23.04.1966
Efri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að gera að umræðuefni efnisatriði þess samnings, sem liggur fyrir hv. d. til staðfestingar. Ég ætla ekki heldur að þessu sinni að svara ýmsum atriðum úr ræðu hæstv. iðnmrh. frá því á laugardaginn var, sem voru þó nokkur tilefni til, þó færri en búast hefði mátt við. Þetta bíður 2. umr., ef hún verður. Þá mun ég gera ítarlegri grein fyrir ýmsum efnisatriðum málsins, eins og þau horfa við frá mínu sjónarmiði. Ég hef ekki miklu að bæta að svo stöddu við þá ágætu ræðu, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti nú síðdegis í dag. En það vill þannig til, að ég hef starfað frá upphafi í þeirri þmn., sem fylgzt hefur með undirbúningi máls þessa í umboði þingflokkanna og sett var á stofn fyrir forgöngu hæstv. iðnmrh. í febr. 1965. Mér þykir eðlilegt, að maður úr þeirri n. geri nokkra grein fyrir viðhorfum sínum til starfa n. og eðlilegt að skýra hér nokkuð frá þeim, ekki sízt vegna þess, að tilefni hafa gefizt til þess í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál, hér á hv. Alþ.

Það var hlutverk þessarar n. að fylgjast með gangi málsins fyrir hönd þingflokka sinna, afla þeirra upplýsinga fyrir þá, sem nauðsynlegar þóttu til að móta viðhorf til málsins, og gefa ráðh. og samningamönnum bendingar um atriði og viðhorf til þeirra, sem á góma bar. N. hafði hins vegar ekkert ákvörðunarvald, og yfirleitt var ekki leitað eftir því, að fram kæmi í n. ákveðin og endanleg afstaða til einstakra atriða málsins eða málsins í heild, enda átti að leggja málið fyrir hv. Alþ. Nm. óskuðu eftir í n. margvíslegum upplýsingum af ýmsu tagi. Þeir fengu þær upplýsingar ekki alltaf, en ég held, að ég megi segja, að þeir hafi fengið þær upplýsingar, sem þeir báðu um, þegar kleift var að afla þeirra, og hef ég ekki neinar kvartanir fram að færa um það efni. Nm. lögðu til málsins það, sem þeir vissu bezt og réttast, án tillits til þess, hvort þeir voru fylgjandi einstökum atriðum málsins eða málinu í heild, enda mótaðist auðvitað afstaðan til málsins í heild af einstökum atriðum þess eftir því, sem þau formuðust. Það voru margvísleg viðhorf og mismunandi viðhorf manna í n., en samvinna nm. var góð. Ég varð ekki annars var, en að hæstv. ráðh. sýndi n. fullan trúnað. Þó að um það sé auðvitað erfitt að fullyrða, hvort hann kann að hafa látið n. í té allar upplýsingar, sem hann hafði sjálfur eða ekki, þá hef ég það þó mjög á tilfinningunni, að nm. nytu trúnaðar hans, og hef ekki ástæðu til að ætla, að hann hafi með neinum hætti viljað blekkja nm. í neinum atriðum. Ég á ýmsar góðar endurminningar um starfið í þessari n. og fáar slæmar. Vinnuskilyrði n. voru að vísu heldur ófullkomin og öðruvísi en við framsóknarmenn gerðum ráð fyrir í upphafi, en samvinnan við hæstv. ráðh., að öðru leyti en því, sem auðvitað skiptir þó mestu máli, að hann fékkst ekki til að fallast á meginatriði okkar sjónarmiða, var í daglegu starfi ákjósanleg, og ég vil gjarnan nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. ráðh. fyrir gott samstarf í því daglega samstarfi, sem þar átti sér stað, þó að hann hafi ekki séð sér fært að fallast á þau meginsjónarmið, sem ég og flokksbræður mínir í n. höfðum fram að færa. Það er ekki fyrr en kemur til umræðnanna hér á hv. Alþ., sem mér finnst ráðh. fara heldur ósanngjörnum orðum um nm., og skal ég koma að því síðar.

Þessi þmn. var ekki samninganefnd. Það virðist, að minnsta kosti út á við, vera nokkuð almennur misskilningur, að þmn. hafi tekið þátt í samningum við hina erlendu menn. Þeir samningar voru ræktir af embættismönnum undir stjórn ráðh. og síðar af ráðh. sjálfum ásamt embættismönnum sínum. Árangur þeirra starfa verður auðvitað dæmdur af þeim samningum, sem hér liggja fyrir. Verkin sýna merkin. En ég verð að segja það, að mér hefur oft fundizt einkennilegt, og það hefur valdið mér vonbrigðum, að samningamenn skyldu ekki komast lengra með það, sem þeir vildu ná fram í þessum samningum, en raun ber vitni, vegna þess að ég hef þann skilning, að samninganefndin hafi starfað af dugnaði. Ég hef líka þá tilfinningu, að viðbrögð ráðh. við einstökum atriðum í málinu, einstökum kröfum af hálfu Svisslendinganna, hafi oft verið snörp, en þau nægðu ekki, enda mun málið hafa verið þannig, að ráðh. var ekki reiðubúinn til þess að láta samninga bresta, og þá verður samningsaðstaðan ævinlega veik. Og þá er við ramman reip að draga. Skrif stuðningsblaða hæstv. ríkisstj. sköpuðu ekki hagstætt andrúmsloft fyrir samningaumleitanir hæstv. ráðh. Ég ætla ekki að rekja það að þessu sinni. Ég get stutt þá fullyrðingu dæmum, ef tilefni gefst til þess, en í skrifum blaða hæstv. ríkisstj. komu fram sjónarmið, sem hlutu að vekja þá hugsun hjá viðsemjendum hæstv. iðnmrh., að við mættum til fyrir hvern mun að ná þessum samningum. Strax á fyrsta fundi n. vakti ég máls á því, hvort ekki væri hættulegt fyrir okkur að láta þann skilning skapast hjá viðsemjendunum, að við gætum ekki virkjað án þeirra tilkomu. Þessu var þá eytt, en hér álít ég, að sé að finna nokkurn þátt í þeim skýringum, sem eru á því, að betri árangur náðist ekki, og kemur þá enn til það, að ég varð þess var um þessar mundir, að ýmsir einstaklingar, sem hinir svissnesku samningamenn höfðu samband við, töluðu enn ógætilegar og fóru enn ógætilegar að ráði sínu heldur en nokkurn tíma blöð hæstv. ríkisstj.

Þótt mér finnist viðeigandi fyrir einn úr þessari þmn. að gera störf hennar nokkuð að umræðuefni, ætla ég ekki hér að fara að rekja gang mála í þeirri n. að neinu ráði. Það mundi taka allt of langan tíma og leiða of langt. En það hefur annað komið fram í þessum umr., sem orðið hafa um þetta mál hér á hv. Alþ., sem gefur tilefni til þess að skoða einn þáttinn í starfi n. Hæstv. ráðh., iðnmrh„ lét sig hafa það í Nd. að fullyrða það, að okkur, sem í þmn. störfuðum, hefði alla tíð verið kunnugt um gerðardómsákvæðin, án þess að við mótmæltum þeim. Þau ummæli, sem hæstv. ráðh. lét sér um munn fara í þessu sambandi og ég skal örlítið nánar taka til meðferðar síðar, voru bæði ósanngjörn í garð samstarfsmanna hans í n. og algerlega villandi. Framsetning hans á þessu máli hér við þessa umr. í þessari hv. d. var að vísu nokkuð betri, en breytir ekki því, að mér finnst fullt tilefni til að ræða nokkuð um þetta atriði. Ég ætla þess vegna að slá tvær flugur í einu höggi. Ég ætla að rekja svolítið, hvernig þessi ákvæði komu til meðferðar í þmn., og það getur þá verið hvort tveggja í senn nokkur frásögn af starfi n., eins og það gekk fyrir sig, og í öðru lagi svar við ósanngjörnum og villandi ummælum hæstv. iðnmrh. um þetta efni í hv. Nd.

Þar er þá fyrst frá að segja, að skýrsla hæstv. iðnmrh., sem hann flutti sameinuðu Alþ. í maí í fyrra, gat ekki um nein slík ákvæði. Slík ákvæði eða lagagrundvöllur í þessu sambandi yfirleitt höfðu þá, að því er ég get séð í fundargerðum og bezt man, alls ekki komið til umr. í n. Okkur nm., a.m.k. mér, var þá ekki neitt kunnugt um hið fyrsta uppkast, sem ráðh. hafði látið gera af samningi og sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði að umræðuefni hér í dag. Það leyndarmál geymdi hæstv. ráðh. og samstarfsmenn hans auk hv. 3. þm. Norðurl. v. Við gerðum satt að segja um þessar mundir alls ekki ráð fyrir því, að í samningum þyrftu að vera nein ákvæði um þessi efni yfirleitt, heldur mundi það bara koma af sjálfu sér, að fyrirtæki, sem starfrækt væri á Íslandi, mundi lúta íslenzkri lögsögu, enda hafði það verið tekið fram af hálfu okkar framsóknarmanna á öðrum vettvangi fyrr. Við gerðum alls ekki ráð fyrir neinu slíku um þær mundir, og það studdi þær hugmyndir okkar, að á öðrum fundi þmn. lýsti aðalsamningamaður ríkisstj., dr. Jóhannes Nordal, því yfir, — í öðru sambandi að vísu — að viðsemjendur okkar yrðu að treysta því, að Ísland væri réttarríki. Eftir því sem ég get bezt munað og séð af fundargerðum, komu slík atriði alls ekki til umr. fyrr en á 13. fundi n. En ég vil aðeins fyrst geta um 12. fund n., sem haldinn var 17. júní s.l. í Zürich, þar sem þmn. var stödd í kynnisferð. Ráðh. skýrði þá n. frá því uppkasti, sem hann hafði fengið frá svissneskum viðsemjendum sínum. Hann skýrði mjög lauslega og ég held sáralítið frá efnisatriðum þess, eftir því sem ég bezt man, og það kemur ekkert fram um það í fundargerð, að hann hafi skýrt frá efnisatriðum málsins þá. En hitt var alveg ljóst, eins og hæstv. ráðh. skýrði raunar frá hér á laugardaginn, að hann var sáróánægður og varð fyrir miklum vonbrigðum af því samningsuppkasti, sem hann hafði fengið í hendur.

Mér virtist þó af því, sem hæstv. ráðh. sagði á þessum fundi, að það, sem hann væri fyrst og fremst óánægður með, væri form samningsins. Ég gerði því á þeim fundi fsp. til ráðh., þar sem ég spurðist fyrir um það, hvort aths. ráðh. við samningsuppkastið snertu formhlið málsins eða efni. Ráðh. svaraði því, að um hvort tveggja væri að ræða. Ég spurði þá ráðh. að því, hvort hann teldi, að efnisatriði samninganna — ég spurði þess að gefnu tilefni — væru í aðalatriðum ráðin, og svaraði ráðh. því játandi, að efnisatriði væru í aðalatriðum ráðin og eftir þá yfirlýsingu — efnisatriði málsins höfðu nú smátt og smátt verið að skýrast — fór það að verða ljósara, að líklegt væri, að þessir samningar mundu enda þannig, að við framsóknarmenn gætum ekki veitt þeim stuðning.

Á 13. fundi n., sem haldinn var 13. júlí, er nm. afhent þetta samningsuppkast. Þá sjá nm. í fyrsta sinn ákvæði um lagagrundvöll, gerðardóm og því um líkt. Þó voru þau ákvæði, sem um gerðardóminn fjölluðu í þessu uppkasti, töluvert öðruvísi heldur en þau eru í þeim samningi, sem nú liggur hér fyrir. Að sumu leyti miklu lakari fyrir okkur Íslendinga, en að öðru leyti kannske líka betri. Þannig var gert ráð fyrir því, að lagagrundvöllurinn væri þau lög, sem væru sameiginleg íslenzkri og svissneskri löggjöf, sem auðvitað var ákaflega óljóst og óviðunandi. En á hinn bóginn var það ekki fram tekið þarna og a.m.k. alveg óljóst, hvort íslenzka fyrirtækið gæti skotið ágreiningsmálum til gerðardóms. En núna, þegar svo virtist sem efnisatriði málsins væru nokkuð farin að skýrast og það fór að verða nokkuð ljóst, þó ekki í öllum atriðum, hverjar mundu verða niðurstöður samningaumleitananna, vaknaði sú spurning hjá okkur, fulltrúum Framsfl. í þmn., hvernig við gætum hagað áframhaldandi starfi okkar í þeirri n. Okkur virtist ljóst af ýmsu, að hæstv. ráðh. vildi gjarnan hafa þessa þmn. starfandi, jafnvel þó að ýmsir nm. væru andvígir samningunum. Á hinn bóginn vildum við ekki, að áframhaldandi starf okkar í n. gæti leitt til einhvers alvarlegs misskilnings um afstöðu okkar til ýmissa meginatriða. Á 14. fundi n., fyrsta fundinum, sem haldinn var, eftir að við höfðum fengið fyrsta samningsuppkastið, sem við fengum í hendur, á fyrsta fundinum, sem haldinn var, eftir að við höfðum fengið það í hendur, óskaði ég eftir því fyrir mína hönd og Ingvars Gíslasonar, að eftirfarandi yrði bókað:

„Við leggjum áherzlu á, að áframhaldandi samningaumleitanir við Alusuisse verði m.a. miðaðar við eftirfarandi:

1. Að staðarvalið fyrir verksmiðjuna verði endurskoðað í því skyni að velja verksmiðjunni stað utan mesta þéttbýlissvæðis íandsins, sbr. bókun Gísla Guðmundssonar á fundi 29. apríl sl.

2. Að verksmiðjufyrirtækið lúti í einu og öllu íslenzkum lögum.

3. Að það gjald, sem verksmiðjan greiðir fyrir raforku, nægi í raun til þess að verksmiðjan standi undir stofn- og rekstrarkostnaði virkjana á hverjum tíma, m.a. með samningsákvæðum um tíða endurskoðun raforkuverðsins. Jafnframt minnum við á nauðsyn þess, að ráðstafanir séu gerðar til þess að koma í veg fyrir, að bygging verksmiðjunnar hafi óhagstæð áhrif á verðlags- og efnahagsþróunina í landinu, en fyrsta skrefið í þá átt teljum við vera, að gerð sé ítarleg áætlun um vinnuafi og framkvæmdaverkefni næstu ára.“

Hér óskuðum við, að bókað yrði, að við vildum leggja megináherzlu á þrjú atriði, sem að samningunum lúta, og fjórða atriðið, sem sneri að okkur sjálfum eingöngu.

Um þrjú þessara atriða skal ég ekki ræða að þessu sinni, en ég vek athygli á 2. tölulið þessarar bókunar, þar sem stendur, að verksmiðjufyrirtækið, þ.e.a.s. það innlenda fyrirtæki, sem rekur verksmiðjuna, verksmiðjufyrirtækið lúti í einu og öllu íslenzkum lögum, og eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði svo glögglega grein fyrir í dag, hlýtur auðvitað í þessu að vera fólgið einnig það, að það lúti íslenzkri lögsögu. Ég gerði grein fyrir því á þessum fundi, að við legðum þessa bókun fram til þess að koma í veg fyrir, að áframhaldandi þátttaka í störfum n. væri talin þýða fráhvarf frá prinsipafstöðu, sem áður hefði verið gerð grein fyrir. Hvernig tók nú ráðh. þessu? Það segir áfram í fundargerðinni:

„Ráðh. kvað þátttöku í störfum n. ekki bindandi fyrir alþm. um afstöðu til málsins, þegar til meðferðar þess á Alþ. kæmi, heldur aðeins til þess, að allir þingflokkar gætu kynnzt málinu, áður en það kemur til kasta Alþ. Ráðh. kvað vitað, að ágreiningur væri um ýmis prinsipatriði málsins og um það í heild.“

Mér finnst nauðsynlegt að minna á þetta, ekki aðeins vegna þess, að það sýnir það ljóslega, að á fyrsta fundi, sem n. hélt, eftir að við höfðum fengið fyrsta samningsuppkastið í hendur, gerðum við grein fyrir þeim meginatriðum, sem við töldum, að mundu ráða okkar afstöðu til málsins. Og í öðru lagi vegna þess, að þar kemur ljóslega fram það viðhorf ráðh. til n., að það sé vitað, að þar sé ágreiningur í grundvallaratriðum og þeir menn, sem þátt taka í nefndarstörfum, séu óbundnir, þegar málið kemur til Alþ.

Ég held, að þegar ég hef gert grein fyrir þessu, hljóti menn að sannfærast um það, að það skortir mikið á, að það sé sannleikanum samkv., þegar hæstv. ráðh. og aðrir gefa það í skyn, að engin aths. hafi verið við þetta gerð, og þó er miklu meira eftir. Nú skal ég halda áfram.

Á 17. fundi n., sem haldinn er 27. ágúst, er þessi þáttur málanna næst til umr. Og áður en ég kem að því að segja frá því, sem þar fór fram, verð ég því miður að minna á það, að við umr. þessa máls í hv. Nd. sagði hæstv. iðnmrh., að ýmsar aths. og bókanir hefðu verið gerðar um ýmis atriði í þmn., en aldrei um gerðardóminn, aldrei um gerðardóminn. Og hæstv. ráðh. sagði áfram orðrétt eftir því, sem ég hef tekið upp úr óleiðréttu eintaki á lestrarsal:

„Það kemur fram á 17. fundi í þmn. 27. ágúst, að þá kvaðst Helgi Bergs ekki hafa sérstakar aths. að gera við fyrirliggjandi uppköst, en taldi orðalag sums staðar fullveikt, t.d. þar sem rætt er um íslenzkt réttarfar neðst á bls. 4 og efst á bls. 5. En á þessum fundi lagði ég fram grg.,“ segir hæstv. ráðh. áfram, „sem við vorum að senda Alusuisse um viðhorf okkar til samningsuppkastanna, sem við höfðum farið yfir með þmn. til undirbúnings fundi, sem stóð fyrir dyrum hér á Íslandi á eftir. Í bókuninni stendur: Iðnmrh. tók fram, að hann hefði sjálfur nokkrar brtt. að gera við grg.-uppkastið, m.a. við það atriði varðandi íslenzkt réttarfar, sem Helgi Bergs hafði vikið að. Og allt var það leiðrétt,“ segir hæstv. ráðh. áfram, „og sett í það form, sem menn sættu sig við og síðar leiddi til sterkari og betri niðurstöðu.“ Þetta voru ummæli hæstv. ráðh. í Nd.

Hvað segir nú fundargerð 17. fundar um þetta efni? Í fyrsta lagi hlýt ég að vekja athygli á því, að þegar hæstv. ráðh. segir í ræðu sinni, að Helgi Bergs hafi ekki haft sérstakar aths. að gera við fyrirliggjandi uppkast, vaknar strax sú spurning, hvaða uppkast er um að ræða? Það væri að sjálfsögðu nærliggjandi fyrir þá, sem heyra þessa setningu, að halda, að fyrir okkur hafi legið eitt samningsuppkastið enn — mörg voru þau, sem á okkar borð komu — og ég hefði ekkert haft við það að athuga. En það er öðru nær. Í upphafi þessa tölul. fundargerðarinnar, sem hæstv. ráðh. las úr, þó að hann læsi ekki upphafið, stendur: „Uppkast það að grg. af hálfu Íslands, sem útbýtt var á 16. fundi, tekið til umr.“ Þetta var uppkast, sem Hjörtur Torfason lögfræðingur hafði gert að aths. við þau samningsdrög, sem við höfðum til meðferðar. Ég hafði látið þá skoðun í ljós, að í stað þess að gera aths. við þessi samningsdrög ætti að skrifa önnur ný, svo mörg væru þau atriði, sem þyrftu breytinga við. Á þá skoðun var ekki fallizt, og ég lýsti því yfir, að ég hefði í sjálfu sér ekki aths. að gera við aths. Hjartar — og það er það, sem þarna kemur fram — þó að ég teldi, að sterkara þyrfti að taka til orða neðst á bls. 4 og efst á bls. 5, og nú skulum við athuga, hvað þar segir.

Neðst á bls. 4 og efst á bls. 5 stendur þetta: „Grundvallarlög og deilumál“ er fyrirsögn kaflans. „Í ákvæðum samningsins um ofangreind efni ætti í fyrsta lagi að koma fram eðlilegur greinarmunur milli efnislegs réttar og réttarfars. Svo virðist, sem þetta hafi ekki tekizt í drögunum, þó að skilið sé þar á milli innihalds 52. gr. og 53.–55. gr. Í öðru lagi er talið að því er varðar efnislegan rétt, sem leggja á til lagagrundvöllinn að samkomulagi aðilanna, að samninginn og fskj. eigi að túlka og framkvæma í samræmi við íslenzk lög, og geta þá viðeigandi reglur þjóðaréttarins átt við með venjulegum hætti. Það er skoðun fulltrúa ríkisstj., að þróun íslenzks réttar og réttarstofnana réttlæti fyllilega þá staðhæfingu, að Alusuisse ætti að taka það með í reikninginn sem hverja aðra viðskiptalega áhættu af fyrirtækinu, að hagsmunir þess af verksmiðjunni yrðu látnir lúta handleiðslu þeirra. Í þriðja lagi er talið að því er varðar dómstóla þá og réttarfar, sem notfærð yrðu til að setja niður hugsanlegar deilur milli aðilanna út af samningum og fskj., að þekking og vammleysi íslenzkra dómstóla séu hafin yfir allan efa um það, að heppilegt sé að leggja þessi mál í þeirra dóm. Af þessu leiðir, að ekki ætti að þurfa að leita til gerðardóms um deilur aðilanna, hvort sem hann er íslenzkur, alþjóðlegur eða annars konar, nema sú leið hafi í för með sér ótvíræða og mikilvæga kosti við lausn deilumála, svo sem verulegan sparnað í fjármunum. Dregið er í efa, að fyrirkomulag það, sem greinir í drögunum, muni í öllum tilfellum hafa í för með sér slíka kosti.“

Það, sem hér er sagt, er það, að það eigi að leggja íslenzk lög til grundvallar og það eigi að láta íslenzka dómstóla dæma um deilumálin. Þessu var ég vissulega alveg sammála að öðru leyti en því, að ég vildi láta taka sterkar til orða. Og ég hafði alveg sérstaklega aths. að gera við það orðalag, þar sem sagt var, að Alusuisse ætti að taka það með í reikninginn sem hverja aðra viðskiptalega áhættu af fyrirtækinu, að verksmiðjan yrði látin lúta handleiðslu íslenzkra dómstóla. Og viti menn. Þetta var hæstv. ráðh. mér alveg sammála um, og eins og hann tók fram, hafði hann gert aths. við sína samningamenn um sama efni. Það er því ekkert um það að villast, að á þessum fundi erum við ráðh. alveg sammála um það, að íslenzk lög eigi skilyrðislaust að vera ráðandi og íslenzkir dómstólar að dæma, nema hentugt þyki og hafi sérstaka kosti að setja málið í gerð.

Hafi ráðh. skilið þetta sem stuðning minn við þau ákvæði, sem nú liggja fyrir, eða stuðning við málið í heild, mætti kannske benda á það, að strax eftir að þetta er bókað eftir mér, er bókað eftir öðrum manni, sem verður víst ekki vændur um það að hafa nokkurn tíma viljað styðja þetta mál.

„Björn Jónsson taldi, að meginatriði þeirra aths., sem nm. hefðu haft við uppkast Alusuisse, kæmi fram í fyrirliggjandi grg.-uppkasti.“

M.ö.o.: menn voru sammála um það, að grg.- uppkastið, sem Hjörtur Torfason lögfræðingur hafði útbúið, væri fullnægjandi plagg, enda gerði það ráð fyrir þessum réttarfarsreglum og lögsögu, sem ég hef gert grein fyrir.

Fullyrðing hæstv. ráðh. í lok þeirra ummæla, sem ég hafði eftir honum áðan, um það, að allt hafi það verið leiðrétt og sett í það form, sem menn sættu sig við og síðar leiddi til sterkari og betri niðurstöðu, er svo auðvitað í þessu ljósi ekki nema brosleg. Þetta var það sem fram kom um þetta mál á 17. fundi n.

Á 19. fundi n., sem er haldinn 28. okt. s.l., kemur þetta fram: „Rætt um ýmis atriði skýrslunnar“ — þ.e. frásögn af ýmsum fundum íslenzku ríkisstj., Alusuisse og Alþjóðabankans, — „rætt um ýmis atriði skýrslunnar, einkum force majeure, sem menn voru sammála um, að æskilegt væri að túlka þröngt. 2. Afstöðu til að nota erlent vinnuafl, einkum á byggingartímanum, sem talið var, að ætti að fara eftir hinum almennu reglum, sem um slíkt gilda hér á landi. 3. Gerðardómsákvæðin, sem talið var æskilegt, að hægt væri að takmarka, enda væru íslenzkir dómstólar nægileg trygging fyrir Alusuisse.“ Þetta var bókað um það.

Svona seint, á 19. fundi n., 28. okt., eru menn, að því er virðist, sammála um það, að gerðardómsákvæðin sé æskilegt að takmarka, enda væru íslenzkir dómstólar nægileg trygging fyrir Alusuisse. En þó er ráðh., þegar þarna er komið, í lok okt., greinilega farinn að linast, því að svo heldur fundargerðin áfram:

„En þessu atriði, sagði ráðh„ að Alusuisse legði mjög mikið upp úr, teldi sig ekki geta metið, hvort nægileg trygging væri í meðferð íslenzkra dómstóla einna, og vitnaði til þess, að ljóst væri af samþykkt Alþjóðabankans um gerðardóm í ágreiningsmálum ríkja og erlendra fyrirtækja, að hér væri um alþekkt vandamál að ræða og engin áhætta væri fyrir okkur að sætta okkur við slíkan gerðardóm.“

En þetta er skoðun ráðh. sjálfs og bókuð eftir honum einum. Það er því ljóst af þessu, að þá, í lok okt., er enn í gangi full viðleitni af hálfu okkar samningamanna til þess að komast hjá að taka þessi gerðardómsákvæði inn í samningana.

Næsti fundur, 20. fundur n. er haldinn 26. nóv. Þá eru lagðar fram aths. Hjartar Torfasonar lögfræðings við síðasta uppkastið, sem komið hafði frá Svisslendingunum, og þar segir Hjörtur Torfason um 47. greinina:

„Ákvæði þessarar gr. um sjálfstæðan gerðardóm eru sem áður sniðin eftir upphaflegum tillögum maí-draganna og þurfa ef til vill frekari breytinga við. Hér veldur það nokkrum erfiðleikum, að réttarfarsreglur skv. Alþjóðabankasamþykktinni verða ekki gefnar út fyrr en eftir áramót, og þykjast því Svisslendingar ekki geta notað þær. Er tilvísun til reglna ICC, efst á bls. 76 þannig til komin. Loks er það ný till. Alusuisse, að úrskurður slíks gerðardóms skuli hafa sömu verkun og dómur íslenzks dómstóls, er væntanlega merkir það fyrst og fremst, að hann verði aðfararhæfur. Þykir mér það heldur óaðgengilegt, enda yrði aðfararhæfið varla virt nema á Íslandi. Hitt er annað mál, að úrskurðir Alþjóðabankagerðardóms yrðu aðfararhæfir í öllum aðildarlöndum samþykktarinnar, og mætti einmitt nota það til að auka áhuga Alusuisse fyrir þeim gerðardómi.“

Þessar aths. Hjartar Torfasonar eru dags. 19. nóv. og eru lagðar fram á fundi n. 26. nóv. s.l. Af þeim er það alveg ljóst, að ráðh. og samningamenn hans eru mjög farnir að linast í baráttu sinni við að losna við gerðardóminn. Hins vegar er það líka ljóst, að svo seint sem 26. nóv. var ekki ljóst, hvernig slík gerðardómsákvæði í samningunum mundu verða.

21. fundur n. er svo haldinn 30. nóv., og þá er ekkert rætt um lagagrundvöll eða gerðardómsákvæði, heldur eru önnur málefni til umræðu á þeim fundi, og síðan er enginn fundur haldinn fyrr en 10. des. En 3. des. birtir iðnmrn. yfirlýsingu um, að samkomulag hafi tekizt um öll efnisatriði við Alusuisse. Af þessu er það ljóst, að á seinasta fundi n., sem haldinn er, áður en þessi yfirlýsing er gefin út, er ekki ljóst með hvaða hætti þessi gerðardómsákvæði eiga að vera, og þau eru þar af leiðandi í sínu endanlega formi aldrei lögð fyrir þmn. En þegar yfirlýsing frá rn. kom fram þann 3. des., var að sjálfsögðu ljóst, að öll meginatriði í kröfum og skilyrðum Framsfl. fyrir stuðningi við þetta mál höfðu verið sniðgengin, og þá var heldur ekki eftir neinu að bíða, og við fyrsta tækifæri þar á eftir flutti formaður flokksins yfirlýsingu um afstöðu hans, hér á hv. Alþingi.

Það er af þessu, sem ég hér hef rakið, alveg ljóst, að fram á seinustu stund reyndi hv. ráðh. og samningamenn hans að ná betri samningum um þetta atriði og sanna mörg fleiri atriði, en það tókst ekki, og það var eins og það væri bara einn leikur í þessari skák, sem ekki mátti leika, og það var að láta bresta. En þetta, sem að ég hér hef rakið, ætti að sýna það, svo að ekki verður um villzt, að ummæli hæstv. ráðh. um það, að nm. í þmn. hafi verið kunnugt um gerðardómsákvæði samningsins, án þess að hreyfa andmælum, eru gjörsamlega röng og tilefnislaus, og þau eru svo sannarlega ekki í samræmi við drengilegan málflutning, sem ég þó vil gjarnan halda, að hæstv. ráðh. vilji temja sér.

Mér þótti rétt og viðeigandi, að þessi atriði kæmu fram hér við þessa umr. af þeim tveimur ástæðum, sem ég hef gert grein fyrir, bæði vegna þess, að mér finnst eðlilegt, að einn úr þmn. geri nokkuð grein fyrir því, hvernig hún hefur starfað, og svo hins vegar vegna þess, að nauðsynlegt var að leiðrétta hin tilefnislausu og ósanngjörnu ummæli um það efni, sem ég hér hef rakið. Að öðru leyti, herra forseti, skal ég láta umr. um þennan samning bíða síðara tækifæris og skal nú ljúka máli mínu.