18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Frsm. 1. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ákvæði í 2. gr. þessa frv. hefur mjög verið gagnrýnt hér í hv. d. eins og öllum er kunnugt, og jafnvel hæstv. fjmrh. hefur viðurkennt, að ástæða sé til nokkurrar gagnrýni í sambandi við þetta ákvæði, margföldun fasteignamatsins. Sérstaklega tók hann undir þá gagnrýni, að erfitt væri að segja fyrir um, hvað þessi hækkun á eignarskatti gæfi mikið af sér, en það er auðvitað hreint ekkert aukaatriði í sambandi við þetta mál. Við í minni hl. höfum flutt till. um, að þessi gr. yrði niður felld að sinni og það, sem í henni felst, en þær till. náðu ekki fram að ganga. Nú vil ég á þessu síðasta stigi málsins hér í hv. Ed. beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann vilji nú ekki við frekari meðferð málsins hér á Alþ. athuga gaumgæfilega, hvort ekki væri rétt eftir allt saman að fresta samþykkt þessa ákvæðis, sem um getur í 2. gr., fresta samþykktinni í því skyni að kanna málið allt betur, bæði hvað þessi skatthækkun gefur mikla upphæð af sér og kannske ekki síður að athuga það, sem í þessari gr. felst, í samhengi við l. um eignarskatt og þau ákvæði um álagningu, sem þar gilda. Ég tel þetta vera það mikið mál, að það sé vert að athuga það betur en orðið er, og þess vegna vil ég skora á hæstv. ráðh. að íhuga nú við frekari meðferð málsins, hvort ekki sé rétt að sleppa þessu ákvæði að sinni úr frv., með því að ég hygg, að það komi ekki að neinni sök. Þetta ákvæði þarf ekki að ganga í gildi nú þegar, því hefur sjálfur hæstv. ráðh. nú lýst yfir, og það er ekki þörf á að knýja þetta í gegn nú af þeirri ástæðu. Sexföldun fasteignamatsins kemur hvort sem er ekki til greina fyrr en einhvern tíma á næsta ári.

Ég tel vera ástæðu fyrir hæstv. fjmrh. að íhuga þessi tilmæli mín vandlega. Það er ekki gaman, hvorki fyrir hæstv. ráðh. né aðra hér á Alþ., að flana að skattlagningu, að ákveða nýjan skatt eða nýja hækkun á skatti að lítt athuguðu máli.

Hæstv. fjmrh. gat þess fyrir nokkru í opinberri ræðu, að fyrirhugað væri að leggja á utanfararskatt. Síðan hefur birzt gagnrýni á þeirri tilhögun, eins og hún var hugsuð, og er ekki fjarri mér að halda, að hæstv. fjmrh. hafi e. t. v. ekki athugað allar hliðar þess máls nógu gaumgæfilega, áður en hann lýsti þessu yfir í opinberri ræðu. Það er ekki gaman að því fyrir ráðh. að verða beran að því kannske æ ofan í æ að taka ákvörðun um að skattleggja þegnana að lítt athuguðu eða illa athuguðu máli. Slíkt má auðvitað aldrei gera, nema það sé kannað og athugað frá öllum hliðum. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi þess, að það er rétt að fara hægt í sakirnar í þessum efnum. Annar skattur, tollur, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið að nú nýlega, vegatollurinn, hefur einnig verið gagnrýndur mjög verulega, og margir stjórnarliðar tekið þátt í þeirri gagnrýni og ýmsir stjórnarstuðningsmenn hér á Alþ. jafnvel tekið undir það, að sá tollur væri a. m. k. of hár, þótt hann væri ekki óréttlátur að öðru leyti. Í sambandi við þessi mál fyndist mér vera tilefni til að athuga betur þá gagnrýni, sem komið hefur fram á skattlagningunni, sem felst í 2. gr. þessa frv., áður en endanlega yrði ákveðið um hana hér á hinu háa Alþingi.