28.10.1965
Neðri deild: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í þeim ræðum, sem nú hafa verið haldnar um þetta mál, hefur verið vikið að því, bæði af hæstv. ráðh. og eins af hv. síðasta ræðumanni, að tildrög þessa máls, þeirra brbl., sem hér eru til umr., séu þau, að Alþýðusamband Íslands lagði svo fyrir fulltrúa sinn í 6 manna n., að hann skyldi hætta þar störfum. Þetta er alveg rétt, að þessa afstöðu tók A.S.Í. og færði allgild rök fyrir þeirri ákvörðun sinni með þeirri tilkynningu, sem strax á eftir var send hæstv. landbrh. og Framleiðsluráði landbúnaðarins og svo einnig fyrir kurteisissakir samstarfsmanni okkar í 6 manna n., fulltrúa Sjómannafélags Reykjavíkur, Sæmundi Ólafssyni. Þessum aðilum var send þessi ákvörðun Alþýðusambandsins, þegar eftir að ákvörðunin var tekin, ráðh. auðvitað fyrstum manna.

Alþýðusambandið skorast ekki undan neinni ábyrgð af því að hafa valdið því, að þetta dæmalaust góða og eftirsjónarverða kerfi um verðlagningu landbúnaðarvara var lagt niður við trog og slátrað á s.l. hausti rétt fyrir sláturtíð. Þó held ég, að A.S.Í. rísi undir þeirri ábyrgð, því að það hefur farið fé betra.

Það hefur ekki heldur verið svo að heyra fram að þessu, að fulltrúum bænda og samtökum þeirra hafi verið þetta kerfi svo kært eða þeir talið það fullnægja öllu réttlæti, þangað til nú. Ég veit ekki betur en, eins og hæstv. landbrh. vék að, sífellt hafi verið uppi kröfur frá bændum og fulltrúum þeirra um, að grundvöllurinn fyrir verðlagningu landbúnaðarafurða væri ófullnægjandi bændastéttinni og ranglátur. Og það var meira að segja á s.l. hausti, eftir að búið var að breyta grundvellinum hvað eftir annað, að bændur sögðu honum upp. Hann var ekki ágætari en það fram á síðustu stund, sem þetta kerfi gilti. Enn fremur hafa þessi verðlagsmál bændastéttarinnar verið tekin til umr. á þingum Stéttarsambands bænda hvað eftir annað, og hvernig hefur afstaða Stéttarsambandsþingsins verið? Svo, að það hefur nærri staðið í járnum. Þetta er þess vegna kerfi, sem hefur verið mjög umdeilt af bændastéttinni, og það er þess vegna alveg vist, að það er mikill hluti bændastéttarinnar, sem er Alþýðusambandinu þakklátur fyrir það að hafa rofið tilveru þessa kerfis með því að leggja fyrir fulltrúa sinn að hætta störfum, því að með því er málið tekið til endurskoðunar á ný og getur ekki orðið til annars en að bændastéttin taki upp fyllstu réttmætar kröfur sínar um beina samningsaðild við þann aðila, sem ábyrgastur er í þessu máli, en það er ríkisvaldið á hverjum tíma, sem heldur um alla þræði þess máls og á að bera ábyrgð á lausn þess á hverjum tíma, haldi til streitu, fylgi eftir vagni sinna stéttarsamtaka, þeim fulla rétti, að bændur og bændur einir eigi samningsréttinn óskoraðan um lífshagsmunamál sín. Og þess vænti ég, að þeir láti ekki úr greipum sér ganga það tækifæri til þess að halda þessum fullkomlega réttmætu kröfum fram nú, þegar Alþýðusambandið hefur lagt það upp í hendurnar á þeim að gera það.

Það hafa verið hafðar uppi fullyrðingar og sleggjudómar um það, hvað hafi vakað fyrir Alþýðusambandinu með þessari ákvörðun sinni. Sumir hafa sagt, að þetta hafi verið fjandskaparbragð gegn bændum, þegar þeir hafi verið að slíta þarna ágætu samstarfi við bændastéttina, og aðrir hafa sagt, að þetta hafi verið gert af pólitískum ótuktarskap við blessaða ríkisstj., til þess að koma henni í lítt leysanlegan eða óleysanlegan vanda. Hvort tveggja er hugarburður. Í þeirri samþykkt, sem miðstjórn A.S.Í. gerði um þetta mál, er málið ekki sveipað neinum hjúp. Það er sagt þar greinilega frá, hvað valdi því, að A.S.Í. telji ekki svara tilgangi sínum lengur að eiga fulltrúa í 6 manna n. Þess vegna vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa þessa ályktun A.S.Í., sem hér er talið grundvallaratriði fyrir dagskrármálinu. Sú ályktun er svohljóðandi:

„Á undanförnum árum hefur efnahagsstefna sú, sem fylgt hefur verið, grafið smám saman undan störfum 6 manna n. þeirrar, sem fjallar um verðlagningu íandbúnaðarvara. Raunverulegt verksvið n. hefur sífellt verið að þrengjast, en stöðug hækkun á verðlagi landbúnaðarafurða hefur að meginhluta til orðið sjálfkrafa afleiðing af verðbólgustefnu stjórnarvalda. Högum bænda er nú svo komið, að því fer víðs fjarri, að unnt sé á réttlátan hátt að leysa ýmis brýnustu fjárhagsleg vandamál þeirra með verðlagningu landbúnaðarvara einni saman, en 6 manna n. hefur ekkert vald til þess að fjalla í heild um stefnuna í íandbúnaðarmálum. Munurinn á verði því, sem bændur fá fyrir landbúnaðarafurðir, og því, sem neytendur verða að greiða, er mjög mikill, og er það krafa A.S.Í., að ítarleg og hlutlaus rannsókn verði látin fara fram á öllum sölu- og dreifingarkostnaði landbúnaðarvara og það sérstaklega kannað, hve mikill hluti hans stafi af fjárfestingarframkvæmdum og hvað af beinum og óhjákvæmilegum sölu- og dreifingarkostnaði. Það er því ekki því til að dreifa, að neytendur og framleiðendur landbúnaðarvara hafi með ríkjandi skipulagi nein úrslitaáhrif á ákvörðun verðlags landbúnaðarvara. Í þeim efnum ræður ríkisvaldið úrslitum, og er það hvorki rétt né æskilegt, að verkalýðssamtökin leggi þar hönd í milli og taki á sig hlutdeild í þeirri ábyrgð á lausn verðlagsmála landbúnaðarins, sem ríkisvaldið á, eðli málsins samkvæmt, að bera gagnvart bændastéttinni.

Þá verður ekki hjá því komizt að minna á, að þátttaka A.S.Í. í 6 manna n. byggðist í öndverðu á sterkum samstarfsvilja, er þá varð vart milli hagsmunasamtaka verkamanna og bænda. En nú virðist nokkur breyting hafa orðið á í þeim efnum, sbr. þá ákvörðun forráðamanna Mjólkursamsölunnar og Mjólkurbús Flóamanna að ganga í Vinnuveitendasamband Íslands. Með því var alvarlegt skref stigið í þá átt að skipa hagsmunasamtökum bænda í andstæðingaraðir verkalýðssamtakanna í kjaramálum.

Með vísun til framanritaðs ákveður miðstjórn A.S.Í. að eiga ekki lengur aðild að störfum 6 manna n. og felur því fulltrúa sínum í n. að hætta þar störfum. Er það ósk miðstjórnar, að hagsmunamálum bænda verði farsællega til lykta ráðið með réttlátara fyrirkomulagi en því, sem nú hefur gengið sér til húðar og er jafnóviðunandi framleiðendum og neytendum.“

Þetta var ályktun A.S.Í. og sá rökstuðningur, sem rétt þótti að láta fylgja til viðkomandi aðila með þessari örlagaríku ákvörðun A.S.Í.

Nú brá svo við, að þegar þessi tilkynning hafði verið birt, sagði aðalmálgagn stjórnarinnar eða Morgunblaðið, að þessi ályktun A.S.Í. væri svo óljós, það virtist bara ekki geta skilið hana, hún væri svo óljós. Hverjum finnst þarna óljóst talað? Er ekki talað skýru máli? Má ekki skilja fullvel þessa ályktun? Ég veit það ekki. Ég held, að hún hati skilizt úti um alla landsbyggðina af öllum mönnum öðrum en íslenzkufræðingunum á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins kannske. En ef það skyldi nú vera á rökum reist, að þessi ályktun væri ekki fullskiljanleg, skal ég gera tilraun á kennaravísu til þess að gera hana skiljanlega.

Ég tel, að þessi ályktun túlki það fyrst og fremst, að það sé skoðun A.S.Í., að hag bænda sé ekki lengur hægt að bæta með verðlagningu landbúnaðarafurða einni saman og þess vegna þurfi að móta þar nýtt kerfi. Það er alveg gefinn hlutur a.m.k., að það hefur ákaflega mismunandi áhrif á lífsafkomu bóndans í sveitinni, hvað verðið er, hvað verðið hækkar. Nokkur verðhækkun getur haft ákaflega lítil áhrif á hag smábóndans, og í fæstum tilfellum bjargar nokkurra prósenta hækkun á landbúnaðarverði hag smábóndans. En á sama tíma getur stórbóndinn haft prýðilega lífsafkomu og haft enga þörf fyrir hækkun á afurðaverði sínu til þess að geta bjargazt og lifa við góð lífskjör. Samt sem áður er kerfið svo, að það á að bjarga hagsmunum þessarar stéttar með því að hækka yfir í einni heild landbúnaðarvöruverðið hjá þeim, sem hjálpar þarf kannske, til einskis bjargræðis, en hinum rétt hjálp á ríkisins kostnað með niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum og hækkuðu verði, án þess að þeir þurfi nokkuð á því að halda. Þetta er vitlaust kerfi. Þetta leysir ekki þennan vanda, margfaldar hann að óþörfu og leysir ekki brýnustu þörfina, sem bæta þarf úr. Þetta held ég, að allir sjái. Má skilja þetta fyrsta atriði í ályktun A.S.Í.? Er það skiljanlegt?

Verðhækkanirnar eru sjálfkrafa afleiðing verðbólgustefnu viðreisnarstjórnarinnar, er það, sem við fullyrðum í annan stað, og A.S.Í. telur sér ekki skylt að vera að bera fyrir sína kæru ríkisstj. ábyrgð á því. A.S.Í. ber ekki ábyrgð á stefnu ríkisstj., sem leiðir til þeirrar verðbólguþróunar, sem á sér stað í landinu.

Þriðja atriðið í ályktun okkar er það, að bændur og neytendur hafi ekki nein úrslitaáhrif um verðákvörðun þessara vara. Það hefur ríkisstj. sjálf. Neytendur áttu þarna 3 menn í 6 manna n. Þegar ágreiningur varð þar á milli, komu engin úrslit nema fyrir tilstuðlan og eftir uppkveðnum úrskurði fulltrúa ríkisstj. með oddaaðstöðu, og það má geta nærri, að hver sem sá embættismaður er, getur hann aldrei gengið gegn yfirlýstri stefnu ríkisstj. um það, hvaða meginákvörðun þarna skuli taka. Hann er fulltrúi ríkisstj. og getur ekki, hvaða persónulegar skoðanir sem hann hefur, gengið um þann úrskurð sinn gegn stefnu ríkisstj. Það er því ríkisstj., sem talar gegnum þennan tilnefnda embættismann, hversu réttlátur sem hann er, og ber ég engar sakir á þann góða embættismann. Hins vegar hefur það fengið að reyna sig í öðrum tilfellum, að sams konar gerðardómskerfi, úrslitavald eins manns um afurðaverðlagningu heillar stéttar, hefur fengið að reyna sig og gefizt illa, eftirminnilega illa, eða muna menn ekki, þegar embættismaður ríkisstj., oddamaður í verðlagsráði sjávarútvegsins, kvað upp það verð, sem samkv. útreikningum vísindalegum ætti að verða á síld? Bjarni Bragi Jónsson hét hann í því tilfelli. Og þetta var vísindaleg niðurstaða, auðvitað eftir ákvörðun ríkisstj. Og ríkisstj. átti að bera ábyrgð á hans gerðum, svo sannarlega, en ekki hann persónulega. Og þetta leiddi til þess, að sjómannastéttin taldi sér svo eftirminnilega misboðið, að skipstjórar og skipshafnir, síldveiðiflotinn allur sigldi heim að stjórnarráðsdyrum. Svona gafst þetta kerfi þar.

Bændur eru hins vegar að barma sér yfir því oft og bændafulltrúar, að þeir hafi nú allra manna lengst þolað gerðardómsfyrirkomulag, þolað það, án þess að það hafi veitt þeim fullkomin réttindi móts við aðrar stéttir. Þetta er engin dyggð, ef satt er, þetta er aumingjaskapur, og væri kominn tími til að hrista af sér slenið, til þess að una ekki ranglátu skipulagi að þeirra eigin dómi.

Ég hef þetta hér svart á hvítu fyrir mér, að þetta er ekki rangtúlkun á afstöðu vissra bændafulltrúa. Hér segir í tilkynningu frá Stéttarsambandi bænda:

„Stjórn Stéttarsambands bænda harmar það, að lögbrot miðstjórnar A.S.Í., er hún neitaði á síðustu stundu að tilnefna mann í 6 manna n.,“ — það er nú alrangt, við neituðum ekki að tilnefna neinn mann, n. var fullskipuð, og þurfti ekki að tilnefna neinn, –„hefur nú leitt til þess, að bændastéttin er svipt öllum samningsrétti og aðstöðu til að hafa áhrif á verðlagningu búvaranna og er þannig áhrifalaus um ákvörðun launakjara sinna á þessu hausti. Stéttarsamband bænda hefur alltaf hlýtt ákvæðum framleiðsluráðslaganna um verðlagningu búvaranna, enda þótt þau hafi ekki tryggt bændastéttinni til fulls sambærileg kjör við aðrar stéttir.“

Þeir eru að státa af því, að þeir hafi unað fyrirkomulagi, sem ekki hafi veitt þeim réttlæti, ekki hafi gefið þeim rétt til jafns við aðrar stéttir. Ég legg þeim þetta ekki út til lofs, heldur þvert á móti, frekar til lasts. Þeir hafa kannske ætlað að blíðka eitthvað hæstv. ríkisstj. með þessu og það hafi verið tilgangurinn með þessu blaðri, en annars stóðu ekki efni til þess að vera að barma sér yfir því að hafa búið við gerðardómsfyrirkomulag og það hafi verið ranglátt, en þeir hafi nú samt sem áður unað því.

Þarna einmitt í þessari tilvitnun var vikið að því, að A.S.Í. hafi brotið lög. Það er rétt, að ég skjóti inn í skýringum mínum á því, hvernig það er nú grundað. Jú, það heyrðist fyrst frá hæstv. landbrh., sem ég veit nú ekki til, að sé neinn lögfræðingur eða hafi neitt dómsvald í landinu, að A.S.Í. væri lögbrjótur, líklegast bara, að það væri tugthússök að hlýða ekki því að vera í 6 manna n. Já, ætli það hafi ekki orðið einhverjum fleirum en mér svona hálfbumbult af þessari strembnu kenningu? Ég hygg það. Lögbrot að láta ekki mann sinn starfa áfram í 6 manna n. Það er víst hafið yfir allan vafa, að það er ekki borgaraleg skylda að gegna störfum í 6 manna n. Og hvað segja lögin? Þau segja ekki, að A.S.Í. skuli starfa í 6 manna n. til þess að ákveða verð á landbúnaðarvörum. Nei, þau segja, að A.S.Í. ásamt fleiri aðilum þar tilnefndum eigi rétt á því að tilnefna mann til ákveðinna starfa. Og hvað gerðist nú? Það gerðist það eitt, að Alþýðusambandsstjórnin ákvað að kalla tilnefninguna aftur. Og þegar tilnefningin hafði ekki átt sér stað eða var tekin aftur, var enginn aðili, hvorki hæstv. ráðh. né nokkur annar, sem gat neitt haft á móti því, að þessi tilnefning væri niður fallin, og þar með hafði ráðh. ekki lengur heldur þennan mann í n. Við höfðum ákveðið, þegar við sáum ekki, að það svaraði lengur tilgangi sínum, að nota ekki tilnefningarréttinn og létum hann niður falla. Þetta var allt og sumt. Og ég skora á þá menn, sem halda því enn þá fram, bæði hv. síðasta ræðumann og ráðh., að setja okkur nú í tugthúsið eða íáta okkur sæta einhverjum viðurlögum fyrir að vera lögbrjótar, en skrifa okkur ekki bréf og biðja okkur um að taka nú þátt í því að búa til ný og betri lög, eins og gert hefur verið. Það er fátítt að biðja lögbrjóta að gegna fyrir sig löggjafarstarfi. En það er það, sem nú hefur skeð.

Í fjórða lagi, svo að ég víki nú aftur að hinni torskildu ályktun A.S.Í. og haldi áfram með útlistun mína á því plaggi, höldum við því fram, ja, ég held með eins skýru orðalagi og nauðsynlegt er, að sívaxandi hluti verðsins, sem neytendurnir greiði fyrir landbúnaðarafurðir, fari í milliliðakerfið, og skyldi það vera rétt eða rangt? Ég held, að það sé alveg óumdeilanlega rétt. Af kunnugum mönnum úr röðum bændasamtakanna hefur því verið haldið fram, að í milliliðakerfið til dreifingar landbúnaðarvara muni fara alls um 700 millj. kr. á ári. Ég veit ekki, hvort þessi tala er rétt áætluð. Þetta er áætlunartala þeirra. En svo mikið er víst, að hvort sem þetta eru 600 eða 700 millj. kr., er það stór upphæð, og veit ég vel, það vitum við í A.S.Í., að það verður ekki komizt hjá því, að í þessa þjónustu, dreifingu landbúnaðarvara, fari mikið fé. En hitt er annað mál, að þetta er svo stór upphæð, ei hún er rétt, að það er réttmæt krafa frá hendi neytenda og fulltrúa þeirra, að það sé rannsakað á óhlutdrægan hátt, hvort þessi dreifingarkostnaðar þarf nauðsynlega að vera svona gífurlegur eða hvort það sé hægt með einhverjum ráðstöfunum að draga úr honum. Það er réttur neytenda óumdeilanlega, og honum verður haldið fram. Og ég er alveg viss um það, að þar eigum við samleið með íslenzkri bændastétt, að hún vill líka og hún á einnig og ekki síður rétt á því að fa að vita, hvort dreifingarkostnaður íslenzkrar landbúnaðarvöru er við hæfi eða hvort hann gæti lægri orðið. Og það eru hagsmunir bænda engu síður en neytenda, að dreifingarkostnaðurinn væri sem minnstur. Enda hafa bændur hiklaust tekið undir þessa kröfu A.S.Í

En nú munu menn spyrja: Hefur fulltrúi A.S.Í. og Sjómannafélagsins og Landssambands iðnaðarmanna, þ.e.a.s. fulltrúar neytenda í 6 manna n., hafa þeir ekki átt þess fullan kost að rannsaka þetta ofan í kjölinn, hver væri dreifingarkostnaðurinn, hver væri dreifingarkostnaðurinn hjá Mjólkursamsölunni, Mjólkurbúi Flóamanna og öðrum mjólkurbúum, hjá Sláturfélagi Suðurlands o.s.frv.? Svarið er: 6 manna. n. hefur farið fram á að fá þetta rannsakað. Það var aðeins sýndur litur á því með miklum undanbrögðum að setja í þetta menn. Þeir fengu í 1–2 ár að líta í þetta, í vissa þætti að því er snertir reikninga mjólkurbúanna, en ekki í heild, og hjá Sláturfélagi Suðurlands hefur ekki fengizt að rannsaka neitt. M.ö.o.,. fulltrúum neytenda í 6 manna n. hefur verið neitað um alla forsvaranlega aðstöðu til þess að rannsaka milliliðakostnaðinn, og það eitt hefði nægt til þess, að menn með mannslund létu ekki bjóða sér það að vera hafðir fyrir tusku ríkisstj. í verðlagsmálum landbúnaðarafurða, en hafa engan rétt til þess að rannsaka þau mál, sem þeir áttu að kveða upp þýðingarmikla úrskurði um.

Ég álít, að þessi samtök, samtök fólksins, geti með engu móti staðið gegn kröfum um, að hlutlaus rannsókn, t.d. sem ráðh. hefði sett af stað út af þessari eðlilegu kröfu bæði bænda og neytenda, að þeir hefðu ekki hina minnstu ástæðu né nokkurn rétt til að neita slíkri hlutlausri rannsókn. Ef það er svo, sem ég vil vænta, að þarna sé enginn eyrir umfram nauðsynlegan tilkostnað í dreifingarkerfinu, á það að vera þeirra ósk fyrst og fremst, þeirra nauðsyn, að fá þessa rannsókn fram. Tregðan bendir hins vegar í þá átt, að þeir telji, að ekki hafi verið haldið svo vandlega um hvern eyrinn í þessum dreifingarkostnaði, að þeir vilji láta þessa rannsókn fara fram. En hitt skil ég ekki, að hæstv. landbrh. skuli ekki fyrir hönd þessara stétta beggja, sem standa að þessari kröfu, láta slíka rannsókn fara fram, því að ég hef ekki orðið neins var í þá átt. Og enn síður get ég skilið það, að annar stjórnarflokkurinn, Alþfl., sem hefur þá mörkuðu landbúnaðarstefnu núna, að því er yfirlýst er, að landbúnaðurinn skuli ekki vera þjóðinni dýrari en nauðsynlegt sé og það skuli allra ráða leitað til þess að draga úr þeim kostnaði, lækka afurðaverðið og sitthvað með t.d. innflutningi erlendrar búvöru o.s.frv., að hann skuli ekki taka undir kröfuna um rannsókn á milliliðakostnaðinum í dreifingarkerfi landbúnaðarvaranna í landinu, þar sem áreiðanlega getur verið um stórar upphæðir að ræða. Ef stefna Alþfl. væri raunhæf í þessum málum og alvara fylgdi, skil ég ekki annað en hann hefði tekið undir þessa kröfu og knúið rannsóknina fram innan ríkisstj., ef tregða hefði verið í hæstv. landbrh. í því efni. En þetta hefur ekki gerzt. Og held ég þó, að það sé mjög víðtækur, almennur hljómgrunnur í sveitum og kaupstöðum fyrir því, að þessi hlutlausa rannsókn verði látin fara fram, n. verði skipuð með fullkomnu rannsóknarvaldi til þess að rannsaka bókhald allra dreifingarfyrirtækjanna og ganga úr skugga um það, hvort þarna sé engu að óþörfu eytt og hvort milliliðakostnaðurinn verði ekki þar af leiðandi of mikill, að bændur fái of lítið annars vegar fyrir sínar afurðir og neytandinn borgi að óþörfu hátt verð. Hið sanna á að koma í ljós í þessu. Ég skal engar dylgjur hafa hérna í frammi um það, hvort þarna er um óhóflegan milliliðakostnað að ræða. Ég stend að kröfu um það, að hlutlaus rannsókn fari fram á þessu, og það varðar bæði framleiðslustéttina, bændurna, og neytendurna í kaupstöðum landsins.

Sú viðleitni, sem hefur verið sýnd til rannsóknar á þessu, hefur strandað á því, að ekki hafa fengizt gögn, sem þurfti, ekki frjálsræði til þess að skoða bókhald og annað. Það eitt t.d., að það er orðið upplýst, að stórfyrirtæki þau, sem stofnað hefur verið til í dreifingarkerfinu, kosta of fjár, og þau hafa verið afskrifuð á mjög skömmum tíma, bara það, hvernig afskriftarregla er sett upp gagnvart þessum tugmilljóna eða hundraða milljóna fyrirtækjum í fjárfestingu, hvernig hún er ákveðin, skiptir neytandann og bóndann miklu máli. Á örskömmum tíma hafa verið skrifaðar niður mjólkurbúðir Mjólkursamsölunnar, svoleiðis að þær standa núna margar — þær munu vera um 46 talsins í Reykjavík — reikningslega á hundraðkalli. Hvernig hafa þær skrifazt niður í þetta verð? Með því að afskriftir hafa verið reiknaðar inn í verðlagið svo ríflega, að þetta hefur skeð. Hverjir hafa borgað það? Neytendurnir, eða þá að bændur hafa fengið of lágt verð. Þetta hefur gerzt á óeðlilega skömmum tíma. Er þá ekki nauðsynlegt að hafa þessar búðir? Nei, þar að auki kemur svo það, að síðan þetta kerfi var sett upp, hefur orðið gerbreyting. Það eru nú heimtaðar slíkar umbúðir um mjólk, að það er hægt að selja mjólkina hvar sem er í viðurkenndri matvöruverzlun með tilskilin kælingartæki. Það er því e.t.v. ekki þörf á neinni sérstakri mjólkurbúð í Reykjavík, nema ef Mjólkursamsalan eða samtök bænda vildu hafa nokkrar slíkar búðir til þess að kontrólera sjálf, hvað væri hægt að hafa milliliðaþóknunina þar í smásölunni lægsta. Það ætti því að vera mögulegt, að kaupmenn, sem annast matvöruverzlun í Reykjavík, byðu í það að annast smásöludreifinguna á mjólk, og ef þeir yrðu jafnlágir eða lægri en þær fáu búðir, sem þyrfti þarna til kontróls, treystu sér til, ættu þeir jafnan rétt á að fá það, láta samkeppnina spreyta sig. Ég trúi ekki öðru en samkeppnisflokkurinn, Sjálfstfl., vildi gjarnan láta kaupmannastéttina spreyta sig á þessu.

Hvað ætti svo að gera við mjólkurbúðirnar, sem reyndust óþarfar? Það ætti að selja þær fyrir tugi millj. og skila bændum og neytendum andvirði þeirra að jöfnu. Það væri full ástæða til þess. Þær eru reknar að óþörfu héðan af. Þær voru nauðsyn í upphafi. Þá var aðstaðan slík, að það var ekki hægt að sjá borgarbúum fyrir örugglega heilsusamlegri neyzlumjólk nema með sérstökum ráðstöfunum, og það var gert vegna fólksins. En nú eru breyttar aðstæður, því getur enginn neitað. Og þá á það að vera eitt atriði í endurskoðun þessara mála að taka tillit til þeirra breytinga.

Ég held, að það þurfi ekki að rekja miklu fleira um þetta til þess að sýna það og sanna, að allar forsendur, upphaflegar forsendur fyrir þátttöku alþýðusamtakanna í verðlagningu framleiðsluvara eru nú svo gerbreyttar, að þær mega fyllilega heita brostnar. Þetta er skýringin á því, að A.S.Í. leyfði sér að leggja fyrir sinn mann í 6 manna n. að fella þar niður störf, nota ekki lengur heimildina til þess að taka þátt í þessu starfi, þessum eina þætti margþætts starfs. Það var hvorki af fjandskap við bændastétt landsins né heldur að við værum að reyna að bregða fæti fyrir hæstv. ríkisstj.

Það er nú auðheyrt á málflutningi fulltrúa bænda, að þeir saka ekki fulltrúa A.S.Í. um það að hafa verið sér a.m.k. fjandmaður nr. 1 í þessu starfi, því að öll þeirra eftirmæli um hann eru — það er eftirsjá, það má heyra eftirsjá í tóninum. Og svo mikið er víst, að fulltrúi A.S.Í. í þessu starfi hefur viljað gæta beggja hags, launþeganna í bæjunum og einnig vera sanngjarn í garð bændastéttarinnar, og hann er ekki sakaður um það að hafa verið þeirra fjandmaður, enda væri það ekki hægt.

Þegar menn tala um það, að nú hafi samstarf bænda um þessi þýðingarmiklu mál verið rofið, skil ég ekki, hvernig menn hugsa. Fulltrúi A.S.Í. var ekki settur í hóp bændafulltrúanna í þessum málum. Nei, með l. var þessu skipað þannig, að það skyldi sett upp samningaborð. Fulltrúar bænda skyldu vera annars vegar við samningaborðið, en svo skyldu koma fulltrúar frá neytendum hins vegar við samningaborðið og vera andstæðingar bænda, skyldu vera andstæðingar bænda í þessum samningamálum, rétt eins og atvinnurekendur og verkamenn og þeirra fulltrúar eru settir hvorir sínu megin við borð sem gagnstæðir aðilar.

Ég verð að segja það hreinskilnislega, að A.S.Í. undi því frekar illa að vera samkv. l. sett sem andstæðingur bændastéttarinnar í þessum málum, allra helzt eftir að svo skipaðist nú, að tveir af fulltrúum neytendanna voru stuðningsmenn ríkisstj., sem ráku stefnu í efnahagsmálum, sem leiddi til sífelldra verðhækkana á þessum vörum sem öðrum. Hver var afstaða þessara stjórnarfulltrúa meðal neytendanna, þessara tveggja, og A.S.Í- fulltrúinn var þar á milli þeirra? Þegar bændafulltrúarnir settu upp og rökstuddu hækkandi kröfur, settu fram kröfur um hækkaðan grundvöll, þá var afstaða stjórnarsinnanna a.m.k. alltaf þessi: Setjum upp annan grundvöll og lækkum hann, stillum upp lækkunarkröfu. Það stóð til að gera þetta í haust, það vissum við vel. Þegar bændur höfðu sagt upp grundvellinum og fóru fram á hækkun, sögðu stjórnarfulltrúarnir: Nú skulum við setja fram annan, sem er lægri en sá, sem gilti árið 1964. Fulltrúa A.S.Í., sem vildi gæta sanngirni, langaði ekki til að taka þátt í þessum leik. Og svo átti bilið að verða sem mest milli krafna bænda og milli fulltrúa neytendanna. Til hvers? Til hvers að hafa þar sem mest bil? Til þess að það væri ákaflega rúmur möguleiki hjá hæstv. landbrh. að höggva þarna á strenginn mitt á milli eða einhvers staðar á milli og segja, að ef bændur mögluðu við hans niðurstöðu, gegnum náttúrlega oddamanninn, — ja, þið getið nú ekki möglað mikið undan þessu, því að ekki ætlaði fulltrúi A.S.Í. ykkur betri hlut. Þeir, neytendafulltrúarnir, vildu hafa það svona lágt, en við teljum sanngjarnt, að þið fáið miklu meira.

Sjá menn nú ekki, að það var lítt gerlegt fyrir A.S.Í. í viðbót við allt annað, sem ég hef áður gert grein fyrir, um breytta aðstöðu á allan hátt, það var ekkert fýsilegt fyrir fulltrúann frá A. S. Í. einmitt, sem vildi vera sanngjarn í garð bænda, að sitja þarna áfram, og það bar engum frekar skylda til þess að bera bæði vandann, sem kynni að berast að höndum ríkisstj. með þessu tiltæki okkar, og ábyrgðina á því að ákveða búvöruverðið með einhverjum hætti, heldur en ríkisstj. sjálfri og einni.

Það eru óaðskiljanlegir þrír meginþættir í verðlagningu landbúnaðarafurðanna og þar með ákvörðuninni á lífskjörum bænda. Það er í fyrsta lagi, skulum við segja, verðlagið á landbúnaðarvörunum. Í annan stað útflutningsuppbætur og í þriðja lagi niðurgreiðslur. Verðlagið er endanlega ákveðið, ef í odda skerst, af ríkisstj.-valdinu, og það sér hver maður, að ákvörðun um niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur eru ákvarðaðar af ráðandi stjórnarstefnu á hverjum tíma. Allir þættirnir eru þess vegna í höndum ríkisstj., og hún á að bera ábyrgð á þeim. Ekki hafa neinn fulltrúa frá A.S.Í. til að þurrka sér á og bera ábyrgðina af sér með.

Mér datt það ekki í hug, að hæstv. ráðh. eða ríkisstj. í heild kæmist í neinn óleysanlegan vanda, þó að A.S.Í. hætti að láta sinn mann starfa þarna, mér datt það ekki í hug. Víst vissi ég, að ríkisstj. er oft ráðlaus og ráðvillt, en ég gerði henni ekki það upp, að hún væri svo ráðlaus. Hafði ráðh. nokkra möguleika? Jú, það var nefnt hér af hv. síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldssyni, að það hefði engum dottið í hug, að fulltrúi A.S.Í. yrði bættur með t.d. fulltrúa frá Hæstarétti. Ég hygg, að það hefði alls ekki verið svona óhugsanleg leið. Hann hafði þann möguleika, en sá möguleiki, sem ég taldi, að ráðh. hefði fyrst og fremst og ég hélt áreiðanlega, að hann mundi nota, var sá, að þegar 6 manna n. væri óstarfhæf, mundi hann snúa sér til bændasamtakanna og segja: „All right, lögin eru ekki lengur virt. Nú tek ég upp þá aðferðina, sem ég tel eðlilegasta og bændurnir eiga rétt á, þegar lög ekki fyrirskipa annað, þ.e. frjálsa samninga milli fulltrúa ríkisstj. og fulltrúa bændasamtakanna, frjálsa samninga milli þessara réttu aðila“. Og svo hefði deilulaust, ef samningar hefðu náðst, verið búið að leysa þetta mál einmitt við það, að það var leyst úr viðjum óeðlilegrar löggjafar. Það var ekki ætlunin að setja hæstv. ráðh. í meiri vanda en þetta. Hann átti þess kost að taka upp lausn á málinu með mjög eðlilegum hætti og þannig að fullnægja ótvíræðum rétti bændastéttarinnar. En hann gerði þetta ekki. Hann notaði ekki þessa aðferð. Ég veit ekki, hvort nokkrar kákviðræður hófust milli hans og fulltrúa bænda, en svo mikið er víst, að hann hélt því ekki til streitu að leysa málið á þennan sjálfsagða hátt og greip til brbl. og miðaði þar ekki við þær breytingar, sem hefðu orðið á hinum almenna vinnumarkaði, en það var þó það atriðið í gamla skipulaginu, sem ég hygg, að óumdeilanlegast hafi verið, að kjör bænda skyldu vera á hverjum tíma ekki lakari en vinnustéttanna við sjávarsíðuna. Og það er grundvöllur, sem út af fyrir sig er algerlega samþykktur af Alþýðusambandinu og við viljum standa á framvegis, að þetta sé tengt saman, að þau lífskjör, sem hin sterku almannasamtök verkalýðsins við sjóinn og á sjónum móta og ákveða í samningum við atvinnurekendur, verði einnig grundvöllur undir lífskjörum bændastéttarinnar. Nei, þetta var einmitt í brbl. ekki sett sem viðmiðun, heldur kjör gamalmenna og öryrkja. Það þótti betur hæfa. Ég sé ekki hina minnstu skynsamlegu ástæðu til þess að víkja frá þessu meginatriði sem grundvelli, því að það er eitt hið sjálfsagðasta, sem verkalýðsstéttin hefur löngu viðurkennt, að sé réttmætt. Ég álít, að það sé óeðlilegt, og er sammála síðasta hv. ræðumanni eða 2. þm. Sunnl. í því, að það eigi ekki að miða afurðaverð bændastéttarinnar eða breytingar á verðlaginu við breytingar á bótum til öryrkja og gamalmenna samkv. tryggingalögum.

Þessi afstaða A.S.Í., sem ég nú hef lýst, að ég vilji, að hagsmunir bænda fylgist með hagsmunum og lífskjörum fólksins, sem hefur stéttarsamtökin sem sitt vopn til þess að bæta þau, tekur af öll tvímæli um það, að afstaða A.S.Í. til bændastéttarinnar er ekki breytt og sízt af öllu í fjandsamlegt horf, en það hafi blásið öðruvísi vindar frá vissum samtökum bændanna, og eiga þó bændur sjálfsagt enga sök á því. Í hvert skipti, sem verkalýðssamtök eru að fara fram á hækkað kaup eða bætt lífskjör, er verkalýðshreyfingin þar með að beita sér fyrir bættum lífskjörum bændastéttarinnar, og það veit bændastéttin vel. Og hvernig stóð s.l. vor? Þá voru verkalýðssamtökin einmitt í deilu við atvinnurekendur um það að bæta lítillega lífskjör verkamanna og þar með bænda. Fengum við þá ekki einhverja samúðaryfirlýsingu frá samtökum bændanna um, að okkur væri árnað heilla í því starfi að bæta lífskjör verkamanna samkv. samningum og þar með bændastéttarinnar? O, nei, ekki aldeilis. Þrátt fyrir allt hjalið um, að menn vilji áframhaldandi samvinnu verkamanna og bænda, kom önnur kveðja. Það kom sú kveðja, að nú væru Mjólkursamsalan í Reykjavík og Mjólkurbú Flóamanna gengin yfir í fjandmannaraðirnar og farnir að borga peninga í sjóði atvinnurekendasamtakanna í landinu til þess að reyna að brjóta okkur niður. Þetta var kveðjan. Og svo segjast menn vera alveg hissa á því, að A.S.Í. haldi ekki áfram samstarfi, sem ekkert samstarf hefur verið, því að við höfum verið settir samkv. l. sem andstæðingar bænda við samningaborð. Við vitum vel, að þetta fjandskaparbragð var ekki bruggað okkur af bændastétt landsins. Þessu skeyti var að okkur beint, einmitt þegar við stóðum mitt í deilu, af fáum forustumönnum þessara samtaka, sem hafa slitið öllu sambandi við sitt fólk og fara ekki að þess ráðum og eru þannig ekki lengur orðnir nein bændasamtök. Það mun vera í fleiru en þessu atriði einu, sem forustumenn þessara samtaka hafa ekki leitað ráða hjá bændum. En þrátt fyrir þetta ætlum við ekki að troða neinar illsakir við bændastéttina, hún er ekki sek í þessu máli. Hún hefur ekki rofið neitt samstarf við verkalýðssamtökin, og við viðurkennum enn, að hún á að njóta þeirra lífskjara, sem okkur tekst í verkalýðsfélögunum að afla okkar umbjóðendum. Bændur eiga að njóta þeirra bættu lífskjara í hækkuðu afurðaverði, hvernig sem þeim málum verður skipað.

Ég skal nú láta mínu máli fljótlega lokið. Ég skal aðeins taka það fram, að ég lít á þessi brbl. sem ófullnægjandi úrlausn á þessum viðkvæmu vandamálum eins og sagt var hér áðan. Þessum málum hlýtur að verða skipað til frambúðar með nýrri lagasetningu eða með því að hæstv. ríkisstj. taki upp þann eðlilega hátt, án lagasetningar að tilnefna menn til beinnar samningsaðildar í sínu umboði við samtök bændanna. Og ég held, að sé erfitt fyrir hæstv. ríkisstj. að standa gegn þeirri kröfu, ef sú verður sameinuð krafa bændasamtakanna, að þau heimti beina samningsaðild við ríkisvaldið á hverjum tíma.

En það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan í framsöguræðu sinni, að hann hyggst setja á laggir n. til þess að endurskoða þann lagagrundvöll, sem ákvörðunin um verðlag landbúnaðarafurða skuli hvíla á. Hann hefur fyrir réttri viku sent A.S.Í. svohljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er yfirlýstur vilji ríkisstj., að samstarfi verði aftur komið á milli framleiðenda og neytenda um verðlagningu landbúnaðarvara til bænda svo og heildsöluverð og smásöluverð og þessir aðilar geti komið sér saman um skipan þessara mála til frambúðar. Fyrir því vill rn. óska þess, að A.S.Í.“ —lögbrjóturinn, — „tilnefni nú mann af sinni hálfu til þess að taka sæti í n., er hafi það verkefni að leita eftir samkomulagsgrundvelli milli framleiðenda og neytenda, sem afurðasölulöggjöfin yrði síðan byggð á. Ráðuneytið hefur farið þess á leit, að Sjómannafélag Reykjavíkur, Landssamband iðnaðarmanna, Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins tilnefni fulltrúa til að taka sæti í n. þessari, einn frá hverjum aðila nema tvo frá Stéttarsambandi bænda.“

Hæstv. ráðh. upplýsti, að sumir þeirra aðila, sem þetta bréf hefur verið sent, hafi þegar tilnefnt menn til þessa starfs til þess að endurskoða l., og væntir þess, að A.S.Í. og Sjómannafélag Reykjavíkur brygðust einnig vel við í því efni. Svo skal ég taka fram, að þegar landssamtök svona eins og Stéttarsamband bænda, Landssamband iðnaðarmanna og A.S.Í. eru sett til slíks starfs, finnst mér nú og hefur alltaf fundizt óeðlilegt, að svo kæmi þar inn eitt félag í A.S.Í., Sjómannafélag Reykjavíkur, og hefði þar einnig fulltrúa. En svona hefur þetta verið frá einhverjum góðum og gömlum dögum Alþfl. í ríkisstj. Og með því að sá maður, sem þeir hafa haft í þessu starfi, hefur tekið starfið mjög alvarlega og er maður, sem hefur mikla þekkingu á þessum málum, tel ég, þó að ég telji þetta óeðlilegt út af fyrir sig, ekki rétt af A.S.Í. að beita sér gegn því. En óeðlilegt er þetta. Það væri alveg óeðlilegt líka, ef eitthvert einstakt stéttarfélag í Stéttarsambandinu ætti svo við hliðina á því að tilnefna fulltrúa, eða sá háttur hafður á hjá Landssambandi iðnaðarmanna. Ég teldi eðlilegra, að skipun þessara mála eða rannsóknin, sem þarna er fyrir höndum, undirbúningsstarfið að nýrri löggjöf, yrði falið landssamtökum einum og þá t.d. Stéttarsambandi bænda, og segjum, að það eigi að hafa tvo fulltrúa, A.S.Í., Landssamband iðnaðarmanna og BSRB, svo að það fjölmenni launastétta, sem þar er innbyrðis skipulagt í landssamtökum, ætti þarna einnig fulltrúa. Það teldi ég eðlilegra. En nú hefur þetta verið svona lengi, og þarna er um ágætan mann að ræða frá Sjómannafélaginu, ef hann verður fyrir valinu að segja. Ég bara bendi á þetta, að þessi skipun manna er dálítið út í hött eða svona skothend að vissu leyti.

Ég ítreka að síðustu kröfu Alþýðusambandsins um hlutlausa rannsókn á milliliðakostnaðinum í dreifingu landbúnaðarvara og tel, að sú rannsókn þurfi í raun og veru að liggja fyrir, áður en lokaákvarðanir eru teknar um þessi þýðingarmiklu mál. Nefndin, sem ríkisstj. setti í þessu máli í haust, þriggja manna nefnd, hefur gefið víðtækar upplýsingar um, hver milliliðakostnaðurinn sé, en ekkert um það vitanlega, hvað hann verði að vera. Yfirleitt er niðurstaða nefndarinnar sú, að milliliðakostnaðurinn í landbúnaðarvörudreifingunni sé um 50% ofan á verð það, sem bændur fá. Þeir telja, að þessi dreifingarkostnaður sé að því er mjólkina varðar um 48%. Hyrnumjólkin var, þegar þessar tölur voru gefnar út, kr. 12.21 lítrinn, og af því verði fá bændur kr. 8.25 fyrir lítrann. Vinnslu- og dreifingarkostnaðurinn, umbúðaverð og önnur útgjöld eru kr. 3.96 á lítra eða 48% ofan á það verð, sem bændurnir fá. Neytendurnir borga hins vegar kr. 7.50 fyrir lítrann í búðunum, en kr. 4.71 af heildarverðinu fellur að mestu á neytendurna með greiðslu söluskatts, sem ríkisstj. tekur at landslýðnum. Að langmestu leyti borga neytendurnir þetta með söluskattgreiðslunni.

Nú, kjötið, sem enginn hefur fengið að glugga neitt í, hvernig hinn nauðsynlegi dreifingarkostnaður myndist þar, enginn. Þar er milliliðakostnaðurinn 51%. Óniðurgreitt verð á 1 kg af súpukjöti var, þegar þessar tölur voru gefnar út af nefndinni kr. 81.85. Af þeirri upphæð munu bændur fá 54.12 kr. móti 81 kr. fyrir kg. Slátrun, heildsölukostnaður og smásöluálagning, söluskattur og annar milliliðakostnaður er hins vegar 27.73 kr. á kg., 27.73 kr. á kg., eða 51% ofan á það verð, sem bændurnir fá. Verður hann að vera svona mikill, eða er hægt að lækka hann? Er það ekki rannsóknarefni, sem bændur og neytendur eiga jafnan kröfurétt á? Nú, þegar kemur að neytendunum, lítur dæmið út svona frá þeim. Af kjötverðinu greiða neytendurnir 64.55 kr. fyrir kg í verzlununum, og 17.30 kr. koma í niðurgreiðslum, sem ríkið tekur að mestu leyti af neytendum landsins með söluskatti.

Kartöflurnar, við skulum halda, að það yrði heldur minni dreifingarkostnaður á þeim, en hann er hæstur, það er 53%.milliliðakostnaður þar. Að vísu er þar um að ræða vöru, sem nokkur skemmdarhætta er á, það skal játað. Nú, en þetta er svona, þar er milliliðakostnaðurinn 53%. Það eru engar niðurgreiðslur nú af kartötlum og kg kostaði, þegar tölurnar voru gefnar út, 11.70 kr. eða eitthvað um 12.00 kr. í verzlununum. Af þeirri upphæð fá framleiðendur kartaflanna 7.65 kr. fyrir kg, en heildsölukostnaður, smásöluálagning, söluskattur og annar milliliðakostnaður er 4.05 kr. á kg eða 53% ofan á verðið, sem bændurnir fá. Smásöluálagningin, ég skal upplýsa það, hún er 1.42 kr. á kg, og núna er yfirleitt dreifingin á kartöflunum þannig framkvæmd, að þeir fá valdar kartöflur, og þær settar í 5 kg bréfpoka, og fyrir það er borgað allt svo 5 sinnum 1.42 kr. Smásöluálagningin er 1.42 kr. á kg, og það er borgað fyrir að rétta 5 kg poka fram yfir borð án áhættu, þar kemur ekki áhætta vegna þessarar vöru til greina. En þegar þessi hæstv. ríkisstj. hóf valdaferil sinn, hvað kostaði kg af kartöflum þá? Það kostaði 1.45 kr., þ.e.a.s. 3 aurum meira en smásöluálagningin á kartöflum nemur nú ein, 3 aurum meira.

Og svo er það blessað smjörið, sem liggur nú í tugtonna tali í landinu óselt og verður að borga stórfé með úr landinu eða gefa það á innlendan eða útlendan markað, hvort sem mönnum þykir betur hæfa. Raunverulegt verð á smjörkíló er núna 187.56 kr. Auk þeirrar niðurgreiðslu, sem áður hefur verið nefnd á nýmjólkinni, nemur niðurgreiðslan á smjörkíló 84.96 kr., en útsöluverð í búðum á smjöri er 102.60 kr. Raunverulega verðið er þannig 187.56 kr.

Þessar tölur sýna það, að dreifingar- og milliliðakostnaðurinn að því er varðar landbúnaðarvörur er gífurlegur, um það er ekki hægt að deila, og það er tvímælalaus réttur bændastéttar og neytenda, að það sé rannsakað, hvort hann geti minni verið, og þar með, að úr því fáist annaðhvort hækkun á afurðaverði til bænda eða lækkun á verðinu til neytenda eða minnkuð niðurgreiðsla frá hendi ríkisstj., og allra hagur og þar með ríkisstj. sjálfrar ætti að vera, að þessi rannsókn færi fram. En hvers vegna fer hún ekki fram? Hvers vegna skipar ekki hæstv. ráðh. n. með fullu rannsóknarumboði í þetta bráðnauðsynlega hlutverk? Af hverju er hikið? (Gripið fram í.) Er þetta síður rannsóknarefni en margt annað? Ég spyr fulltrúa bænda. (Gripið fram í.) Vafalaust margt. Og það er sjálfsagt af mér og öðrum að bera fram kröfur um það, eftir því sem þeir telja ástæðu til. En ég segi: Það er réttmætt að krefjast rannsóknar á þessu.

Ég tók eftir því í framsöguræðu hæstv. landbrh. áðan, að hann sagði, að það hefðu heyrzt raddir, sem töluðu um innflutning kjöts, en þetta væri fjarstæða. Nú, hverjir halda nú þessari fjarstæðu fram? Hverjir halda nú þessari fjarstæðu fram? Þessir menn, sem halda þessari fjarstæðu fram, þeir skyldu þó ekki eiga sæti í ríkisstj. með hæstv. landbrh., og aðgerðarleysið í þessu máli stafi kannske af því, að hún sé ekki algerlega heilleg, að hún sé ekki heilleg stefna ríkisstj. í landbúnaðarmálum? Að það sé ekki alveg hreint eins og hægri og vinstri hönd starfi saman að framkvæmd þeirrar stefnu, þar sem hæstv. landbrh. er annars vegar og hæstv. viðskmrh. hins vegar, heldur sé það eins og segulskaut togist á.

Ég get ekki betur séð en að þessar raddir, sem tala um innflutning kjöts, sem hæstv. landbrh. stimplar sem fjarstæðu, ég veit ekki til, að aðrir hafi gert sig fremur að talsmanni fyrir henni en sessunautur hæstv. landbrh. í ríkisstj., viðskmrh. Og það er ekki von á góðu, á vitlegum aðgerðum eða röggsamlegum, eða að þeir þori að hlusta á sjálfsagðar kröfur um eitt eða annað, þegar ástandið er svona, að einn ráðh. segir þetta og annar hið gagnstæða. En þannig er ástandið á blessuðum bænum, þar sem hæstv. ríkisstj. Íslands gætir húsbóndavaldsins.

Nú skal ég hvorki ergja hæstv. ríkisstj.hv. fulltrúa bændasamtakanna, sem líta á Alþýðusambandið sem sinn fjandmann í þessum málum, meira eða með lengra tali í þetta sinn og læt hér staðar numið, en lýk máli mínu með því að segja: A.S.Í. óskar einskis fremur en að eiga samstarf við bændastéttina og vill þá vænta þess, að samstarfsviljinn frá bændastéttinni komi í ljós í einhverju öðru en að punga peningum í sjóði andstæðinga okkar, vinnuveitendasamtakanna í landinu. Við mundum vilja vænta þess í framtíðinni, og við óskum einskis annars en að einmitt aðgerðir A.S.Í. verði nú til þess að leysa af hólmi bráðgallað, stórgallað og óhæft skipulagskerfi um sölu og dreifingu landbúnaðarvara og leiði til endurskoðunar á þeirri löggjöf, og annaðhvort komi upp úr því ný og betri löggjöf, hagstæðari bændum og neytendum, eða að bændur fái sinn sjálfsagða rétt, óskoraðan samningsrétt um lífskjaramál sín.