18.03.1965
Neðri deild: 56. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það má segja, að frv. þetta sé að nokkru leyti tvíþætt. Það eru í fyrsta lagi ákvæði um aðstoð við sjávarútveginn, og í öðru lagi er það tilkynnt í aths., að eigi að lækka fjárframlög til verklegra framkvæmda um ca. 20%. Ég skal ekki blanda mér í þær deilur, sem hér hafa orðið út af ýmsu, sem er óviðkomandi frv. að meira eða minna leyti. En aðstaða okkar norðanlands er dálítið sérstæð hvað sjávarútveginn snertir. Það hefur verið litill afli, og auk þess höfum við frekar verið að reyna að gera út á línu en ýmsir aðrir landsmenn. Austfirðingar hafa haft sérstöðu nú í tvö ár hvað snertir síldveiðarnar, síldin hefur verið þar. Vestfirðingar hafa talsvert mikla erfiðleika, einkum norðan til. Þó er það svo, að beztu línumiðin virðast vera á Patreksfirði og jafnvel á sumum höfnum Snæfellsness. En norðanlands er ástandið þannig, að ég sé ekki, að það verði gert út á línu, nema veitt verði meiri aðstoð en hér er talað um, annaðhvort í gegnum aflatryggingasjóð eða þá með beinum framlögum úr ríkissjóði. Þessir 25 aurar hrökkva ákaflega skammt, og ég veit, að það nær jafnt til Norðurlandskjördæmis eystra og Norðurlandskjördæmis vestra. Afli línubáta hefur verið ca. 60-70 tonn á mánuði á þessu svæði, og sjá allir menn, þegar brúttótekjurnar eru 180190 þús. fyrir bát yfir mánuðinn, en kaup 11 manna, þó að miðað sé bara við tryggingu, er um 130 þús., hvort hægt er að bera uppi veiðarfærakostnað, beitukostnað, olíukostnað og allar viðgerðir á skipi, þó að ekki sé reiknað með afskriftum og með vöxtum nema að litlu leyti þennan árstíma. Þetta er ekki hægt. Ríkisstj. verður þess vegna eitthvað í þessum málum að gera.

Ég hef oft talað um, að það þyrfti að breyta 1. um aflatryggingasjóð. Fiskimálastjóri sagði við mig, að ég færi ekki rétt með, það væri ekki miðað við 5 ára meðaltal síðustu árin, en hins vegar talaði ég við þann mann, sem með þann útreikning hafði að gera, og hann sagði, að miðað væri við meðaltalið, ekki endilega að þeir fylgdu svo fast, að það væru síðustu árin. En aflamagnið hefur verið svo lítið víðast hvar á þessu svæði, að það skiptir ekki máli, og nú fyrir áramótin varð útkoman sú, að við fengum um 20 þús. úr aflatryggingasjóði til línubáta, þar sem hallinn var áreiðanlega 100 þús. á mánuði. Þessir 25 aurar á kg hrökkva ákaflega skammt, því að á 60 tonn gerir það um 15 þús. kr. Nú hefur hlutur sjávarútvegsins verið þannig, að ég hygg, að af honum hafi verið tekið með kauphækkunum — það eru alltaf 100 millj., sem hann fékk úr ríkissjóði s.1. ár. Svo kemur launaskattur, hækkað orlofsfé, óhagstæðari hlutaskipti, þannig að þetta mun alls nema ca. 200 millj. í staðinn á hann að fá liðlega 50 millj. Vera má, að verðhækkanir vinni þetta eitthvað upp, en þá kemur líka til greina, að kaup í frystihúsum hefur stórhækkað, þannig að ég efast um, að það geri meira en vega upp á móti.

Ég hygg, að ef eigi að stunda línuútgerð hér, og það hlýtur ríkisstj. að verða að gera upp við sig, veiti ekki af krónu á kílóið, til þess að hægt sé að gera út á linu, miðað við aðrar fiskveiðar. Og það, að bátarnir eru að basla við linuútgerð fyrir Norðurlandi og hluta a.m.k. af Vestfjörðum, það er fyrst og fremst af því, að ef það er ekki gert, er fólkið í þessum kauptúnum og bæjum atvinnulítið. Útgerðarmönnum er vel ljóst, að þeir skaðast á þessu, en það er ekki annað hægt vegna fólksins, sem býr í þessum kaupstöðum, þannig að annaðhvort er að breyta aflatryggingasjóðslögunum og reglugerðinni eða auka bein framlög úr ríkissjóði til línuveiða, ef línuveiðar eiga að geta þrifizt. Þetta verður ríkisstj. að gera sér ljóst og þá sérstaklega sjútvmrh.

Viðvíkjandi þessum 33 millj., sem eiga að ganga til frystihúsanna, vildi ég benda á það, að í fyrra var því skipt eftir fiskmagni, en það er allt annað en þarfir frystihúsa. Ég hef mikil kynni haft af þeim mönnum, sem reka þau, og oft spjallað við þá um þessa hluti, og það skýzt ýmislegt upp úr mönnum í einkasamtali, sem þeir eru ekki að flagga með í opinberum skýrslum, og ég veit fyrir víst, að þau frystihús, sem bezta hafa aðstöðu, eru rekin með hagnaði, og það eru þau frystihús, sem mest hafa hráefnið, og það eru þau frystihús, sem fá mest af þessum 33 millj. Þau frystihús, sem hafa aðstöðu til þess að frysta síld og fá mikinn þorskafla, eru tvímælalaust rekin með hagnaði, ef þau eru vel rekin. Hin frystihúsin, sem hafa lítið hráefni og að ýmsu leyti dýrt í vinnslu, eru rekin með stórhalla. Nú skal ég játa það, að ríkisstj. hefur síðari árin sýnt talsverðan skilning á því að reyna að hjálpa þeim, sem örðugast eiga. .Ég vil ekki vanþakka það. En það er miklu betra, að það komi eftir eðlilegum leiðum heldur en þar sé hlaupið undir bagga einstaka sinnum og þá kannske vafasamt, hversu vel með það fé er farið í þau skipti. Ég held því, að þetta atriði þyrfti ríkisstj. að athuga, hvort væri ekki hægt að verja þessum 33 millj. kr. á sanngjarnari og þarfari hátt en greiða eitthvað visst á hverja framleiðslueiningu, því að ég sé ekki, að þá, sem reka sín frystihús með hagnaði, sé nokkur ástæða til þess að styðja. En hinir, sem eru að basla við að reka frystihús með takmörkuðu hráefni og við erfið skilyrði, þurfa aðstoðar við, ef þeir eiga ekki að gefast upp. Á þetta atriði vildi ég benda.

Ég hef oft minnzt á aflatryggingasjóðinn. Mér finnst reglurnar vera of þröngar, of ákveðnar. Mín skoðun er sú, að það þurfi fyrst og fremst að hafa þann grundvöll við bátaútveginn, að báturinn hafi nokkurn veginn viðunandi rekstrarafkomu, hvar sem er á landinu. Það þýðir ekki að vera að flokka þetta niður í svæði og segja, að þetta svæði þurfi minna, til þess að hægt sé að reka útgerð, heldur en annað svæði. Og sannleikurinn er sá, að linuútgerð er líka lítið hagstæðari hér fyrir sunnan, ef hún er nokkuð hagstæðari en fyrir norðan fyrri hluta vetrar og allt fram í febrúar. Veiðarfæratjónið er meira, og það munar ekki öllu á aflamagninu. Það er svo nákvæmt t.d. nú hjá aflatryggingasjóði, að það munaði broti úr prósenti, 1/4 % eða eitthvað svoleiðis, að síldveiðibátarnir innan við 90 tonn, sem litla síld veiddu, fengju einhverja aðstoð úr honum. En þessi hluti úr prósentu réð úrslitum um það, að þeir fengu ekki neitt. Þetta þarf að vera meira á valdi sjóðsstjórnarinnar, að geta tekið meira tillit til aðstæðna en verið hefur. Það er ekki þægilegt fyrir minni skipin, sem fyrst og fremst halda uppi línuútgerðinni, að beztu skipstjórarnir eru algerlega keyptir frá þeim, það er hér um bil ómögulegt að fá þá á minni skipin. Og þá er ekki nema um tvennt að gera, og annað er að leggja skipunum meiri eða minni hluta úr árinu. Þá kemur það líka til greina, að þá þurfa þeir að borga hluta af tryggingagjaldinu, þannig að það verður erfiðara fyrir þá. Í öðru lagi vildi ég benda á það viðvíkjandi aðstöðu þessara skipa, og ég hef gert það hér áður, að skip innan við 100 tonn fá sáralitlar bætur frá tryggingafélögunum, og þetta eru engar smáupphæðir. Ég get sagt ykkur, að árlega undanfarið hef ég orðið að greiða af þeim bát, sem er innan við 100 tonn, þetta 300-400 þús. kr, í viðgerðarkostnað, og nú varð ég, auk þess sem ég fékk úr Samábyrgðinni, því að ég fékk dálitinn hluta frá tryggingunum, þá varð ég að greiða um hálfa milljón. Meginið af þessum upphæðum greiða tryggingafélögin viðvíkjandi vélaviðgerðum og öðru slíku af bátum, sem eru yfir 100 tonn. Þessi aðstöðumunur nær ekki nokkurri átt. Og hann einn gerir það að verkum, að það má heita, að það sé útilokað að reka bát milli 40 og 100 tonn, þó að það væri ekki annað.

Þetta vildi ég benda ríkisstj, á, að þetta getur ekki gengið svona lengi, því að þá er ekki annað fyrir hendi en hætta að gera út á linu og jafnvel að það sé ekki hægt að gera þessi skip út. Ég vil ekki segja, að þessir 25 aurar séu einskis virði, en þeir skipta sáralitlu máli.

Það er eins og allir haldi, að það megi allt leggja á hráefnaframleiðsluna. Sannleikurinn er sá, að allir ganga í skrokk á útgerðinni. Það eru netagerðarverkstæði, það eru vélaverkstæði og svo kemur þessi blessuð löggjöf, t.d. þessi launaskattur, sem lagður er á öll fyrirtæki. Og það, sem er dæmalausast við þetta allt saman, er, að ríkisstj. virðist sjást alveg yfir það, að þetta kostar allt saman mikla vinnu og flestöll fyrirtæki eru í hraki með vinnuafl. Það hreinlega gengur ekki hjá kaupfélögunum nú að koma reikningunum frá sér, þannig að menn geta ekki gert skattskrár sínar. Þetta eru orðnar ótal skýrslur, sem þarf að gera, og ég held, að það væri jafnvel eðlilegra fyrir ríkisstj. að sleppa þessum blessaða launaskatti og eiga sína 25 aura og nota þá í staðinn fyrir þennan blessaða launaskatt. Ég get ekki séð, að þetta sé neinn vinnusparnaður eða hagsýni. Í fyrsta lagi þurfum við að fara að semja skýrslur um, hvað mörg kg við höfum veitt af fiskinum. Svo þurfum við að betla þessa 25 aura út á það. í öðru lagi þurfum við að fara að gera skýrslur um þennan launaskatt. Og svo þurfum við að vappa með þá aura til yfirvaldsins og afhenda honum þá og getum það ekki fyrr en seint og síðar meir og megum búast við að verða fyrir sektum út af því, hvað við greiðum þetta seint. Mér finnst engin hagsýni í þessu. Ég held, að það væri réttara að gera þetta allt saman einfaldara og fyrirhafnarminna, létta einhverju af sköttunum og létta þá af ríkissjóðnum í staðinn einhverju af þessum aurum, sem hann er að mylgra í útgerðina. En þessir aurar mega sín svo lítils, að þeir ráða engum úrslitum.

Það er fleira, sem kemur til greina í útgerðarmálunum. Það er t.d. hlægilegt að láta hæst launuðu starfsmenn þjóðarinnar, sem eru skipstjórarnir, nagga við útgerð, sem ekki getur staðið í skilum, um að borga fyrir sig sjúkrasamlagsgjöld. Enginn þorir að hreyfa því eða tala um það, að þessu eigi að breyta. Vitanlega ætti ríkisstj. að hafa frumkvæði um, að þessu verði breytt. Það er alveg ástæðulaust fyrir fyrirtæki, sem geta ekki staðið í skilum, að vera að borga sjúkrasamlagsgjöld fyrir hæst launuðu menn þjóðfélagsins. Það er í raun og veru allt í lagi með hásetana. Tímarnir eru bara breyttir, þetta eru orðnir hæst launuðu mennirnir nú og alveg ástæðulaust að borga fyrir þá sjúkrasamlagsgjöld. Það er orðið þannig með skipstjórana, að þeir hafa verið að reyna að leita að öllum mögulegum leiðum til að komast undan að þurfa að borga af þessum miklu tekjum sínum. Þeir reyna að eiga í skipunum og reyna ótal leiðir til þess að koma sér hjá því, þannig að það væri miklu viturlegra, að ríkisstj. hlutaðist til um að hafa skattana skaplega og launin hófleg, þannig að útgerðinni þyrfti ekki að blæða.

Þið haldið, að þetta sé vitleysa í mér um það, að þeir, sem gera út, séu í erfiðleikum með að standa í skilum, en það er ekkí. Sem dæmi get ég sagt ykkur, að það eru 250 tonna skip, það voru keyptir þessir svokölluðu tappatogarar frá Austur-Þýzkalandi, og ástandið er þannig, að það er einn þeirra,, sem hefur staðið í skilum í Seðlabankanum, og það er ekki af því, að hann hafi borið sig, heldur af því, að það eru önnur atvinnufyrirtæki, sem hafa hjálpað til, að hann hefur staðið í skilum. Einn eru þeir búnir að taka, aðrir hafa verið seldir til efnaðri og sterkari manna, sem hafa aðstöðu við fiskvinnslu og annað, sem getur bjargað. En þessi skip bera sig ekki í beztu síldarárunum, sem hafa komið. Það er ekki hægt að standa í skilum með vexti og afborganir. Og hvað þá um minni skipin? Hitt veit ég, að þau skipin, sem mest afla, geta staðið í skilum og geta afskrifað. En það er aðeins sá hópurinn, sem mest aflar.

Og svo er annað, að það er ríkisvaldið, sem gengur á undan að féfletta útgerðina, t.d. á síldinni í sumar. Það er bæði óeðlilegt og óréttlátt, að það sé gert, að þeir, sem óskuðu eftir því að leggja upp hjá síldarverksmiðjum ríkisins þannig að fá raunverulegt verð, mér er sagt, að þeir muni fá 40 kr. á málið í uppbót, hinir, sem voru efnaminni og höfðu ekki efni á því að bíða með að fá alla greiðsluna, fá ekki neitt. Það er ekki rétt af ríkisvaldinu að láta þetta viðgangast. Ekki gera kaupfélögin þetta, þó að ýmsir finni að þeim um ýmislegt, og má sjálfsagt eitthvað út á þau setja, eins og gerist og gengur, en þau gera þetta ekki. Fátæki maðurinn fær alveg jafnt og sá ríki fyrir það, sem hann leggur inn. Og ríkisstj. ætti sannarlega að ganga á undan með að hindra það, að þetta sé gert. Ég veit, að það er sérstök stjórn fyrir síldarverksmiðjunum, en ríkisstj. ræður vitanlega skipulagi á þeim hlutum, bæði hvað lög og reglugerð snertir. Þarna er ekki rétt að farið. Það eiga allir að sitja við sama borð, hvort sem þeir eru fátækir eða ríkir, og fá sama verð fyrir vöruna, þó að aðstaða þeirra sé eitthvað misjöfn, og sumir hafa ekki haft aðstöðu til þess að lána hluta af aflaverðmætinu.

Á þessi atriði vildi ég benda einmitt við þetta tækifæri, því að þessi styrkur er það lítill, að hann ræður engum úrslitum, ekki sízt eins og á að verja honum, þessar 33 millj, a.m.k., hann ræður engum úrslitum um afkomu útvegsins. Vextir hafa verið lækkaðir. Út af fyrir sig gæti ég þakkað ríkisstj. fyrir það. Hitt vil ég taka fram, að ég hef aldrei álitið vaxtahækkunina annað en vitleysu og hún var aldrei annað en vitleysa. Glöggir menn, sem eru mjög kunnugir öllum þessum málum, úr flokki Sjálfstfl. hafa sagt við mig, að vaxtahækkunin hafi aldrei verið nema vitleysa. En hún var gerð, og það er út af fyrir sig leiðinlegt að gera fyrst vitleysur og maður þurfi svo að þakka fyrir, að þær séu lagaðar. En hvað um það, það er þakkarvert, að vextirnir voru lækkaðir. Hins vegar hafa vextirnir hjá fiskveiðasjóði ekkert lækkað og ekki heldur á landbúnaðarlánum, en það finnst mér ekki rétt. Það er búið að lækka vexti á hinum lánunum úr 12% og í 9%, en föstu lánin hjá fiskveiðasjóði hafa ekkert lækkað. Það má segja, að viðvíkjandi línubátunum ráði þetta ekki úrslitum, þessum minni, því að þeir standa fastir í mjög háu verði, en fyrir nýju skipin skiptir þetta miklu máli.

Ég skal ekki að öðru leyti fara út í það, sem gerzt hefur. Það er ekki til neins að vera alltaf að þræta um það, og það geta verið skiptar skoðanir um hlutina og ekkí endilega víst, að annar aðilinn hafi að öllu leyti rétt fyrir sér. En hitt veit ég, og ég trúi ekki öðru en stjórnarliðinu finnist það leitt líka að þurfa að skera niður verklegar framkvæmdir um 20%, a.m.k. allar greinar framkvæmdanna. Og ég held satt að segja, að ef vilji væri fyrir hendi, og ég vona, að hann verði fyrir hendi hjá ríkisstj., að hún gangi ekki eins langt í þessu efni og kemur fram í grg. þessa frv.

Ég hygg, að flestum, sem hafa rafmagn t.d., sé ljóst, og ég veit, að þeir skilja það, að fólk, sem ekki hefur rafmagn, er mjög óánægt yfir því, og ég hef fundið það einmitt hjá bæjafólkinu, að það hefur fullan skilning á því, að það sé eðlilegt, að fólk, sem býr úti í sveitunum, þrái að fá rafmagnið. Ég er sannfærður um, að það telur enginn þá aura eftir, sem það mundi láta í það. Og fyrir mitt leyti vildi ég segja það, að ég teldi betur varið því fé, sem fer í blessaða Bændahöllina, að láta það, þótt við skattlegðum okkur sjálfa, til þess að styðja það, að þessir sveitabæir fengju rafmagn, heldur en verja því í einhverjar gistihallir í Reykjavík, sem bændum koma í raun og veru ekkert við, og það eru alltaf sem fara í Bændahöllina árlega af afurðaverði bændanna. Það væri hægt að leggja rafmagn á fáein býli fyrir það. Ég er ekki að segja, að bændur eigi persónulega að leggja fram fé til þess að leggja þær línur, sem ríkið á og rekur og tekur eðlilega gjald fyrir, — ég er ekki að halda því fram. Ég held því fram, að ég hygg, að sveitafólkið vildi ekki leggja neitt frekar á sig en það að fórna einhverju, til þess að það mætti hraða þeim framkvæmdum. Ég vil því vona, að ríkisstj. a.m.k. taki það til athugunar, hvort það væri ekki hægt að komast hjá því að skera þann lið niður, Ég er sannfærður um, að ríkisstj. getur það. Það má vel vera, að við verðum að taka lán í bili, þótt ég skuli ekki um það fullyrða. En hvað er það að taka lán til nauðsynlegra framkvæmda? Ég sé ekki, að það sé nein goðgá.

Satt að segja er ég engan veginn sannfærður um, að það þurfi að skera þessar framkvæmdir niður, eins og gert er ráð fyrir. Mér þykir ekki ólíklegt, að tekjur ríkissjóðs verði meiri en gert er ráð fyrir, það er skattalögregla á ferðinni, og það ætti ekki að vera ólíklegt, að hún þefaði eitthvað uppi af söluskatti, sem gleymzt hefði, og einhverju fleiru. Það er verið að auka innflutning á ýmsum hlutum, kexi, fötum og öðru slíku. Það er ekkert ómögulegt, að tolltekjurnar verði eitthvað meiri, eða innflutningsgjöldin, og ég skal ekki segja, hvaða breytingar verða gerðar á skattstiganum. En mér þætti ekki ólíklegt, því að krónutala manna hefur verið mikil í launatekjum ýmissa aðila, bæði fyrirtækja og einstaklinga, að það væri þó nokkur summa, sem kæmi þar inn, þannig að þótt ríkisstj. segi þetta í grg., þá er ég engan veginn sannfærður um, að hún þurfi að lækka þessar framkvæmdir jafnmikið og hún gerir ráð fyrir. Satt að segja er það ákaflega erfitt í framkvæmd að skera allt niður um 20%. Það væri að mörgu leyti hagkvæmara og hlýtur að verða raunar í framkvæmdinni, að einhverjum ákveðnum framkvæmdum væri þá frestað, en aðrar fullgerðar. En hvað sem því líður, ég hef ekki aðstöðu til þess, ég er því ekki svo kunnugur. Við, sem erum í stjórnarandstöðunni, höfum ekki aðstöðu til þess að fylgjast það nákvæmlega með tekjum ríkissjóðs og allra sízt hvað stjórnin ætlar sér að gera í skattamálum. Við getum ekki komið með fullyrðingar um það, hvað hægt er að gera og hvað ekki er hægt að gera, en ég vildi vona a.m.k., að ríkisstj. skildi, að það eru vissir hlutir, eins og t.d. rafmagnsmálin, sem okkur er ákaflega illa við úti í dreifbýlinu að sé frestað, ef nokkur leið er til annars, og ég held, að leiðirnar séu til, ef bara vilji er að fara þær.

Það var mjög ánægjulegt að hlusta á ræður hæstv. forsrh. Satt að segja er það alltaf hressilegt og þarft í raun og veru að dusta rykið úr fötunum. Hins vegar er það nú svo, að hæstv. ráðh. deildi á stjórnarandstöðuna og sagði, að framsóknarmennirnir hefðu komið með tóm eyðslufrv. og ekki bent á neinar sparnaðarleiðir. Ég vil ekki taka þetta til mín satt að segja. Ég benti hér við 3. umr. á ýmsa liði til sparnaðar. Ég benti t.d. á, að það væri hægt að afnema fjölskyldubætur með tveimur fyrstu börnunum, það mundi nema um 120 millj, kr. á ári. Ég benti á það, að hægt væri að hætta að leggja 50 millj. á ári til atvinnuleysistryggingasjóðs, sem í raun og veru ekkert væri greitt úr. Ég benti á það, að hægt væri að spara á ýmsum liðum, t.d. að endurskoða prestakerfið, það væri hægt að fækka eitthvað sendiherrunum á Norðurlöndum, það væri hægt að minnka ríkisstjórnarkostnaðinn og það væri hægt að koma betra skipulagi á í ýmsum ríkisstofnunum og spara þannig peninga. Ég benti á, að það væri ekki fráleitt að hafa tvo hagsýna menn til þess að athuga þetta, hvað hægt væri að gera í því efni að reka hlutina með meiri hagsýni. Hins vegar er það með stjórnarandstöðu á hverjum tíma, að það er dálitið erfitt fyrir hana að koma með ákveðnar till., því að stjórnarliðið getur gjarnan notað það sem áróðursefni. Það er ómögulegt að spara neitt án þess að koma við pyngju einhvers aðila, og þess vegna hlífist stjórnarandstaðan jafnan við að koma með ákveðnar till. í þá átt. Segja má, að réttara hefði verið og viturlegra að mínu álíti af stjórnarandstöðunni að koma ekki með neinar hækkunartill., heldur aðeins að deila á ríkisstj. fyrir ofþenslu og of mikla eyðslu. Og mín skoðun var sú, að það hefði verið skynsamlegra að gera það. Hins vegar er það þannig með hækkunartill., sem stjórnarandstaðan ber fram, að vitað er fyrir fram, að þær ná ekki fram að ganga. Það verður því frekar að skoðast sem óskalisti.

Í öðru lagi deildi hæstv. forsrh. á stjórnarandstöðuna fyrir heimskuleg frv. Það er nú svo, að persónulega er ég á móti þessum þáltill., sem hann nefndi hér. En það er þannig, að sumir menn eru hugsjónamenn, og það eru ekki allir á sama máli, og það eiga allir rétt á sínum skoðunum. Nú var það t.d. á sínum tíma, að Jónas Hallgrímsson vildi hafa þingið á Þingvöllum, aðrir voru raunsærri og vildu hafa það hér í Reykjavík. Sumir eru fátækir hugsjónamenn, en aðrir eru ríkir og raunsæir, og það er nú svo, að það eru ekki allir menn eins. Við verðum að skilja hugsjónir manna, og enginn hefur skammað eða lastað Jónas Hallgrímsson fyrir að vilja hafa þingið á Þingvöllum. Mér finnst þess vegna, að ómögulega geti ég farið að deila á mína flokksbræður, þó að þeim detti í hug að flytja þessa stofnun til Þingvalla, og það mætti skollinn vita, ef þetta færi til þjóðaratkvgr., nema það yrði hreinlega samþ., vegna þess að Reykvíkingar vildu e.t.v. losna við okkur og aðrir hefðu gaman af að skopast að því, að þeir drykkju þá minna brennivín á Þingvöllum. Það væri ómögulegt að segja um það, hvernig þetta færi. Raunar langar mig ekki til þess að vera á Þingvöllum að vetri til, því að mér finnst ekkert skemmtilegt að vera þar, og mundi þess vegna ekki greiða þessu atkv. En við megum ekki fyrirlíta hugsjónir annarra manna eða dæma menn of hart, þótt þeim detti eitthvað annað í hug en okkur sjálfum.

Viðvíkjandi t.d. bíómyndunum, satt að segja sé ég ekki annað en það sé samræmi í því hjá hv. flm. viðvíkjandi bíómyndunum, því að þegar börnin okkar í sveitinni mega ekki vinna nema til kl. 5, hvað eiga blessuð börnin að gera? Ég sé ekki betur en að það veiti ekki af 100 manns til að vera á ferðinni með bíó til að hafa ofan af fyrir krökkunum, þegar foreldrarnir eru að basla við að mjólka kýrnar og taka saman, þannig að það er algert samræmi í skoðunum þessa hagfræðings, að það verður aldrei of mikið af bíóum, ef börnin eiga ekkert að gera eftir kl. 5 á daginn eða unglingarnir upp að 18 ára aldri, stórir slánar á léttasta skeiði í raun og veru. Og þá þarf eitthvað að hafa þeim til afþreyingar. Ekki má vera sjónvarp frá Keflavík, —- ja, það er kannske, þegar hæstv. menntmrh. er kominn með sitt nýja sjónvarp, að börnin hafi nóg að gera að horfa á það og þurfi ekki neitt að hafa áhyggjur af því, að þeim leiðist. Þetta voru aðalatriðin. En þó að ég sé ekki alltaf sammála mínum flokksmönnum um hlutina, er það ekki nema eðlilegt. Þeir hafa rétt á sinni skoðun og ég á minni, og ég sé ekki, að það sé neitt við það að athuga.