18.03.1965
Efri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

51. mál, hreppstjórar

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. og mælir einróma með því, að það verði samþ. óbreytt. Frv. að efni til miðar að því að setja heildarákvæði um störf hreppstjóra, sem ekki hafa áður verið í l., heldur dreifð ákvæði annars vegar um laun hreppstjóra og hins vegar gamalt reglugerðarákvæði um störf hreppstjóra. Það þykir eðlilegt, að þetta verði sameinað í ein lög, þar sem saman eru dregin öll þau meginatriði, sem máli skipta varðandi hlutverk og störf hreppstjóra og jafnframt laun þeirra, og er í lögunum gert ráð fyrir töluverðri launahækkun til hreppstjóra, enda miðað við þau störf, sem þeir víða hafa, þú eru launin orðin í fullu ósamræmi við þau verkefni, sem þeir þurfa að sinna.

Ég sé ekki ústæðu til þess að ræða frv. að öðru leyti efnislega. Hæstv. dómsmrh. gerði grein fyrir því, þegar það var lagt fyrir.

En ég vildi leyfa mér, herra forseti, að mæla um leið fyrir næsta frv. á dagskrá, sem er um skipti á dánarbúum og félagsbúum, þar sem það er í framhaldi af þessu frv. um hreppstjóra, því að það atriði hefur áður verið í l. um laun hreppstjóra og aukatekjur, sem eru felld úr gildi með frv. um hreppstjóra, og er því þetta frv. efnislega um það eitt, að ákvæði um þóknun til hreppstjóra fyrir skipti á dánarbúum og félagsbúum verði tekin inn í þá löggjöf. Það er hin eina efnisbreyting í því sambandi, þar sem hin lögin eru úr gildi felld. Og n. mælir jafnframt með því, að það frv. verði samþ. óbreytt.