05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að verða fjölorður um þetta mál við 1. umr. og þeim mun síður, þar sem hv. 3. þm. Norðurl. v., sem er sérfróður á sviði þjóðaréttar og stjórnlagafræði, hefur fjallað um þennan samning í ýtarlegri ræðu og komið inn á mörg atriði varðandi hann. En ég taldi þó ástæðu til þess að kveðja mér hljóðs nú þegar við þessa umr., einkum vegna þess, að af hálfu hæstv. ríkisstj. er um að ræða bein tengsl milli framlagningar þessa frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að gerast aðili að þeim alþjóðasamningi, sem þar um fjallar varðandi lausn fjárfestingardeilna, og þess samnings, sem nú liggur fyrir Nd. Alþ. um alúmínbræðslu, og fylgisamninga þess máls. Þetta er af hálfu hæstv. ríkisstj. tengt saman, enda er í aðalsamningnum um alúmínbræðsluna, í 47. gr. hans, sem kveður á um alþjóðlega gerð í sambandi við þann samning og fylgisamninga eða ágreining um hann, þar er sérstaklega til þess vitnað, að verði þessi alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna fullgiltur, skuli hann hagnýttur í sambandi við ágreining um þau mál.

Ég tel ástæðu til þess að æskja frekari upplýsinga um það, á hvaða stig, ef svo mætti segja, þessi samningur er kominn að því er varðar fullgildingu hans. Það hefur bæði í sambandi við umr. um alúmínmálið og nú af hæstv. viðskmrh. í sambandi við framsögu fyrir þessu máli verið lögð á það nokkur áherzla, að allmörg ríki, 33 eða 35 ríki, eins og hæstv. viðskmrh. sagði, hefðu undirritað þennan samning, og það hefur verið greinilegt, að menn hafa átt að draga þá ályktun af því, hversu rík áherzla var lögð á þessa tölu, 33 eða 35 ríki, sem þegar hefðu undirritað þennan samning, að þess væri þá ekki langt að bíða, að hann hefði verið fullgiltur af nægilega mörgum og gæti þar af leiðandi komið til framkvæmda. En ég vil ítreka það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði að vísu um, — ég vil mjög eindregið ítreka og undirstrika það, að hér er um tvo ólíka hluti að ræða, annars vegar þau ríki, fjölda þeirra ríkja, sem hafa undirritað samninginn, og svo hins vegar það, hversu mörg ríki hafa þegar á lögformlegan hátt fullgilt þennan samning. Og það er algerlega ástæðulaust og engan veginn vansalaust af talsmönnum hæstv. ríkisstj. að gera einhverja tilraun til þess að blanda þessu tvennu saman, sem er algerlega óskylt. Það kemur greinilega fram í þessum samningi sjálfum, að undirritun samningsins táknar í raun og veru ekki annað en það, að tiltekin ríki hafa fallizt á það, að Alþjóðabankinn gerði tilraun til þess að koma á slíkum alþjóðasamningi varðandi fjárfestingardeilur, sem hér er um að ræða, en það er hins vegar greinilega tekið fram í þessum samningi, að hann fær ekkert gildi og getur ekki komið til framkvæmda fyrr en 20 ríki hið minnsta hafa fullgilt hann á þann hátt, sem til er ætlazt, þ.e.a.s. lagt fram lagafrv., sem hefur verið samþ., og gert aðrar þær ráðstafanir, sem kynni að þurfa, í sambandi við sína eigin löggjöf, til þess að slíkur samningur yrði fullgiltur. Og nú vil ég enn spyrja: Hversu mörg ríki eru það, sem þegar hafa fullgilt þennan samning? Það liggur fyrir og á það hefur verið lögð, að ég tel, óeðlilega mikil áherzla og jafnvel f því skyni að varpa ryki í augu manna, að 33 eða 35 ríki hafi undirritað samninginn, en eins og ég áðan sagði, er það allt annar hlutur en hitt að fullgilda hann. En ég vil endurtaka fsp.: Hversu mörg ríki hafa þegar fullgilt þennan samning, og hvaða ríki eru það? Ég hef það fyrir satt, að það hafi verið spurzt fyrir um þetta beint núna fyrir skömmu, um þessa fsp., til Alþjóðabankans og það hafi komið það svar, að 4 ríki, 4 tiltekin Afríkuríki, hafi fullgilt þennan samning og önnur ekki, það séu m.ö.o. 4 nýfrjáls og vanþróuð ríki í Afríku, sem búin séu að fullgilda samninginn, en önnur ekki, ekkert Norðurlandanna og ekkert vestrænt ríki hafi enn sem komið er fullgilt þennan samning. Ég vil sem sagt spyrja, hvort þetta sé rétt, og í því sambandi vil ég spyrja, hvaða ástæður séu til þess, að við flýtum okkur svo mjög með að fullgilda þennan samning, að við þyrftum að verða

fyrstir vestrænna ríkja til þess að gera það. Hvað er það, sem rekur svo mjög á eftir? Er það það frv., sem nú liggur fyrir hv. Nd. um alúmínmálið, sem gerir það að verkum, að ástæða þykir til, að við verðum kannske fimmta ríkið til þess að fullgilda þennan samning, þó að ekkert sé um það vitað, hvenær eða hvort nokkurn tíma koma þar til viðbótar þau 15 ríki, sem til þess þurfa, áður en samningurinn fær nokkurt raunhæft gildi og hægt verður fyrir einstök ríki eða einstaka aðila að skjóta þangað málum?

Eins og ég sagði í upphafi, ætla ég ekki nú við 1. umr. að fara að ræða ýtarlega um þetta lagafrv., enda skal ég játa það, að ég hef ekki til að bera þá þekkingu í þeim efnum, sem nauðsynleg væri að því er varðar það, hvernig eðlilegt sé, að slíkir gerðardómar um fjárfestingarmál skuli gerðir. Ég mun þess vegna ekki að svo komnu máli taka beina afstöðu til þess, hvort eðlilegt væri fyrir okkur Íslendinga á sinum tíma að fullgilda slíkan gerðardóm eða ekki. Ég tel hins vegar, að þar sem þetta mál er sótt nú, að því er virðist, af nokkru kappi í sambandi við alúmínmálið, sem liggur fyrir Alþ., þá sé ástæða til að gjalda nokkuð varhuga við eða fara sér hægt í þessu efni, og ég get ekki séð, hvað okkur liggur á, meðan svo er háttað, ef það er rétt, sem mér er tjáð, að einungis 4 Afríkuríki hafi nú þegar fullgilt þennan samning og ekkert liggi fyrir um það, hvenær eða hvaða lönd önnur geri það nú á næstunni. Og þó að það sé fjarri mér að ætla að varpa á nokkurn hátt rýrð á þau ríki, sem þegar hafa fullgilt samninginn, hlýtur að læðast að manni sú spurning, hvort þarna sé fyrst og fremst um að ræða ríki, þar sem a.m.k. vestrænir aðilar vefengja með réttu eða röngu, að réttarfar þeirra sé traust og stöðugt, hvort hér sé um að ræða nýfrjáls og tiltölulega vanþróuð ríki, sem kunna að eiga erfitt um vik að ýmsu leyti vegna meðal annars vantrúar á það, að þar sé um að ræða örugg og traust réttarríki. Og sé svo, að aðeins 4 ríki í Afríku hafi þegar fullgilt samninginn, sýnist mér, að okkur liggi a.m.k. ekkert á og það sé engin ástæða til þess að flýta sér að skipa sér endilega í hóp þeirra í þessu efni, þar sem ekki er annað líklegra heldur en að baki því búi, að þau séu að suðvelda sér einhver verkefni og komast yfir þá vantrú, sem kann að vera ríkjandi hjá fjárfestingarstofnunum á því, að þau séu raunveruleg og traust réttarríki. Ég held, að það sé rétt fyrir okkur að doka við og sjá, hvort ekki verður um að ræða á nálægum tíma fleiri ríki, sem tilbúin eru til þess og ákveðin og þegar hafa fullgilt þennan samning, og við þurfum ekki neinna hluta vegna að vera fyrsta Evrópuríkið, sem það gerir.

Ég skal ekki blanda mér í þær umr., sem hæstv. viðskmrh. hóf hér í lok sinnar ræðu, þar sem hann kom að tilteknum viðskiptasamningi, — ég skal ekki blanda mér mikið í þær umr., — en það var greinilegt á hæstv. ráðh., að honum virtist, að hann hefði þar fundið púðrið, ef svo mætti segja, og maður hélt nú fyrst, að hér væri um að ræða einhverja stórfenglega og afgerandi röksemdafærslu, það væri það stórt innlegg í þær deilur, sem hafa orðið um gerðardómsákvæði alúmínsamningsins, sem hæstv. ráðh. var þarna með. Hann var svo ábúðarmikill og kampakátur, þegar hann var að skýra frá því, að — mér skildist nú heldur vond ríkisstj., hann tiltók það ekki sérstaklega, sem mun hafa verið hér við völd á árunum 1956—1958, hefði þrívegis til að mynda, viðskmrh. hennar hefði þrívegis undirritað einhvern samning, sem væri afskaplega sambærilegur, skildist manni, við ákvæði 47. gr. í alúmínsamningnum, og þó verri, skildist manni á hæstv. ráðh. Það er nú ekkert nýtt, en hins vegar alltaf dálítið broslegt, þegar þeir hv. Alþfl.-menn og sérstaklega Alþfl.- ráðh. eru sérstaklega hneykslaðir á einu og öðru, sem hin svonefnda vinstri stjórn hefur haft á sinni samvizku eða hefur staðið að. Og það er ekki í fyrsta sinn, sem vaknar sú spurning hjá manni: Hvar voru þessir ágætu menn á þeim tíma, þegar vinstri stjórnin starfaði? (Menntmrh.: Ég var ekkert hneykslaður á þessu.) Það var þó að heyra, þetta væri þó a.m.k. töluvert lakara heldur en það ákvæði, sem um væri nú að ræða í sambandi víð álsamninginn. Það kom að vísu í ljós, að þarna var ekki um að ræða vinstri stjórnina eina, heldur var hér um að ræða ákvæði, sem mér skilst, að hafi verið samið um allt frá 1951 eða 1953. Og þetta bar hæstv. ráðh. síðan saman. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta, en þó hefði ég viljað telja frá venjulegu leikmannssjónarmiði, að þarna væri um nokkuð ósambærilega hluti að ræða: annars vegar venjulegir viðskiptasamningar, sem eru gerðir kannske til 1—2—3 ára í senn, og það mun vera mjög algengt, að aðilar komi sér þá saman um það, hvernig með skuli fara, ef ágreiningur rís í sambandi við slík kaup og sölur, og það mun vera býsna algengt, að ef ágreiningur rís um til að mynda vörugæði eða annað að því er varðar efndir eða vanefndir seljanda, sé um það fjallað af annaðhvort dómstól viðkomandi ríkis eða gerðardómi, sem aðilar hafi komið sér saman um. En það vil ég svo undirstrika, að þetta er í sambandi við venjulega viðskiptasamninga, og sýnist mér, að þar sé um allt annan hlut að ræða heldur en slíka víðtæka samninga, margbrotna samninga fyrir marga aðila, gerða til áratuga, og það samninga, sem skipta ekki einn aðila, heldur marga. Og í því sambandi vil ég alveg sérstaklega benda á þann mjög einkennilega hlut, að það er fyrirtæki, Ísal, sem þarna er um að ræða annars vegar, en hins vegar gæti verið um að ræða ýmist íslenzka ríkið, Hafnarfjarðarbæ eða Landsvirkjun. Skal þessi félagsskapur, sem er annars kallaður íslenzkt hlutafélag, íslenzkur félagsskapur og nýtur réttinda samkv. íslenzkum hlutafélagalögum, skal hann allt í einu ákvarðast sem svissneskt félag, gagnstætt við það, sem annars er, og í krafti þess, að þetta íslenzka félag skuli undir slíkum kringumstæðum, þegar ágreiningur er um alvarleg atriði, kallast svissneskt félag, þá skal grípa til gerðardómsfyrirkomulagsins. Ég held sem sagt, að þarna hafi hæstv. ráðh. skotið nokkuð yfir markið, verið með hluti, sem eru algerlega ósambærilegir. En um þetta skal ég ekki fjölyrða meira, og ég hef ekki búizt við því að fara að taka upp varnir sérstaklega fyrir til að mynda vinstri stjórnina gagnvart hæstv. menntmrh.

En að lokum vil ég enn ítreka það, að munurinn á undirskrift slíks samnings sem þessa og fullgildingu er svo stórkostlegur, að því tvennu má alls ekki rugla saman, og ef menn gera tilraunir til þess, hlýtur eitthvað annað að vaka fyrir mönnum heldur en að upplýsa málið. Það er sem sagt sá munur á, að varðandi undirskriftina er ekki í rauninni um neitt annað að ræða en að þau ríki, sem undirskrifa, fallast á, að það skuli athugað, hvort hægt sé að fara þessa leið, en taka ekki á sig neinar skuldbindingar og hafa alla fyrirvara um það, hvort þau fullgilda slíkan samning eða geri það jafnvel aldrei. Þess vegna er aðalatriðið nú að því er varðar það, hvort telja megi rétt, að við Íslendingar förum að hugleiða það, hvort við ættum að fullgilda slíkan samning, það er þetta, hversu mörg ríki hafa þegar fullgilt samninginn, hversu miklar líkur eru til þess, að önnur ríki geri það á næstunni. Hafa einhver Evrópuríki þegar fullgilt samninginn, eða er þar aðeins um að ræða 4 Afríkuríki, eins og fullyrt er, og í því sambandi, sé það rétt, hvað liggur okkur þá á? Er ekki alveg óhætt að bíða, m.a. að fá nokkra endurskoðun á hinni íslenzku þýðingu á texta samningsins, eins og ekki virðist nú vanþörf á? Hv. 3. þm. Norðurl. v. benti á nokkur atriði í því sambandi, og það væri hægt að benda á fleiri, sem sýna, að það væri ástæða til að fara dálitið ýtarlegar út í það að ganga frá orðalagi íslenzkunnar á samningnum.

En að lokum vil ég enn leggja áherzlu á, að ég sé ekki, að okkur geti verið það neitt keppikefli að láta í sambandi við þennan samning, við það, hvernig það ber að, að við fullgildum hann, að láta það verða okkur neitt keppikefli að skipa okkur á bekk með þjóðum, þar sem meðal annarra vestrænir aðilar og þá ef til vill Alþjóðabankinn hafa vefengt eða kunna að vefengja það, að um fullkomið réttaröryggi sé að ræða.

Í því sambandi minnist maður óneitanlega þeirra ummæla, sem höfð voru eftir hinum svissneska forstjóra Swiss Aluminium, sem hér var við að undirrita alúmínsamninginn á dögunum, þar sem hann sagði eitthvað á þá leið, að vegna þess að Íslendingar hefðu ekki gert slíka samninga áður sem þennan og væru óvanir öllum slíkum hlutum, hefði þetta þótt ráðlegt og nauðsynlegt að hafa ákvæði 47. gr. um gerðardóminn. En þetta getur ekki í raun og veru þýtt annað en það, að hann og þeir félagar hans vantreysti Íslandi sem réttarríki. Og ég vil segja, að með því að Ísland leggi á það áherzlu, að Ísland verði e.t.v. fimmta ríkið til viðbótar við 4 nýfrjáls Afríkuríki til þess að fullgilda slíkan samning, er hæstv. ríkisstj. einnig að gefa undir fótinn með þetta sama og taka undir það mat, sem virðist koma fram bæði í þessum ummælum forstjóra hins svissneska fyrirtækis og í rauninni í þeirri samningagerð, sem nú er verið að ræða í hv. Nd.