29.11.1965
Neðri deild: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að gera þetta frv. almennt að umræðuefni. Það er margt ágætt í því, eins og hæstv. félmrh. hefur þegar lýst í sinni framsögu, sérstaklega meginhlutinn af því, sem verkalýðsfélögin og hæstv. ríkisstj. sömdu um í sumar. En það er eitt atriði, sem líka er í þeim samningi, sem ég vildi gera hér að sérstöku umtalsefni, áður en málið fer til n., og minnast á tvö önnur smærri, sem inn í frv. hafa komið án þess að vera í þeim samningi.

Það atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni úr frv. og úr samningunum, er ákvæðið um, að reikna skuli byggingarvísitölu á þau lán, sem veitt eru. Ég held, að við verðum að líta alveg raunsætt á þessi mál, þegar við erum að ræða þau hér á þingi. Hvað er það, sem gerir og hefur gert eins mörgum einstaklingum mögulegt að eignast eigin íbúð og nú er staðreynd? Ég býst við, að við Íslendingar höfum orðið algera sérstöðu, meira að segja meðal nágrannaþjóða, hvað það snertir, hve margir einstaklingar og það líka úr verkalýðsstétt hlutfallslega eiga íbúðir. Það er upp í 80–90, jafnvel upp í 100% af meðlimum verkalýðsfélaga, sem eiga íbúðir. Og við skulum gera okkur ljóst, hvað það er, sem hefur skapað þetta. Fyrir utan kannske ýmislegt, sem við vildum segja okkur sjálfum til hóls, eins og dugnað Íslendinga og ýmislegt annað slíkt, þá er það tvennt, það er annars vegar verðbólgan og það er hins vegar vinnuþrældómur, sá mesti, sem á sér stað í Evrópu. Það er þetta tvennt, sem er höfuðundirstaðan undir því, hve margir eiga íbúðir á Íslandi núna, eins og raun ber vitni um. Vinnuþrældómurinn náttúrlega, þessi gífurlega langi og mikli vinnutími og það oft og tíðum svo að segja allra fjölskyldumeðlima, er náttúrlega eitt höfuðatriði í því. En við skulum ekki loka augunum fyrir því, að það er ekkert spursmál, — við skulum vera hreinskilnir við okkur sjálfa og aðra í því, — að verðbólgan hefur hjálpað til þess, að svo og svo mikið af fólki hefur eignazt íbúðir. Ég held, að það sé enginn hér inni, sem mundi vilja segja, að allir þeir hefðu eignazt þær íbúðir, sem þeir eiga nú, t.d. hér í Reykjavík og annars staðar, ef engin verðbólga hefði verið. Um leið og við þess vegna tökum ákvörðun um að setja ákveðna vísitölu í sambandi við lán til íbúða, segjumst við þar með vera að girða fyrir, að verðbólgan rótist áfram á þessu sviði, koma á normölu ástandi hvað þetta snertir. Og við skulum þess vegna athuga þessa hluti alveg niður í kjölinn.

Ef það er meiningin, og það mundi ég gjarnan vilja heyra frá hæstv. ríkisstj. og það mundi ég raunar vilja að hún og stjórnarandstöðuflokkarnir ræddu af alvöru, — ef það er meiningin að stöðva verðbólguna, er þetta allt í lagi, að hafa þessa vísitölu á byggingarlánin. Það er allt í lagi, ef það er stefna ríkisstj. að stöðva verðbólguna, ef hún segir í dag, að hún hafi valdið og aðstöðuna til þess, eða ef hún segir: Ég ætla mér í samvinnu við stjórnarandstöðuna að skapa aðstöðu til þess. — Þá er þetta allt í lagi. Þá er þetta normalt ástand, sem er ekki nema gott eitt um að segja. Það þýðir hins vegar auðvitað, og það hlýtur hver maður að sjá, sem einhverja hugmynd hefur um hagfræði, að um leið og sú ákvörðun er tekin að stöðva þannig verðbólguna, verða tafarlaust öll lán til íbúðarbygginga að lækka niður 2–3%. Það er ekki til neins að láta sér detta í hug án allrar verðbólgu að ætla sér að gera almennt verkamönnum mögulegt að eignast sínar íbúðir og þá á eins skömmum tíma og þessi lán yfirleitt eru miðuð við, nema með því að hafa vextina 2–3. í hæsta lagi upp undir 4%. Við vitum t.d. í þeirri löggjöf, sem verið hefur í Danmörku og sums staðar annars staðar á Norðurlöndum, þar hefur verið lánað út á húsin allt upp í 90%, og það hefur verið lánað allt til 80 ára, þannig að það væru tvær kynslóðir, sem hefðu staðið undir þeim húsum. Helmingurinn af lánunum er með 2% vöxtum, þ. e. frá hálfu ríkisins, og helmingur með 4% vöxtum, af hálfu bankanna, meðaltalið með 3% vöxtum. Með þessu móti hefur greiðsla eins manns, einnar fjölskyldu upp í sína eigin íbúð verið það, sem nokkurn veginn samsvaraði húsaleigu, og dreift á þetta langt tímabil. Ef það er meiningin og ef ríkisstj. telur sig hafa aðstöðu og vald til þess eða fer fram á það við Alþ., að þetta vald sé skapað, þarf að fylgja því samtímis sú ráðstöfun, sem gerir það mögulegt. Ef við viljum halda þeirri stefnu, sem allir flokkar hafa lýst hér yfir, að almenningur yfirleitt geti eignazt sínar íbúðir, þarf sú breyting að verða á, að vextirnir verði lækkaðir þetta mikið og lánstíminn svona lengdur, sem hefur að vísu ýmsar aðrar þjóðfélagslegar afleiðingar, sem ég að vísu skal ekki fara út í í þessari ræðu, en er reiðubúinn til að ræða, hvenær sem er.

Sem sé, það þyrfti ekki mikið um þetta að ræða, þetta vísitöluákvæði, ef það væri ákvörðun hæstv. ríkisstj. að stöðva verðbólguna. Eigi hins vegar verðbólgan að halda áfram, eins og gerist í praxis, vil ég segja fyrir mitt leyti, að hún verður þá að ganga jafnt yfir alla. Ef það á að tíðkast áfram á Íslandi, að menn græði á verðbólgunni, er það sami réttur fyrir þá verkamenn og aðra, sem eru að reyna að gerast íbúðareigendur og þræla til þess að reyna að borga niður þær íbúðir, eins og fyrir heildsala eða hvern annan, sem græðir á verðbólgunni. Svo framarlega sem það er stefnan, að verðbólgan eigi að halda áfram, verður það að ganga jafnt yfir alla. En það, sem gerist með því að taka þær ákvarðanir, að það skuli setja vísitölu á byggingarlánin til almennings, en sleppa t.d. verzlunarauðvaldinu hér í Reykjavík og annars staðar við slíkt, er það, að þá er verið að skipta þannig á milli stéttanna, að verkamenn, sem verðbólgan að vissu leyti hefur ofur lítið hjálpað til þess að standa undir þessum afborgunum sínum undanfarið, eiga að fá að lenda í vísitöluborgununum, en verzlunarauðvaldið á að sleppa við þær.

Ég skal fara nánar út í þetta, ef mönnum skyldi finnast, að hér væri verið að slá fram staðlausum stöfum. Við vitum, að þeir almennu íbúðareigendur nú hafa átt við ákaflega marga erfiðleika að stríða og þeir hafa verið arðrændir í sambandi við þær byggingar, sem þeir hafa keypt, oft og tíðum á hinn hrottalegasta hátt. Það hefur byrjað strax á lóðunum undir húsin, þar sem meira að segja jafnvel stundum leigulóðum hefur verið úthlutað þannig, að þær hafi, þegar einhverjir gæðingar hafa fengið þær, verið seldar í braski á eftir, þannig að það hafi gefið í gróða 100 þús. kr. á hverja íbúð, sem byggð hefur verið á þessum leigulóðum, þar sem blokkir hafa verið byggðar, þannig að arðránið á þessum tilvonandi íbúðareigendum hefur hafizt strax og leigulóðunum var úthlutað. Það er ekki aðeins hér í Reykjavík, það er líka víðar. Og síðan hefur í sambandi við það brask, sem hefur átt sér stað með byggingarnar, svo og svo þungur skattur, gróðaskattur, verið lagður á þá menn, sem hafa gerzt íbúðareigendur á eftir, vegna þess að allar þessar byggingar hafa ekki frá upphafi verið skipulagðar þannig, að þetta væri félagsleg þjónusta við almenning, heldur hefur einkabraskinu verið gefin þarna aðstaða, sem það hefur hagnýtt alveg vægðarlaust.

Almennir íbúðareigendur ráðast venjulega út í íbúðarkaup af miklum vanmætti. Það er venjulega byrjað með því einhvern veginn að reyna að eiga eða slá fyrir útborgun, og síðan treyst svo að segja á guð og lukkuna, eða sláttarmöguleikana, til þess að geta haldið áfram. Við vitum hins vegar, að það, sem hefur tryggt mörgum, að þeir hafa þó getað staðið undir þessu, er, að í krónutölu hefur þeirra kaup farið hækkandi, en víxlar og allt mögulegt, sem þeir hafa slegið út á þetta, að raungildi farið lækkandi. M.ö.o.: þessir íbúðareigendur hafa verið að klóra sig fram úr þessu með öllu mögulegu móti. Og ég veit það ósköp vel, að þegar sú ákvörðun var tekin um A- og B-lánin í sambandi við húsnæðismálastofnunina, að B-lánin voru með vísitölu, gerðu menn sér alls ekki ljóst, hvað það þýddi, og vita það fyrst núna, þegar þeir eru að borga þau B-lán, og það fólk, sem er að leggja út í það að kaupa sér íbúðir, hefur ekki hugmynd um, hvað það þýðir, þetta vísitöluákvæði í l., og hugsar ekki út í það, hvað það kemur til með að verða að borga seinna. Og það er ekki rétt að haga sér þannig gagnvart almenningi, að hann sé ekki látinn hafa hugmynd um, hvað hann er að undirgangast. Sá almenni maður undirskrifar þessi lán án þess að hugsa mikið út í það eða gera sér ljóst, hvað vísitala þýðir, og ef sú vísitala er tvöfölduð á næstu 10 árum og þarf að borga helmingi meira, þá verður hann þá aldeilis hissa, að hann skuli hafa skrifað undir þetta. Þetta verða menn að horfast í augu við, og þess vegna vildi ég segja það hér, áður en þetta mál fer til n., að þetta er mál, sem á að taka til endurskoðunar hér á Alþ. Svo fremi að það sé meiningin, að verðbólga eigi að halda áfram og menn eigi þess vegna að fara að borga vísitölu á þessi lán, er það ófær hlutur. Menn koma ekki til með að rísa undir því, nema þá það sé meiningin, og því vil ég spyrja að, ég vil þá gjarnan fá það á höndina hér, — nema það sé meiningin, að við eigum að slást fyrir því að hækka þannig kaupgjaldið miklu, miklu meira en ella þyrfti, til þess að menn gætu risið undir slíku. Og hvernig ætla menn þá að láta sjávarútveginn rísa undir því? Menn eru þá beinlínis að gera leik að því að knýja fram miklu meiri kauphækkanir en ella væri þörf á, ef menn ætla að skylda menn til þess að borga vísitölu á íbúðirnar sínar. Þess vegna er þetta mál. sem óhjákvæmilega verður að endurskoða hér nú í þessari hv. d. hjá þeirri n., sem það fer til.

Ég sagði það hins vegar áðan, að verzlunarauðvaldið ætti að fá sérréttindi í þessum efnum. Jafnvel í því lagafrv., sem hér hefur verið lagt fyrir af hæstv. ríkisstj. og var lagt fyrir í fyrra líka, var, ef ég man rétt, gengið út frá því, að lán, sem væru undir þremur árum, ættu ekki að lenda í vísitölunni, en annars miðaði það frv. við að koma lánum almennt á vísitölugrundvöll. Nú verð ég að segja það, án þess að fara að ræða það frv. hér, að ég er hræddur um, að eitt þjóðfélag standist ekki fjármálalega við það, að vísitala sé sett á öll lán. Ég hef enga trú á því. Það er aðeins undir einum kringumstæðum, sem þjóðfélag stæðist við slíkt, og það er, að verðbólga væri svo að segja stöðvuð. En ef verðbólgan rasar áfram, stenzt ekkert þjóðfélag við neitt slíkt. Hins vegar er í þessu frv. gengið út frá því, að lánin, sem eru undir 3 árum, séu ekki háð vísitölunni. Nú er það svo, að verzlunarauðvaldið eða hvað sem menn vilja kalla það eða verzlunin er sá aðili, sem er þurftarfrekastur á þau almennu bankalán. Það er sá aðili, sem tekur drýgst til sín úr því almenna banka- og sparisjóðskerfi. Verzlunarauðvaldið hefur tvöföld forréttindi fram yfir aðra aðila í þjóðfélaginu: Í fyrsta lagi hvað snertir lánveitingar, þeirra upphæð. Út úr bankakerfinu, stærstu bönkunum og sparisjóðunum, var lánaaukning, lánað til viðbótar því, sem áður var, frá ársbyrjun 1960 til ágústloka 1965 eftirfarandi til fjögurra höfuðatvinnugreinanna, með leyfi hæstv. forseta: Til sjávarútvegsins 370 millj. Til landbúnaðar 259 millj. Til iðnaðar 528 millj. En til verzlunarinnar var útlánaaukning bankakerfisins á þessu skeiði 893 millj. Útlánaaukningin til verzlunarkerfisins var nokkurn veginn sú sama og til sjávarútvegsins og iðnaðarins til samans. Ég hef að vísu ekki tölur yfir, hvernig þessi lán skiptast í víxillán, rekstrarlán, og annað slíkt. En mín trú er, að þorrinn af þessum lánum gangi undir nafninu rekstrarlán. A. m. k. þykist ég vita, að það sé allalgengt, að menn, sem stunda verzlun hér í Reykjavík, sérstaklega meðal þeirra stærri, taki beinlínis út úr sínum rekstri fé til að byggja fyrir. Bankar kannske uppgötva þetta seinna, að þeir hafi tekið þetta út úr rekstrinum til að byggja fyrir. Og hvað gera bankarnir? Hvað geta þeir gert? Viðkomandi heildsali er búinn að taka út úr sínum rekstri milljónir, hefur byggt fyrir það hús, og þetta uppgötvast 2–3 árum seinna. Húsið hefur tvöfaldazt í verði á 6 árum. Ekki er hægt að fara að ganga að manninum til þess að gera fyrirtækið, sem á vafalaust fyrir skuldum, gjaldþrota, af því að það vantar peninga til staðgreiðslu. M. ö. o.: þeir, sem stjórna í verzlunarkerfinu, rífa vægðarlaust út úr bankakerfinu, meira en nokkrir aðrir í þjóðfélaginu, festa þetta á ýmsan máta, menn þurfa ekki nema ganga Suðurlandsbrautina til að sjá það, — og treysta svo bara á, að verðmæti þess hlutar, sem þeir hafa rifið út úr bankakerfinu, tvöfaldist á 6 árum. Það, sem er fest í slíkum byggingum, sýnir reynslan að tvöfaldast á 6 árum að verðmæti. Við skulum bara hugsa okkur, að einhver maður vildi taka upp á því t. d. núna að kaupa verðbréf með vísitölu. Það verðbréf, sem 1960 er selt með vísitölu á því, — hver er uppbótin á því í dag? Á 10 þús. kr. verðbréf selt 1960 er uppbótin í dag, sem verður útborguð núna, 1966, 10 693 kr. Á 6 árum tvöfaldast þetta. Hverjum manni er ljóst, að sá aðili, sem hefur vegna sinna pólitísku valda í þjóðfélaginu möguleika til þess að rífa féð út úr bönkunum, eins og verzlunarauðvaldið gerir, hann tvöfaldar á 6 árum sitt kapítal, ef hann ver því sæmilega skynsamlega, án þess þó að þurfa einu sinni í verzlunarbrask með það, bara í sambandi við fjárfestingu, ýmist í svona verðbréfum eða í byggingum eins og inn með Suðurlandsbrautinni.

Á þá það að viðgangast, að heildsalarnir hér í Reykjavík geti vaðið í bankana, tekið þar út peninga án vísitölu, en þeir menn, sem eru að reyna að byggja, fá sér þak yfir höfuðið, og eiga að borga upp þau lán, sem þeir fá fyrir 1/3 íbúðarinnar, helzt á 25 eða 33 árum, þeir eigi að borga vísitölu, en verzlunarauðvaldið að sleppa? Þetta verður að gera upp. Eiga lögin að ganga jafnt yfir alla, eða á að íþyngja þeim mönnum, sem fá íbúðarlán, og gefa þeim mönnum forréttindi, sem reka verzlun í þjóðfélaginu? Ég segi fyrir mitt leyti: Ef það er meiningin að halda því áfram að láta yfirleitt einhver lán út án vísitölu, hvað sem þau eru kölluð, á verkamaðurinn, sem er að byggja íbúð yfir sig og sína fjölskyldu, sá maður, sem ætlar að eiga eina einustu íbúð, hann á rétt á því frá þjóðfélaginu, að hann hafi sömu möguleika og t. d. sá heildsali, sem getur slegið sér út lán einhvern veginn og sett það í byggingar, sem hafa enga aðra þýðingu en að bíða, þangað til þær eru hækkaðar í verði, og þjóna engum þjóðfélagslegum tilgangi, eins og svo og svo mikið af þeim byggingum, sem nú er verið að byggja.

Við skulum muna, að það að festa fé, sem menn hafa fengið út úr bankakerfinu svona, gefur m. ö. o. 18% gróða á ári, tvöfaldast á 6 árum. Þess vegna er það, ef við ætlum að stöðva verðbólguna og ef við ætlum að fara að setja vísitölu á lán, þá eigum við ekki að byrja á verkamönnunum og þeim almenningi, sem er að reyna að byggja sér íbúð, heldur byrja ofan frá, byrja á þeim 900 millj., sem verzlunarauðvaldið í Reykjavík hefur bætt við sig á þessum síðustu 6 árum. Þetta vil ég segja, vegna þess að ef þetta er ekki gert, er meðvitandi verið að þjóna þessu verzlunarauðvaldi í Reykjavík, en ganga á jafnrétti almennings í þjóðfélaginu.

Nú veit ég, að þetta, sem hér er um að ræða, um vísitöluna í samningum, er atriði, sem verkalýðsfélögin og ríkisstj. hafa samið um. En ég vil taka fram, að það er atriði, sem ég álit að Alþ. eigi að breyta. Alþ. er til þess að reyna að koma á endurbótum á hag almennings og lífskjörum almennings. A. m. k. vil ég leyfa mér að setja þá spurningu fram, hvort það sé meining hæstv. ríkisstj., að endurbótalöggjöf í húsnæðismálum eigi einvörðungu að gerast með verkföllum, hvort það eigi einvörðungu að semja um það í sambandi við verkföll að knýja fram endurbætur á húsnæðismálalöggjöfinni. Ég held ég leyfi mér að svara fyrir hönd hæstv. ríkisstj., að það sé ekki hennar meining. Það sé ekki hennar meining, að það eigi að þurfa að gera verkföll til þess að knýja fram endurbætur á húsnæðismálunum, heldur líti hún svo á, að það sé einmitt eitt af þeim verkefnum, sem hún og Alþingi hefur. Og ég held, að hv. alþm. líti líka það stórt á sig og Alþ., enn sem komið er, vona ég, að þeir líti ekki á Alþ. eingöngu sem afgreiðslustofnun fyrir hæstv. ríkisstj. um samninga, sem gerðir eru utan þess vébanda, heldur líti þeir á Alþ. sem æðstu stofnun landsins, sem löggjafarstofnun, sem eigi að setja löggjöf íbúum landsins til hagsbóta. Og allir eru sammála um, að eitt af því brýnasta í þeim efnum er löggjöf á sviði húsnæðismálanna. Það er aðeins sérstakt ástand, sem hefur skapað það, algert neyðarástand í þessum málum, að það skuli hafa gerzt, að verkalýðsfélög nokkrum sinnum nú upp á síðkastið hafa farið út í það að semja sérstaklega um þessi mál. Það er sem sé einvörðungu vegna þess, að Alþ. hefur vanrækt að gera þessa hluti, að við hér höfum vanrækt okkar skyldu, og verkalýðsfélögin utan vébanda Alþ. hafa þess vegna orðið að framkvæma þá skyldu, sem á okkur hvíldi. Það er tími til kominn, að við rækjum þá skyldu. Og ég held, að við eigum m. a. að sýna það nú með því að breyta einmitt þessu ákvæði og láta þar með um leið verkalýðsfélögin finna, að það eru ekki einvörðungu þau, sem eru vakandi í þessu efni, heldur sé Alþ. líka vakandi í þessum efnum og vilji gera þarna nauðsynlegar breytingar.

Ég skal ekki heldur segja, með fullri virðingu fyrir öllum mínum starfsbræðrum, sem í samningum eiga frá hálfu verkalýðsfélaga, að þeir geri sér allir ljóst, hvað svona vísitölubinding þýðir, svo fremi að verðbólga haldi áfram. Og ég vildi mjög mælast til þess við þá hv. n., sem fær þetta til umr., að hún athugi þennan hlut alveg sérstaklega og athugi ekki hvað sízt, hvernig þetta mál muni standa í þeim samningum, sem Alþýðusamband Íslands á nú í, um þann þátt í þessu, sem var hvað mest og merkilegast nýmæli, sem sé það, sem átti að vera aðstoð til láglaunafólks um lán upp á hluta. Menn kunna kannske að segja, að þeir menn, sem einhvern veginn hafa slegið sér út 2/3 hluta af verði íbúðarhúss og fá aðeins 1/3 hluta að láni með vísitölubindingu, muni kannske einhvern veginn geta klárað sig, þó að slæm sé vísitalan á 1/3 hlutanum. En sá aðili, sem á að hafa vísitöluna, ef verðbólgan heldur áfram, á 4/5 hlutum og vera láglaunamaður þar að auki, hvernig fer um hann?

Ég býst við, að þegar verkalýðsfélög gera svona samninga, treysti þau á þau ummæli, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft mjög uppi, að hún ætli að stöðva verðbólguna, og þá er mjög skiljanlegt að ganga inn á þetta. Og í því trausti, skil ég, að þessir samningar hafi verið undirskrifaðir. Ef staðreyndin er síðan sú, að verðbólgan heldur áfram hraðbyri, er verið að kippa grundvellinum undan öllum svona samningum. Ég vona þess vegna, að sú n., sem fær þetta til umr., kynni sér mjög vel, hvernig gangi núna með samningana um framkvæmdina á þessum hlutum, undirbúninginn að því. Ég er hræddur um, að þetta sé allt stöðvað sem stendur, það gangi ekkert áfram, vegna þess að menn reki sig á, hvað þetta þýðir. Það hvorki gengur né rekur, ef þessi ákvæði eiga að vera þarna í. Og ég vil minna menn á annað. Ef menn ætluðu að reyna að koma sér fram hjá að gera nokkuð í þessu á þessu þingi, er meiningin, að við verðum að heyja næsta verkfall til þess að fá þessi vísitöluákvæði afnumin úr lögunum? Verkamenn verða þá búnir að finna svo fyrir því, hvað þetta þýðir, að þeir vilja ekki hafa það. Og ég hef sagt það áður, að það er að vísu allt í lagi, að menn reyni að knýja fram ýmsar hagsbætur með verkföllum, og hefur gerzt lengi hjá okkur, en ég vil ekki gera það að eina „prinsipinu“, að á Alþ. eigi aldrei að afgreiða önnur endurbótalög en þau, sem hafa verið knúin fram með verkföllum. Þá finnst mér hlutverk Alþ. vera orðið of lítið. Og það var ekki þannig, meðan Ísland var þó fátækara en það er í dag. Löggjöfin um verkamannabústaði var ekki sett með verkföllum. Alþ. leit þá á sig sem stofnun, sem ætti að vinna að hagsmunum almennings, án þess að það þyrfti að koma til, að verkalýðssamtökin berðu þetta í gegn með verkföllum.

Ég held þess vegna, að það sé alveg nauðsynlegt, að þessi vísitöluákvæði séu tekin til mjög alvarlegrar athugunar í n. nú. Mér finnst þar vera um tvennt að ræða: Annaðhvort að afnema vísitöluákvæðin, að þau séu ekki þarna í, sem sé að verkamenn hafi sama rétt og hinir, — ef verðbólga eigi að halda hér áfram, skuli verzlunarauðvaldið í Reykjavík ekki hafa einkarétt til að græða á verðbólgu, þá skuli almennir íbúðareigendur hafa sömu aðstöðu. Þá skulu ekki aðeins þeir, sem setja 500 millj. kr. í 16 verzlunarhús inn með Suðurlandsbraut, hafa þessi réttindi, þau skuli sá almenni íbúðareigandi hafa. Eða þá hitt, að setja þarna hámark, það skuli að vísu vera byggingarvísitala á þessi skuldabréf, en þó skuli hún aldrei fara fram úr t. d. 2–3% á ári. Það skuli aldrei vera leyfilegt að reikna hærri vísitölu á þessi bréf en t. d., skulum við segja, 3% á ári. Það mundi þýða, að ríkisstj. segði: Ég vil að vísu, ekki sízt af því að verkamenn hafa um leið vísitölu á kaupgjald, þá vil ég að vísu hafa vísitölu í þessum skuldabréfalánum. Ég álít hins vegar ekki eðlilegt, að verðbólga sé meiri en svo, að hún sé ca. 3% á ári. Sé hún meiri, eiga verkamenn og almennir íbúðarhúsaeigendur ekki að blæða fyrir það, heldur skulu þeir tryggðir þannig, að þeir þurfi ekki að borga hærri vísitölu af slíku en í mesta lagi 3% á ári.

Þarna þarf einhverja breytingu að gera, og ég efast ekki um, að ef hæstv. ríkisstj. gerir sér það fullkomlega ljóst, hvað þetta þýðir, ég tala nú ekki um, ef almennir íbúðareigendur, þeir sem nú eru að reyna að eignast íbúðir, fara að gera sér það ljóst, hvað þetta þýðir, þá verði þetta ákvæði, eins og það er núna, alveg óþolandi. Þess vegna beri að breyta þarna, annaðhvort með því að afnema þetta ákvæði úr lögum eða með því að setja hámark á það. Það er engin afsökun í þeim efnum, að það séu nógir til að taka lán, það veit ég vel, ef menn ætla að láta framboð og eftirspurn ráða í þessu. Jú, ég veit það, það eru nógir, sem vilja undirskrifa skuldabréf með svona vísitöluklásúlum í. En þeir menn gera sér bara ekki ljóst, hvað þeir eru að gera. Það er rétt eins og þegar sumir menn eru að taka okurlán hérna í bænum núna. Og það á ekki við, að ríkisstj. eða Alþ. svo að segja notfæri sér það, hve auðtrúa menn eru eðlilega á það, sem kemur frá því opinbera. Menn hafa alltaf visst traust á því, sem hið opinbera er að gera, og mönnum dettur ekki í hug, að það sé raunverulega verið sama sem að féfletta þá með slíkum ráðstöfunum. Þess vegna verður að vera einhver mórall í þeim ákvæðum, sem þannig eru sett. Hins vegar náttúrlega, ef það væri meiningin að stöðva verðbólguna, þá er þetta allt óþarfi, sem ég segi. Og við höfum öðru hverju komið hér að því, og það verður náttúrlega svo sem sama, hvaða mál við ræðum, þá komum við aftur og aftur að þessu. Hæstv. ríkisstj. viðurkennir, að hún hafi þar ekki fundið ráð enn. Það er ekki óeðlilegt. Þau ráð, sem eru til þess, eru svo harðvítug og koma ekki sízt við þá, sem grætt hafa á verðbólgunni, sem er meginið af atvinnurekendastétt landsins, að það er varla von til þess, að ríkisstj., sem sérstaklega styðst við þá atvinnurekendastétt, leggi út í annað eins.

Eitt af því fyrsta, sem þarf að gera til þess að stöðva verðbólguna á Íslandi, er að afnema það, sem kallað er frjáls verðlagning, að setja verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit, innleiða að nýju verðlagsákvarðanir ákveðinnar verðlagsnefndar og harðvítugt verðlagseftirlit, alveg þvert ofan í alla þá stefnu, sem ríkisstj. eða a.m.k. Sjálfstfl. hefur lýst yfir sem sinni höfuðstefnu í slíku og hefur eðlilega orðið ofan á í ríkisstj., þar sem hann er sterkari flokkur en hinn. Það er óhugsandi að stöðva verðbólguna hér á Íslandi, meðan hvaða heildsalar og kaupmenn í bænum sem eru hafa rétt til að hækka verðlag eins og þeim þóknast. Það er ekki til neins að vera að treysta á einhverja frjálsa samkeppni eða eitthvað þess háttar slagorð til þess að reyna að stöðva slíkt. Ef menn ætla sér að byrja á því að reyna að stöðva verðbólgu, þá á að taka upp verðlagstakmarkanir, innleiða það kerfi, menn mega kalla það haftakerfi eða hvað sem þeir vilja. Það er óhugsandi, meðan menn leyfa verzlunarauðvaldinu að hækka verð eins og það vill, að ætla að stöðva verðbólgu. Afnám hinnar svokölluðu frjálsu verðlagningar er fyrsta skilyrðið fyrir því að stöðva verðbólguna. Í öðru lagi má taka upp verðhækkunarskatt á öllu, sem ætti að hækka, á eftir, láta renna, eftir að búið væri að gera þetta, til þjóðfélagsins meginið af allri verðhækkun á fasteignum. Þær ráðstafanir, sem hægt er að gera í slíku, eru ráðstafanir, sem við þurfum að gera. En ég veit um leið, það er bezt að segja það alveg hreinskilnislega, að það eru einhverjar óvinsælustu ráðstafanir, sem nokkur stjórnarvöld á Íslandi gera. Það eru allir sammála um, hvað verðbólgan sé slæm, en sé ætlað að stöðva hana, þá koma flestir til með að kvarta. Það er, svo að maður taki ljóta samlíkingu, það er eins og að ætla að fara að prédika bindindi yfir manni, sem er orðinn sætkenndur, og hindra hann í því að verða blindfullur. Það er ekkert vinsælt. Sannleikurinn er, að það er engin von til þess, ef maður vill tala hreinskilnislega, að ríkisstj., sem er ekki sterkari en núv. hæstv. ríkisstj., treysti sér til þess að fara út í svona hluti. Hún heldur bara kenderíinu áfram. Það þarf svo sterka aðila til að standa saman um slíkt, að þeir þori að taka á sig óvinsældir í bili og treysti á það, að þeir geti sannfært almenning um, að þetta hafi verið nauðsynlegt, rétt eins og maður getur kannske sannfært mann, sem maður hefur getað bjargað frá því að verða blindfullur og fara sér að voða, að maður hafi kannske hjálpað honum eitthvað.

Ég varð að víkja að þessu, fyrst ég kom svona mikið inn á verðbólguna. En einhvern tíma kemur að því, að menn verða að taka það mál fyrir og þora að ræða það, og það er ekki til neins að ætla að fara að lækna þessa verðbólgu með því að fara að segja við verkamenn og almenna íbúðarhúsaeigendur: Heyrðu, vinur minn. Verðbólgan er svo vond, að nú verður þú að fá vísitölu á þín lán. Þú verður að fórna þessu í sambandi við það, að við ætlum að stöðva verðbólguna. — Og svo rýkur verðbólgan áfram upp og þeir verða að blæða fyrir og aðrir græða hins vegar á því. Svona getur það ekki gengið.

Ég get nú kannske ímyndað mér, að einhverjir muni segja, þegar ég tala svona mikið á móti vísitölu í sambandi við byggingarvísitöluna og skuldabréfalánin: Ja, verkamenn eru búnir að fá vísitölu á sitt kaupgjald og börðust mikið fyrir því, svo að þetta er ekki nema sanngjarnt, að fyrst þeir hafa vísitölu á sitt kaupgjald, verði þeir að borga vísitölu af þeim verðbréfum, sem ríkið lánar þeim. — Jú, það er alveg rétt. Verkamenn hafa fengið nokkra vísitölu á sitt kaupgjald, og verkamenn hafa líka nú árlega farið í ýmist verkföll eða haft stórfellda samninga til þess að knýja fram hækkun á sínu kaupgjaldi. En ég vil í því sambandi benda mönnum á að athuga, að ég hef nýlega lagt hér fram frumvarp, sem ég hef lagt hér fram áður, um áætlunarráð, og birt aftan við það frv. nýjustu töfluna um kaupgetu tímakaupsins og kaupgetu vikukaupsins eftir samningana í sumar, þar sem mönnum þóttu mjög miklar kauphækkanir fara fram. Það er miðað alltaf við lægsta taxta Dagsbrúnar. Ég skal fyllilega viðurkenna, að það eru færri nú en áður, sem vinna við þann taxta, og þeir menn, sem eru búnir að vinna meir en 2 ár, fá 5% uppbót á honum. En engu að síður er ástandið þannig, að svo að segja um leið og búið er að semja og sú raunverulega kaupgreiðsluvísitala stekkur þá nokkuð upp, byrjar hún strax að lækka aftur. Það fer lækkandi kaupið, m. a. í sambandi við útreikninginn á landbúnaðarverðinu, þar sem hækkun á kaupgjaldi bóndans kemur inn í landbúnaðarvöruverðið, en kemur hins vegar ekki inn í vísitölu verkamannsins. Þess vegna er það svo, að með vísitölu fyrir 1. taxta Dagsbrúnar er kaupmáttur tímakaupsins, sem komst upp í 98 og 99 í ágúst og september í ár, í nóvember kominn niður í 93, þegar maður miðar við tímakaupið eitt, og svo það sama, ef maður miðar við vikukaupið, því að nú gerðist það í fyrsta skipti síðan 1942, að vinnuvikan var stytt, þá lækkar sem sé kaupmáttur vikukaupsins úr 91, sem hann komst upp í í sept., niður í 86, sem hann er kominn niður í nú í nóvember. Enn sem komið er stöndum við, og það meira að segja þótt við legðum 5% til manna, sem vinna í 2 ár, og þótt við tækjum 2. og 3. taxta Dagsbrúnar, svo að við fengjum alla þessa hækkun, sem gerzt hefur í gegnum flokkana, þ. e. úr 1. flokknum upp í 2. og 3. flokk, — þótt við legðum þetta allt saman við, þá erum við enn með lægri kaupmátt tímakaups en hvort heldur var á árinu 1959 eða 1949 eða 1945. Og svo skulu menn náttúrlega muna eftir því, að í öllum þessum kaupmætti tímakaups, sem við reiknum með, og allri vísitölu, sem við reiknum með, er húsaleiga ekki reiknuð með, þannig að sú gífurlega hækkun, sem þar hefur orðið, kemur ekki inn í neitt af þessum útreikningi. Þess vegna er ekki til neins út af fyrir sig að vitna til slíks, ef menn vildu nota það, að verkamenn hafi nú vísitöluuppbót á sitt kaupgjald, sem er ekkert á móti því að fella út ákvæðið um vísitölu eða takmarka það við eitthvað lágt.

Þetta var höfuðatriðið, sem gerði, að ég vildi nú við þessa 1. umr. beina því til hv. heilbr.- og félmn. að endurskoða þetta atriði í lögunum mjög rækilega og hafa nokkurt samráð við Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin um endurskoðun þess.

Svo er það aðeins eitt atriði, sem ég vildi minnast á. Það er í sambandi við 6. gr. um að fella úr gildi l. frá 1952 í fyrsta lagi. Það var rétt, sem hæstv. félmrh. sagði, þau eru orðin úrelt þau lög og sumt í þeim stendur í vegi fyrir jafnvel vissum íbúðabyggingum þess opinbera til leigu og erfitt að ætla því opinbera að brjóta sín eigin lög. En við verðum að muna það, að þegar húsaleigulögunum var breytt, og meginið af þeim fellt úr gildi 1952 af Sjálfstfl. og Framsfl. hér á Alþ., þá var gerð að mínu áliti einhver sú mesta skyssa, sem gerð hefur verið í dýrtíðarmálum á Íslandi. Þar með var hleypt lausu því mesta braski, sem nokkurn tíma hefur verið hleypt yfir íbúa þessa lands og sérstaklega íbúa Reykjavíkur. Þau húsaleigulög, sem þá giltu, voru að vísu úrelt, og þau voru til ýmissar hömlunar, en að fella þau úr gildi, eins og þá var gert, var illt verk. Það þýddi m. a., að íbúðir og húsaverð í öllum gömlum húsum þaut upp úr öllu valdi, og ég veit ekki af neinni höfuðborg á Norðurlöndum, sem hefur leyft sér að gera svona hlut. Ég veit að a.m.k. í Kaupmannahöfn er enn þá haldið húsaleigulögum, þar sem ákvæðin eru miðuð við hin ýmsu tímabil, tímabilið fyrir 1914, tímabilið milli 1914 og 1930 o. s. frv., og alls staðar ákveðin venjuleg byggingarvísitala, sem miðað er við, hvað hækka megi leigu í þessum íbúðum. Með því hins vegar að afnema húsaleigulögin svo að segja, eins og þá var gert, voru gömul hús, sem höfðu kannske kostað — við skulum segja 30 þús. kr., hús, sem höfðu verið byggð, segjum t. d. 1920, höfðu kannske kostað með 4 íbúðum um 30 þús. kr., þau voru sett upp í 1 millj. kr. undireins. Megnið af þeim falska kaupmætti, sem skapaður var á Íslandi þá, var skapaður með þeirri vitleysu að afnema þau lög. Það var kvartað yfir því af vitlausum hagfræðingum, að of mikil laun hjá verkamönnum sköpuðu of mikla eftirspurn eftir útlendum gjaldeyri. En það var ekki spurt að, hvað braskverðið á öllum gömlu húsunum, þegar farið var að selja þau, skapaði mikla kaupgetu hjá fólki, sem eyddi þeim peningum í allt mögulegt og kallaði á útlendan gjaldeyri. Og þeir hagfræðingar, sem hafa rannsakað þróunina á síðasta áratug, hafa aldrei farið út í það, hvað afnám húsaleigulaganna þá þýddi. Þau voru keyrð í gegn hér á Alþingi, án þess að nokkurt tillit væri tekið til þeirra tveggja flokka, sem þá voru í stjórnarandstöðu, Sósfl. og Alþfl. Við viðurkenndum fullkomlega gallana á húsaleigulögunum, eins og þau voru. En það, sem þurfti að gera, var að bæta úr þeim göllum, en ekki að hleypa öllu lausu í vitleysu. Og það á ekki heldur núna að stíga það spor að nýju að afnema þessi lög. Þau eru vitlaus, það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh. En áður en þau eru afnumin, á að vera búið að setja ný. Og það er hægt að gera það núna, á meðan við erum með þessi lög hér í þinginu. Og það á, eins og hann líka minntist á, ef ég tók rétt eftir, að vera hægt að fella þau inn í þetta frv., og öðruvísi á ekki að afgreiða það. Og að mínu áliti, það vil ég segja hérna, ég veit, að það er ákaflega óvinsælt, — að mínu áliti ætti að setja húsaleigulög, þar sem takmarkanir væru settar á, hvað leigja má fyrir. Það er kannske ekkert eins ólíkt í dag í Reykjavík og húsaleigan. Það er til fólk hér enn þá, hvort sem menn vilja trúa því eða ekki, skattyfirvöldin eiga ákaflega erfitt með að trúa því, — það er til fólk hér enn þá, prívatmenn, sem leigja út íbúðir í sínum húsum fyrir kannske það lágt verð, að það þykir hlægilegt eða vitlaust, leigja kannske tvö, þrjú herbergi fyrir kannske 500–1000 kr., þetta er til í Reykjavík, og hafa gert um árabil. Ég veit af fólki, sem hefur verið kallað upp á skattstofu til þess að yfirheyra það, vegna þess að það eru ekki allir menn þannig gerðir, að þeir kæri sig um að fylgjast með í öllu því braski, sem hér er framkvæmt, þannig að þessi mórall er til. Hins vegar vantar ekki, að reynt sé hins vegar að nota sér neyð manna, Það er vafalaust til, að menn séu ekki aðeins látnir borga fyrir þriggja herbergja íbúð 7000 kr., heldur látnir snara út milli 50 og 100 þús. kr., sem hvergi koma fram, sem aukaborgun, og fá samt aðeins leigt til eins árs. Það er þess vegna allt til í þessum málum, og það er engin ástæða til þess, að það sé fullt frelsi á þessu sviði.

Ef menn ætla að reyna að ráða við verðbólgu eða dýrtíð, er húsaleigan eitt af því, sem menn verða að þora að setja löggjöf um. Hitt skal ég fyllilega viðurkenna, að eftirlitið með því er afskaplega erfitt, og ég veit ósköp vel, að sú höfuðröksemd, sem kemur á móti, er þessi: Hvernig ætla menn að „kontrolera“ þetta, vegna þess að það er ekki nema eitt virkilega sterkt ráð til þess, og það er ein húsaleigumiðstöð, og það þykir mönnum ákaflega mikið inngrip í það persónulega frelsi. Þetta eru mál, sem verður að taka fyrir að ræða og horfast í augu við, nema, og það hef ég gert hér tillögur um, nema það opinbera vilji fara út í það í mjög stórum stíl að byggja hér leiguíbúðir, byggja þær eða láta byggja þær, hvernig sem það vill haga sér í því. Ég veit, að ef byggðar væru t. d. hér í Reykjavík 500 íbúðir, tveggja til þriggja herbergja, allar svo að segja eftir sömu teikningu og fullgerðar, þá mundi það gerbreyta öllu ástandi í þessum málum, hvort menn svo vildu heldur selja þær eða leigja. En þetta er mál, sem menn verða að taka svo alvarlega, að menn ráðist í þetta vandamál. og það er ekki staðurinn til þess að semja um þetta og til þess að ráða fram úr þessu, þegar verkföll standa yfir að sumri. Það er ekki ráðið að láta verkalýðssamtökin verða fyrst að grípa til þess annaðhvort að stöðva allan flotann eða stöðva alla vinnu svo og svo lengi til þess að fara að semja um mál, sem snerta alla þjóðina. Þessum málum eigum við að ráða fram úr hér á Alþingi, annars yrði að dauðadæma þessa stofnun. Þess vegna eigum við að ræða þetta í sambandi við afgreiðsluna á þessu.

Að síðustu, það er hér í 2. gr. bætt inn ákvæði um að sexfalda í staðinn fyrir að þrefalda fasteignaskatt. Það er mál, sem mun vera alveg óviðkomandi þeim samningum, sem verkalýðsfélögin gerðu, skilst mér, því sé bara bætt inn í þessi lög. Og ég vil mjög alvarlega skjóta því til hæstv. ríkisstj., hvort þetta sé sanngjarnt. Það er verið að reyna að hjálpa almenningi til þess að eignast fasteign, hverjum manni til að eignast íbúð yfir höfuðið. Er það um leið rétt að vera fyrst og fremst gagnvart slíkum mönnum að þyngja á þeim skattana? Þessi fasteignaskattur kemur jafnt niður á mönnum hvort sem þeir skulda svo að segja alla íbúðina eða hvort menn eiga hana skuldlausa. Þetta er ekki eignarskattur. (Gripið fram í.) Nei, er það eignarskattur? Er það alveg öruggt? Þá gegnir náttúrlega allt öðru máli þarna. En eitt er í þessu, sem ég vildi þó skjóta að um leið. Svo framarlega sem við viljum nú fara að hækka skattinn á íbúðarhúsunum, væri þá ekki ráð, að við reyndum að finna út aðferð til þess að láta þá bera einhvern dálítinn skatt í slíku sambandi, sem sleppa billegast í sambandi við tekju- og eignarskattinn annars? Við vitum, að verzlunarstéttin í Reykjavík skammtar sér svo að segja skattana sjálf, kannske ekki bara tekju- og eignarskattinn, heldur meira að segja eitthvað af söluskattinum líka. Og maður heyrir kvartað undan því, að það sé svo erfitt að komast að þessum mönnum. Hins vegar þeir sömu menn, sem borga kannske stundum ekki miklu meira en það, sem einu sinni var kallað með ljótu orði vinnukonuútsvar, þeir byggja því veglegri verzlunarhallir. Og mér finnst, að það ætti alvarlega að athuga það. Mér finnst satt að segja stundum, að þær verzlunarhallir, sem hér eru að rísa upp, hrópi á ríkið og ríkisstj. til að skattleggja sig. Ég gæti trúað, að 1% skattur á verzlunar- og skrifstofuhúsnæðið í Reykjavík. t. d. brunabótamatið á því, mundi setja dálitla stöðvun á það, sem allur almenningur hneykslast yfir í þessum efnum, hvað mikið af fjármagni þjóðfélagsins fer í fjárfestinguna í verzlunar- og skrifstofuhúsnæði núna, sem auðvitað er beint tekið frá öðrum nauðsynlegum hlutum. Það er kannske ekki mitt að leggja til við hæstv. ríkisstj., að hún eigi að leggja á skatta, en ef það kæmi að því, að hún færi að spyrja okkur um það, t. d. hæstv. fjmrh., er meira en nóg, sem hægt er að benda honum á, ef hann er í vandræðum, til þess að taka skatta á réttlátari máta og praktískari en ýmsa þá, sem heyrzt hefur getið um, að eigi að fara að taka núna.