18.04.1966
Neðri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Jónas G. Rafnar:

Herra forseti. Það hafa þegar farið fram miklar umr. hér á hæstv. Alþ. um frv. þetta; það hefur verið rætt frá ýmsum hliðum og skoðanir verið mjög skiptar um efni þess og tilgang. Eitt þeirra mörgu atriða, sem ítarlega hafa verið rædd, er staðsetning væntanlegrar álbræðslu, sem frv. gerir nú ráð fyrir að reist verði í Straumsvik við Hafnarfjörð. Í skýrslu ríkisstj. til Alþ. um athugun á byggingu alúmínverksmiðju á Íslandi er að því vikið, að ýmsir aðrir staðir hafi verið athugaðir, en þó einkum Gáseyri við Eyjafjörð. Í umr. um mál þetta hefur það komið fram, að það kynni að hafa haft áhrif á afstöðu Framsfl. til samningsgerðar við Svisslendinga um byggingu álverksmiðju á landinu, hvar verksmiðjan væri staðsett. Ég hlustaði á ræðu hv. 1. þm. Austf., sem hann flutti hér við l. umr. málsins. Hann lýsti sig og sinn flokk andvígan samningsgerðinni við Swiss Aluminium eins og hún lægi fyrir en sló úr og í um það, hvort Framsfl. vildi hér álverksmiðju, ef hún yrði reist annars staðar, t.d. við Eyjafjörð. En um þetta atriði gaf hv. þm. enga beina yfirlýsingu. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hélt og hér við l. umr. langa tölu, þar sem hann rakti m.a. áskoranir fjórðungsþings Norðlendinga í júní 1960, sýslun. Suður-Þingeyjarsýslu í apríl 1961, sameiginlegs fundar sveitarstjórna í SuðurÞingeyjarsýslu og Norður-Þingeyjarsýslu í sept. 1961, bændafélags Fljótsdæla í febr. 1962 og svo kvennasamtaka á Austurlandi um virkjun Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum „til stóriðju eða stórframkvæmda,“ eins og það var orðað hjá einhverjum nefndra aðila. Þm. gat þess, að Dettifossvirkjun hefði verið tengd hugmyndunum um stóriðju, t.d. áburðarvinnslu eða alúminíumvinnslu. Ég skildi mál hans á þann veg, að hann gæti verið fylgjandi stóriðju á vegum erlendra aðila, ef slík framkvæmd kæmi í veg fyrir yfirvotandi fólksfækkun og jafnvel eyðingu byggðar í einhverjum landshluta. Hann deildi hart á hæstv. ríkisstj. fyrir að hafa ekki sett það skilyrði, að álverksmiðjan yrði reist utan þéttbýlisins hér við Faxaflóa, og taldi, að mjög slælega hefði verið fram í því gengið að kanna virkjunarmöguleika Dettifoss. Niðurstaða hans var í stuttu máli sú, að álverksmiðja hefði átt að rísa norðan fjalla með orku frá Dettifossvirkjun. Til þess að fyrirbyggja misskilning, en ég hef ekki nokkra löngun til þess að rangfæra orð hv. þm., þá hafði hann flest við þennan samning, sem hér er nú til umr., að athuga, og mun án efa greiða atkvæði gegn honum, þegar þar að kemur.

Í þessu sambandi er rétt að rifja það upp, sem vikið var að af hv. 3. þm. Norðurl. e., að þm. Norðurl. e. fluttu á Alþ. 1960 till. til þál. um að undirbúa virkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju eins og segir í fyrirsögn till., en hún var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvöru og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi.“ Till. þessi var samþ. sem ályktun Alþ.

Rúmlega ári síðar, eða í júlí 1962, var haldinn á Akureyri fundur forsvarsmanna bæjar- og sveitarfélaga á Norðurlandi um raforkumál. Á fundinum mættu og alþm. þessa landshluta. Óskað hafði verið eftir, að formaður svonefndrar stóriðjun., dr. Jóhannes Nordal, og raforkumálastjóri, Jakob Gíslason, kæmu til fundarins og flyttu þar erindi. Urðu þeir báðir við þessum tilmælum. Formaður stóriðjunefndar upplýsti, að n. hefði þá starfað í rúmt ár á vegum ríkisstj. að undirbúningi mála, er vörðuðu stofnun nýrra atvinnufyrirtækja hér á landi með þátttöku erlendra aðila. N. hefði ekki haft það hlutverk að gera almenna rannsókn á því, hvaða nýjar framleiðslugreinar hér á landi væru líklegastar til vaxtar og viðgangs, heldur hefði hún einskorðað störf sín við athuganir og undirbúning mála, er væru komin það langt áleiðis, að raunverulegur áhugi væri vaknaður á að hrinda þeim í framkvæmd bæði meðal innlendra og erlendra aðila. Til n. hefði fyrst og fremst verið visað tveimur málum, byggingu alúminiumverksmiðju og byggingu kísilgúrverksmiðju. Hefði n. unnið að margvíslegum undirbúningi beggja þessara mála og átt um þau ítarlegar viðræður við þá erlendu aðila, sem áhuga hefðu á þeim haft. Formaðurinn sagði m.a.:

„Sameiginlegt með þessum tveimur framkvæmdum er, að um er að ræða nýjar atvinnugreinar, sem nýla íslenzkar auðlindir, sem áður hafa verið lítt eða ekki notaðar. Í öðru lagi er hér um að ræða framkvæmdir, sem óhugsandi væri, að Íslendingar gætu stofnað til af eigin rammleik án verulegrar erlendrar þátttöku.“

Hann taldi, að eins og nú væri háttað, væri alúminíumframleiðsla langlíklegasta stóriðjan til útflutnings, sem unnt væri að koma á fót hér á landi á grundvelli ódýrrar raforku, ef þá ekki sú eina. Ef til hennar kæmi, yrði að gera langan orkusölusamning milli virkjunar og hins erlenda aðila, t.d. 20–30 ára, en með því væri dregið úr áhættu Íslendinga og öflun lánsfjár gerð auðveldari. Hann skýrði ítarlega, hvaða þýðingu raforkuverðið hefði í þessu sambandi. Það réð úrslitum. Hann skýrði fundinum einnig frá því. að viðræður hefðu átt sér stað við svissneskt fyrirtæki og franskt.

Ég hef nú drepið á þetta vegna þess, að nefndur fundur á Akureyri var haldinn í beinu sambandi við fyrrgreinda ályktun Alþ. um fullnaðarvirkjun Jökulsár á Fjöllum til stóriðju. Eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir, kom fram mikill áhugi á fundinum fyrir virkjun Jökulsár. En ég held, að allir hafi gert sér grein fyrir því, að hún væri óframkvæmanleg án þess, að til kæmi nýr stór atvinnurekstur, sem væri þess megnugur að skuldbinda sig til orkukaupa langt fram í tímann, þar sem minni en 100 megawatta virkjun kæmi ekki til greina varðandi Dettifoss. Sú virkjunarstærð og 133 mw. stærð höfðu og verið athugaðar og allar áætlanir verið við þessar stærðir miðaðar. Það má vera, að á fundinum hafi verið bent á fleira en alúminíumvinnslu í sambandi við hagnýtingu á orku frá Dettifossvirkjun. En andmæli gegn því, að til hennar yrði stofnað með þeim hætti, sem formaður stóriðjunefndar lýsti í stórum dráttum, lét fundurinn ekki frá sér fara.

Um það leyti, sem fundurinn um raforkumál var haldinn á Akureyri, áttu sér stað umræður í stjórn Laxárvirkjunar um það, hvernig hagkvæmast yrði að tryggja orkuveitusvæðinu næga raforku. En þá var sýnt, að orkuskortur yrði þar innan fárra ára, jafnvel á árunum 1967 og 1968, ef ekkert yrði aðhafzt. Sigurður Thoroddsen verkfræðingur vann þá á vegum Laxárvirkjunarstjórnar að gerð áætlunar um virkjun Laxár, þ.e.a.s. fallsins við Brúar, í því skyni m.a., að hægt væri út frá þeirri áætlunargerð að ákveða heppilega skiptingu fallsins í áfanga, sem fullnægðu afl- og orkuþörf orkuveitusvæðisins eins og það er nú og einnig, ef Austurlandið væri tekið með. Sigurður hafði unnið að þessum athugunum allt frá árinu 1958. Niðurstaða hans var sú, að um ferns konar mismunandi tilhögun gæti verið að ræða og að allir þeir mátar væru tiltölulega hagstæðir, ef markaður væri fyrir orkuna. Ég hef þær upplýsingar frá Knúti Otterstedt rafveitustjóra á Akureyri, að heildarafi Laxár allrar muni vera af stærðargráðunni 160 mw. og orkuvinnslugetan 800 millj. kwst. Norðurlandið hefur því í framtíðinni fleiri hagstæða virkjunarmöguleika en Jökulsá á Fjöllum, sem hægt verður að nýta stig af stigi.

Á árinu 1964 voru raforkumálin mjög til umr. bæði sunnanlands og norðan eins og menn minnast og þá einnig álvinnsla hér á landi í því sambandi. Snerust þessar umr. og athuganir sérfræðinga ekki hvað sízt um það atriði, hvort staðsetja ætti væntanlega verksmiðju við Faxaflóa eða við Eyjafjörð. Í beinu tilefni af þessum athugunum og umr. gerði bæjarstjórn Akureyrar hinn 10. nóv. 1964 eftirfarandi samþykkt. með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Akureyrar lætur í ljós eindreginn áhuga sinn á því, að næsta stórvirkjun fallvatns hér á landi verði staðsett á Norðurlandi, og bendir í því sambandi á áætlanir þær, sem nýlega eru fram komnar um virkjun Laxár. Einnig yrði stóriðja, sem stofnað kann að vera til í sambandi við orku frá vatnsvirkjun, staðsett við Eyjafjörð. Telur bæjarstj., að með slíkri staðsetningu stórvirkjunar og stóriðju væri unnið að nauðsynlegu jafnvægi í byggð landsins.“

Þessi ályktun bæjarstjórnarinnar var samþ. með 9 atkv. gegn 2. Fulltrúar Framsfl. greiddu allir með tölu till. atkvæði sitt, en eins og ég gat um áðan voru Alþb.-fulltrúarnir á móti. En þessi till. fjallar um stórvirkjun og stóriðju á Norðurlandi og er flutt og samþ., eins og ég hef sagt, í beinu sambandi við þær umr., sem þá höfðu átt sér stað um byggingu álverksmiðju hér á landi á vegum Swiss Aluminium.

Eins og ég hef núna rakið og hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði og ítarlega grein fyrir við 1. umr. þessa máls, þá hafa sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi við mörg tækifæri lýst yfir fylgi sínu við virkjun Dettifoss og stóriðju í sambandi við virkjunina. Bæjarstjórn Akureyrar hefur bent á virkjun Laxár í sambandi við stóriðju. Við því mátti búast, að þessir aðilar létu í sér heyra og kæmu með andmæli, er lagt var til að koma upp stórvirkjun í Þjórsá, er seldi raforku til stóriðju við Hafnarfjörð. Og það stóð ekki heldur á því, að mótmæli væru send. Áhugamenn um landsmál í Norðurl. e., eins og þeir nefna sig, gangast fyrir undirskriftasöfnun, þar sem skorað er á Alþingi Íslendinga að hafna þeim samningum, sem nú eru í undirbúningi um stóriðju auðhrings í þéttbýlinu við Faxaflóa. Og undir þessi mótmæli rita m.a. margir sveitarstjórnarmenn, þeirra á meðal bæjarfulltrúar Framsfl. á Akureyri.

Nú mundu menn ætla, að þessir fyrirsvarsmenn byggðajafnvægis hefðu notað gullið tækifæri til þess að minna hv. alþm. á Dettifosshreyfinguna og bæjarfulltrúar Framsfl. á Akureyri á stórvirkjun í Laxá. En það er öðru nær. Í skjalinu, sem undirritað er af 487 kjósendum, sem langsamlega flestir hafa fylgt Framsfl. að máli, er ekki með einu orði vikið að Dettifossvirkjun eða stóriðjustofnun norðan fjalla.

Allar hinar mörgu fundarsamþykktir, sem hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, las upp við I. umr. í nákvæmri tímaröð og ég hef nokkuð vikið að, virðast nú vera með öllu gleymdar. Með sterkum orðum er varað við fjárfestingu erlendra aðila hér á landi og fullyrt, að stóriðja muni gera okkar gömlu atvinnuvegum þröngt fyrir dyrum, og samkeppnin um vinnuaflið við stóriðjuna muni standa i vegi fyrir þróun íslenzkra atvinnuvega og hagnýtingu innlendra hráefna til verðmætasköpunar.

Engum getur dulizt, að undirskriftaskjalið, þótt það eigi fyrst og fremst við samninginn við Swiss Aluminium um byggingu verksmiðju í Straumsvík, felur í sér alhliða og fyrirvaralaus mótmæli gegn stóriðjurekstri erlendra aðila hér á landi. Athyglisvert er, að undir andmælin rita framámenn í félags- og sveitarstjórnarmálum, sem fyrir örskömmu siðan skoruðu á stjórnarvöldin að stuðla að stóriðjustofnun á Norðurlandi og vissu þá vel, að það væri óframkvæmanlegt nema á vegum erlendra aðila, enda út frá því gengið í öllum umr. um málið.

Eftir að nefnt mótmælaskjal kom fram, hefur því mjög verið hampað í málgögnum Framsfl. Undrar það engan, þar sem stuðningsmenn flokksins hafa fyrst og fremst að því staðið. En mótmælin gefa tilefni til hugleiðinga um nokkur atriði, ef taka á þau alvarlega, en ekki sem pólitíska dægurflugu, sem beinast lægi við, eftir það, sem á undan er gengið. Ef hættulegt er fyrir íslenzku þjóðina að hafa samvinnu við erlenda aðila um atvinnurekstur hér á landi og háski stafar af innfluttu erlendu fjármagni, eru þá ekki þeir sömu, sem standa að mótmælunum, á móti byggingu kísilgúrverksmiðju við Mývatn?

Í maímánuði s.l. kom það fram á fundi, sem haldinn var á Akureyri um atvinnumál á Norðurlandi, að bæjarstjórn Húsavíkur taldi, að bygging kísilgúrverksmiðjunnar yrði til hagsældar fyrir héraðið og Húsavík. Er þessi skoðun þá nú ekki orðin þjóðhættuleg? Allir vita, að virkjun Dettifoss verður mikil og fjárfrek framkvæmd, þar sem áætlanir hafa verið byggðar, eins og ég sagði áðan, á 100 og 130 megawatta stærðum. Raforkumarkaðurinn á Norður- og Austurlandi mun ekki á næstu árum, jafnvel þó að horft sé langt fram í tímann, geta tekið við þeirri viðbót, nema upp rísi stór raforkufrekur atvinnurekstur. E.t.v. er hægt að hugsa sér, að raforkan yrði leidd til annarra fjarlægari landshluta. Það má geta þess til upplýsingar, að Laxárvirkjunarstjórn er núna, einmitt núna, að láta vinna að áætlun um 12 mw. stækkun orkuversins við Laxá, og verði ráðizt í þá stækkun, þá mun verða séð fyrir raforkuþörf orkuveitusvæðisins þó nokkuð mörg ár fram í tímann. Verður þá ekki að líta svo á, að þeir aðilar, sem undirritað hafa greind mótmæli til Alþ., verði einnig á móti stóriðju á Norðurlandi, sem fái raforku frá Dettifossi, ef um hana yrði samið við erlendan aðila á svipuðum grundvelli og nú hefur verið gert og lagt er til, að Alþ. staðfesti með lagasetningu þar að lútandi. Þótt nefnd andmæli nokkurra hv. kjósenda í mínu kjördæmi og það, sem að baki þeim liggur, gefi tilefni til frekari athugasemda, þá læt ég þessi orð mín nægja. Að mínu áliti verða þau tæpast tekin hátíðlega, enda sennilega ekki til þess ætlazt af nokkuð mörgum, sem undir þau hafa ritað.

Eins og fram kemur í skýrslu ríkisstj. um athugun á byggingu alúminíumverksmiðju á Íslandi, var ítarlega rannsakað, hvar helzt kæmi til greina að reisa væntanlega verksmiðju. Ríkisstj. taldi strax æskilegast, að hægt yrði að staðsetja verksmiðjuna, þar sem hún stuðlaði að auknu byggðajafnvægi. Var því rækilega athugað, hvort unnt væri að ná samningum um byggingu verksmiðjunnar við Eyjafjörð, við Gáseyri, en sú staðsetning utan Faxaflóasvæðisins virtist helzt koma til greina. Fljótlega kom því miður í ljós, að á þessu voru alvarlegir fjárhagslegir annmarkar. Þá kom það einnig til, sem er ekkert launungarmál, að Svisslendingarnir töldu að ýmsu leyti varhugavert að hafa verksmiðjuna á Norðurlandi vegna hafíshættunnar, og ég held, að sú skoðun þeirra hafi ekki hvað sízt komið fram, eftir að ísinn kom hér að landi á s.l. vetri og s.l. vor.

Í viðræðunum um staðsetninguna lýstu fulltrúar Alusuisse því yfir, að fyrirtækið yrði að fá verulega hagstæðara raforkuverð á Gáseyri vegna hærri stofn- og rekstrarkostnaðar þar. En fulltrúar Alþjóðabankans, sem lána mun til virkjunarinnar, o.fl. bentu hins vegar á það, að nauðsynlegt yrði að selja raforku til verksmiðjunnar hærra verði við Eyjafjörð vegna meiri stofnkostnaðar raforkukerfisins, ef hún yrði þar reist, auk þess sem innanlandsverð á raforku þyrfti að hækka. Gerður var samanburður á staðsetningu álbræðslu norðanlands og sunnan. Alusuisse hélt því fram, að 30 þús. tonna bræðsla yrði um 170 millj. kr. dýrari fyrir norðan og gerði kröfu til þess að fá raforkuna á lægra verði en 21/2 mill. Íslenzkir samningsaðilar töldu þennan kostnaðarauka of hátt áætlaðan, hann væri um 100 millj., en það breytti engu um sjónarmið Alusuisse hvað varðaði raforkuverðið. Til viðbótar kom svo það, að íslenzkir sérfræðingar í virkjunarmálum töldu, að staðsetning 30 þús. tonna verksmiðju fyrir norðan mundi leiða af sér yfir 400 millj. króna hærri stofnkostnað raforkumannvirkja en ef henni yrði valinn staður við Straumsvík, og þá var gert ráð fyrir því, að lína kæmi sunnan frá Búrfellsvirkjun. Og munurinn á rekstrargjöldum raforkukerfisins á árunum 1969 til 1983 miðað við 6% vexti töldu þeir að yrði samtals 655 millj. kr. Straumsvík í hag. Ég hefði að sjálfsögðu kosið, eins og ég fullyrði, að allir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. gera, að verksmiðjan hefði fremur verið staðsett við Eyjafjörð en hér í þéttbýlinu við Faxaflóa. En um það reyndist ekki unnt að ná samningum, nema þá ef við vildum fallast á lægra raforkuverð og tækjum jafnframt á okkur hærri stofnkostnað vegna raforkumannvirkjanna.

Eins og ég gat um áðan, kom það einnig fram í viðræðunum við Svisslendingana, að þeir ólu ótta í brjósti vegna hafíshættunnar fyrir norðan, en það er áætlað, að flutningaþörf þessarar 60000 tonna verksmiðju til og frá sé á ári í kringum 240 þús. tonn. Ég vil þó ekki segja, að þetta atriði varðandi hafísinn hafi haft úrslitaþýðingu, en á það mun reyna, ef af samningum verður síðar meir á grundvelli 37. gr. aðalsamningsins á þskj. 434, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fari svo, að ríkisstj. hyggi á það í framtíðinni að byggja álbræðslu á Norðurlandi, lýsir Alusuisse yfir því, að félagið er viðbúið að taka til vinsamlegrar athugunar þátttöku í slíku fyrirtæki í félagi við íslenzka aðila, svo fremi að það sé fjárhagslega hagkvæmt.“

Að sjálfsögðu væri margt annað, sem þá kæmi til athugunar og hefði úrslitaáhrif, fyrst og fremst reynslan, sem þá verður fengin af vinnslunni í Straumsvík, raforkuverð almennt í landinu og markaðshorfur erlendis. Allt hefur þetta áhrif á fjárhagshlið málsins. Með því að leggja í kostnað við byggingu á stærri geymum fyrir hráefnið og framleiðsluna, þá er einnig unnt að vega á móti eða gera ráðstafanir gegn hafísvandanum, ef til þess kæmi.

Þótt ekki sé gert ráð fyrir því að reisa verksmiðjuna þar, sem ég hefði fremur kosið, þá er ég þó fylgjandi þeirri samningsgerð, sem hér er til umr., um byggingu álverksmiðju í Straumsvik, m.a. af eftirfarandi ástæðum: Rekstur verksmiðjunnar kemur til með að tryggja okkur Íslendingum ódýrari raforku en unnt yrði með öðrum hætti. Útreikningar, sem fyrir liggja um þetta atriði og birtir eru í fylgiskjölum málsins, hafa enn ekki verið hraktir. Þessi niðurstaða byggist á því, að langur orkusölusamningur gerir okkur kleift að ráðast nú þegar í stórvirkjun, sem öllum ber saman um, að er hagstæðast, ef góð nýting orkunnar er fyrir hendi. Deilt hefur verið um raforkuverð það, sem álverksmiðjan er reiðubúin til að greiða, en í því sambandi má á það benda, að við höfum ekki átt kost á öðrum nægilega stórum orkukaupanda, sem byði hagstæðara verð. Ekki er ósennilegt, að eftirspurn eftir raforku frá vatnsaflsstöð minnki með árunum, þar sem kjarnorkan er óðum að koma til sögunnar. Opnast þá möguleikar fyrir raforkufrekan iðnað til þess að staðsetja sig, þar sem hráefnisins er aflað, eða þá sem næst aðalsölumarkaði, og losna þannig að mestu leyti við kostnaðarsama flutninga til og frá. Þá er og víst, að á næstu árum mun aukast mjög samkeppnin á þessu sviði af hálfu hitabeltislanda, en þar er óhemjumikið ónotað vatnsafl, sem tiltölulega kostnaðarlítið mun verða að virkja. Að því hafa verið leidd rök, að Búrfellsvirkjunin, eins og hún er nú áætluð og samningurinn við álverksmiðjuna á að tryggja fjárhagslega, muni mjög auðvelda okkur að koma upp nýjum virkjunum. Vil ég í því sambandi vísa til bls. 98 á þskj. 434, þar sem fjallað er um áhrif álbræðslu á þróun raforkumálanna, en þar segir m.a., að raforkukostnaður á árunum 1969–1980 muni verða 28% hærri ef Búrfellsvirkjun verði eingöngu byggð fyrir almenningsnotkun og enginn sölusamningur gerður við álbræðslu. Enn fremur: sé allur hagnaðarmismunur á þessum tveimur leiðum, þ.e.a.s. virkjuninni án eða með sölu til álbræðslu, lagður í nýja stórvirkjun á móti 50% lánsfjáröflun annars staðar að, þá mundi hann t.d. nægja riflega fyrir virkjun Dettifoss. Er hér ekki um neina smáupphæð að ræða, ef rétt er reiknað, þar sem kostnaður Dettifossvirkjunar er áætlaður, að því er ég bezt veit, í kringum 1300 millj. króna. Þá er þess og að gæta, að það hefur komið í ljós, að fyrirfram samningur um sölu á raforkunni auðveldar okkur að fá hagstætt lán til virkjunarframkvæmdanna, ekki hvað sízt vegna þess, að samningurinn tekur fram greiðslur í dollurum. Það skiptir einnig miklu máli, að lántaka af þessari ástæðu skerðir ekki möguleikana til lánsfjáröflunar erlendis til annarra gagnlegra framkvæmda, heldur þvert á móti.

Með stofnun verksmiðjunnar verður enn einni sterkri stoð komið undir atvinnulíf landsmanna. Þjóðinni fjölgar ört, og kröfurnar til aukinna lífsþæginda virðast aukast að sama skapi. Það er því áreiðanlega rétt, sem segir í grg. okkar þm. Norðurl. e. fyrir till. um undirbúning virkjunar Jökulsár á Fjöllum til stóriðju: „Framleiðsla þjóðarinnar þarf að vera bæði meiri og fjölbreyttari.“

Margt bendir til þess, að álvinnslan geti skapað grundvöll fyrir nýjan, innlendan iðnað, sem hagnýtti sér framleiðslu verksmiðjunnar. Má í því sambandi vísa til þess, að ál er nú mjög mikið notað í byggingariðnaðinum í vaxandi mæli til skipasmíða og í umbúðir, svo sem dósir undir niðursoðinn mat, einnig í þiljur fiskiskipa og í kassa undir fisk. Það er því ekki ósennilegt, að stofnuð verði hér á landi fyrirtæki, sem hefji framleiðslu á margvíslegum hlutum og tækjum úr áli. Í 17. gr. samningsins er tekið fram, að Alusuisse og ISAL séu reiðubúin til að aðstoða íslenzka iðnaðaraðila við þróun úrvinnslu áls á Íslandi með því að leggja fram tæknikunnáttu.

Eins og ég gat um fjölgar íslenzku þjóðinni ört. Áætlað er, að um næstu aldamót verði íbúatala landsins komin upp í um 400 þús. manns, og gera má ráð fyrir því, að á næstu tíu árum bætist við á vinnumarkaðinn um 17 þúsund manns. Öllu þessu fólki verður að sjá fyrir öruggri og arðbærri vinnu. Rekstur álverksmiðjunnar getur orðið einn þátturinn í þeirri viðleitni. Andstæðingar samningsins hafa haldið því fram, að óráðlegt sé nú að ráðast í þennan rekstur, þar sem nægileg atvinna sé fyrir í landinu. Það er rétt, að atvinna er nú bæði mikil og góð sem betur fer. En við Íslendingar þekkjum til þeirra sveiflna, sem geta orðið í atvinnulífinu. Það þarf ekki nema aflabrest á einu árí til þess að snúa dæminu verulega við. Þegar flest var, munu t.d. um 3000 manns hafa unnið hjá varnarliðinu, og ég minnist sjálfur áranna 1950–1955 og jafnvel 1956, þegar margir Norðlendingar urðu að sækjast eftir vinnu á Keflavíkurflugvelli og oft í samkeppni við Sunnlendinga vegna atvinnuskortsins, sem fyrst og fremst var afleiðing aflabrests á síldveiðum bæði fyrir Norður- og Austurlandi. Það hvarflar raunar ekki að mér að halda því fram, að álverksmiðjan og rekstur hennar geti riðið baggamuninn í þessu sambandi, þar sem ekki koma til með að starfa beint við sjálfa verksmiðjuna nema um 450 manns, þegar hún hefur náð 60 þús. tonna afköstum eða um 3% af vinnuaflsaukningunni eins og hún verður orðin eftir tíu ár. En hún mundi þó hjálpa til. Að reksturinn komi til með að draga verulega frá sjávarútveginum, tel ég ástæðulaust að óttast, eða frá öðrum atvinnuvegum, þannig að þeim stafi af því veruleg áhætta, það efast ég um. Hins vegar er það rétt, að bæði virkjun Þjórsár og verksmiðjubyggingin koma til með að hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn, meðan á þeim framkvæmdum stendur. Eftir mitt ár 1967 og fram á næsta ár munu vinna um 500 manns við virkjunarframkvæmdirnar og eitthvað færri við álverksmiðjuna, er kemur fram á árið 1968.

Í þessum umr. hefur því verið haldið fram, að fylgismenn samningsgerðarinnar, sem frv. þetta fjallar um, væru haldnir einhvers konar vanmati á getu sjávarútvegsins. Þetta er hreinn misskilningur og algerlega ástæðulaus ótti. Við höfum að vísu varað við hættunni, sem þjóðarbúskap okkar getur stafað af ofveiði við strendur landsins, ef ekki næst samkomulag við erlendar fiskveiðiþjóðir um skynsamlegar ráðstafanir til varnar, en þetta eru áreiðanlega sannindi, sem flestir viðurkenna nú orðið.

Uppbyggingu iðnaðarins nú á síðari árum hefur almennt verið fagnað, þar sem hann felur í sér aukið öryggi fyrir íslenzkt atvinnulíf. Margir hafa látið síg dreyma um atvinnurekstur, sem með hagnýtingu raforkunnar ynni úr íslenzkum hráefnum fyrir erlendan markað. Engum hefur komið til hugar, að athafnasemi á því sviði mundi verða til þess að skerða áhuga útgerðarinnar fyrir auknum framförum og framkvæmdum í fiskiðnaðinum. Eftir því sem iðnaðargreinunum fjölgar og fer fram, vex þekking og reynsla landsmanna á þessu sviði, en hún er nauðsynleg, ef vel á að takast til. Aukin iðnvæðing mun því áreiðanlega leiða til aukins skilnings á því, að nauðsynlegt sé að vinna sem mest og bezt verðmæti úr sjávaraflanum, að aflamagnið sjálft sé ekki aðalatriðið heldur verðmætið, sem fyrir aflann fæst. Rekstur væntanlegrar álverksmiðju verður til þess að gera atvinnulíf landsmanna enn þá fjölbreyttara. Og eins og á hefur verið bent, getur hann lagt grundvöllinn að nýjum, öflugum atvinnugreinum. Beinar gjaldeyristekjur af rekstri verksmiðjunnar fyrir þjóðarbúið koma til með að verða verulegar, auk þess sem sjálfar byggingaframkvæmdirnar færa miklar tekjur. Árlegar gjaldeyristekjur af 60 þús. tonna verksmiðju eru áætlaðar yfir 300 millj. kr., en miðað við núverandi verðlag mun útflutningsverðmæti slíkrar verksmiðju vera nálægt 1300 millj. kr.

Um skattamál og skattlagningu verksmiðjunnar hefur mikið verið rætt. Ég tel, að rétt hafi verið að semja um ákveðið skattgjald miðað við hvert framleitt tonn, þar sem það fyrirkomulag á að geta forðað báðum aðilum frá deilum um annars nokkuð flókin atriði. Um upphæð framleiðslugjaldsins má að sjálfsögðu deila, en miðað við þær upplýsingar, sem fengizt hafa frá Noregi, og í því sambandi verið sérstaklega vísað til skýrslu Steingríms Hermannssonar, sem hann gaf þmn., má telja, að vel hafi til tekizt í sambandi við þetta atriði.

Ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa talið eðlilegt, að meginhluta skatttekna vegna væntanlegrar álbræðslu yrði varið til að stuðla að eflingu atvinnulífsins víðs vegar um landið. Áætlað er, að fyrsta heila starfsár bræðslunnar verði 1970 og að framleiðslugjald hennar fyrstu þrjú árin verði árlega 16–17 millj. kr. miðað við núverandi gengi. Eftir það hækka svo tekjurnar af gjaldinu nokkuð ört, og miðað við óbreytt verð á áli munu skatttekjurnar af verksmiðjunni næstu 25 árin nema samtals um 1400 millj. kr., og þær tekjur koma til með að greiðast í dollurum á hverjum tíma, þannig að þessi upphæð er að þessu leyti með gengistryggingu eða gengistryggð. Gert er ráð fyrir, eins og ég drap á, að um 71% af þessu gjaldi renni til atvinnujöfnunar í sérstakan sjóð, en síðar hækki hlutfallið upp í 76%.

Hæstv. ríkisstj. hefur nú nýlega lagt fram frv. um Atvinnujöfnunarsjóð, þar sem m.a. er byggt á framangreindum tekjum frá álverksmiðjunni, en um hlutverk sjóðsins segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í því frv., sem lagt hefur verið fram:

„Hlutverk Atvinnujöfnunarsjóðs er að veita lán og styrki til framkvæmda í þeim landshlutum, þar sem brýn þörf er fjölbreyttara atvinnulífs og skilyrði fyrir hendi til arðbærra framkvæmda, er séu til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, koma í veg fyrir, að einstök byggðarlög fari í auðn.“

Í frv. er gert ráð fyrir styrkveitingum í þessu skyni úr sjóðnum auk lána.

Andstæðingar samningsgerðarinnar og þeirra á meðal hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Norðurl. e. í ræðu sinni hér rétt áðan, hafa viljað gera lítið úr þýðingu Atvinnujöfnunarsjóðs, úr því að verksmiðjuna eigi að staðsetja sunnanlands, við Straumsvík. Ég er nú allt annarrar skoðunar. Slíkur sjóður, sem byggist upp með öðrum, árlegum tekjum, getur orðið til ómetanlegrar hjálpar, jafnvel ráðið úrslitum um það, hvar fyrirtæki verða staðsett, enda yfirlýstur tilgangur sjóðsins að stuðla að því. Lánveitingar úr sjóðnum munu væntanlega koma til viðbótar öðrum lánum, sem fást kunna t.d. úr Fiskveiðasjóði, Iðnlánasjóði og frá atvinnuleysistryggingunum og fleiri stofnsjóðum, sem e.t.v. eiga eftir að koma til sögunnar í framtíðinni.

Ég hef nú vikið að nokkrum atriðum varðandi mál þetta, og í stuttu máli er þetta niðurstaða mín: Með margþættum athugunum stóriðjunefndar og sérfræðinga á ýmsum sviðum, miklu starfi hæstv. iðnmrh., viðkomandi ríkisstofnana og síðan þmn. tel ég, að málið hafi verið vel undirbúið. Allir þm. hafa, eftir því sem samningum miðaði áfram, fengið upplýsingar og margvísleg gögn í hendur. Þannig má segja, að allar staðreyndir málsins í meginatriðum hafi legið fyrir um langan tíma, og einn veigamesti þáttur málsins er bygging væntanlegs orkuvers við Þjórsá, sala og hagnýting orkunnar þaðan, en þessi hlið málsins var einmitt mjög til umr. hér á hæstv. Alþ. á s.l. vetri, og voru þá afgr. lög frá Alþ. um Landsvirkjun, eins og hv. þm. munu minnast.

Þegar á þetta allt saman er litið, held ég, að ekki verði annað sagt en að allir hv. þm. hafi haft góðan tíma til þess að kynna sér allar aðstæður málsins og mynda sér skoðanir á því. Allt hnígur að því, að mikill þjóðhagslegur ávinningur verði af álbræðslu. Þessi nýja atvinnugrein á ekki að þurfa að skaða aðra alvinnuvegi, sem þjóðin hefur byggt afkomu sína á, heldur hið gagnstæða. Með tekjunum af álbræðslunni verður unnt að styrkja annan atvinnurekstur í landinu. Vinnandi fólki í landinu fjölgar það mikið á ári hverju, að það getur ekki leitt nein vandræði yfir aðra útflutningsatvinnuvegi, þótt um 450 manns komi til með að starfa í sjálfri álbræðslunni. Og í þessu sambandi má geta þess, sem áður var raunar bent á, við 1. umr., að það eru nú þegar allmörg fyrirtæki hér á landi, sem hafa fleira fólk í þjónustu sinni en væntanleg álbræðsla, enda mun þróunin í flestum löndum miða í þá áttina, að fyrirtækin fremur stækki en hitt, ýmist með því að þau færa sig út eða þá að smærri fyrirtæki eru sameinuð í stærri heildir.

Það hlýtur ætíð að vera matsatriði hverju sinni, að hve miklu leyti sé æskilegt að hagnýta sér erlent fjármagn, sem býðst til stofnunar atvinnufyrirtækja og rekstrar. Á það jafnt við um fjármagn, sem fengið er að láni og greiða verður á ákveðnu árabili, og fjármagn, sem erlendir aðilar leggja fram beint sjálfir sem áhættufé.

Það hefur komið fram í umr., að vinstri stjórnin svonefnda hafði á sínum tíma látið kanna, hvort amerískt félag vildi reisa álbræðslu hér á landi, og ég minnist þess ekki að hafa heyrt, að því hafi verið andmælt. (Gripið fram í: Jú.) Ég minnist þess ekki. Athuganir stóriðjunefndar hafa frá byrjun verið við það miðaðar, að erlendir aðilar legðu fram fé til væntanlegrar stóriðju hér á landi og yrðu þar eigendur að öllu eða nokkru leyti, og það má segja, að það sé í samræmi við þær umr., sem fram hafa farið á milli ráðamanna um stóriðjuframkvæmdir hér á landi, áður en n. var skipuð.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég hefði fremur kosið, að verksmiðjan væri reist fyrir norðan, við Eyjafjörð, þar sem segja má, að þörfin sé miklu meiri fyrir aukið athafnalíf og fjölbreytni í atvinnu háttum en hér við Faxaflóa, en um þetta var ekki unnt að semja eins og bent hefur verið á.

Af ræðum hv. framsóknarmanna hér i þd. og málgögnum þeirra verður ekki ætlað, að þeir hefðu léð fylgi sitt byggingu álverksmiðju við Eyjafjörð á sama samningsgrundvelli og nú liggur fyrir til umr. varðandi Straumsvík. Á þetta vil ég einmitt benda vegna forsögu málsins.

Norðlendingar eru allir sammála um það, að stefna beri að virkjun Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum, sem yrði stórvirkjun, 100–130 mw. að stærð. Til þess að ná því marki duga ekki viljayfirlýsingar einar eins og þær, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. las hér upp við l. umr. málsins. Fyrst og fremst þarf gaumgæfilegar athuganir og síðan ákvarðanir, byggðar á raunhæfum fjárhagslegum grundvelli. Ég veit, að hv. þm., sem er hygginn og gætinn maður, hann er mér algerlega sammála um þetta atriði. Eins og raforkumarkaðinum er nú háttað á Norðurlandi, er helzt rætt um 12 mw. virkjun í Laxá. Það er því ljóst, að Dettifoss verður ekki virkjaður í náinni framtíð fyrir atvinnu norðan heiða, nema þar rísi nýr stóratvinnurekstur. Hvort samstaða næst til að undirbúa hann og koma honum upp, verður tíminn að leiða í ljós. Um það mál, um það atriði, verður ekkert sagt á þessu stigi.

Hjá stjórn raforkumála hefur verið út frá því gengið, að til tengingar orkuveitusvæðanna kæmi innan fárra ára. Búrfellsvirkjun 310 mw. og virkjun Háafoss 126 mw. mun með orkusölu til álverksmiðju duga Suðurlandinu næstu 20 árin eða til 1985. Ef rafmagnslína eða orkuveitulína verður þá komin milli Suður- og Norðurlands, og þá hef ég Austurland einnig í huga, mundi orka frá Dettifossi koma í góðar þarfir. Þessi mál verða án efa athuguð mjög gaumgæfilega á næstu árum og þá frá öllum hliðum. Ég vona, að Dettifossvirkjun eigi ekki svo langt í land, en með þeirri stórframkvæmd væri lagður einn öruggasti hornsteinninn að norðlenzku og austfirzku athafnalífi. Forustumenn þessara landshluta eiga því að nota hvert tækifæri, sem gefst, til þess að búa í haginn fyrir þessa framkvæmd. Fundarsamþykktir og viljayfirlýsingar eru hvetjandi og oft nauðsynlegar til þess að vekja athygli á verkefnum, en til þess að þær leiði til árangurs, verða þær að byggjast á raunsæi og fjárhagslegri getu þeirra aðila, sem framkvæma eiga hlutina.