30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

100. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal að gefnu tilefni af hálfu hv. frsm. menntmn. lýsa yfir eftirfarandi:

Það mun ekki að neinu leyti tefja framgang eða framkvæmd tíu ára áætlunarinnar um fjölgun kennaraembætta við háskólann, þótt Alþ. samþykki það ákvæði í þessu frv., sem lýtur að stofnun nýs prófessorsembættis í sögu við heimspekideildina.

Sams konar yfirlýsingu gaf ég í Nd. og endurtek hana með ánægju hér.

Þá skal ég einnig taka skýrt fram, að embættið mun ekki verða auglýst laust til umsóknar nema að höfðu ýtarlegu samráði við háskólann, þ.e. háskólaráð og heimspekideild. Áður en embættið verður auglýst laust til umsóknar, mun ég hlutast til um, að háskólinn athugi og láti í ljós skoðun sína á starfssviði hins nýja prófessors og afmörkun á rannsóknar- og kennsluverketni hans gagnvart öðrum sagnfræðiprófessorum háskólans. Í embættið verður að sjálfsögðu ekki skipað, nema því aðeins að umsókn frá hæfum manni hafi borizt samkvæmt þeim lagareglum, sem nú gilda um prófessorsembætti við háskólann. Ef svo fer, að ekki berst umsókn frá manni, sem þar til kjörnir aðilar lögum samkvæmt telja hæfan til að gegna embættinu, og ef tilmæli berast um það frá háskólanum, að fjárveiting, sem væntanlega verður tekin í næstu fjárl. til þess að launa þennan nýja prófessor, verði notuð t.d. til þess að styrkja unga menn, sem hug hefðu á því að búa sig undir þetta prófessorsembætti, en líkar óskir hafa borizt frá háskólanum að því er varðar hin þrjú embættin, sem þetta frv. fjallar um, mun ríkisstj. taka þau tilmæli til vinsamlegrar athugunar.