03.05.1966
Efri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2396 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

152. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Við í minni hl., en hann skipa fulltrúar Framsfl. í sjútvn. og fulltrúi Alþb., leggjum til, að þetta frv. sé afgreitt með rökst. dagskrá. Ástæðurnar til þeirrar rökst. dagskrár eru ekki þær, að við teljum í sjálfu sér óeðlilegt, að þessir sjóðir, sem þarna er um að tefla, séu sameinaðir. Ég geri ráð fyrir því, að það sé á margan hátt eðlilegt. Raunar er á það bent í þeim umsögnum, sem um málið hafa borizt, að þarna er tvennu ólíku saman að jafna, annars vegar Fiskveiðasjóðurinn, sem er voldug stofnun með stórkostlegar eignir á bak við sig, hins vegar Stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem er ung stofnun og fátæk. En hvað um það, það út af fyrir sig getur verið eðlilegt að sameina þessar stofnanir, og ég vil alls ekki hafa á móti því, þannig að við erum ekki í prinsippinu andvígir því, en ástæðan til þess, að við leggjum til, að frv. sé að þessu sinni afgreitt með rökst. dagskrá, er fyrst og fremst sú, að við teljum, að undirbúningur málsins hafi ekki verið með þeim hætti, sem réttur megi teljast, vegna þess að við undirbúning málsins og samningu þessa frv. virðist alls ekki hafa verið haft nægilegt samráð við yfirstjórn Fiskveiðasjóðs, sem er bankastjórn Útvegsbankans. Það kemur fram í umsögn Útvegsbankans, að það hefur ekki verið haft samráð við þá um málið fyrr en á lokastigi þess. Þetta verður að teljast óeðlilegt, þegar þess er gætt, að bankastjórn Útvegsbankans hefur um langt skeið haft á hendi stjórn Fiskveiðasjóðs og farizt það vel úr hendi að allra dómi, er allra manna bezt kunnug þessum málum, þekkir, hvað við á, hver þörf er og hverjar reglur eru heppilegastar í þessu efni. Það er því að mínu viti óráð að semja lagafrv. um þetta efni, án þess að leita til þeirra fyrst og fremst. Í stað þess hefur sú leið hér verið farin, að því er virðist, að Seðlabankinn sýnist hafa haft alla forystu í þessu máli og frv. samið í raun og veru þar, þó að á lokastigi málsins hafi verið rætt við bankastjórn Útvegsbankans um það.

Enn fremur rennir það stoðum undir þessa rökstuddu dagskrártill. okkar, að frv. virðist vera þannig úr garði gert, að það megi benda á nokkra ágalla á því. Og eins og hv. frsm. meiri hl. gerði rækilega grein fyrir, hefur verið bent á það í ýmsum þeirra umsagna, sem um frv. hafa borizt, fyrst og fremst frá Útvegsbankanum, í öðru lagi frá Fiskveiðasjóði sjálfum eða forstjóra hans, og að nokkru að mig minnir frá Landssambandi iðnaðarmanna og L.Í.Ú. Sumar af þessum aths. og ábendingum hafa að vísu verið teknar til greina við afgreiðslu málsins í Nd., en þó hvergi nærri allar, þannig að eftir sem áður er frv. í því formi, sem t.d. Útvegsbankinn gerir mjög veigamiklar aths. við í sinni umsögn um málið. Og þær aths., sem Útvegsbankinn fyrst og fremst gerir við frv., eru þessar, að hann telur ekki ástæðu til eða a.m.k. hafi ekki verið bent á nein veigamikil rök fyrir því að breyta stjórn Fiskveiðasjóðs. En eins og kunnugt er, er gert ráð fyrir því samkv. þessu frv., að stjórn Fiskveiðasjóðs sé hér eftir í höndum 5 manna n., þar sem Útvegsbankinn skipi tvo, Landsbankinn tvo og Seðlabankinn oddamann. En eins og ég áðan sagði, hefur stjórn Fiskveiðasjóðs hingað til verið í höndum bankastjórnar Útvegsbankans og sú stjórn hefur ekki sætt gagnrýni, svo að kunnugt sé, enda ber hagur sjóðsins þess gleggstan vott, að honum hefur verið vel stjórnað, þar sem yfir 50% af umráðafé sjóðsins eru nú eigið fé hans eða um 600 millj.

Í annan stað gerir Útvegsbankinn sérstaka aths. við það, að eftir frv. er ætlazt til þess framvegis, að handbært fé sjóðsins verði geymt á reikningi í Seðlabankanum. Að vísu mun það vera í samræmi við eitthvert almennt ákvæði, sem þar um er í Seðlabankal., en eigi að síður felst í þessu mikil breyting frá því, sem nú er í reyndinni, vegna þess að laust fé Fiskveiðasjóðs hefur hingað til verið geymt í Útvegsbankanum og það er alveg auðsætt og viðurkennt af öllum, að Útvegsbankinn verði fyrir stórkostlegum hnekki við það að láta þetta fé þannig af hendi. Það er látið í það skína, ef ég man rétt, í aths. með þessu frv., að reynt muni verða með vinsamlegum hætti af Seðlabankans hálfu að greiða fyrir því, að þetta geti farið fram þannig, að það verði ekki Útvegsbankanum til stórlegra vandræða í bili, en ekki er nánar tekið fram, hvernig það skuli gert. Útvegsbankinn bendir á, að hann telur æskilegt, að samningar um þetta séu gerðir glöggir fyrir fram. Þá gerir Útvegsbankinn og málgögn bankans aths. við það, að hingað til hafa auðvitað allar lánsumsóknir um lán úr Fiskveiðasjóði verið afhentar Fiskveiðasjóði og þar verið meðhöndlaðar eins og sjálfsagt og eðlilegt er. Nú er í þessu frv. hins vegar gert ráð fyrir því, að lánaumsækjendur geti lagt inn sinar umsóknir til viðskiptabanka sinna og þær komi um þeirra hendur til Fiskveiðasjóðsins. Þetta telja þeir ágalla, ekki aðeins fyrir starfsmenn sjóðsins, heldur líka fyrir viðskiptamenn.

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að vera að hafa lengra mál um þetta. Ég vona, að það hafi komið greinilega fram, hverjar ástæður liggja til þeirrar afstöðu okkar, sem þennan minni hl. skipum, að við teljum bezt fara á því að afgreiða þetta mál með rökst. dagskrá og auðvitað eru það engin rök gegn því, sem hv. frsm. meiri hl. drap aðeins á í sinni ræðu, að þetta frv. væri liður í einhverjum heildarsamdrætti fjárfestingarlánasjóða, sem nú væri á döfinni. Það gerir náttúrlega engum neitt til, þó að það dragist fram til næstu áramóta að ganga frá endanlegri skipun þessa máls, en ef því væri frestað á milli þinga, mundi gefast kostur á að athuga þetta mál betur og þá fyrst og fremst í samráði við stjórnendur Fiskveiðasjóðs, þeirra sem hingað til hafa verið, bankastjórn Útvegsbankans og forstjóra Fiskveiðasjóðs, en þeir vita náttúrlega manna bezt, hvernig réttast muni að skipa þessum málum.