18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

188. mál, landshöfn í Þorlákshöfn

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ræða hv. 6. þm. Sunnl. (HB) gefur ekki sérstakt tilefni til stórfelldra eða frekari umr. um málið. Þó þykir mér rétt að víkja örlítið að tveimur atriðum, sem hann minntist á.

Hann spurði um það, hvað hugsað væri um framhald í þessu máli, og er þá að sjálfsögðu átt við fjárhagslega tryggingu þeirra framkvæmda. Ég vil upplýsa það, sem hæstv. fjmrh. gerði hér áðan fyrr á þessum fundi í sambandi við annað mál, að einmitt nú um þessar mundir er verið að ljúka við að ganga frá framkvæmdaáætlun, og geri ég ráð fyrir, að í sambandi við hana verði hægt að segja í tölum, hvað miklar framkvæmdir séu fyrirhugaðar í Þorlákshöfn, eins og um ýmsa aðra einstaka liði. Ég get aðeins upplýst það nú þegar, að það er fyrirhugað, að framkvæmdum verði þar haldið áfram og eftir því sem kostur er reynt að tryggja fé til þeirra framkvæmda. En tölur í því efni verða að bíða þess, að alþm. verði gefin skýrsla um framkvæmdaáætlunina í heild.

Varðandi annað atriði, sem hann minntist á í sinni ræðu, stjórnaraðildina, þá er það rétt, að heimamenn höfðu í viðræðum sínum við vitamálastjóra lagt til nokkra aðra skipan á þessu máli og þá í svipaða átt og hv. þm. talaði um hér áðan, þ.e. að tryggja það, að báðar þær sýslur, sem þarna eiga landfræðilega aðild að, ættu fulltrúa í n. Nú er það að sjálfsögðu n. að taka þetta mál til umr., þegar hún fær það til sín, en það er mín skoðun, og þess vegna er frvgr. um stjórnaraðildina ákveðin svo sem frv. ber með sér, að hægt sé að tryggja á þennan hátt einnig, að fulltrúar þessara héraða eigi þarna aðild að, og ég geri ráð fyrir því, að þingflokkarnir, sem væntanlega velja menn í þessa n. eða gera uppástungur um menn í hana, kjósa það hér á Alþ., geri sér far um að hafa einmitt menn úr þessum héruðum, sem öllum hnútum eru kunnugir.

Fjölda nm. getur n. að sjálfsögðu líka rætt um, hvort það er heppilegra að fjölga þarna um einn eða tvo í stjórninni, ef þannig mætti betur tryggja þetta sjónarmið, en að öðru leyti er frv., þegar frá er dregin þessi gr. þess, samið og hugsað í samráði við það samkomulag, sem vitamálastjóri gerði við fulltrúa þessara héraða.

Þetta vildi ég að kæmi nú þegar fram, áður en málið gengur til n.