21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, áður en þetta mál fer til n. Segja má, að í þessu felist ekki neinar stórfelldar breytingar frá því, sem nú er, þó að í þessu sé gert ráð fyrir nokkuð öðru fyrirkomulagi en tíðkazt hefur um sinn að sumu leyti. En þó verða með þessu breytingar, sem ég sé sérstaka ástæðu til að vekja athygli á og sem ég hygg, að þurfi að athuga betur, en enn þá hefur verið gert.

Aðalefni þessa frv. er að breyta Framkvæmdabankanum í Framkvæmdasjóð, að lögfesta Efnahagsstofnunina, eins og hún er, og setja á laggirnar hagráð, sem yrði eins konar umræðuhópur, þar sem fulltrúar frá ýmsum aðilum bæru saman bækur sínar, og kæmi þetta hagráð saman a.m.k. tvisvar á ári.

Um fyrsta liðinn, að breyta Framkvæmdabankanum í Framkvæmdasjóð, vil ég sérstaklega vekja athygli á því, að ef frá því verður gengið á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv., verður lokað fyrir þær lánveitingar, sem Framkvæmdabankinn hingað til hefur innt af hendi til einstaklinga og fyrirtækja, en eingöngu er gert ráð fyrir, að Framkvæmdasjóðurinn láni til fjárfestingarlánastofnana. Lán til einstaklinga og fyrirtækja falla því alveg niður. En einnig er heimilt eftir þessu að lána til opinberra framkvæmda, en lán til einstaklinga og fyrirtækja falla niður. Ég held það mjög vafasamt, að þetta sé skynsamlegt og þetta fái staðizt, þegar tekið er til athugunar, að ýmsir hafa fengið lán til þarflegra hluta, sem ekki geta komið undir neina af þeim stofnlánadeildum, sem gen er ráð fyrir, að fái lán úr Framkvæmdasjóðnum. Ég nefni t.d. fyrirtæki, sem hafa með höndum samgöngur, veitingarekstur, móttöku ferðamanna og ýmis þjónustufyrirtæki, sem ekki geta flokkast undir iðnað. Ég kem ekki með neina upptalningu á þeim fyrirtækjum, sem þarna geta komið til greina, en þau eru ærið mörg og sjálfsagt í fleiri flokkum en þeim, sem ég hef nú nefnt, og sum af þeim eru býsna þýðingarmikil og þurfa að geta fengið fjárfestingarlán, enda hefur reynslan orðið sú, að þess háttar fyrirtæki hata getað fengið talsverða fyrirgreiðslu í Framkvæmdabankanum.

Ég nefni líka í þessu sambandi — ég mundi ekki eftir því áðan — fyrirtæki, sem vinna með þungavinnuvélum. Það er mjög vafasamt, að þau gætu komið undir Iðnlánasjóð, að því er mér skilst, eins og framkvæmdum er hagað þar, og þarf að athuga gaumgæfilega, að þau verði ekki útundan í þessu sambandi. Ég hygg því, að það væri skynsamlegt að gera ráð fyrir því, að Framkvæmdasjóðurinn gæti haft rétt og skyldu raunar til þess að lána eitthvað beint til einstaklinga og fyrirtækja, þeirra, sem ekki gætu komið undir fjárfestingarlánastofnanimar, sem eiga að fá frá sjóðnum peninga.

Þá vil ég nefna, að Framkvæmdabankinn hefur haft með höndum þá starfsemi að taka lán erlendis, bæði fyrir ríkið og ríkisstofnanir, og mér skilst, að þessi Framkvæmdasjóður eigi að gera það framvegis á hliðstæðan hátt og Framkvæmdabankinn hefur gert, hann eigi að taka lán fyrir opinber fyrirtæki og fyrir ríkið, ef það þykir henta. En Framkvæmdabankinn hefur gert meira. Hann hefur einnig tekið lán erlendis og endurlánað féð aftur til ýmissa fyrirtækja innanlands beint, og í þessu efni hefur Framkvæmdabankinn haft með höndum mjög þýðingarmikla fyrirgreiðslu fyrir marga og komið mörgu góðu til leiðar. En mér skilst, að með þessu frv., eins og það liggur fyrir, verði þessi starfsemi alveg útilokuð. Erlendu lánin, sem Framkvæmdasjóðurinn getur tekið, verða annaðhvort að vera opinber lán eða þá lán handa þeim fjárfestingarsjóðum, sem eiga að fá fé sitt frá Framkvæmdasjóðnum, en á hinn bóginn útilokað að Framkvæmdasjóðurinn taki lán erlendis og endurláni það beint til einstaklinga eða fyrirtækja. Gæti það þó verið nauðsynlegt, ef um er að ræða starfsemi, sem ekki fellur undir neinn af fjárfestingarlánasjóðunum. Ég bendi á, að það er mjög varhugavert að loka þessu, eins og mér sýnist gert með þessu frv.

Þá vil ég loks benda á það í sambandi við Framkvæmdasjóðinn, að við höfum haft hér till., framsóknarmenn, í hv. Alþ. eða frv. um að stofna framleiðnilánadeild við Framkvæmdabankann, og var það hugsun okkar, að talsvert fé yrði tekið frá og ætlað til þess að lána til framleiðniaukningar, þ.e. hagræðingar og vélvæðingar og meiri tækni en enn þá er orðin í ýmsum atvinnugreinum. Var það ætlun okkar, að þessi lán yrðu veitt umfram venjuleg stofnlán. Þessi hugmynd er að nokkru leyti tekin upp í sambandi við frv., sem nú er komið frá hæstv. ríkisstj. um Iðnlánasjóð, en ég leyfi mér að benda á, að ég teldi eðlilegt, að inn í þetta frv. kæmi einmitt ákvæði um slíka framleiðnilánadeild í Framkvæmdasjóðnum, þar sem gert yrði ráð fyrir lánveitingum umfram það, sem á sér stað eftir venjulegri reglu úr fjárfestingarlánastofnunum. Mundi þá það einnig verða til þess, að stjórn Framkvæmdasjóðsins og ráðunautar hans mundu taka þessi málefni, þ.e.a.s. framleiðnimálin, hagræðingarmálin og vélvæðingarmálin, fyrir í þessari stofnun og reyna að kryfja þau til mergjar, ekki aðeins fyrir eina starfsgrein heldur miklu almennara og víðtækara heldur en verður, ef þau eru skoðuð í hverjum stofnlánasjóði út af fyrir sig. Ég tel því, að það væri hyggilegt að taka þessa hugmynd upp og setja ákvæði um þessa deild inn í frv., og leyfi ég mér að beina því til þeirrar hv. n., sem fær málið til meðferðar.

Þá er það Il. kaflinn um Efnahagsstofnunina. Ég ætla ekki að fara að ræða nú almennt um efnahagsmálin. Það verður nægilegt tækifæri til þess að gera það á næstunni og ástæðulaust að vera að blanda því inn í þetta mál. En sjálfsagt erum við allir sammála um það, að það þarf einhvers konar ráðuneytisdeild eða einhvers konar stofnun, sem vinnur margt af því, sem Efnahagsstofnuninni er ætlað að vinna varðandi áætlunargerðir og upplýsingasöfnun og annað því líkt. En ég vil leyfa mér að benda á, að eins og þessi málefni hafa þróazt, undirbýr Efnahagsstofnunin ýmsar áætlanir, og m.a. undirbýr Efnahagsstofnunin áætlanir um framkvæmdir ríkisins, og eftir því sem ég bezt veit, er hún farin að undirbúa talsvert mjög sundurliðaðar áætlanir um framkvæmdir ríkisins í samgöngumálum, raforkumálum og fjöldamörgum öðrum málaflokkum. Og þegar inn á þá braut er komið, að stofnun eins og Efnahagsstofnunin vinnur þvílíkt verk og gerir áætlanir um einslakar framkvæmdir í þessu tilliti, sumar framkvæmdir, sem fé hefur verið veitt til á fjárl., aðrar, sem fé hefur ekki enn þá verið veitt til á fjárl., mundi ég fyrir mitt leyti telja skynsamlegt, að inn á þá braut væri farið að hafa þingkjörna stjórn yfir Efnahagsstofnuninni eða a.m.k., að fulltrúar frá þingflokkunum væru í stjórn þessarar stofnunar. það er að sjálfsögðu eðlilegt, að stjórnarflokkar hverju sinni og ríkisstj. hefði, ef maður gæti orðað það þannig, á sínum vegum meiri hl. í stjórn slíkrar stofnunar, en þar væru fulltrúar frá öllum þingflokkum. Ég rökstyð þetta m.a. með því, að ég tel það brýna nauðsyn, að fulltrúar frá Alþ. ættu þannig ekki aðeins aðgang að, heldur einnig þátt í þeim framkvæmdaáætlunum um opinberar framkvæmdir, sem gerðar eru á hverjum tíma, og ég álít, að þessi mál muni dragast um of úr höndum Alþ., ef þessari stofnun verður stjórnað eingöngu af embættismönnum á vegum ríkisstj.

Það, sem ég bendi nú á, er nokkuð í framhaldi af því, sem vakti fyrir mér, þegar Framkvæmdabankinn var settur á fót upphaflega, því að þá var gert ráð fyrir því, að hann hefði með höndum fjárfestingarlánastarfsemi og áætlunargerð, framkvæmdaáætlunargerð, og bankinn yrði í reyndinni ráðunautur ríkisstj. um fjárfestingarmál, sem raunar varð ekki eins mikið úr og hugsað hafði verið. En þetta var hugsað þannig, að þessi málefni kæmu þar öli undir, og þá var gert ráð fyrir því, að stjórn Framkvæmdabankans hefðu með höndum þingkjörnir fulltrúar, og var það miðað við það að slíta hann ekki úr sambandi við Alþ., vegna þess hvernig verkefni hans áttu að vera. Ég mundi því telja hyggilegt að breyta þessum kafla frv. á þá lund að ætla Alþ. að kjósa eða þingflokkunum að tilnefna stjórn Efnahagsstofnunarinnar. Ég tel talsverða hættu á því, að þessi mál dragist um of, sérstaklega að því er varðar opinberu fram kvæmdirnar sjálfar, dragist um of, ákvörðunarvaldið sjálft dragist um of úr höndum Alþ. og yfir til embættismannavaldsins og ríkisstj., ef ekki verður að því ráði horfið. Ég vil biðja hæstv. ríkisstj. að íhuga þetta atriði og n., sem fær þessi málefni til meðferðar.

Loks vil ég segja það viðvíkjandi hagráðinu, að þar er gert ráð fyrir, að margar stofnanir eigi fulltrúa og það verði eins konar umræðuhópur, ef svo mætti segja, sem kemur saman a.m.k. tvisvar á ári. Auðvitað veltur allt á framkvæmdinni um það, hvort þetta verður að gagni eða ekki, en til tjóns getur þetta að mínu viti tæpast orðið eða raunar ekki orðið og því ekki óskynsamlegt að reyna þetta, en það veltur að sjálfsögðu mest á framkvæmdinni, hvaða gagn að þessu verður.

Ég mun ekki á þessu stigi ræða um skipan hagráðsins eða, hvaða stöfnunum er ætlað að tilnefna í hagráðið, en tel nú, að þeim ákvæðum sé nokkuð ábótavant. Ég fer ekki út í það hér, en tel, að það sé miklu eðlilegra að skoða það í n., og þá ekki sízt, þegar hæstv. ráðh. gat einmitt um það, að þetta gæti verið álitamál og væri einmitt rétt að íhuga það nánar.