02.04.1966
Neðri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með samningi þeim, sem hér er lagður fyrir Alþ. til staðfestingar, er lagt inn á nýja braut í atvinnumálum þjóðarinnar. Með þessum samningi er ráðgert að heimila erlendu einkafyrirtæki atvinnurekstur í landinu í allstórum stíl. Gert er ráð fyrir, að hinn erlendi aðili fái samning í þessum efnum til langs tíma og hann fái tryggingu fyrir margvíslegum og miklum sérréttindum sér til handa umfram það, sem nokkrir Íslendingar fá að njóta. Eins og hér hefur komið fram fyrr í þessum umr., er hér greinilega um mikla stefnubreytingu að ræða í málefnum okkar. Það hefur verið viðurkennd meginstefna Íslendinga í atvinnumálum, að landsmenn sjálfir ættu atvinnutækin og hefðu með höndum rekstur þeirra. Það má segja, að þetta hafi verið grundvallaratriði í uppbyggingu atvinnulífsins nú um alllangt skeið. Þessi stefna hefur auðvitað ekki verið mörkuð við Ísland eitt. Það má segja, að svo að segja allar efnahagslega sjálfstæðar þjóðir hafi lagt áherzlu á þessa stefnu í öllum meginatriðum. Þær hafa lagt áherzlu á það að byggja upp atvinnulíf á þann hátt, að landsmenn sjálfir réðu þar yfir atvinnulífinu og stjórnarvöld viðkomandi lands hefðu alveg óumdeilanlega vald yfir þróun atvinnulífsins eða uppbyggingu atvinnulífsins. Þó vita menn vel um það, að nokkur lönd hafa hrakizt frá slíkri stefnu, og þar hafa málin skipazt þannig, að erlendir aðilar hafa náð úrslitatökum á atvinnulífi viðkomandi landa.

Þetta fyrirbæri er t.d. þekkt frá löndum Suður-Ameríku, og satt að segja hefur það ekki þótt eftirbreytnivert, ekki a.m.k. í Evrópulöndum, að taka upp eitthvað svipað skipulag á þróun atvinnumálanna og þar hefur verið. Það hefur einnig greinilega orðið þannig í ýmsum fátækum löndum, sem fyrr voru nýlendur. Þar hefur þetta skipulag verið ríkjandi, að erlendir aðilar hafa þar ráðið yfir mjög þýðingarmiklum þáttum atvinnulífsins. — Stundum hefur verið að því vikið, að í ýmsum vel stæðum ríkjum, eins og t.d. Noregi, hafi mjög verið keppzt við það að fá erlenda atvinnurekendur til þátttöku í atvinnurekstri í landinu. En það fer þó ekkert á milli mála, að þátttaka útlendinga í atvinnulífinu, t.d. í Noregi, er tiltölulega lítil í samanburði við atvinnulíf Norðmanna sem heild, og um það verður ekki heldur deilt, að norsk stjórnarvöld hafa fullkomlega ráðin í sínum höndum í sambandi við þann erlenda atvinnurekstur, sem þar er, og norsk stjórnarvöld geta í rauninni markað þá stefnu, sem marka þarf í atvinnuuppbyggingu landsins á hverjum tíma. Það er því mjög villandi, þegar er verið að nefna einstök dæmi, eins og t.d. frá Noregi, um þátttöku útlendinga í atvinnulífi þar í landi og vilja heimfæra það sem fordæmi fyrir okkur Íslendinga, sem búa auðvitað við slíkar kringumstæður vegna okkar fámennis, að það, sem getur vel verið þolanlegt fyrir þá í Noregi, getur orðið óbærilegt fyrir okkur í þessum efnum.

Við Íslendingar höfum á undanförnum árum verið tiltölulega mjög strangir með þessa meginstefnu okkar að binda okkur við það, að landsmenn einir ættu atvinnutækin í landinu og landsmenn einir hefðu yfirráð yfir atvinnulífinu. Við höfum haft allmiklu strangari reglur í þessum efnum en flestar aðrar þjóðir. Það má t.d. nefna dæmi eins og það, að hér á landi hefur það um langan tíma verið bannað, að útlendingar rækju héðan fiskiskip, og bannað að taka til vinnslu hér í landinu afla af erlendum fiskiskipum og í mörgum öðrum greinum hafa réttindi útlendinga í landinu verið meir takmörkuð hér en viðast annars staðar. Þetta er auðvitað vegna okkar sérstöðu í þessum efnum. Við vitum, að við þolum ekki mikil eða sterk áhrif erlendis frá í þessum efnum, án þess að það gæti í rauninni haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir okkur. En með þeim samningi, sem nú er hér lagður fyrir Alþ. til staðfestingar, er greinilega verið að marka nýja stefnu í þessum efnum. Og það fer ekkert á milli mála, eins og hér hefur verið bent á, að það einstaka tilfelli eða einstaka atriði, sem þessi samningur fjallar um, þ.e.a.s. um byggingu og rekstur alúmínbræðslu, er út af fyrir sig ekkert einstakt, heldur er það í rauninni aðeins eitt af eflaust mörgum tilfellum, sem þeir aðilar, sem að þessu máli standa, hafa haft á prjónunum. Það er því eðlilegt, að þegar boðuð er ný stefna á þennan hátt í jafnþýðingarmiklu máli sem þessu, komi fram spurningar um það, hvað það sé í raun og veru, sem á það knýr að taka upp þessa nýju stefnu nú. Hefur reynsla okkar af þeirri stefnu, sem við höfum bundið okkur við á undanförnum árum, verið slík? Höfum við dregizt verulega aftur úr öðrum þjóðum í efnahagslegum efnum þann tíma, sem við höfum haldið okkur við þessa stefnu? Eða hvað er það annað, sem hér knýr á? Ég býst við því, að það komi líka upp spurningar hjá ýmsum í þá átt, hvað menn hafi hugsað sér í þessum efnum í ýmsum öðrum greinum, fyrst á að taka upp þessa nýju stefnu um atvinnurekstrarréttindi útlendinga? Menn gætu t.d. spurt: Er ætlun þeirra, sem standa að flutningi þessa máls, sú að heimila t.d. erlendum stórverzlunarfyrirtækjum leyfi til þess að byggja upp mikil verzlunarfyrirtæki á Íslandi? Ætti t.d. að leyfa einhverjum, sem kynni að hafa hug á því, að byggja slík verzlunarhús hérna í miðborginni í Reykjavík og taka upp almenna verzlunarstarfsemi bæði innanlands og eins í sambandi við okkar utanlandsverzlun? Ætti að heimila slíkum aðilum að flytja inn allt byggingarefni til slíkra framkvæmda, án þess að þeir þyrftu að greiða tolla af? Það mætti a.m.k. segja um slík tilfelli, svipað og nú hefur verið sagt: Hvað er á móti því, þó að þeir fái að nota sitt fjármagn? Þeir eru ekki að ráðstafa okkar fjármagni til þess að byggja hús sín hér á landi og standa undir ákveðinni þjónustu hér. — Vissulega gætu útlendingar í þessum efnum óskað eftir slíkum fríðindum hér. En það mætti segja mér, að þeir, sem að þessu máli standa, hikuðu frekar við að heimila slíkan atvinnurekstur á sviði verzlunar á Íslandi heldur en á sviði ýmissa annarra þátta atvinnulífsins? Ég býst líka við því, eins og ég hef vikið að nokkrum sinnum áður, að það hljóti að koma upp í sambandi við þessa nýju stefnu spurning um það, hvort eigi að heimila útlendingum, sem vilja leggja fram nægilegt fjármagn í því skyni, að hefja útgerð frá Íslandi og reisa hér fiskiðnaðarverksmiðjur, sumar af þeim tegundum, sem við höfum ekki enn treyst okkur til að koma upp í landinu.

Ég held, að þeir, sem nú gerast talsmenn þessarar nýju stefnu, hljóti að verða að svara því, hvað þeir hugsa sér um framhald þessarar stefnu, hvort þeir geti hugsað sér það að veita t.d. í þessum tilfellum, sem ég hef minnzt á, sérréttindi útlendingum, eitthvað af svipuðu tagi þeim sérréttindum, sem hér er nú gert ráð fyrir að veita hinu svissneska alúmínfyrirtæki.

Ég spurði um, hvaða ástæður það væru einkum, sem hefðu knúið á með það að taka upp þessa nýju stefnu. — Á það hefur stundum verið bent, að það, sem hér hafi valdið allmiklu um, hafi verið vantrú og vantraust núverandi stjórnarvalda og efnahagssérfræðinga ríkisstj. á aðalatvinnuvegum landsmanna. Ríkisstj. hefur nú reynt að afneita þessu hér í þessum umr. og segist hafa fulla trú t.d. á íslenzkum sjávarútvegi, framtíð hans. En ég held, að það liggi fyrir svo ótvíræðar sannanir í þessum efnum, að ríkisstj. geti ekki, úr því sem nú er komið, skotið sér á bak við einhverjar nýjar yfirlýsingar í þessum efnum.

Eins og kunnugt er, var sú stóriðjunefnd, sem einkum hefur staðið að samningunum við svissneska alúmínhringinn, sett á fót árið 1961. Strax snemma á árinu 1962 ferðaðist formaður stóriðjunefndar, Jóhannes Nordal bankastjóri Seðlabankans, nokkuð á milli landa til þess að athuga alveg sérstaklega um möguleika á því að gera samninga af því tagi, sem er verið að gera hér nú um alúmínbræðslu á Íslandi. Hann hafði þá viðtal við erlent blað og skýrði frá því, hvers vegna hann væri kominn þangað út í þeim tilgangi að eiga samninga við erlenda aðila um atvinnurekstur á Íslandi og sérstaklega um byggingu alúmínverksmiðju. Orðrétt hefur dagblaðið Börsen þetta eftir Jóhannesi, og útdráttur úr þessu viðtali birtist hér 24. febr. 1962 í fleiri en einu af Reykjavíkurblöðunum, en Jóhannes sagði þá, þegar hann var spurður um þennan leiðangur, þá sagði hann á þessa leið: „Ein aðalástæðan fyrir þessum ráðagerðum er sú, að íslenzkur sjávarútvegur er ekki talinn geta aukið útflutningstekjur sínar nema um 5% í hæsta lagi á ári næstu ár, og slík tekjuaukning hjá aðalatvinnuvegi landsmanna nægir ekki til að tryggja með góðu móti bætt lífskjör og velmegun í landinu. Íslendingar verða því að leita annarra möguleika til að auka útflutningstekjur sínar.“

Um sama leyti hélt aðalefnahagsmálaráðunautur ríkisstj., Jónas Haralz, erindi, þá flutti hann erindi á svonefndri verkfræðingaráðstefnu hér í borginni, og þar gerði hann í ýtarlegu máli grein fyrir athugunum sínum á þessum efnum, og Jónas, eftir að hafa haft þar uppi allmikla útreikninga, komst að þeirri niðurstöðu, að það væri útilokað að búast við því, að íslenzkur sjávarútvegur, þar með talið fiskveiðar og fiskiðnaður, gæti á næstu árum aukið útflutningsverðmæti sin um meira en 4.5% að meðaltali á ári, landbúnaðurinn gæti ekki aukið framleiðslu sína um meira en 3% og íslenzkur iðnaður í hæsta lagi um 5% á ári. Og hann lýsti yfir í þessu sambandi, að hann teldi skv. þessum athugunum með öllu útilokað, að Íslendingar gætu haldið í við aðrar þjóðir Vestur-Evrópu um hagþróun og efnahagslegar framfarir, með því að treysta á þessa atvinnuvegi, og því yrðu að koma til önnur ráð. Hefur því í rauninni ekkert farið á milli mála, hvað þessir tveir þýðingarmiklu menn, sem ég hef hér nefnt og hafa alveg óumdeilanlega verið aðalefnahagsmálaráðunautar ríkisstj. og annar þeirra alger framámaður í sambandi við undirbúning þessa máls, sem hér liggur nú fyrir í samningsformi — hvaða álit þeir hafa haft á atvinnuvegum landsmanna og möguleikum þeirra í sambandi við eðlilega efnahagsþróun í landinu. Þeir hafa hreinlega slegið því föstu, að á þessum atvinnuvegum er ekki hægt að byggja til þess, að hægt sé að bæta afkomu þjóðarinnar til samræmis við það, sem er í nærliggjandi löndum. Ef þjóðin vill tryggja sér hliðstæð lífskjör og nágrannaþjóðirnar geta tryggt sér, verður hún að fara út í stóriðjuna. Og þessir menn drógu heldur ekkert úr því, að þeir teldu, að það væri ekki á færi Íslendinga að ráðast í slíka stóriðju, til þess þyrfti að koma einkafjármagn útlendinga.

Ég hef nokkrum sinnum áður einnig bent á það, að það fór heldur ekkert á milli mála, að hæstv. forsrh. var líka á þessari sömu skoðun og efnahagsráðunautar hans, og það kannske ekki nema af eðlilegum ástæðum. Í ýmsum ummælum hans kom það alveg skýrt fram á öllum þessum undirbúningstíma í sambandi við stóriðjumálið, að hann taldi allt of veikt fyrir Íslendinga að byggja á sjávarútvegi lengur og á hann væri ekki að treysta, það væri ekki að búast við því, að það kæmi stöðugleiki í efnahagslíf þjóðarinnar, nema t.d. stóriðja gæti komið til.

Ég minni á það, að hæstv. forsrh. sagði m.a. á sambandsþingi ungra sjálfstæðismanna í upphafi árs 1964, að með stóriðju skapaðist traust og festa í efnahagslífinu. Og í sömu ræðu sagði hæstv. forsrh. það, sem ég hef vitnað til áður, að hann efaðist um það, að nokkurt annað sjálfstætt ríki byggði velgengni sína á jafnótraustum grundvelli og fiski, sem syndir um hafdjúpin. Þetta var orðrétt haft eftir hæstv. ráðh, og birt í blöðum Sjálfstfl.

Ég hygg, að þessar tilvitnanir og margar fleiri, sem auðvelt væri að tína hér fram, sýni alveg ljóslega, að það var orðin skoðun efnahagssérfræðinga ríkisstj. og ríkisstj. sjálfrar, að það væri ekki lengur byggjandi á aðalatvinnuvegum landsmanna og í höndum landsmanna sjálfra, ef við ættum að fylgjast með öðrum þjóðum í eðlilegum efnahagsframförum. Þetta var skoðun þeirra. En svo kom aðeins reynslan og afsannaði alla útreikninga hjá þessum efnahagsráðunautum ríkisstj., — reynslan, sem sýndi, að framleiðsluaukningin í sjávarútveginum var ekki 4.5% eða 5%, heldur miklum mun meiri, og hefur núna á nokkrum árum tvöfaldazt. Og þær miklu efnahagslegu framfarir, sem orðið hafa á Íslandi einmitt núna hin síðari ár, stafa af þeim miklu möguleikum, sem Íslendingar eiga í sambandi við sinn sjávarútveg, en ekki vegna skilnings ríkisstj. eða efnahagsráðunauta hennar á þeim möguleikum, sem sjávarútvegurinn býr yfir. Þetta kom líka alveg greinilega fram, eins og ég hef bent hér áður á í umr., þegar það gerðist einmitt á miðju þessu tímabili, að hvorki meira né minna en 7 af þm. Sjálfstfl. hér í þessari hv. þd. fluttu till. um að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að þeir fiskibátar Íslendinga, sem væru yfir 150 tonna stærð, yrðu sendir til fiskveiða við Afríkustrendur, vegna þess að sannað mál væri, að það væri ekki hægt að gera út slík skip við Ísland. Þetta þskj. liggur hér greinilega fyrir í skjölum Alþ. og þingtíðindum, og það verður ekki flúið frá því, að þetta var skoðun þessara 7 þm. Sjálfstfl. um það leyti einmitt sem aðrir voru að berjast fyrir því, að það ætti að stækka fiskiskipaflota landsmanna og gera hann hæfari en hann var áður til þess að notfæra sér þá auðlegð, sem væri á okkar síldarmiðum.

En svo kom reynslan til sögunnar. Fiskiskipin okkar, sem voru 150 rúmlestir að stærð og stærri, sýndu, hvaða möguleikar voru fyrir hendi, og hagnaðurinn á þeim skipum, sem fyrir voru, í sambandi við nýtingu þeirra vinnslustöðva, sem byggðar höfðu verið upp, varð til þess, að ný skip voru keypt og það kom verulegur framfarakippur í þessi mál, og auðvitað jókst stórkostlega gjaldeyriseign landsmanna og afkoma þjóðarbúsins í heild batnaði. En þegar þetta hafði allt saman gerzt, kemur hæstv. núv. ríkisstj. fram fyrir þjóðina og segir: Þarna sjáið þið, hvort við höfum ekki kunnað tökin á málunum í efnahagsmálunum og gert hér það ástand, sem var ekki gott, að góðu ástandi. –Og þeir koma varla svo upp í ræðustólinn, hæstv. ráðh., að þeir hæli sér ekki fyrir það, að gjaldeyriseign þjóðarinnar skuli nú vera orðin 2000 millj. kr., eins og einhverjar ráðstafanir ríkisstj. hafi leitt til þess, að þessi gjaldeyrissjóður myndaðist.

Vitanlega er það svo, að það eru einmitt þeir miklu möguleikar, sem eru tengdir við okkar aðalatvinnuveg, okkar sjávarútveg, sem eru undirstaðan að því, að svona hefur farið, þrátt fyrir skilningsleysi stjórnarvaldanna í landinu. Og það er í rauninni kátbroslegt, að einmitt á þeim tíma, sem ríkisstj. er að reyna að baksa í gegn með alúmínsamningana við hinn svissneska auðhring og hælir sér af, að það megi búast við því, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar geti vaxið um í kringum 300 millj. kr. á ári af þessum rekstri, sem ég mun koma nánar að síðar að er hrein fjarstæða, fær ekki staðizt með nokkru móti, þá er það svo, að aðeins tiltölulega lítill hluti af þessum stærri fiskibátaflota okkar fer á nýjar veiðar, sem hafa ekki verið þekktar hér áður, lítill hluti af þessum flota stundar hér loðnuveiðar í 2 1/2 mánuð og leggur í þjóðarbúið meira en alúmínverksmiðjan mundi gera á heilu ári skv. útreikningum ríkisstj. Aðeins ný grein þar skilar fljótlega öðru eins og því, sem ríkisstj. ætlar að kaupa því dýra verði, sem hún hugsar sér að kaupa þessa alúmínvinnslu.

Ég tel, að það sé enginn vafi á því, að eitt verulegt atriði í því, að ríkisstj. fór út á þá braut að gera þessa alúmínsamninga og yfirgefa hina gömlu atvinnuuppbyggingarstefnu og atvinnurekstrarstefnu okkar Íslendinga og hleypa hér erlendum einkaaðila inn í atvinnulífið, — að eitt þýðingarmikið atriði í því, að þetta hefur verið gert, hefur einmitt verið vantrú stjórnarvaldanna á atvinnulífi landsmanna sjálfra, vantrúin á íslenzka sjávarútveginn, skilningsleysið á því, hvað íslenzkur sjávarútvegur gæti fært í okkar þjóðarbú, ef réttilega væri á haldið. En það hefur auðvitað fleira komið til en þessi vantrú. Jafnframt þessari vantrú á íslenzkum atvinnuvegum hefur svo það komið til, að það má segja, að ríkisstj. og hennar sérfræðingar hafi gersamlega misst áttirnar í sambandi við stöðu hins litla íslenzka þjóðfélags í samanburði aftur við meira og minna ímyndað stórríki Vestur-Evrópu, sem mikið hefur verið talað um á undanförnum árum. Það fór auðvitað ekkert á milli mála. að forustumenn núv. ríkisstj. höfðu í huga að reyna að drifa Ísland inn í Efnahagsbandalag Evrópu. Þeir voru bæði farnir að halda þannig ræður og senda frá sér þannig skrif, að það kom mjög greinilega fram, að þeir töldu heldur vonlítið, eins og þeir litu þá á framtíðina, fyrir hina íslenzku smáskútu að vera þar eina á ferð og miklu væri vænlegra að hengja hana aftan í stórskip stórþjóðanna eða samtök stórþjóða.

Það atvikaðist svo sem allir vita, að það varð ekki jafnknýjandi að taka afstöðu til þess, hvort Ísland ætti að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu á beinan eða óbeinan hátt, eins og út leit á tímabili. Þakkað sé De Gaulle þar fyrir. Hann kippti þar ýmsu úr lagi, og varð því ekki eins aðkallandi að skera úr um það hér, hvort meiri hluti væri fyrir því að koma Íslandi inn í Efnahagsbandalag Evrópu.

Nú vitum við, að það málið, sem einmitt lá að baki myndunar Efnahagsbandalags Evrópu og liggur enn, er fyrst og fremst það sjónarmið auðhringanna í Evrópu, að þeir vildu fá aukið svigrúm fyrir sig til atvinnurekstrar í löndum utan sinna heimalanda. Þeir vildu fá svigrúm til þess að geta flutt á milli fjármagn eftir vild, flutt á milli vinnuafl. Þeir vildu í stuttu máli sagt fá sem almenna viðurkenningarreglu það, sem nú er verið að gera fyrir hinn svissneska alúmínhring hér. Þeir vildu aðeins fá þetta viðurkennt sem almenna reglu á milli allra þeirra landa, sem væru í Efnahagsbandalaginu, að þeir gætu unnið á þessum grundvelli.

Þegar núv. ríkisstj. stendur því að því að gera þann samning við svissneska alúmínauðhringinn, sem hún hefur gert, er hún einmitt á þessari sömu braut. Hún hefur ekki enn þá vikið frá þessari hugsun, og það fer auðvitað heldur ekkert á milli mála, að sú hugsun er fyllilega vakandi enn hjá ýmsum forustumönnum ríkisstj., að spurningin um beina eða óbeina þátttöku í Efnahagsbandalagi Evrópu geti komið upp fyrr en varir, og þá álíta þeir, sem þannig trúa, að það sé gott að gefa mönnum þetta inn í skömmtum, t.d. að meðtaka þennan samning sem fyrsta skammt og síðan að lögleiða regluna almennt á eftir.

Ég held, að það hafi verið þessi afstaða hjá ýmsum af forustumönnum ríkisstj. og efnahagssérfræðingum hennar, þessi afstaða til Efnahagsbandalags Evrópu eða myndunar slíkra samtaka, sem hafi verið þess að verulegu leyti valdandi, að þeir héldu áfram á þessari braut á þann hátt, að það endaði með þessari samningsgerð, sem hér liggur nú fyrir.

Og þriðja atriðið, sem ég er ekki í neinum vafa um, að hér hefur ráðið allmiklu um, að þessi samningur var gerður, var svo það, að það voru ýmsir af sterkum stuðningsmönnum ríkisstj., áhrifamönnum innan ríkisstj., sem sáu miklar gróðavonir í sambandi við komu hins svissneska auðhrings hingað til lands. Þessir einstaklingar hafa gert sér vonir um það að geta orðið umboðsmenn á beinan eða óbeinan hátt hins erlenda auðhrings, þjónustumenn hans í ýmsum efnum, og hafa hugsað gott til glóðarinnar, að þeir gætu haft hér drjúgan gróða af.

Það er skoðun mín, að það séu þessi þrjú atriði, sem hér ráða mestu um: Í fyrsta lagi vanmatið og vantrúin á íslenzkum atvinnuvegum og íslenzkum atvinnurekendum, í öðru lagi hugmyndirnar og afstaðan til efnahagsbandalagsmálsins og svo gróðahyggja tiltekinna manna, sem áttu mjög innangengt hjá ríkisstj. og vildu gjarnan fá þetta mál fram.

Það er kannske ekki mikil þörf á því að ræða hér í ýtarlegu máli um reynslu þá, sem við höfum raunverulega haft, Íslendingar, af þeirri stefnu, sem við höfum haldið okkur við í okkar atvinnuuppbyggingu á undanförnum árum. Ég hygg, að sú reynsla liggi svo ljóslega fyrir öllum og að hún sé viðurkennd á þá lund, að það þurfi þar ekki mörgum orðum um að fara. Nú mun það vera svo, að heildarútflutningsverðmæti íslenzkra sjávarafurða er í kringum 6000 millj. kr. á ári, og það er skoðun mín, að allar líkur séu til þess, að þessi upphæð muni fara verulega vaxandi á þessu nýbyrjaða ári. Það er því greinilegt, að þó að útreikningar ríkisstj. um gjaldeyristekjur af alúmínbræðslunni væru réttir, í kringum 300 millj. kr. á ári, þá segir slík upphæð ekki mikið í samanburði við það, sem íslenzkur sjávarútvegur leggur með sér á ári, og ekki heldur mikið í sambandi við þá aukningu, sem verður á vegum sjávarútvegsins á hverju ári. Reynslan hefur verið sú, að íslenzkur sjávarútvegur hefur staðizt hin ótrúlegustu átök, vil ég segja, á undanförnum árum og sýnt þar með einmitt, hversu öflugur sjávarútvegurinn er í sjálfu sér eða hversu miklir möguleikar eru í sambandi við hann. Við vitum, að síðan á miðju ári 1961 hefur allt verðlag í landinu hækkað nærri því að vera um helming. Það hefur nærri því tvöfaldazt síðan. En á þessum tíma hefur þó íslenzkur sjávarútvegur orðið að taka á sig allar þessar miklu verðhækkanir sem aukin útgjöld í sambandi við reksturinn, án þess að til kæmu breytingar á gengi íslenzkrar krónu. Sjávarútvegurinn hefur því þurft að standa undir þessum miklu álögum með aukinni framleiðslu og með hækkuðu verði á útflutningsvörum.

Þeir styrkir, sem komið hafa til sjávarútvegsins á þessu tímabili frá ríkissjóði, eru tiltölulega litlir, þegar lítið er á sjávarútveginn í heild. Ég hygg, að það mætti leita viða og lengi eftir því að finna atvinnugrein, sem byggist aðallega á útflutningi, sem hefði þolað slíka aflraun eins og þetta hefur verið fyrir íslenzkan sjávarútveg. En hann hefur staðið þetta af sér. Og ástæðurnar eru þessar, að með því að við notfærðum okkur í auknum mæli vaxandi þekkingu og nýja tækni, þá höfum við getað aukið aflamagnið verulega, og með því að breyta þar nokkuð til um gerð okkar atvinnutækja, og svo hefur hitt komið til, að það hafa verið og eru allar líkur til þess, að það verði um langan tíma enn mjög vaxandi eftirspurn einmitt eftir þeim vörum, sem sjávarútvegurinn framleiðir.

Ég held því, að við Íslendingar ættum einmitt að vera mjög bjartsýnir á möguleika okkar sjávarútvegs og að það sé mjög óréttmætt, að stjórnarvöld landsins sýni slíkri atvinnugrein það vantraust, sem núv. ríkisstj. hefur alveg óumdeilanlega sýnt þessari atvinnugrein, miðað við þá reynslu, sem fyrir liggur. Jú, það hefur verið vikið að því, að e.t.v. séu fiskstofnarnir við Ísland að ganga saman, og það hefur nokkuð verið gert úr því, að einn af fiskifræðingum okkar sendi frá sér skýrslu nú fyrir skömmu, sem fól í sér nokkra aðvörun í sambandi við ástand þorskstofnsins við Ísland. Ég vil ekki að þessu sinni fara langt út í þessa skýrslu, en vil þó benda á það, að sú skýrsla, sem fiskifræðingurinn vitnaði til, sýnir, að á undanförnum nokkuð mörgum árum hefur heildaraflamagnið á Íslandsmiðum nokkuð farið minnkandi. Hlutur okkar Íslendinga hefur ekki minnkað í þessu fiskmagni eða þorskveiðinni, en hlutur útlendinga hefur farið verulega minnkandi. Þær ráðstafanir, sem við Íslendingar gerðum í landhelgismálunum árið 1958, leiddu til þess, að það magn, sem Bretar veiddu hér við land, minnkaði mjög verulega. En svo gerðist það, að núv. ríkisstj. hvarf frá þessari stefnu, sem þá var upp tekin, snemma á árinu 1961 og veitti Bretum

undanþágu til þess að veiða innan fiskveiðilandhelginnar um þriggja ára skeið. Þessar sömu skýrslur fiskifræðingsins, sem hann lagði til grundvallar, sýna, að veiði Breta á Íslandsmiðum af þorski fór þá aftur upp mjög verulega. En eigi að síður standa málin þannig, þrátt fyrir þetta frávik, sem þarna var, að heildarveiði útlendinga á Íslandsmiðum af þorski og ýsu hefur farið minnkandi. Ég held því, að ef við Íslendingar héldum okkur við þá stefnu, sem við mörkuðum í okkar fiskveiðimálum árið 1958 með útfærslu landhelginnar, og með því að ná meira og meira undir okkar yfirráð af fiskimiðunum við Ísland, einnig utan 12 mílna svæðisins, þá held ég, að það ætti engin hætta að vera á ferðinni í sambandi við þorskstofninn við Ísland, vegna þess að reynslan sýnir, að það er tiltölulega minna tekið úr sjónum af þessum fiski en áður var um margra ára skeið. En leiðin er sem sagt ekki sú í þessum efnum að greiða götu brezkra togara eða annarra erlendra fiskiskipa inn á fiskimiðin við Ísland. Leiðin er vitanlega sú, að við höldum okkur við það, að við Íslendingar getum á eðlilegastan hátt og beztan hátt nýtt þær auðlindir, sem fiskimiðin við landið eru. Og á meðan það er svo, að aðrar þjóðir veiða hartnær jafnmikið af þorski og ýsu á Íslandsmiðum og við Íslendingar gerum, þá eigum við ekki að draga að okkur höndina, heldur eigum við að halda áfram okkar fyrr mörkuðu stefnu að ná yfirráðum yfir fiskimiðunum og setja þær reglur, sem þurfa að vera í gildi um nýtingu miðanna, jafnvel þó að þær reglur bitni á útlendingunum.

Ég held, að sú reynsla, sem við stöndum nú frammi fyrir í sambandi við stöðu okkar atvinnuvega, sé þannig, að hún ætti að sanna okkur það, að við Íslendingar höfum á undanförnum árum getað aukið heildarframleiðslu okkar meir en nágrannaþjóðir okkar hafa gert. Við höfum getað aukið okkar þjóðartekjur meira en þær hafa gert á undanförnum árum með því að nýta sjálfir okkar auðlindir, og ég held, að við ættum að koma auga á það. að við eigum enn eftir gífurlega mikla möguleika í sambandi við nýtingu þessara auðlinda. Við erum mjög skammt á veg komnir í sambandi við okkar fiskiðnað, og ég efast ekkert um, að það er rétt, sem fiskimálastjóri landsins setti fram í grein fyrir ekki löngu, að það væri auðvelt fyrir Íslendinga að tvöfalda útflutningsverðmæti íslenzkra sjávarafurða með því að snúa sér af fullum krafti að því að fullvinna þann afla, sem á land berst, í stað þess að selja hann að langmestu leyti úr landi sem hráefni. Og eins og hér hefur verið vikið að í þessum umr., eru mörg önnur verkefni, sem standa okkur Íslendingum nær en það að gerast vinnumenn hjá erlendum auðhring í alúmínframleiðslu. Auðvitað er það verkefni miklu nær okkur Íslendingum að setja hér upp myndarlega stálskipasmíði og smíða svo að segja allan þann fiskiskipaflota, sem við þurfum á að halda. Það er enginn vafi á því, að slíkur iðnaður, auk þess að hann hefur mikið efnahagslegt gildi, mundi einnig hafa mikið gildi einmitt fyrir það hjá okkur að ráða nokkuð sjálfir um það, hvernig bezt er að gera fiskiskipin úr garði á hverjum tíma. Nú verðum við að sækja þetta meira og minna til annarra, sem þekkja ekki að öllu leyti okkar aðstæður, og það er því enginn vafi á því, að það að tileinka okkur þennan iðnað hefði einnig mikla þýðingu frá því sjónarmiði.

Margar aðrar greinar má benda á, eins og t.d. iðnað í sambandi við okkar landbúnaðarafurðir. Það er enginn vafi á því, að þar eigum við Íslendingar mikla möguleika og þau verkefni eru miklu eðlilegri fyrir okkur og mundu skila miklum mun meiri arði í okkar þjóðarbú heldur en að hníga að því ráði að selja okkar vinnuafl á leigu til erlendra aðila.

Mig langar þá að víkja hér nokkrum orðum að þeirri röksemdafærslu, sem hér hefur komið fram af hálfu ríkisstj. fyrir þessari samningsgerð. Því hefur verið haldið hér fram, að raforkusölusamningurinn við alúmínhringinn sé Íslendingum hagstæður og hann muni skapa grundvöll að því, að hægt verði á komandi árum að lækka rafmagnsverð til landsmanna sjálfra, eða þá að því, að hægt verði með meiri hraða en áður að vinna að rafvæðingu landsins. Hæstv. iðnmrh. hefur haldið því fram hér, að fyrir lægju útreikningar, sem ekki væri hægt að hnekkja, sem sýndu það, að landsmenn mundu græða nokkur hundruð millj. kr. á næstu 20 árum á því að gera þennan raforkusölusamning, fram yfir það, sem yrði, ef Þjórsá yrði virkjuð við Búrfell fyrir landsmenn sjálfa.

Á það hefur verið bent fyrr í þessum umr., að þessir útreikningar, sem hæstv. ráðh. vitnar til, fái illa staðizt. Í fyrsta lagi er það rétt, sem hér hefur verið bent á, að við þessa útreikninga hefur nokkur hluti af þeim skatti, sem gert er ráð fyrir að alúmínverksmiðjan greiði, verið færður yfir í raforkuverðið, og samkv. upplýsingum, sem fulltrúar ríkisstj. gefa, nemur skekkjan í þessum útreikningi af þessari ástæðu um 200 millj. kr. Nú efast ég ekkert um, að hæstv. iðnmrh. viðurkennir það, eins og margsinnis hefur komið fram frá hans hálfu áður, að það verð, sem samið var um á raforku til hringsins, var 2.5 millj. eða sem nemur 10.75 aurum á kwst. Það var það rafmagnsverð, sem um var samið. En hins vegar var horfið að því ráði að flytja nokkurn hluta af þeim skatti, sem alúmínbræðslan átti að greiða, yfir í rafmagnsverðið fyrstu árin, væntanlega fyrstu 6 árin, sem verksmiðjan starfaði. Það er því algerlega óréttmætt að telja það rafmagnsverð, sem til verður með þeim hætti, sem eitthvert raunverulegt rafmagnsverð, sem rétt sé að miða við.

En það eru fleiri skekkjur í þessu dæmi, sem hæstv. iðnmrh. vitnar til. Það er auðvitað fjarri öllu lagi að gera þann samanburð að ætla, að í öðru tilfellinu sé öll raforka, sem framleidd er í virkjuninni, seld, en það er í sambandi við söluna til alúmínverksmiðjunnar, en í hinu tilfellinu sé mjög verulegur hluti raforkunnar ekki seldur, fyrir hann fáist ekki neitt. Það er að vísu rétt varðandi hina almennu notkun í landinu, sem byggist á því verðlagi, sem nú hefur verið lagt til grundvallar í okkar rafmagnsmálum, að það er ekki líklegt, að þessi umframorka seljist öll við því verði. En það gefur alveg auga leið, að það væri hægt að selja

verulegan hluta af þessari orku, ef verðið yrði lækkað, t.d. niður undir það, sem verðið er til alúmínbræðslunnar.

Hæstv. iðnmrh. minntist á, að það hefði þótt út af fyrir sig rétt og hagkvæmt að selja áburðarverksmiðjunni nú um alllangan tíma raforku á verði, sem er talsvert undir beinu framleiðslukostnaðarverði, af því að þar var að nokkru leyti um að ræða raforku, sem hefði ekki nýtzt með öðru móti. Nú veit hæstv. iðnmrh. það, að áburðarverksmiðjan er löngu orðin of lítil. Hún hefur ekki einu sinni getað gengið með fullum afköstum, vegna þess að hana hefur skort raforku, og það hefur mjög komið til greina að stækka þá verksmiðju verulega. Auðvitað hefðu Íslendingar getað gert sér nokkur verðmæti úr umframorkunni með því að selja hana til áburðarverksmiðju eða stækkaðrar áburðarverksmiðju, ef þeir hefðu kosið það. Og það er auðvitað enginn vafi á því heldur, að við gætum auðveldlega selt allmikið af þessari umframorku, sem yrði í þessu raforkuveri, ef Íslendingar væru einir um það, til aukinnar upphitunar húsa. Ef við byðum þá raforku t.d. á 20 aura kwst., mundi slík notkun stóraukast, að ég tali nú ekki um, ef farið yrði niður í 10.75 aura. Þetta hafa auðvitað þeir aðilar, sem gerðu þennan samanburðarútreikning, vitað. En þeir kusu að sleppa þessu í sínum samanburði, af því að þeir voru að réttlæta þessa samningsgerð, sem þeir þó vita mætavel sjálfir eða eru orðnir uggandi um núna, að fái ekki staðizt jafnvel og þeir hafa haldið fram. Og svo er þetta sjónarmið, að það gæti jafnvel verið betra, eins og hæstv. iðnmrh. sagði, að selja umframorku á lægra verði en sem nemur beinum framleiðslukostnaði. Jú, auðvitað er það hugsanlegt. Það er hugsanlegt að gera það og lítur auðvitað talsvert mikið öðruvísi út, ef landsmenn hefðu þar farið að verzla við sitt eigið fyrirtæki. En er það sú stefna, sem við eigum að marka okkur í þessum málum, að eiga slík viðskipti við útlendinga, að við seljum þeim verulegan hluta af okkar raforku undir framleiðslukostnaðarverði? Það er upplýst, að frændur okkar, Norðmenn, halda sig við þá stefnu, að þeir vilja ekki selja raforkuna undir framleiðslukostnaðarverði.

Ég skal svo ekki fara miklu lengra út í raforkusölusamninginn. Þó vil ég aðeins bæta því við, að í þessum samanburði, sem ég gerði hér að umtalsefni, er gert ráð fyrir því, að það verði að koma til ný virkjun í Háafossi, og vegna þess að það er vitað mál, að Búrfellsvirkjun dugir landsmönnum ekki nema í nokkur ár, 7—8 ár, með því að 2/3 hlutar af virkjuninni gangi til alúmínbræðslunnar, þá þyrfti í þessu samanburðardæmi að ganga út frá því, að ráðizt yrði í nýja virkjun, og þá er valin virkjun í Háafossi og því slegið fram, að sú virkjun muni kosta 975 millj. kr. og hún muni þó verða að stærð 126 megavött. Nú er upplýst af hinum kunnugustu mönnum í þessum efnum, að engin nákvæm áætlun hafi verið gerð um þessa virkjun og margvislegar undirbúningsathuganir verði að fara fram, áður en hægt sé að segja til um það með nokkurri vissu, hvað þessi virkjun muni kosta. En ekki nóg með það. Þegar betur er að gætt, kemur í ljós, að þetta verð, sem sagt er, að hægt sé að virkja þarna fyrir, 975 millj. kr., er svo lágt, að það slær sjálfa Búrfellsvirkjunina út. Til þess að fá samanburðinn á þann hátt, sem áróðursmenn raforkusölusamningsins við alúmínbræðsluna helzt vilja, er ekki lengur haldið sig við það, að Búrfellsvirkjun sé hagstæðasta virkjunin, sem Íslendingar ráði yfir. Nei, þá er gert ráð fyrir því, þegar búið er að nota hana upp, að þá sé hægt að fara í Háafossvirkjun, sem sé ódýrari en virkjunin við Búrfell fullvirkjuð. Það er enginn vafi á því, að þessar tölur eru með þeim hætti, að það verður að taka þær með mikilli gætni. Ég hygg, að hitt muni miklu réttara, að því sé svo varið, að þegar Íslendingar verða að velja sér virkjunarstað eftir fullnýtingu Búrfellsvirkjunar, verði þeir að virkja á eitthvað dýrari grundvelli en þeim, sem virkjað er við Búrfell. En ef það hefði verið gert, hefði auðvitað komið allt annað út úr þessu samanburðardæmi, sem hæstv. iðnmrh. var hér með.

Ég vil þá koma hér nokkuð að rekstri alúmínbræðslunnar og þeim röksemdum, sem fram hafa komið frá hálfu ríkisstj. um gildi hennar fyrir okkar þjóðarbúskap. Því er haldið fram í grg. þeirri, sem fylgir með þessu frv., að það hafi verið gerð nokkur athugun á því, hvað 60 þús. tonna alúmínbræðsla gæti gefið af sér í auknum gjaldeyri fyrir Íslendinga, og því er haldið fram, að þessi athugun hafi leitt til þess, að búast megi við, að auknar gjaldeyristekjur geti orðið 300—320 millj. kr. Þá hefur sem sagt verið ráð fyrir því gert, að heildarframleiðsla alúmínbræðslunnar, 60 þús. tonn, muni nema í útflutningsverðmæti í kringum 1300 millj. kr., og síðan er búið að draga þar frá allan kostnað af hráefni til vinnslunnar og allan kostnað vegna vaxta og vegna fyrninga á verksmiðjunni, miðað við, að hún sé fullfyrnd á 15 árum, og allan annan gjaldeyrislegan rekstrarkostnað, og sagt er síðan, að gjaldeyrishagnaður muni verða í kringum 300—320 millj. kr. Og síðan er áfram í þessari röksemdafærslu miðað við það, að gjaldeyrissjóðir Íslendinga muni aukast um þessar 300 eða 320 millj. kr., því að það gefur auga leið, að þó að þetta dæmi væri rétt upp sett og rétt útreiknað, ef hér væri aðeins um gjaldeyriseign eiganda verksmiðjunnar að ræða, bætir það ekki á neinn hátt úr fyrir okkur. Við eigum ekki þeirra gjaldeyrissjóði, þeir eiga þá sjálfir. Við Íslendingar kaupum okkur hvorki eitt né neitt fyrir þeirra gjaldeyri, því að samkv. samningunum eiga þeir þann hagnað, sem út úr verksmiðjunni kemur, og mega ráðstafa gjaldeyri sínum að sinni vild.

Það er alveg augljóst, að við Íslendingar getum aðeins fengið gjaldeyri frá þessu fyrirtæki með þrennum hætti: í fyrsta lagi fyrir það vinnuafl, sem við seljum til starfa f þessari verksmiðju, í öðru lagi með þeim skatti, sem verksmiðjan á að greiða Íslendingum, og í þriðja lagi með þeim greiðslum, sem koma fyrir raforku, sem seld er bræðslunni. Til viðbótar við þetta geta komið einhverjar örlitlar gjaldeyrisgreiðslur fyrir smávægilega aðra þjónustu. Aðrar leiðir eru ekki til fyrir okkur Íslendinga til þess að afla gjaldeyris í sambandi við rekstur þessarar verksmiðju, það gefur auga leið. Og ef við miðum við þær forsendur, sem gefnar eru upp, að í verksmiðjunni sé áætlað, að vinni um 450 menn, eftir að hún er komin í fullan rekstur, og ef við gengjum út frá því, að allir þessir menn væru Íslendingar og vinnulaun þeirra kæmu í okkar sjóð og við reiknuðum t.d. hverjum manni í meðaltalskaup yfir árið 250 þús. kr., — og ég hugsa þó, að þetta þætti nokkuð hátt reiknað, ef verksmiðjan á að halda sig við það að borga hliðstæð launakjör og atvinnurekstur landsmanna gerir, — þá mundi þessi upphæð nema 112.5 millj. kr. á ári. Nú vitum við, að það eru allar líkur til þess, að talsverður hluti af þessum mönnum, sem eiga að vinna í verksmiðjunni, verði útlendingar, beinlínis gert ráð fyrir því í samningunum og allar líkur benda til þess. Mér þykir því mjög ólíklegt, að gjaldeyristekjur Íslendinga af vinnuaflssölu til fyrirtækisins verði yfirleitt 100 millj. kr. á ári, mjög ólíklegt. Það er gert ráð fyrir því, að skattar af fyrirtækinu geti orðið í kringum 50 millj. kr. á ári, og eru þó ýmis atriði, sem koma inn í skattgreiðsluna, þess eðlis, að það getur verið hæpið, að þessi upphæð skili sér. En látum nú svo vera, að þarna sé reiknað með því, að fáist inn 50 millj. kr. í skatt á ári, þá gætu þessar tekjur af skattinum og vinnuaflssölu til fyrirtækisins numið í kringum 150—160 millj. kr. á ári. Síðan kemur raforkusalan, sem er rétt rúml. 100 millj. á ári, en það er beinlínis gengið út frá því, að þar sé ekki um gjaldeyristekjur, ekki a.m.k. fyrstu 25 árin, að ræða fyrir Íslendinga, vegna þess að við þurfum að borga af hinum erlendu lánum jafnháa fjárhæð. Fyrstu árin getur þar ekki verið um neinar gjaldeyristekjur að ræða.

Það er því enginn vafi á því, að útreikningar þeir, sem ríkisstj. hefur verið að birta um hugsanlegar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið af rekstri alúmínverksmiðjunnar, fá ekki staðizt, og það væri gaman að heyra frá hálfu ríkisstj., hvernig þessi upphæð sundurliðast þá nánar, ef líkur eru til þess, að rekstur þessarar verksmiðju geti skilað í gjaldeyrissjóð Íslendinga 300 millj. kr. á ári, þannig að það auki okkar svigrúm í gjaldeyrismálum, sem þessari upphæð nemur. Það væri fróðlegt að fá það sundurliðað. (Gripið fram í.) Já, en það, sem þeir eiga að borga í hafnargjald eða kirkjugarðsgjald, er allt innifalið í þessum skatti. En hafnargjöldin, sem þeir eiga að borga, eru ekki heldur nema rétt á móti þeim lánum, sem eiga að standa undir höfninni, svo að þar verður ekki um neinar gjaldeyristekjur heldur að ræða, ekki fyrstu árin. Ég held því, að það sé gert miklu meira úr þeim gjaldeyristekjum, sem líklegt er, að landsmenn hafi út úr þessum rekstri, heldur en rétt sé.

Í þessum efnum hafa komið hér fram ýmsar fullyrðingar. Ég tók t.d. eftir því, að hæstv. iðnmrh. sagði, að þessi skattgreiðsla, 50 millj. kr., væri tvímælalaust hærri miðað við hvern vinnandi mann heldur en nokkurt íslenzkt fyrirtæki greiddi. Þetta er megnasta fjarstæða. Mér datt strax í hug eitt fyrirtæki, sem ég veit mætavel um, og ég gæti sýnt það hvenær sem er, að það hefur greitt miklum mun meira á hvern einstakling, sem þar vann, heldur en þarna er um að ræða, miklum mun meira. Þar á ég við síldarverksmiðju, sem greiddi í hliðstæðan skatt eins og hér er um að ræða 14 millj. kr. á einu ári, og í verksmiðjunni unnu, þegar mest var í henni, 40 menn og í allra mesta lagi 30 menn í verksmiðjunni, ef maður miðar við rekstur allt árið, svo að þetta fyrirtæki með 450 menn mætti borga talsvert mikið á 3. hundrað millj. í skatta til þess að borga jafnmikið á hvern starfandi mann og gerðist í þessu fyrirtæki.

Nei, hið rétta er það, að það er miðað við það eflaust og skakkar sennilega ekki miklu, að af rekstri þessarar verksmiðju eigi að greiða í skatta mjög svipað og er hjá stórum hópi fyrirtækja á Íslandi, en þá er bara það ekki tekið með í reikninginn, að það er búið að veita þessu fyrirtæki gífurleg skattfríðindi eftir öðrum leiðum, áður en þessum skattstiga er beitt. Íslenzku fyrirtækin verða vitanlega að borga tolla og aðflutningsgjöld af öllum sínum rekstrarvörum, og þau verða að borga tolla og aðflutningsgjöld af öllum vélum og tækjum, sem ganga til rekstrarins. En þetta fyrirtæki á ekki að borga neitt af slíkum gjöldum og hefði því raunverulega átt að vera undir hærri skattstiga heldur en íslenzku fyrirtækin eru, ef jöfnuður hefði átt að vera á. Ég hef bent á það hér áður, að aðeins sú undanþága frá greiðslu á tollum af stofnkostnaði verksmiðjunnar, sem veitt er, er áætlað að nemi um 500 millj. kr. af stofnkostnaði verksmiðjunnar, sem þá er áætlaður 2500 millj. Þetta kemur fram í skýrslu hæstv. ríkisstj. En 500 millj. kr. eftirgjöf á tollum og aðflutningsgjöldum nemur þá því, miðað við skattgreiðslu fyrirtækisins 50 millj. kr. á ári, að fyrirtækið sé skattlaust með öllu í 10 ár. Á sama hátt er það vitanlega, að það er engin smáræðis eftirgjöf sem á sér stað með því, að fyrirtækið er undanþegið þeirri skyldu að eiga að borga tolla og önnur aðflutningsgjöld af öllum sínum rekstrarvörum.

Í þeirri grg., sem fylgir þessu frv., er, eins og áður er að vikið, gengið út frá því, að í þessari alúmínverksmiðju muni starfa, þegar hún er komin í fullan rekstur, um 450 menn. Ég held nú, að þessi tala sé talsvert miklu lægri en allar líkur bendi til. Samkv. skýrslu, sem Steingrímur Hermannsson verkfræðingur hefur sent frá sér í sambandi við athugun á þessu máli, segist hann hafa fengið þær upplýsingar í Noregi, að slík verksmiðja sem þessi verði ekki rekin með minna en 550—600 mönnum. Og þegar við, sem vorum í þingmannanefndinni, sem hafði þetta mál til athugunar, vorum á ferðalagi í Noregi, fengum við þau svör, að búast mætti við, að verksmiðja af þessari stærð þyrfti ekki minna en 650 menn. En reynslan á eftir að skera úr um það, hvað marga menn þarf þarna við vinnsluna. Það sama er að segja um vinnuaflsþörf í sambandi við byggingu verksmiðjunnar. Í skýrslu Steingríms Hermannssonar segir, að hann hafi fengið þær upplýsingar í Noregi, að það megi reikna með því, að það þurfi í kringum 1200 manns þann tíma, sem mest þurfi á vinnuafli að halda við byggingu verksmiðjunnar. En hér er látið að því liggja, að ekki muni þurfa miklu meira en 600—700 menn.

Það væri auðvitað nokkur ástæða til þess að víkja hér að ýmsum ákvæðum, sem felast í þessum samningi og veita hinum erlenda aðila allt önnur og meiri réttindi en landsmenn sjálfir eiga við að búa. En tími er nú ekki til þess að fara neitt ýtarlega í þessi atriði, en þó vil ég vekja athygli á þeim nokkrum.

Áður hef ég minnzt á undanþáguna frá tollum, sem er ekki aðeins í sambandi við byggingu fyrirtækisins, heldur einnig í sambandi við rekstur þess. Það er sýnilegt, að þessi tollundanþága í sambandi við rekstur fyrirtækisins leiðir af sér, að það verður að setja upp allmikla tollvörzlu á svæði þessa fyrirtækis. Þegar gert er ráð fyrir því, að til verksmiðjunnar séu fluttir jöfnum höndum bílar, sem notaðir eru við vinnu eða framleiðslustörf, og alls konar vélar og tæki og annar varningur, sem notaður kann að vera í sambandi við reksturinn, án þess að tollar séu greiddir af þessum varningi, þá gefur það auga leið, að það verður að hafa öfluga tollvörzlu við svæði verksmiðjunnar, og tollvarzlan verður auðvitað einnig að ná til hafnarsvæðisins, þó að þarna sé gert ráð fyrir opinni höfn. Mér sýnist því, að það stefni til þess, að þarna verði að taka upp alveg sams konar þjónustu og verið hefur á Keflavíkurflugvelli og hún hljóti að kosta allmikið fé.

Þá hef ég vikið að því hér áður, að skattgreiðslur þessa fyrirtækis eru ekki í samræmi við skattgreiðslur íslenzkra fyrirtækja. Raunverulega verða skattarnir léttari, þegar á allt er litið. Þá er gert ráð fyrir því í samningnum, að fyrirtækið þurfi ekki að hlíta eftirliti íslenzkra skattyfirvalda, heldur er gert ráð fyrir því, að þegar ríkisstj. vill lata athuga bókhald fyrirtækisins, verði ríkisstj. að leita til erlendrar endurskoðunarskrifstofu. Þetta tel ég mjög óeðlilegt ákvæði og í rauninni lítillækkandi fyrir íslenzk stjórnarvöld að fallast á það. Það mátti ekki minna vera en sá erlendi aðili, sem átti að fá aðstöðu til atvinnurekstrar á Íslandi, gengist undir það, að hann greiddi hér skatta og yrði að hlíta hér þeim reglum, sem gilda í sambandi við innheimtu skatta og aðrir í landinu verða að búa við.

Þá hef ég einnig bent á það, að þetta fyrirtæki verður undanþegið ákvæðum gjaldeyrislaganna og getur ráðstafað gjaldeyri sínum svo að segja að vild.

Þetta fyrirtæki, dótturfyrirtæki hins svissneska auðhrings, sem gert er ráð fyrir, að stofnað verði hér, ÍSAL, fær undanþágu frá gildandi hlutafélagalögum. Og síðast, en ekki sízt fá þessir aðilar undanþágu í sambandi við íslenzka lögsögu. Þeir þurfa ekki að hlíta hér málsmeðferð á sama hátt og innlendir aðilar. Ef upp rís ágreiningur, geta þessir erlendu aðilar knúið það fram, að erlendur gerðardómur skeri úr um ágreiningsefnin. Hæstv. ríkisstj. reynir nú á síðustu stundu að fegra þetta ákvæði með því að segja, að hinn erlendi gerðardómur eigi þó að dæma eftir íslenzkum lögum. Alveg er það nú furðulegt, ef menn finna þá leið hagkvæma til þess að dæma eftir íslenzkum lögum að fela það verk þeim mönnum, sem ekkert kunna í íslenzku máli og ekkert þekkja til íslenzkra laga, fremur en æðsta dómstól landsins. Nei, auðvitað er málið líka þannig, að það er ekki gengið út frá því, að íslenzk lög verði hér lögð til grundvallar. Það er að vísu sagt með mjög almennu orðalagi, að það eigi að leggja til grundvallar íslenzk lög, reglur þjóðaréttar og grundvallarreglur laga siðmenntaðra þjóða. Hér er ýmsum ákvæðum hrært saman. Það á að dæma samkv. íslenzkum lögum og alþjóðalögum og lögum siðmenntaðra þjóða. Vitanlega segir þetta ekkert um það, að hægt sé að halda sér gagngert að íslenzkum lagaskýringum og íslenzkum réttarvenjum, og getur auðvitað enginn efazt um það, að hinn erlendi gerðardómur, sem kveðinn verður upp erlendis, mun úrskurða deilumálin eftir þeim reglum, sem algengastar eru hjá slíkum erlendum gerðardómi. Það kann vel að vera, að úrskurður hins erlenda gerðardóms geti út af fyrir sig verið réttlátur, það skal ég ekkert um segja. En hitt er þó alveg augljóst mál, að hér er um mjög niðurlægjandi ákvæði að ræða fyrir íslenzku ríkisstj. að fallast á þetta. Hér er greinilega um vantraust á íslenzku réttarfari að ræða og auðvitað sérstakt vantraust, sem í þessu kemur fram, á hæstarétti Íslands. Það er líka mjög eftirtektarvert, að yfirmenn hins svissneska fyrirtækis skuli hafa viðurkennt það hér á blaðamannafundi, að ákvæði hlíðstæð þessu sé ekki að finna í neinum samningi, sem þeir hafa gert, og hafa þeir þó víða samið samkv. frásögn forstöðumanns fyrirtækisins. En af hverju þurfti þá alveg sérstaklega að hafa þetta ákvæði í íslenzka samningnum? Jú, skýringin hefur verið gefin, sú, að Íslendingar og íslenzkir dómstólar þekki svo lítið til þessara mála, hafi svo lítið haft með hliðstæð mál að gera, hér hafi því ekki skapazt neinar réttarvenjur og þá að sjálfsögðu ekki hægt að trúa íslenzkum dómstólum fyrir því að skapa slíkar réttarvenjur, og af þessum ástæðum, sem auðvitað eru vantraust á íslenzku aðilunum, hefur verið ákveðið að fara með þessa dómsmeðferð til annarra landa.

Ég tel, að afstaða okkar Alþb.-manna hafi komið skýrt og greinilega fram áður í umr. hér á Alþ. til þessa máls, eins í sambandi við bókun þá, sem við tveir þm. Alþb. í þmn. gerðum þar um afstöðu okkar. Ástæðurnar til þess, að við Alþb.-menn erum á móti þessari samningsgerð, eru m.a. þessar:

Í fyrsta lagi teljum við, að raforkusölusamningurinn sé mjög óhagstæður og það sé mjög hæpið, að það raforkuverð, sem lagt er til grundvallar í samningnum, standist beinan framleiðslukostnað, og við teljum, að samningurinn komi í veg fyrir það, að Íslendingar geti sjálfir á komandi árum notfært sér hagstæðustu virkjunarskilyrðin, sem þeir nú eiga. Í öðru lagi teljum við, að samningurinn sé í mörgum öðrum greinum mjög óhagstæður og varhugaverður. Við teljum óeðlilegt að heimila erlendu einkafyrirtæki atvinnurekstraraðstöðu í landinu. Við teljum mjög óeðlilegt að veita erlendum aðila hér kjör, sem eru miklum mun hagstæðari en þau kjör eru, sem íslenzkur atvinnurekstur verður við að búa. Við teljum mjög óeðlilegt, að þessi erlendi aðili, sem hér á nú að fá atvinnurekstraraðstöðu, sé fyrir utan íslenzk gjaldeyrislög. Og við teljum mjög óeðlilegt, að samið sé um jafnvíðtækar undanþágur frá lögum og gert er í þessum samningi langt fram í tíma. Við teljum, að ýmis ákvæði í samningnum séu í rauninni lítilsvirðandi fyrir Íslendinga og alveg sérstaklega fyrir íslenzka dómstóla og íslenzkt réttarfar. Við teljum, að áhrifin af þeim framkvæmdum, sem ráðgerðar eru samkv. þessum samningi, muni verða mjög hættuleg fyrir þróun efnahagsmála í landinu á næstu árum og mjög hættuleg fyrir byggðaþróunina í landinu. En þó teljum við, að það fordæmi sem felst í þessum samningum og raunverulega boðar hér nýja stefnu, fráhvarf frá þeirri stefnu, sem gildandi hefur verið í okkar atvinnumálum, sé það versta við samningsgerðina. Við álitum, að með þessari nýju stefnu sé verið að opna dyrnar fyrir erlendum gróðafélögum til þátttöku í atvinnurekstri í landinu, og við óttumst framhaldið. Og við óttumst það, að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar geti orðið æðivalt, ef langt verður haldið áfram á þessari braut. Við teljum, að það sé enginn vafi á því, að meiri hl. Íslendinga sé andvígur þessari samningsgerð. Við teljum, að það hafi komið svo greinilega fram, að bæði mjög fjölmenn félagssamtök og margir þekktir framámenn, m.a. úr röðum stjórnarflokkanna, hafa lýst yfir andstöðu sinni við málið, að við teljum, að það sé nokkurn veginn víst, að nokkuð mikill meiri hl. þjóðarinnar sé andvigur samningunum. Af þeim ástæðum leggjum við áherzlu á það, að þessi samningsgerð verði borin undir þjóðina, það verði leitað þjóðaratkv. um þessa samningsgerð og samningurinn verði ekki staðfestur af Íslendingum án þess.

Við leggjum svo til, að það frv., sem hér er flutt, verði fellt.