19.04.1966
Neðri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef nokkuð verið að hugleiða í sambandi við þetta frv., hvernig aðferðirnar, sérstaklega áróðursaðferðirnar eru, sem beitt er til þess að fá þetta fram. Þegar flutt er frv., sem er eins slæmt og þetta að mínu áliti og eins tvísýnt og mér finnst þetta vera að flestra dómi, þá er um tvær aðferðir að ræða, þegar menn vilja berjast fyrir að koma því fram.

Önnur aðferðin er tiltölulega heiðarleg miðað við málstaðinn, hin ofstækisfull. Sú heiðarlega aðferð mundi vera í þessu tilfelli af hálfu hæstv. ríkisstj. og hennar forsvarsmanna að segja: Við álítum óhjákvæmilegt að gera tilraun til þess að fá erlent fjármagn í stórfyrirtæki á Íslandi. Segja síðan alveg hreinskilnislega: Við álítum mjög erfitt að fá erlent fjármagn hér, og við álítum það mjög hæpna skilmála, sem þetta erlenda fjármagn hefur sett okkur. Við leggjum samt til, að þetta sé reynt.

Í öðru lagi að segja: Við sjáum, að það er hætta á ferðum með því að hleypa svona erlendu auðmagni inn í landið. Við vitum, að þarna er um að ræða fjármagn upp á 2500 millj. króna, sem er ákaflega mikið fjármagn á íslenzkan mælikvarða, og okkur er það ljóst, að við verðum frá upphafi að vera á verði gagnvart áhrifum þessa fjármagns.

Í þriðja lagi að segja: við vitum, að það er viss hætta fyrir heilbrigði ekki aðeins grasa heldur og dýra og jafnvel manna, en við munum sjá til þess, að það verði gerðar fullnaðarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slíkt. Við vitum t.d. að á þessum svæðum, þar sem hugsað er að setja þetta upp, — þetta nær alveg inn í Hafnarfjörð, — nær þetta til þess gróðurs, sem þar er og jafnt menn sem skepnur mundu neyta, og þetta nær til mikilla berjamóa, þar sem börn eru vön að tína sín ber og annað slíkt.

Í fjórða lagi þá mundi miðað við málstaðinn líka vera tiltölulega heiðarlegt að segja þetta í sambandi við virkjunina: Við erum að byrja á því að virkja jökulfljót á Íslandi, og við vitum, að það eru miklir erfiðleikar á þessu og það getur margt óvænt borið til. Við skulum þess vegna hlusta á alla sérfræðinga í þessu, líka þá, sem ráða frá þessu og eru nokkuð efablandnir um þetta, og við tökum það fram frá upphafi, að við erum vegna þessarar óvissu, engan veginn vissir um að sá útreikningur, sem við höfum gert, standist.

Í fimmta lagi: Við vildum hafa dómsvaldið í öllu falli í landinu, en okkur tókst ekki að ná samningum um það. Við álítum mjög óheppilegt að ganga inn á það, að hægt skuli að einhverju leyti að skjóta þessu undir útlenda gerðardóma, en okkur finnst samt rétt, að þetta sé reynt. Og segja svo loks: Við erum hins vegar svo ákveðnir í að standa á verði, ef þessi tilraun okkar skyldi mistakast, að við erum reiðubúnir til þess, ef við sjáum, að það ætlar að stafa pólitísk hætta af þessu fyrir landið eða þjóðina, að taka svona verksmiðju eignarnámi og láta Íslendinga sjá um rekstur hennar. Segja sem sé af fullum krafti: Við viljum gera þessa tilraun. Okkur eru ljósir annmarkarnir á henni. Við viljum gera hana samt, en við erum reiðubúnir til þess að gripa til þeirra ráða, sem ein mundu duga til þess að stöðva þessa tilraun, ef illa fer. Og það mundi, ef t.d. hæstv. ríkisstj. og blöð hennar hefðu tekið upp svona afstöðu í sínum málflutningi, vera eðlilegt, að hún segði: Við skiljum vel ótta og tregðu stjórnarandstöðunnar í þessu máli, og við erum reiðubúnir til þess að hafa samstarf við hana áfram til þess að gera þær ráðstafanir, sem þjóðinni eru nauðsynlegar um varðstöðu í þessu máli. Þetta hefði verið sú heiðarlega aðferð í því að berjast fyrir svo tvísýnu máli, svo að vægast sé að orði komizt, eins og þetta er, svo hættulegt, sem það er að mínu áliti.

Það örlaði vissulega á þessum málflutningi alveg sérstaklega í framsöguræðu hæstv. dómsmrh. við 1. umr. þessa máls. Hann byrjaði á því að reyna alls ekki að gylla þetta, að minna á, að það væru þarna tveir aðilar að semja, og þetta skauzt líka ofurlítið upp hjá hæstv. forsrh., þegar hann lauk sinni ræðu við l. umr. með því að segja: „Ef illa gengur, tökum við þetta eignarnámi.“ M.ö.o.: Þess verður vart, að hið innra með sér eru hæstv. ráðh. líka hugsandi út af þessum málum, en það, sem hins vegar vekur eftirtekt, og það, sem er uggvænlegt í sambandi við baráttuna fyrir þessu máli, eru þær áróðursaðferðir, sem yfirgnæfa í stuðningsblöðum hæstv. ríkisstj. og alveg sérstaklega Morgunblaðinu og koma líka fram hjá öðrum forsvarsmönnum þessa máls hér á Alþ. Í staðinn fyrir að reyna að taka þetta nokkurn veginn heiðarlega og hlutlægt og gera sér alveg ljóst, hvaða hættur séu á ferðinni, — en segja sem svo: Við ætlum nú samt að gera þessa tilraun með útlent auðvald, — þá er sagt hér: þetta er stórkostleg framför, sem hér er verið að leggja í. — Og þetta er básúnað út eins og hér væri um að ræða einhver stærstu tæknilegu framfaraspor, sem stigin hafa verið á Íslandi. Það er í öðru lagi sagt: Þetta er mikil og örugg tekjulind fyrir þjóðina, og það er ekki nokkur hætta í sambandi við raforkuverðið. — Það er reynt að berja þetta inn í almenning með öllum þessum venjulegu áróðursaðferðum, sem voldugir aðilar hafa til umráða. Og það er sagt í þriðja lagi, og það er e.t.v. það versta af því öllu saman: Það er engin hætta af þessu erlenda fjármagni, sem kemur hér inn. Þvert á móti, þetta er bara það fyrsta, sem kemur. Fleira mun á eftir fara, við erum bara að opna gáttirnar. Þetta er það, sem allar aðrar þjóðir gera, og það hlýzt af því blessun fyrir okkur. Síðan er sagt: Þeir, sem eru á móti þessu, eru afturhaldsmenn. Það eru menn, sem eru álíka blindir og við skulum segja fátækur atvinnuleysingi, sem væri hræddur við að missa vinnu, þegar kolakrani kæmi upp. Og það er hafin ofstækisherferð, ekki sízt af hálfu Morgunblaðsins.

Það, sem mér þótti alveg sérstaklega leitt um svo mætan mann sem hv. frsm. meiri hluta alúminiumnefndar, og sem því miður er nú veikur, svo að hann getur ekki hlýtt hér á, —- er, að það er meira að segja gengið svo langt að segja: Ja, þeir flokkar, sem berjast á móti svona nokkru, eru ekki íslenzkir flokkar, og það er alveg dæmalaust, að meira að segja flokkur eins og Framsfl., sem menn hefðu þó haldið að væri íslenzkur flokkur, skuli leyfa sér að vera á móti slíku. Þarna er ofstækið í algleymingi. Það er ofstæki, þegar sagt er: Þetta mál skulum við berja fram með hvaða áróðri, sem okkur þóknast, hagnýta okkur það, að við höfum meiri aðgang að blaðakosti en andstæðingar okkar. Okkar blöð fara víðar, og þess vegna skal það barið fram, sem við þarna stöndum með. Og það, sem vekur mér sérstakan ugg, er þetta: Af hverju er þessari ofstækisaðferð beitt í svo ríkum mæli? Og mitt svar hefur verið þetta: Af því að það er meining vissra manna, vissra afla, að halda áfram á þeirri braut að fá erlent auðmagn inn í landið beint sem erlent auðvald. Þess vegna álíta þessir menn, að það þurfi að gylla þetta mál til þess að ginna almenning með því og blinda hann. Allt svo, í staðinn fyrir að hafa vaðið fyrir neðan sig og segja frá upphafi, eins og sérstaklega örlaði á í framsöguræðu hæstv. dómsmrh.: Við skulum vera mjög gætnir í þessu. Okkur er alveg ljóst, að það er erfið samningsaðstaða, og það er erfiður aðili, sem við erum að eiga við. Við skulum þess vegna vera mjög gætnir. — Í staðinn fyrir þetta, taka þessir ofstækismenn þessa afstöðu: þetta er allt saman ljómandi gott. Þetta er stórkostlegt framfaraspor. Það er engin hætta í sambandi við þetta, og þeir menn, sem leyfa sér að berjast á móti þessu, eru mjög vondir menn og sérstaklega vondir Íslendingar.

Það er þetta, sem vekur þann ugg í brjósti manns, að það eigi að halda áfram, og við vitum, að það er vilji til þess hjá vissum alláhrifaríkum mönnum. Við munum eftir því, að það var byrjað með áróður fyrir því t.d., að Standard Oil fengi að koma hér upp olíuhreinsunarstöð, sem hefði þýtt einokun Standard Oil á allri olíu til Íslands og útilokun á allri samkeppni, einokunaraðstöðu fyrir framtíðina, og þetta var álitið sjálfsagt mál á Morgunblaðinu um leið og farið var að skrifa um það. Og við vitum, að það er áhugi hjá erlendum auðmönnum fyrir að fá aðstöðu hér á Íslandi, og þess vegna vekur það ugg, þegar farið er að vinna fyrir svona mál með slíku ofstæki. Sannleikurinn er, að svona ofstæki og áróður og svona blekkingarherferð íslenzkra manna er næstum jafnhættuleg og erlendi hringurinn og hans vald, því að án þess að geta treyst á svona ofstæki og blindni hjá íslenzkum mönnum, væri þessi auðhringur veikur gagnvart okkur Íslendingum, meira að segja þótt hann kæmist hingað. Án þess að geta treyst á slíkt ofstæki og slíka blindni, væri svo að segja ómögulegt fyrir hann að fá fótfestu í íslenzkum stjórnmálum og íslenzku þjóðlífi. Ef allir Íslendingar stæðu sem ein heild á verði gagnvart þessum aðila, tækist honum ekki, jafnvel þó að hann væri kominn hér inn fyrir slysni og menn sæju þá á eftir, að þetta hefði verið rangt spor, sem stigið var, tækist honum ekki að ná neinni fótfestu. En ef hann eignast, áður en hann kemst hérna inn, forsvara, sem vinna svona blygðunarlaust fyrir hann og reka svona áróður fyrir hann, er hætta á ferðum.

Við vitum, að peningarnir eru orðnir mikið vald í okkar þjóðfélagi. við vorum eitt sinn fátækir, Íslendingar, og litum þá jafnvel hornauga þá, sem auðugir voru, og óttuðumst vald auðsins og það allá leið fram á þessa öld, en núna er samkeppnin um að ná peningum, svo að segja hvernig sem það er gert, orðin svo mikil, að það er allt of þægileg aðstaða fyrir þá, sem koma til með að hafa yfirdrifið af peningum, að ná aðstöðu í íslenzku þjóðfélagi. Sú gamla gríska viðvörun um, að borgríkið, þar sem asni klyfjaður gulli komist inn um hlíðíð, sé í hættu, á sannarlega í ríkum mæli við okkur núna. Mér þykir sérstaklega hart, að það skuli koma fram frá hálfu þm. í Sjálfstfl. svona ásakanir eins og ég gat um áðan og reynt skuli vera að nota svona áróður.

Ég veit, að innan Sjálfstfl. hefur verið nokkur tvískinnungur í þessum málum frá upphafi. Það er ekki nema eðlilegur hlutur í flokki einnar yfirstéttar í einu landi. Það er svo ætíð, að yfirstétt í einu landi hefur svo að segja tvær sálir í sínu brjósti. Annars vegar er tilhneigingin til þess að reyna að stjórna viðkomandi landi vel með hliðsjón af hagsmunum þjóðarinnar sem heildar, þó að yfirráð yfirstéttarinnar séu varðveitt. Hin tilhneigingin er að afla sér útlendra bandamanna, til þess að verða sterkari gagnvart sinni eigin þjóð. Sá mælikvarði, sem við Íslendingar höfum frá því að okkar sjálfstæðisbarátta hófst, lagt á það, hvort við gætum treyst flokkum og stjórnmálamönnum í sambandi við okkar þjóðmál, var hið fornkveðna, hvort menn aðhylltust Ísland fyrir Íslendinga, hvort menn vildu standa með því, að þetta land og þess auðlindir væru fyrir Íslendinga, ekki fyrir útlendinga, á hvaða sviði svo sem það væri. Og þetta hlýtur alltaf að verða mælikvarðinn á það, hvort þeir menn og þeir flokkar, sem berjast fyrir einhverju ákveðnu, séu raunverulega íslenzkir flokkar eða ekki. Hins vegar getur mönnum skjátlazt, þótt þeir séu í íslenzkum flokkum, en þá er að varast slíkt og reyna að læra af reynslunni. Hættan, sem hér er á ferðinni, er sú, að Sjálfstfl., sem nú er búinn að vera, frá því að hann varð til, stærsti flokkur þjóðarinnar, og hafði það ekki síður en aðrir á sinni stefnuskrá, að Ísland skyldi vera fyrir Íslendinga, hefur í æ ríkara mæli, eftir því, sem auðvaldsskipulagið hefur rutt sér betur til rúms á Íslandi, orðið flokkur tiltölulega ríkrar auðmannastéttar. Og í því felst sú hætta, sem yfir þeim flokki vofir. Ég hef fyrir mitt leyti og við margir hér átt samstarf við Sjálfstfl. um ágæt mál, sem horft hafa Íslendingum til heilla, en mér er alveg ljóst, að eins og nú er komið málum, eru innan Sjálfstfl. alveg tvennar tilhneigingar í þessum efnum. Og þó að ýmsir af hans forustumönnum máske gangi inn á það að standa að frv. eins og því, sem hér er, er það mín ætlan, að það sé þó með nokkrum kvíðboga fyrir þeim hugsanlegu afleiðingum, sem af þessu gætu orðið.“

Við vitum, hvað það er, sem við sérstaklega eigum að forðast með þá fortíð, sem við höfum Íslendingar, forðast það að lenda aftur í því að verða eins konar nýlenda. Og við vitum, hver er höfuðmunurinn á nýlendu og sjálfstæðu ríki, þó að hvort tveggja væri kapítalískt, Arðurinn af vinnu verkamannanna og auðlindum landsins rennur, ef maður er í nýlenduaðstöðu, út úr landinu til eigenda framleiðslutækjanna þar, en inn í landið svo framarlega sem það eru innlendir auðmenn, sem eiga framleiðslutækin. Það er þetta, sem gerir muninn, og það er þetta, sem við verðum að muna, þegar við erum að reyna að útkljá, hvort við eigum að standa með einu máli eða á móti því. Þess vegna er það svo greinilegt sem verða má hér, að það er verið að gefa erlendri auðmannastétt aðstöðu til þess að græða og græða mikið á Íslendingum og verða vald á Íslandi með samþykkt þess frv., sem hérna liggur fyrir. Og ég vil minna íslenzka yfirstétt á það, þegar hún stígur þetta spor, að hún hefur áður verið nokkuð tæp í þessum málum. Það var engin tilviljun, að þegar sú dansk-íslenzka kaupmannastétt eða heildsalastétt, sem risin var upp hér í Reykjavík fyrir 47 árum, neyddi þáv. eigendur Morgunblaðsins til þess að selja það blað í hendur þeim, að það nafn, sem Morgunblaðinu þá var gefið af íslenzkri alþýðu, var Danski mogginn, vegna þess að þetta var fyrst og fremst fulltrúi fyrir yfirstétt, sem var svo nátengd dönskum hagsmunum, að alþýða manna, eins og oft með sínum orðatiltækjum, hitti naglann á höfuðið, þegar hún kallaði hann þetta. Við þekkjum að sama skapi þýzku samúðina, sem hér var hjá yfirstéttinni, á meðan Hitler drottnaði í Þýzkalandi og hvernig Morgunblaðið þá tók til orða 1934–1936 og á þeim árunum, og við vitum, hvernig þetta hefur gengið, eftir að Bandaríkin urðu eins áhrifarík í íslenzkum stjórnmálum og þegar er orðið. Það er hætta fólgin í því að gefa erlendum aðilum þá aðstöðu, sem þessum erlendu aðilum hefur verið gefin hér, og íslenzk yfirstétt má sannarlega gæta að sér, að hún fari ekki aðeins þjóðinni, heldur líka sjálfri sér að voða með því, hvernig hún hagar sínum aðgerðum í þessum efnum.

Ef svo héldi áfram sem byrjað er með þessu frv., en það var það, sem hv. 5. þm. Austf. undirstrikaði svo rækilega í sinni framsöguræðu um þá nýju stefnu, sem verið væri að hefja með þessu, — ef svo heldur áfram, sem byrjað er með þessu frv., þýðir það, að erlent auðvald er innan skamms orðið hið ráðandi vald á Íslandi. Það er enginn efi á því, að strax og fiskisagan flýgur í fjármálaheiminum um samning eins og þennan, líta erlendir fjármálajöfrar á Ísland sem gósenland til þess að festa fé sitt í. Ég þykist vita, að hjá vissum aðilum, sem í Morgunblaðið skrifa, mundu þessi orð mín verða tekin sem alveg sérstök lofsyrði um þennan samning. Að svona samningar væru einmitt það, sem þyrfti til að fá erlent fjármagn til að koma til Íslands.

Ég álít, að í vissum hópi Sjálfstfl. sé ráðandi alger blindni og gersamlegt samvizkuleysi og tillitsleysi til þjóðarhagsmuna í sambandi við það, að reyna að fá erlent auðmagn inn í landið. Og þegar hver hringurinn væri kominn hér á fætur öðrum með svona sérréttindi, hvar stæðum við þá? Þessi hringur, sem við erum núna að semja við, fjármagn hans er 15 þús. millj. kr. Allur þjóðarauður Íslendinga, — og er hann vissulega ekki í reiðufé þannig, að hann gefi af sér eitthvað svipað og það fjármagn, sem þarna er um að ræða, — hann er metinn upp á 41 þús. millj. — 41 milljarð. Aðeins það fjármagn, sem þessi hringur festir hér á Íslandi í sinni verksmiðju, er 2500 millj. kr. Það þýðir, eins og þegar hefur margsinnis verið bent á, að líklega meira en þriðjungur af öllu einkaauðmagni, sem til er í iðnaði og sjávarútvegi á Íslandi, er þar með útlendur. Hreinn gróði þessa auðhrings á ári hér á Íslandi mundi vera einhvers staðar á milli 200–400 millj. kr. Og hvaða vald halda menn, að svo fjársterkur aðili fengi ekki undir eins í íslenzkum stjórnmálum?

Hér eru rekin dagblöð, sem öll að einu undanteknu eru rekin með tapi. Það er að vísu ekki stórt tap á þeim, svona kannske 2–3 millj. á ári, það er ekki mikið fé í augum eins erlends hrings. Það er lítill vandi fyrir slíkan voldugan peningaaðila að ná tökum á íslenzkum blöðum, ef að honum finnst hann þurfa þess. Það er því síður mikill vandi að ná þar með tökum á íslenzkum stjórnmálum, og svo fremi sem þannig kynni að fara, og t.d. eftir nokkur ár, sæju eigendur Morgunblaðsins, hve rangt þeir hefðu farið að í sambandi við það mál, sem nú er til umr., og vildu fara að breyta þarna til, er enginn efi á því, að það er hægt að koma upp sterkari blöðum en Morgunblaðinu með því fjármagni, sem svona hringur hefði yfir að ráða, ef honum þætti hætta á ferðum. Ég tala nú ekki um, þegar komnir væru nokkrir hringar, sem rynnu á bragðið og langaði til að komast hér að. Þess vegna er nauðsynlegt, að menn geri sér ljóst, að ef menn stiga það spor, sem stigið er í dag, verða hv. núverandi þm. Sjálfstfl. og Alþfl. spurðir að því, hvaða næsta spor verði stigið. Það er hægt fyrir þann erlenda aðila að koma upp blöðum, að koma upp flokkum, og það er auðséð á andrúmsloftinu, sem er í kringum þann áróður, sem rekinn er nú af ýmsum aðilum fyrir þessu, að það eru margir menn nú þegar, sérstaklega í röðum Sjálfstfl., reiðubúnir til að berjast fyrir þessu máli. Þeir hafa kippt að sér hendinni, af því að þeir stigu fullstórt spor fyrst í sambandi við olíuhreinsunarstöðina og annað slíkt, komu upp um sambönd sín við Standard Oil, sem þeir héldu, að hægt væri að dylja, og þeir liggja rólegir núna, þangað til þeir stiga næsta sporið. En þið skuluð ekki halda, þm. Sjálfstfl., sem í dag eða næstu daga kunnið að greiða atkvæði með þessu, að þið verðið máske spurðir ráða næst. Það er hægt fyrir nógu voldugan peningaaðila að fá aðra menn inn á þing, koma upp öðrum flokkum og öðrum blöðum. Og það getur þá verið of seint fyrir þá, sem í dag taka þátt í því að stiga það óhappaspor, sem nú á að stíga, að ætla að stemma stigu við framhaldinu. Höfðingjarnir á Sturlungaöld, þeir ætluðu sér að fá Hákon Noregskonung sem sinn bandamann í sínum innbyrðis deilum hér heima, og þeir héldu, að þeir gætu notað hann til þess að koma sinni eigin ár fyrir borð. Meira að segja Gissur Þorvaldsson mun upphaflega hafa reiknað dæmið þannig, en hann reiknaði bara skakkt. Það var hann, sem var ánetjaður og varð að fara að konungsboði, áður en hann áttaði sig á því, hvað var að gerast.

Fyrir íslenzka atvinnurekendastétt og hennar flokk er það að fá sinn ofjarl inn í landið að fá þennan auðhring hingað inn. Eftir að hann er kominn, verður óhægra við að ráða. Það er nægilegt af þýlyndum, peningagráðugum mönnum hér í kringum okkur í Reykjavík, og þeir geta vafalaust skapað sér nógu flott útbúin áróðursmálgögn til þess að halda áfram því verki, sem unnið hefur verið á undanförnum árum, að spilla okkar þjóð og niðurlægja hana. Þess vegna er ekki ráð nema í tíma sé tekið, ef á að stöðva þá ógæfu, sem það mundi vera fyrir þjóðina að stiga þetta spor. Höfðingjarnir á Sturlungaöld ætluðu sér að snúa á Hákon konung. Það var hann, sem sneri á þá, og það var norska og síðan danska konungsvaldið, sem útrýmdi höfðingjastéttinni á Íslandi.

Kannske finnst sumum íslenzkum atvinnurekendum þeir vera stórir, þegar þeir eru að eiga við sína verkamenn og semja við þá, en þeir eru ekki stórir, ef miðað er við erlenda auðjöfra. Og þegar þeir væru búnir að fá marga af þeim inn í landið, mundu þeir fara að finna fyrir smæð sinni og finnast vera nokkuð þröngt fyrir dyrum hjá sér. Þróun kapítalismans gengur yfirleitt út á það, að stórir auðhringar útrýma smáum atvinnurekendum og ef þeir smáu atvinnurekendur í Sjálfstfl., sem finnst þeir vera stórir, taka þátt í því að kalla einn auðhring hér inn í landið og láta fleiri síðan koma á eftir, eru þeir að leggja drögin að því að útrýma sjálfum sér. Hraðfrystihúsaeigendurnir, sem í dag standa með því að fá þennan hring inn í landið og greiða kannske með hangandi hendi atkvæði með því á morgun að lofa Findus að koma hér og setja upp nýtízku hraðfrystihús, þeir munu finna fyrir því, að þeir eiga sjálfir ekki langt eftir, þegar þeir eru búnir að greiða atkvæði með slíku. Ég ætla ekki að taka það fram nú, en minna þó á það, — ég hygg, að ég hafi gert það áður, — að það erum ekki við, sem óskum eftir því að útrýma þessum íslenzku atvinnurekendum. Það eru þeir, sem kalla útlenda auðhringa hérna inn í landið, sem mundu útrýma þeim á næstu áratugum, ef sú þróun, sem á að hefja með þessu máli, yrði látin halda áfram.

Ég vil minna þá yfirstéttarmenn, sem halda, að það sé hægt að hirða molana af borðum þess útlenda hrings, á, að þetta hafa menn líka hugsað stundum áður á Ísíandi. Á okkar svörtustu einokunartímum voru hér vissir ríkir bændur, sem keyptu oft vörurnar af einokunarkaupmönnunum, áður en þeir létu úr höfn að haustinu og seldu svo þessa vöru að vetrinum til með slíku okri, að landsmönnum þótti oft og tíðum vera öllu erfiðara að eiga skipti við þessa, sem kallaðir voru „vetrarprangarar,“ en jafnvel við einokunarkaupmennina sjálfa. Væri gott fyrir íslenzka yfirstéttarmenn, sem langar til þess að rifja upp Íslandssöguna, hvað þetta snertir, að lesa dóm Jóns Aðils í bók hans um einokunarverzlunina, til þess að sjá hvern dóm seinni tíminn fellir yfir þeim mönnum, sem gerast þannig handgengnir erlendu valdi hér á landi, til þess að geta grætt á sinni eigin þjóð. Við munum það hins vegar enn þá, þeir, sem eldri erum orðnir, hvernig litið var, á meðan embættismannastéttin var hin ráðandi stétt hér á Íslandi, á þá embættismenn, sem kallaðir voru dansklundaðir og vildu fyrst og fremst framfylgja því, sem hin danska ríkisstjórn vildi láta framkvæma hér á Íslandi. Það, sem nú er að gerast, er, að innan íslenzku yfirstéttarinnar eru að rísa upp menn, sem fyrst og fremst lita á sig sem agenta fyrir útlent auðvald og vilja berjast fyrir því að koma útlendu auðvaldi upp hér á Íslandi. Og það hörmulega, sem hefur gerzt nú, er, að þessir menn hafa orðið það sterkir í Sjálfstfl., að þeir hafa fengið slíkt í gegn. Og þeir drottna svo að segja í þeim áróðri, sem rekinn er fyrir þessu ógæfumáli, sem hérna liggur fyrir. Þess vegna spyr ég og hefði spurt, ef hann hefði verið hér viðstaddur, hv. frsm. meiri hl. alúminiumnefndarinnar: Hvers vegna er verið að gylla þetta svona? Hvers vegna er verið að beita öllu þessu ofstæki í sambandi við gang þessa máls? Er verið að reyna fyrst og fremst að véla almenning með þessu og beygja almenning undir okið hjá þessum auðhring? Ég veit ósköp vel, að suður í Hafnarfirði og suður á Reykjanesi er bókstaflega verið að reyna að skapa þýlynda afstöðu gagnvart þessum hring. Það er verið að reyna að ala á því, að það sé eitthvert happ að fá þennan hring þarna suður eftir. Menn eigi að vera fegnir því, að þarna komi upp stórt og mikið fyrirtæki, sem borgi eitthvað ofurlítið í bæjarsjóð. Og þá er strax reynt að skapa þá afstöðu, að þeir menn, sem dirfast að standa á móti annarri eins blessun og þeirri að fá þennan hring þarna inn, þeir menn, sem dirfast að vera eitthvað að ráðast á hann, að vera að æsa múginn á móti honum, það séu ljótir menn, það séu ekki Íslendingar. Allt svo, það er svona áróður, sem mér fannst brydda á í gær, að allir, sem álíta ekki sjálfsagt að beygja sig fyrir svona, séu ekki íslenzkir. Mér liggur við að spyrja: Hvenær hefur þá þýlyndið orðið íslenzkt, ef það, að beygja sig fyrir útlendum auðhring og vilja ekki sjá neitt nema gott í því að fá hann hingað inn, á að vera orðið sérstakt dæmi um íslenzkan hugsunarhátt? Ég held þvert á móti, að það, sem þurfi sérstaklega, ef sú ógæfa á að ske, að þetta mál eigi að ná fram að ganga, þurfi þegar í upphafi, — ekki sízt suður í Hafnarfirði og þar í kring —, að byrja að skapa varnar- og sóknaraðstöðu gagnvart þessum auðhring. Segja fólkinu þar, að það sé lífsnauðsyn að vera á verði gagnvart áhrifum þessa mikla valds, sem þarna komi inn, og láta ekki þetta vald gera sig að aumingjum, hvernig sem sá aumingjaháttur yrði gylltur. Ég held alveg sérstaklega, að þm. Reykn. ættu frá upphafi að vara Hafnfirðinga við allri undanlátssemi í þessum efnum. Ef það á frá upphafi að skapa þá afstöðu hjá fólki gagnvart þessum hring að líta á hann sem einhvern velgerðarmann, líta á hann sem einhverja bjargvætti fyrir Hafnarfjörð og fyrir Reykjanes, um leið og jafnvel á að leggja útgerðina að einhverju leyti niður þar, — ef það á að reyna að ala íbúana þar upp í þeim anda, að þeir skuli lita á þetta næstum því sem einhverja guðsblessun, sem þeim hafi verið færð og jafnvel sé nú farið að brennimerkja alla þá, sem berjast á móti þessum hring sem óalandi og óferjandi, þá verðum við búnir að niðurlægja okkar þjóð á nokkrum áratugum meira en kannske nokkurn okkar mundi gruna í dag.

Það er stundum talað um það, að það hafi einu sinni gerzt þar syðra, þar sem þessi hringur á að rísa upp núna, að maður að nafni Hólmfastur Guðmundsson hafi verið hýddur á þingi fyrir að brjóta þau lög, sem hin erlenda yfirstétt hafði sett hérna þá! En menn muna kannske ekki eins vel eftir því, að á því sama þingi, Kálfatjarnarþingi, og ég held, að Straumsvíkingar næstum því heyri undir Kálfatjarnarþing, á því sama þingi, þar sem Hólmfastur var hýddur, lét Knud Storm, Hafnarfjarðarkaupmaður, þingmennina þar samþykkja traustsyfirlýsingu til sín, sem var svo orðuð, með leyfi hæstv. forseta. Þetta var 27. júli 1699, svo að málið er gamaldags. En þetta var samþykkt á þessu þingi, þar sem Hólmfastur var hýddur:

„Á Kálfatjörn 27. júlí 1699. Uppá ofanskrifaða ósk og begering er vort andsvar og opinber vitnisburður, að kaupmaðurinn Knud Storm hefur umgengist frómlega og friðsamlega við sérhvern mann og sína kauphöndlun haldið og gjört í allan máta eftir Kgl. Mts. taksta og forordningum og sérhvers manns nauðsynjum jafnan góðviljuglega gegnt og tilbærilega hjálpað og fullnægt með góðri kaupmannsvöru í allan máta, svo sem sérhver óskað hefur og sérhverjum af oss er vitanlegt. Hvers vegna vér skylduglega viljum þessari hans tilbærilegu begeringu vel og kristilega gegna og gjarnan óska, að fyrr velnefndur kaupmaður mætti vel og lengi með lukku og blessan sömu höndlun framhalda og hljóta (bæði hér á landi og annarstaðar) guðs náð og gleðileg velfelli til lífs og sálar æ jafnan fyrir Jesum Christum.“

Þetta er vottorðið, sem gefið var á Kálfatjarnarþingi einhverjum verst þokkaða kaupmanni, sem hafði verið í Hafnarfirði og var að láta húðstrýkja Hólmfast Guðmundsson á því þingi fyrir að hafa brotið hans lög. Svona langt voru menn sokknir niður þá. Og ef það á að fara að reyna að skapa þá afstöðu, þegar útlendur auðhringur kemur hér inn í landið, að það sé eitthvað, sem við eigum að sleikja út um og þakka fyrir, þá er verið að byrja á því að reyna að niðurlægja okkar þjóð á sama máta og hún hafði verið niðurlægð þá. Og ekki sízt ber öllum þeim, sem ábyrgð taka á að leiða svona auðhring inn í landið, að segja: Við skulum standa á verði gegn honum. Við skulum skapa þann hugsunarhátt, ekki sízt í nánasta umhverfi hans, að honum sé mætt með fullri tortryggni og hverri ágengni sé vægðarlaust svarað.

Við höfum ekki, Íslendingar, fengið að kynnast peningavaldi í þeirri mynd, sem aðrar þjóðir hafa hjá sér. Meðan við höfum átt hér samskipti, íslenzkir atvinnurekendur og íslenzkir verkamenn, hefur að vísu oft skorizt í odda, en það hafa þó verið landar, sem hafa staðið hver gagnvart öðrum, og þeir íslenzku atvinnurekendur, sem í hlut hafa átt, hafa um leið verið menn, sem hafa haft áhuga á að efla íslenzkt atvinnulíf, og það hafa verkamenn líka haft. En hér kemur aðili, sem ekkert annað gengur til en að arðræna okkur, ekkert annað gengur til en að græða á okkur og flytja héðan burtu allan þann gróða, sem hann hefur, og losna algerlega við allt, sem þetta land snertir, þegar hann bara er búinn að hafa sinn pening upp úr því. Hjá honum er ekkert annað en peningasjónarmiðið helkalt. Þess vegna ríður á, að við frá upphafi stöndum á verði, ef sú ógæfa á að gerast, að þessum hring sé hleypt hér inn.

Ég vildi segja þetta, vegna þessara orða, sem duttu út úr hv. frsm. meiri hl. alúmíniumnefndar í gær, til þess að reyna frá upphafi að stemma stigu við því, að farið sé að reyna að nota slíkar gyllingar eða slíkar blekkingar í þessari aðstöðu. Ég mun svo að öðru leyti ekki fara langt út í þetta mál. Það er búið að rekja hér svo ítarlega af hálfu stjórnarandstöðunnar öll þau rök, sem eru fyrir utan þau hreinu þjóðernislegu, og búið að koma inn á þau líka. Ég vil þó benda mönnum á eitt. Það er að vísu ekki stórt atriði. það er samið um þetta í dollurum, og mönnum finnst dollarinn auðvitað ákaflega fín mynt, hvað hann vissulega er talinn vera í dag. En það er samið til 45 ára. „Enginn mun vita, hvað orðið er þá / af auðsins og guðanna friði,“ eins og þar stendur, „þegar hundraðið fimmta er sigið í sjá / og sól þess er runnin að viði.“ Það er máske ekki einhlítt að miða við dollarann, þó að hann sé voldugur í dag. Það var einu sinni sett inn í íslenzk lög, mig minnir, að það hafi verið 1940 eða 1941, að við miðuðum bæði við dollara og sterlingspund, hvort þeirra, sem hærra væri. Þá lítum við nú stórt á okkur. En það er sem sé vert að athuga það. Það vita allir, að dollarinn er ofskráður í dag og Bandaríkjamenn eiga fullt í fangi með að koma í veg fyrir að hann falli. Og það er vissulega vel mögulegt, að dollarinn meira að segja falli á næstunni, meira að segja þó svo að t.d. svissnesku mörkin stæðu.

Ég vil enn fremur minnast á þau atriði, sem hér hafa komið fram viðvíkjandi dreifbýlinu. Við skulum alveg gera okkur það ljóst, að þetta þýðir nýja stórkostlega fólksflutninga á Íslandi. Það streyma nú þegar fyrirspurnirnar um þetta inn á allar ráðningarskrifstofur á Norðurlandi. Þetta er beint tilræði við Norðurland. Og þeir ættu að reyna að gera sér það ljóst. Það er ekki til neins að reyna að friða samvizkuna með einhverjum atvinnujöfnunarsjóði eða einhverju þess háttar. Það er allt saman hlægilegt í sambandi við þetta. Það eru ekki slíkir hlutir, sem duga í sambandi við þetta.

Þá vil ég enn fremur minna á það, sem ég hef tekið fram áður, en þó ekki fengið svar við, að það hafa engar almennilegar rannsóknir verið gerðar á því, hvar henti bezt fyrir Íslendinga að setja upp stóriðju. Ég segi þetta vegna þess, að ég þykist sjálfur hafa snemma byrjað á því að hugsa um stóriðju á Íslandi og lagt til hér á Alþ. fyrir meira en 20 árum, að við byggjum okkur undir það að verða að koma upp stóriðju í krafti okkar fossa, og gert hverja till. á fætur annarri um, að við undirbyggjum þetta sjálfir og rannsökuðum, ef við þyrftum yfirleitt að fara að vinna úr útlendum hráefnum, sem engan veginn er vist að við þurfum enn þá, hvaða útlend hráefni við vildum þá fara að flytja hér inn. Ég hef vissulega hugsað um alúminíum jafnt sem önnur. En það hefur aldrei fengizt fram, að það færi nokkur óhlutdræg rannsókn fram á þessu máli. Ég hef verið í einni n., sem hefur starfað i sambandi við þetta. Einmitt nefnd, þar sem tveir þeir menn, sem fremst hafa gengið fram í að reyna að fá alúminíumhringina hingað inn, voru líka, Vilhjálmur Þór og Steingrímur Hermannsson. Ég hef bent þeim á nokkur atriði, sem ég áleit að þyrfti að athuga í þessu sambandi. Þeir hafa gengið inn á það. Jú, þetta væri alveg rétt hjá mér, en það hefur aldrei fengizt nokkur rannsókn á nokkrum hráefnum í sambandi við þetta. Og núna, þegar alúminium var hleypt inn, þegar verið er að hleypa því inn, er það gert án þess að hafa samanburð við nokkurn skapaðan hlut annan. Það er bara haldið áfram þessu gamla, að einstakir Íslendingar hafa gengið með grasið í skónum á eftir alúminíumhringunum alveg frá Kaliforníu til Sviss til þess að biðja þá um að koma hingað.

Svo er eitt, sem ég vil taka mjög ítarlega fram í sambandi við þessi mál, og það er afstaða sérfræðinganna. Ég álít það vera beina misnotkun á sérfræðingum, sem fram fer í sambandi við þetta mál, þegar sérfræðingar eru kvaddir til, ber þeim að leggja fram kosti og galla á hlutunum, og þau álit eiga að liggja fyrir og líka að liggja fyrir í þingi. Og sá sérfræðingur, sem er kvaddur til og segir ekki bæði kosti og galla, er enginn sérfræðingur, hann er áróðursmaður, og það á ekki að nýta hann, heldur setja hann af. Það er einn grundvöllurinn fyrir því, að í tæknilega þróuðu þjóðfélagi sé hægt að hafa þingræði, að Alþ. geti treyst á það, að sérfræðingarnir segi álitið frá öllum hliðum. Það geta orðið mörg mál, sem við ekki höfum vit á í þessu, en við viljum fá að sjá allar hliðar málsins frá upphafi. Og það má ekki taka slíka áróðursafstöðu í þessum málum, að ef sérfræðingar hafa eitthvað að athuga við hlutina, séu menn helzt bara illir út í þá. Og það á heldur ekki að gera þá hluti að setja menn, — við skulum bara taka sem dæmi aðalbankastjóra Seðlabankans, sem hefur unnið heilmikið að því að reyna að fá þennan alúminíumsamning, það á ekki að setja hann sem formann í Landsvirkjunarstjórn. Það er hneyksli að fara þannig að. Láta þá menn, sem vitað er að hafa sérstakan áhuga á að pína þetta í gegn, inn á stofnanir, þar sem aðrir menn eiga að vera, menn sem eiga að vera á verði í þessum málum. Það er nauðsynlegt að gera sér ljóst, að sérfræðingar hafa þarna ábyrgð. Þeir verða ekki síður dregnir til ábyrgðar, ef þeir standa sig illa, en þeir þm., sem kunna að gera rangt í þessum efnum.

Ég vil svo aðeins að lokum taka það fram, að ég álít, að hv. þm. stjórnarflokkanna væri, vegna þeirrar ábyrgðar, sem þeir taka á sig í þessum efnum, sæmst að ganga inn á það að leyfa þjóðinni að dæma. Það er hart í svona máli, þegar á að fara að binda þjóðina til 45 ára, ef henni verður neitað um það að fá að segja sitt eigið álit, og þeir menn, sem slíkt gera, taka á sig þunga ábyrgð. Ég álít að till. um þjóðaratkvgr. sé svo sjálfsögð, ef menn á annað borð ætla að samþ. þessi lög hér, að menn eigi samvizku sinnar vegna að ganga inn á að láta þetta fara fyrir þjóðaratkv. Ég get satt að segja ekki séð, af hverju þeir stjórnarflokkar, sem hafa aðra eins áróðursafstöðu og þeir hafa, þora ekki að leggja svona mál undir þjóðardóm.

Að síðustu vil ég svo koma að því, sem bæði ég og forsrh. lukum okkar ræðum með við l. umr. þessa máls. Ef við sjáum nógu snemma, Íslendingar, hvílíkt ógæfuspor við höfum stigið með því að setja svona mál í gegn, — ef það verður sett í gegn, — og viljum kippa að okkur hendinni, viljum þjóðnýta þennan hring, taka eign hans eignarnámi hér, hvernig er þá aðstaðan? Og það vildi ég óska eftir, annað hvort við þessa umr. eða 3., að fá upplýst. Alþfl. hefur nokkuð látið það koma fram, að hann sé með vissan ótta í brjósti út af afskiptum þessa hrings af okkar innanlandsmálum. Og það er náttúrlega engum efa bundið, að auðhringur, sem ber höfuð og herðar yfir alla íslenzka atvinnurekendur, getur náttúrlega enn þá siður en íslenzkir atvinnurekendur látið vera að skipta sér af vinnudeilum og stjórnmálum. Happ gerir það allt svo alveg óhjákvæmlega. Ef menn vildu reyna að koma einhvern veginn í veg fyrir það, gæti ég komið með brtt., ef Alþfl. vill vera henni sammála, bæta inn í þessi l., að svo fremi sem hringurinn gerir sig sekan um að skipta sér af vinnudeilum eða stjórnmálum á Íslandi, skuli þessi samningur úr gildi falla. Nú býst ég við, að meiri hl. sé búinn að binda sig hringnum of mikið til þess að hann þori að samþykkja slíka till. Hitt mundi vera nokkurt aðhald fyrir hringinn, ef frá upphafi yrði sú aðstaða hér, að honum yrði sagt: Þin eign hér verður þjóðnýtt, svo fremi sem þú ætlar að ganga í lið með íslenzkum atvinnurekendum í þeirra stéttabaráttu. Ég get varla vænzt þess, að Sjálfstfl. færi nú að hóta slíku, en mér þætti vænt um að heyra, hvort Alþfl. væri til í það. En það, sem ég vildi sérstaklega spyrja hæstv. dómsmrh. að, er — ég hef satt að segja bara ekki fundið út úr því, þótt ég hafi reynt að lesa þær greinar, sem eru um riftunina á þessum samning, — hvernig mundi það vera, ef Alþ. Íslendinga tekur þá ákvörðun að taka þennan hring eignarnámi eða taka þessa verksmiðju í Straumsvík eignarnámi? Hverjir verða það, sem verða látnir dæma og kveða upp um andvirðið hér á Íslandi? Það er eftir stjórnarskránni Hæstiréttur, sem á að gera út um slíkt að lokum, en hverjir verða það eftir þessum samningi? Og í öðru lagi: Hvernig yrði ákveðið um greiðslu? Ég býst þó við, að eftir öllum venjulegum lögum Íslendinga mundi það vera Alþ., sem réði, á hvern máta þetta yrði greitt. Og ég vildi fá hér alveg nákvæma hugmynd um það, hvernig færi, ef Alþ. eftir svo og svo langan tíma samþ. að þjóðnýta þessa verksmiðju. Hvernig eru þá aðstæðurnar eftir þessu frv.? Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur gert sér það ljóst, að til þessa gæti komið, því að hæstv. forsrh. sagði það beinlínis: Þá verður að taka hringinn eignarnámi. Og ég vildi þá um leið mega spyrja: Þegar meta á eign þessa hrings og ákveða, hvers virði hún sé, álitur þá hæstv. ríkisstj., að farið yrði eftir því, hvað þessi hringur hefur gefið upp til skatts sem gróða af verksmiðjunni? Við mundum fara eftir því, t.d. ef við værum að bæta bændum laxveiði, sem þeir hefðu misst, þegar raforkuver væri sett upp, þá mundi vera farið eftir því, hvað þeir hafa gefið upp til skatts í sambandi við laxveiðina, og eins ætti þá að gera viðvíkjandi þessum hring. Og ég held, að þetta þyrfti að vera alveg ljóst nú, þegar við ræðum þetta, því að það verður alveg vafalaust ekki svo langt þangað til þær kröfur verða gerðar, ef ekki á illa að fara á Íslandi, að þessi verksmiðja verði þjóðnýtt. En í því sambandi vildi ég leyfa mér að óska eftir því að fá að sjá einn samning, sem er ekki hér í, — ég hef a.m.k. ekki orðið var við hann, — en hefur nokkurt gildi í sambandi við þetta, og það er samningurinn við Alþjóðabankann um lánin til Búrfellsvirkjunarinnar. Á hvern máta koma greiðslurnar í sambandi við alúminiumhringinn þar inn í? Ég vildi leyfa mér að óska eftir, að þennan lánssamning eða uppkast að honum, ef hann er ekki undirskrifaður, fengjum við að sjá og hvort í honum séu nokkur ákvæði, sem gætu gert okkur þetta erfiðara.

Ég þekki það af reynslu fyrri viðskipta við Alþjóðabankann, að hann á til með að reyna að beita áhrifum sínum til að ráða nokkru um samninga, sem gerðir eru í viðkomandi löndum. Í fyrsta lagi vitum við, hvernig hann beitti áhrifum í sambandi við samningana um lánin til Sogsvirkjunarinnar, til Írafossstöðvarinnar, þar sem hann gerði þau háð því, að Áburðarverksmiðjan fengi ákveðið verð á rafmagni. Og í öðru lagi reyndi hann að beita áhrifum sínum í sambandi við lán til Sementsverksmiðjunnar til þess að knýja það fram þá, að Sementsverksmiðjan yrði ekki ríkiseign, og því er ekki óeðlilegt, að ég spyrji: Er nokkuð í þeim lánssamningi, sem gerður yrði við Alþjóðabankann, sem mundi gera það að einhverju leyti erfiðara fyrir Ísland að þjóðnýta, að taka eignarnámi, þessa verksmiðju suður í Straumsvík, ef þjóðinni litist svo á? Alþjóðabankinn er nokkuð slæmur með að vera að skipta sér af innanlandsmálum sjálfstæðra þjóða og sletta sér fram í það, hvort þær hafa hjá sér ríkisrekstur eða annað slíkt. Og það þarf að venja þann banka af að vera að reyna að fyrirskrifa okkur Íslendingum, eins og hann væri eitthvert rentukamner, hvernig við vinnum að okkar málum. Þess vegna óska ég eftir því, að þessi samningur eða uppkast að honum sé lagt hér fram og við fáum að fara í gegnum þau ákvæði hans, sem gætu að einhverju leyti komið við seinna meir, þegar þyrfti að þjóðnýta þessa verksmiðju.