25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

178. mál, alþjóðasamningur um lausn fjárfestingardeilna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. Efni þess er það, að í því er ríkisstj. heimilað að gerast aðili fyrir Íslands hönd að alþjóðasamningi um lausn fjárfestingardeilna milli ríkja og þegna annarra ríkja, og er samningurinn prentaður með frv. sem fylgiskjal.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Alþjóðadómstóllinn í Haag dæmir eingöngu í deilum milli ríkja, milli ríkisstjórna. Víðs vegar um heim eru starfandi ýmsir gerðardómar, sem einkaaðilar, einstaklingar eða fyrirtæki, hafa komið sér saman um, að fella skuli úrskurði í deilum milli þeirra, þ.e. milli einkaaðila í sitt hvoru ríkinu. Hins vegar hefur fram til þessa enginn alþjóðlegur gerðardómur verið til, sem hafi það verkefni að fjalla um deilur milli ríkja annars vegar og þegna annarra ríkja hins vegar. En á síðari árum hefur millíríkjafjárfesting, ef svo mætti segja, mjög farið í vöxt. Það hefur orðið æ algengara á undanförnum áratugum og árum, að þegnar eins ríkis festi fé í öðru ríki í ýmsu formi, og þá hefur komið í ljós, að mjög bagalegt er, að ekki skuli vera til nein alþjóðastofnun, sem fjaliar um deilumál, sem upp kunna að koma í framhaldi af slíku. Alþjóðabankinn, sem hefur sumpart sjálfur veitt lán til framkvæmda í ýmsum löndum veraldar eða þá haft milligöngu um útvegun fjár til framkvæmda, hefur mjög fundið til þess, að bagalegt væri, að ekki væru til almennar reglur ekki væri til almenn stofnun, sem fjallað gæti um deilumál. sem upp kunna að koma í slíku sambandi. Þess vegna var það fyrir nokkrum árum, að Alþjóðabankinn beitti sér fyrir því, að aðildarríki hans gerðu með sér samkomulag um, að slíkri stofnun yrði komið á fót. Og samningur sá, sem hér er prentaður sem fskj. með frv. og hér er lagt til að ríkisstj. sé heimilað að gerast aðili að, er einmitt sá samningur, sem Alþjóðabankinn hefur beitt sér fyrir, að gerður yrði milli aðildarríkja Alþjóðabankans og fleiri ríkja, ef svo vill verkast. Óhætt mun að fullyrða, að flest, ef ekki öll ríki Alþjóðabankans muni gerast aðilar að þessum alþjóðasamningi og þar með aðilar að þeim alþjóðagerðardómi, sem gert er ráð fyrir að koma á fót. Þegar þetta frv. var samið og lagt fram, höfðu 35 ríki þegar undirskrifað samninginn og 4 ríki höfðu þegar fullgilt hann. Á þeim vikum, sem liðnar eru, síðan frv. var lagt fram, hafa nokkur fleiri ríki bætzt við sem undirskrifendur og sem hafandi fullgilt samninginn. Það er rétt að leggja á það áherzlu, að samningurinn gerir ráð fyrir, að komið verði á fót alþjóðastofnun, sem veiti aðildarríkjunum rétt til að nota þá þjónustu, sem hún er stofnuð til að veíta. Hins vegar skyldar aðild að samningnum ekki nokkurt ríki til þess að nota sér þá þjónustu, sem gert er ráð fyrir, að hér verði komið á fót.

Það er skoðun ríkisstj., að það sé æskilegt, að slík alþjóðastofnun sem hér er um að ræða sé til, og þess vegna telur hún skynsamlegt, að ríkisstj. gerist aðili að henni. Með því móti væri hægt að leggja fyrir stofnunina deilumál, sem upp kynnu að koma milli íslenzka ríkisins og einstaklinga í öðrum ríkjum út af fjárfestingarmálum. Hefur þetta sérstaka þýðingu í sambandi við það ákvæði, sem er í samningnum milli íslenzka ríkisins og svissneska álfélagsins, sem gert er ráð fyrir að reisi hér álverksmiðju og verði kaupandi að raforku frá íslenzka ríkinu eða íslenzku ríkisfyrirtæki. Í álsamningnum er gert ráð fyrir því, að ef bæði Ísland og Sviss verða aðilar að þeirri stofnun, sem hér er um að ræða, þá skuli hún fjalla um hugsanleg deilumál, sem upp kynnu að koma, en ef hvorugt landið eða annað gerist ekki aðili að þessari alþjóðastofnun, þá er engu að siður gert ráð fyrir því, að með hliðstæðum hætti skuli fara með deilumál milli íslenzka ríkisins og svissneska álfélagsins og gert er ráð fyrir í þessum alþjóðasamningi að gildi milli þeirra ríkja og þeirra einkaaðila, sem ákvæði samningsins taka til.

Það er skoðun ríkisstj., að það sé tvímælalaust heppilegt, að hugsanleg deilumál út af fjárfestingu milli íslenzka ríkisins og álfélagsins fari samkvæmt reglum alþjóðastofnunar, samkvæmt reglum alþjóðasamnings, til viðbótar því, sem þegar er ákveðið í álsamningnum, að hugsanleg deilumál milli íslenzka ríkisins og álfélagsins á að dæma eftir íslenzkum lögum og eftir þeim reglum, sem viðurkenndar eru í samskiptum siðaðra þjóða, eða venjulegum alþjóðareglum.

Með hliðsjón af þessu vill ríkisstj. óska þess, að þetta hv. Alþ. afgreiði þetta frv. Ég læt þetta duga sem skýringar á málinu og leyfi mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari 1. umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. allshn. — [Fundarhlé.]