30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

140. mál, umferðarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði í sambandi við 1. gr. í þessu frv., sem ég vildi spyrja að. Það á að breyta þessum 1. þannig, að orðið „heyrn“ sé fellt þarna niður, í staðinn fyrir að áður þurfti að hafa góða sjón og heyrn, og stendur nú bara: „hafi góða sjón og sé að öðru leyti hraustur andlega og líkamlega“. Ég vil spyrja að því, hvort það sé meiningin, að samkv. þessari breytingu væri hægt að veita t.d. fólki, sem væri algerlega heyrnarlaust, leyfi til þess að aka bíl. Ég veit ekki, hvort það yrði litið svo á, að sá maður, sem væri heyrnarlaus, væri nógu hraustur líkamlega. Það gæti bara verið orðalagsbreyting. En ég vil vekja athygli á því, þó að undir mörgum kringumstæðum geti það fólk, sem hefur ekki neina verulega heyrn, kannske keyrt bíl, að t.d. undir þeim kringumstæðum, þegar slys vilja til og þeir bilar, sem keyra fólk eða ná í fólk, þeyta sina lúðra og hafa enga aðstöðu til þess að sýna, að þeir séu á ferðinni, heldur en kannske á eftir, þá er gefið, að það fólk, sem heyrir ekki, getur ekki vikið úr vegi fyrir þeim og gæti þannig tafið fyrir því, að slíkir bílar kæmust á slysstað eða kæmust með slasað fólk á sjúkrahús.

Ég vil vekja athygli á þessu, því að satt að segja sýnist mér, að í sambandi við bifreiðal. sé það orðið svo, að það sé meira hugsað um það sem einhvern sjálfsagðan hlut handa hverjum manni, sem á því hefur efni — eða jafnvel þótt hann hafi ekki efni á því að eiga bíl, að hann fái að keyra hann, heldur en hugsað sé um öryggi vegfarenda. Bílar eru orðnir algengasta drápstækið í okkar landi, og það hefur almennt verið tekið svo lint á þessum hlutum, að menn, sem hafa drepið fólk og hlotið sína dóma fyrir, hafa venjulega verið náðaðir skömmu seinna og haldið áfram jafnvel að drepa fleiri, þannig að það eru mjög alvarleg mál í sambandi við þessi bílaslys og ég vildi aðeins vekja athygli á þessu.

Ég held, að það hafi verið sagt hér einhvern tíma í umr. um þetta mál, að sums staðar erlendis væri það svo, að fólk, sem væri alveg heyrnarlaust, fengi rétt til þess að keyra bíl. En ég veit líka, að í einu landi þurfa menn yfirleitt engin bílpróf, enda geta menn keyrt bíl hver sem vill án þess að hafa nokkur vottorð um slíkt, því að það er sinn siður í landi hverju. En með þeim miklu slysum, sem af bílum geta hlotizt, held ég, að það eigi að fara dálítið gætilega í þessa hluti.