp í 34 500 kr. En þetta er yfirleitt rétt innan við 50% launahækkun frá því, sem verið hefur.

Ef litið er á þetta í sambandi við aðra flokka, þá vil ég geta þess, að 1947 eru hreppstjórar í hreppi með innan við 100 íbúa eða færri með í árslaun 500 kr. Þá voru lögreglumenn með 500 kr. á mánuði og gátu farið upp í 700 kr. á mánuði á 6 árum, en árslaun hreppstjóranna 500 kr. Nú 1964 eftir kjaradóminn eru lögreglumenn með mánaðarlaun 7430 kr. og geta farið upp í 9040 kr. á 15 árum. Ef hreppstjórar hækka til jafns við lögreglumennina, er þetta nokkurn veginn það sama. Hér er lagt til 7500 kr. í minnstu hreppunum, en eins og ég sagði, þá eru lögreglumennirnir með 7430 kr. á mánuði og upp í 9040 kr. og hlutfallið yrði þá svipað og það var 1947. Það er eilítið hærra, hækkunin, en hjá Dagsbrúnarmönnum. Nú skal ég ekki segja, hvort endilega á að bera saman við Dagsbrúnarmenn og lögreglumenn, enda er það lítið eitt hærra, og ég hef alltaf haft virðingu fyrir hreppstjórunum og stöðu þeirra og hef þess vegna lagt til, að þetta væri ívið hærra, eða 7500 kr.

Það kemur til álita, hvaða áhrif þetta hefur á fjárgreiðslur ríkisins. Þá sjáum við, að litlu hrepparnir eru langflestir. Hreppar, sem eru innan við 100 íbúa, eru 40. 36 hreppar eru innan við 150 íbúa, þ.e.a.s. á bilinu frá 100—150. Á bilinu frá 150—200 eru líka 36 hreppar og 24 á bilinu frá 200—250 íbúa, 14 á bilinu frá 250—300 og 15 á bilinu 300—350 íbúa. Svo fer þeim að fækka hreppunum, og það eru 7 hreppar á bilinu frá 400—450 og 7 á bilinu 450—500. Síðan eru 12 hreppar á bilinu frá 500 upp í 1000 íbúa. Á bilinu 1250—1500 eru aðeins 2 hreppar, 1 hreppur á bilinu 1500—1750 íbúa og aðeins einn hreppur yfir 1750 íbúa eða á bilinu 1750—2000, það er Selfosshreppur, sem ég nefndi áðan, og Seltjarnarneshreppur er annar stærsti hreppurinn. Þetta mundi í heild hafa þau áhrif, að laun hreppstjóranna mundu verða, ef þetta yrði samþykkt, 2 409 500 kr., en eru í fjárlagaáætluninni fyrir 1965 2 070 000 kr. og þyrfti því heildarupphæðin að hækka um 339 500 kr. eða tæpar 340 000 kr. Eins og nú standa sakir, eru hreppstjórarnir alls 214 í landinu, og áhrifin verða þá í heild þessi, sem ég hef nú greint.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv., en vildi mega vona, að með því mundi komast á nokkru betri skipan um málefni hreppstjóranna og þá launagreiðslur til þeirra sér í lagi.

Að svo mæltu vildi ég mega leggja til, að málinu yrði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.