04.05.1966
Efri deild: 82. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

168. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það er aðeins í tilefni af þeim orðum hv. síðasta ræðumanns, að þm. allra flokka úr Reykjaneskjördæmi hafi flutt þetta mál í hv. Nd., sem ég vildi segja þetta:

Það er rétt, að það eru þm. frá öllum flokkum í kjördæminu, sem fluttu málið inn á þingið, og mér er kunnugt um það, að því er suma þeirra snertir að minnsta kosti, og skal ég þá sérstaklega nefna þar hv. 10. landsk. þm., Geir Gunnarsson, að þeir stóðu að flutningi málsins til að kynna það og til þess að það kæmist frekari skriður á þá samninga, sem virtust torveldir við Gerðahrepp, en það er t.a.m. ekki vilji hv. 10. landsk. þm., það er mér kunnugt um af samtali við hann í gær, það er ekki samkv. hans ósk eða allra flm. málsins, að það sé knúið fram með ákafa nú. Hv. 10. landsk. þm. er sammála mér um það, að það muni engum, ekki Keflvíkingum heldur, vera neinn greiði gerður með því að knýja málið fram endilega nú. Það eigi að reyna samningaleiðina í sumar, og síðar verði þá málið tekið upp að nýju á næsta þingi samkv. því, sem þá liggur fyrir í málinu.