01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

154. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. meirihl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meirihl. sjútvn, á þskj. 387, hefur nefndin ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Einn nefndarmanna, hv. 5. þm. Austf., hefur skilað séráliti og flutt brtt, á sérstöku þskj. Aðrir nefndarmenn eru í meginatriðum sammála um afgreiðslu frv. Þó hafa tveir undirritað nál. með fyrirvara, hv. 4. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Norðurl. e., og þeir hafa einnig áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Á s.1. ári kom til þess, að gera þurfti nokkrar ráðstafanir til að hjálpa útflutningsframleiðslunni og þá einkum hraðfrystihúsunum til að mæta 15% kauphækkun, sem varð í des. 1963 og hækkuðu fiskverði, sem varð í jan. 1964. Í fyrsta lagi voru þá lagðar fram 43 millj. kr. til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks. Í öðru lagi var þá greitt til aflatryggingasjóðs vegna togara 51 millj. kr. framlag og úthlutun þess miðuð við útgerð á árinu 1963, í þriðja lagi voru veittar til fiskleitar vegna togara 4 millj. kr. Í fjórða lagi var greidd 6% viðbót við ferskfiskverðið, eins og yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins úrskurðaði það 21. jan. 1964. Í fimmta lagi voru lækkuð útflutningsgjöld úr 6% í 4.2% af fob.–verði á útfluttum saltfiski, skreið og freðfiski og fleiri útflutningsvörum. Þetta er talið, að jafngilti 19 millj. kr. bættri aðstöðu fyrir hraðfrystihúsin, en 11 millj. kr. fyrir framleiðendur saltfisks og skreiðar. í sjötta lagi var svo ákveðin hækkun á framlagi ríkissjóðs til fiskveiðasjóðs í helming á móti því, sem sjóðurinn fær af útflutningsgjaldi. Tekna vegna þessa ráðstafana var á s.l. ári aflað með hækkun á söluskatti úr 3% í 51/2%, en heildarupphæðin, sem afla þurfti ríkissjóði til þess að standa undir þessum ráðstöfunum, var áætluð á s.l.. ári 128 millj. kr. alls.

Við afgreiðslu fjárl. fyrir yfirstandandi ár var ríkisstyrkur vegna framleiðniaukningar, 43 millj. kr., felldur niður og sömuleiðis uppbæturnar á ferskfiskverðið, sem námu skv. áætlun s.1. ár 52.5 millj. kr., en önnur atriði í lögum nr. 1 frá 1964, er snerta aðstoð við sjávarútveginn, hafa haldizt, þó þannig, að fiskleit í þágu togara mun nú vera innifalin í liðnum: Til fiskleitar, síldarrannsókna og veiðitilrauna, sem hækkaði við afgreiðslu fjárl. þessa árs um 8.5 millj. kr. Framlagið til fiskveiðasjóðs nemur vegna laganna í fyrra á þessu ári 31.6 millj. kr., en til aflatryggingasjóðs til styrktar togurum hefur lækkað úr 51 millj. kr. í 40 millj. kr., vegna þess að færri togarar eru nú gerðir út en var á s.1. ári.

Lækkun útflutningsgjalda á saltfiski, skreið, freðfiski o.fl. kemur framleiðendum að sjálfsögu til góða áframhaldandi eins og s.l. ár.

Þessu til viðbótar má geta þess, að vextir voru lækkaðir í byrjun þessa árs, og fyrir dyrum stendur að lækka tolla á vélum í þágu útflutningsframleiðslunnar. Og loks er þess að geta, að farmgjaldalækkun hefur átt sér stað, sem kemur framleiðendum einnig til góða. Jafnframt hafa mörg frystihús bætt vinnuaðstöðu og gert ýmsar endurbætur, sem stuðla að hagkvæmari rekstri.

Þetta, sem ég nú hef nefnt, er þó ekki talið nægilegt til að vega á móti brottfalli framlags til framleiðniaukningar og niðurfellingu á fiskuppbótum úr fjárlögum, sem ég gat um áðan, ekki sízt þegar þar við bætast þegar orðnar og væntanlegar kauphækkanir og fiskverðshækkun sú, sem talin var óhjákvæmileg í byrjun þessa árs.

Nokkur hækkun á útflutningsverði sjávarafurða kemur að vísu einnig þar á móti, en skemmst af að segja var niðurstaða yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins í janúarmánuði s.1. sú, að aðstoð ríkissjóðs þyrfti að koma til, til þess að hægt væri að hækka fiskverðið um 51/2% og greiða 25 aura uppbót á hvert kg af fiski veiddum á línu.

Þetta hvort tveggja er talið að kosti ríkissjóð 55 millj. kr. á þessu ári, og byggist niðurstaða yfirnefndar á því, að ríkissjóður leggi fram það fé, sem með þessu frv. er lagt til. En ákvarðanirnar um þau fjárútlát er að finna í 1, og 2. gr. frv. Skv. 3. gr. þess er eingöngu um að ræða hliðstætt ákvæði og var í ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 1 frá 1964, varðandi úthlutun til togara úr aflatryggingasjóði, þ.e. að úthlutunin vegna aflabrests 1964 miðist við úthaldstíma togaranna það ár.

Þessi till. er skv. eindreginni ósk samtaka togaraeigenda. Þegar yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins kvað upp úrskurð sinn um fiskverðið, m.a. á grundvelli þessa, sem ég nú hef rakið, var ekki um þá ákvörðun fullt samkomulag og voru fulltrúar fiskkaupenda í nefndinni ósamþykkir úrskurðinum, en fulltrúar fiskseljenda, þ.e. sjómanna og útvegsmanna, stóðu að úrskurðinum. Hefur þannig náðst víðtækari samstaða í þessu efni, en raun varð á s.1. ár og sýnir þetta m.a., að breyting sú, sem Alþ. gerði fyrr í vetur á lögunum um verðlagsráð sjávarútvegsins, hefur verið til bóta, þó að æskilegt væri, að allir aðilar gætu náð fullri samstöðu í þessu efni. En hvað um það, fiskkaupendur hafa ekki talið, að nógu langt væri gengið til móts við óskir þeirra með þeim stuðningi, sem veita á sjávarútveginum skv. þessu frv. og einkum mun vera talin þörf á, að aðstaða skreiðarframleiðenda verði bætt. Mun það mál verða tekið til velviljaðrar athugunar, að því er mér hefur verið tjáð, en naumast er hægt að tengja það afgreiðslu þessa frv., enda margt óljóst enn þá um markaðshorfur fyrir skreið.

Sjútvn. kynnti sér nokkur atriði varðandi framkvæmd laganna frá í fyrra, einkum að því er varðar úthlutun til togara úr aflatryggingasjóði og skiptingu framleiðniaukningarfjár til frystihúsanna. Heimildin til að miða úthlutunina til togaranna við úthaldstímann var notuð. Varðandi síðara atriðið kom í ljós, að skiptingin hefur miðazt við framleiðsluverðmæti frystra sjávarafurða 1963, annars vegar og hins vegar við það, að húsin hefðu gert ráðstafanir til eða framkvæmt endurbætur, sem stuðluðu að hagkvæmari rekstri. Framleiðsluverðmætið mun þó hafa ráðið mestu um úthlutunina og þá verið meðtalið framleiðsluverðmæti frystra síldarafurða. Má segja, að s.1. ár hafi þetta verið eðlilegt, þar sem veittar voru 521/2 millj. kr. til að hækka verð á bolfiski sérstaklega.

Nú er hins vegar um eina upphæð að ræða skv. 2. gr. frv., sem beinlínis er tengd því verði á bolfiski, sem yfirnefnd verðlagsráðsins úrskurðaði að þessu sinni og þess vegna er það mín skoðun og að ég hygg fleiri nefndarmanna, að þeim 33 millj. kr., sem um getur í 2. gr. frv., eigi nú eingöngu að skipta með hliðsjón af framleiðslu frystihúsanna á bolfiskflökum.

Frv. hefur ekki inni að halda beinar till. um tekjuöflun til að standa undir þeim útgjöldum, sem því fylgja, ef að lögum verður. En í grg. er frá því skýrt, að ætlunin sé að skera niður önnur útgjöld ríkissjóðs til þess að mæta á þann hátt þeirri útgjaldaaukningu, sem verður skv. frv. og er þeim niðurskurði jafnframt ætlað að standa undir fleiri útgjöldum ríkissjóðs, sem til hafa fallið, eftir að afgreiðslu fjárl. lauk.

Að sjálfsögðu er þessi leið umdeilanleg. En þar sem svo er að sjá, að nokkuð víðtæk samstaða sé meðal hv. þdm. um efnisatriði frv., skal ég ekki hefja hér rökræður um þetta efni. Þó verð ég að segja, að ef menn telja niðurskurðarleiðina með öllu ófæra, þá þurfa þeir hinir sömu að benda á aðrar leiðir til fjáröflunar, því að naumast er til verri blekking en sú að samþykkja útgjöld úr ríkissjóði, án þess um leið að tryggja það, að hægt sé að standa við slíkar skuldbindingar.

Ég legg svo til, fyrir hönd meiri hl. sjútvn., herra forseti, að frv. verði samþ. óbreytt og að því verði vísað til 3. umr.