03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

Almennar stjórnmálaumræður

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er vor í lofti, sólskin úti, þótt áliðið sé kvölds. Það er að koma sumar, Austurvöllur skiptir litum, stjórnarráðsbletturinn grænkar kringum Hannes Hafstein. Á Miklatúni er verið að bylta moldu, þar sem Einar Benediktsson bregður stórum svip yfir dálítið hverfi. Og því er mér vor í huga, að mál þess Alþ., sem nú er að ljúka, einkennast öðru fremur af því, að þau minna á vorannir. Auk dægurmála eru til afgreiðslu ýmis þau mál, sem mestu varða um framtíð og heill okkar þjóðar og afkomumöguleika hennar í framtíðinni. Og því eru mér aldamótaskáldin í huga, að þetta hið 86. löggjafarþing er að hrinda í framkvæmd ýmsum þeim draumsjónum, sem skáldin sáu í hillingum. Einar Benediktsson er mörgum ofarlega í huga:

„Sjáið risastig heims! Tröllbrot rafar og eims

selja rammleik og auð hverri mannaðri þjóð.

Eigum vér einir þol, fyrir vílur og vol,

til að varða og greypa vorn arðlausa sjóð?“

Svellin eru að bráðna af Mývatni, Þjórsá er að brjóta af sér klakann og ryðst fram af eigin afli til sjávar. Við erum að tengja saman vonir skáldanna í fortíðinni og vísindalegar niðurstöður raunsæismanna framtíðarinnar, sem segja, að þeim þjóðum farnist bezt, sem tileinka sér stóriðju, sjálfvirkni, tækni og vélvæðingu í vaxandi mæli. Það, sem einkennir verk þessa þings og núv. stjórnar, eru hin jákvæðu mál, sem verið er að vinna að, mál, sem hafa varanlegt gildi fyrir þjóðina. Við erum nær því marki nú en nokkru sinni áður, að stjórnarvöldum gefist tóm til að sinna þessum mikilsverðu málum. Engin stjórn hefur setið lengur. að völdum samfellt. Hún byrjaði sinn feril með róttækum lækningaaðgerðum á efnahagslífinu á hinu fyrra kjörtímabili og er nú að marka fasta stefnu í stjórn efnahagsmála. Og það er það, sem gerir gæfumuninn. Ég hygg, að engri ríkisstj. hafi verið betur tekið, er hún settist að völdum heldur en vinstri stjórninni, sem kom fyrir réttum og sléttum 10 árum. Ef vinstri stjórnin hefði borið gæfu til að framkvæma aðgerðir á sviði efnahagsmála hliðstæðar þeim, sem núv. stjórn hefur gert og kenndar eru við viðreisn, væri hún e.t.v. við völd enn þann dag í dag. Sú ríkisstj., undir forystu Framsfl., komst aldrei út úr glímunni við dægurmálin og kom því aldrei í verk að gera þá úttekt á þjóðarbúskapnum, sem hún gaf fyrirheit um. Það verk hefur komið í hlut núv. stjórnar.

Árið 1963 markaði að þessu leyti tímamót í hagstjórn á Íslandi, er fyrsta þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin var lögð fram á Alþ. Merkilegar tilraunir höfðu áður verið gerðar í þessa átt og þess er ánægjulegt að minnast nú, að jafnaðarmenn áttu verulega aðild, verulegan þátt í slíkri tilraun á árunum 1934–1937, þegar skipulagsnefnd atvinnumála starfaði og lagði grundvöll að skipulagningu hraðfrystihúsaiðnaðarins í landinu. Þáttaskil í þessum efnum verða þó ekki fyrr en í tíð núv. stjórnar og þetta starf er enn í mótun. Fyrir þessu þingi liggja mörg frv., sem ekki ber hátt í umr., en eru þó mjög athyglisverð. Það eru lög um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og Hagráð. Þau eru stórt spor í rétta átt. Framkvæmdasjóður á að veita fjármagni til fjárfestingarsjóða, er veita einstök lán til framkvæmda og meira til opinberra framkvæmda. Efnahagsstofnunin hefur það hlutverk að undirbúa fyrir stjórnina framkvæmdaáætlanir, semja þjóðhagsreikninga og gera áætlanir um þjóðarbúskapinn fram í tímann. Með stofnun Hagráðs er leitazt við að stofna vettvang, þar sem fulltrúar stjórnvalda, atvinnuvega og stéttasamtaka geti rætt meginstefnuna í efnahagsmálum á hverjum tíma. Með þessu er aðild almannasamtaka að efnahagsstjórninni að verulegu leyti tryggð. Fyrir nokkrum dögum var lögð fram á Alþ. skýrsla um þjóðarframleiðslu og fjármunamyndun fyrir árin 1960–1965, og má af þeim skýrslum mikinn lærdóm draga um verðmætasköpun og verðmætaráðstöfun í landinu. Á árinu 1966 er áætlað að verja til mannvirkja og bygginga hins opinbara samtals 1958 millj. kr., þar af 383 millj. kr. til raforkuframkvæmda, 220 til vatnsveitu og hitaveitu, 800 millj. til samgönguframkvæmda og 550 millj. til bygginga hins opinbera, skóla og sjúkrahúsa og nú eftir fyrirfram gerðum áætlunum. Hv. 6. þm. Sunnl., Helgi Bergs, talaði um sjúkrahúsin, þau væru lengi í smíðum. Það er alveg rétt. Þau hafa verið lengi í smíðum. Nú eru víst vonir um, að á þessu verði breyting. Ekkert sjúkrahús hefur þó verið lengur í smíðum en sjúkrahús, sem framsóknarmenn höfðu forystu um, að byggt yrði á Suðurlandi á sínum tíma og hefur þá sérstöðu, að sú bygging varð aldrei sjúkrahús, eins og til var ætlazt, heldur vinnuhæli og heitir í dag Litla-Hraun. Nei, áætlunargerð skapar möguleika til að vinna kerfisbundið og skipulega að nýtingu þess fjármagns, sem þjóðin ver til fjárfestingar. Sumpart eru áætlanir komnar í framkvæmd og sumpart væntanlegar. Vegaáætlanir eru komnar til fjögurra ára í senn. Unnið er að menntunaráætlun, þar sem gerð verður heildaráætlun um byggingu skóla á öllum stigum fræðsluskyldu um Land allt. Nauðsynlegt er, að slík áætlunargerð nái ekki eingöngu til framkvæmda ríkisins, heldur einnig til framkvæmda sveitarfélaga og er nú þegar komin hreyfing á það mál. Það er athyglisvert, að framkvæmdir sveitarfélaga á seinasta ári eru taldar hafa numið 560 millj. á sama tíma og framkvæmdir ríkisins nema 550 millj. Það sýnir, að núv. stjórn hefur mikinn skilning á því, að sveitarfélögin hafa miklum skyldum að gegna við lausn ýmiss konar þjónustuframkvæmda, gatnagerð og annað slíkt í sveitarfélögunum, til þess að fullnægja kröfum almennings um bætta þjónustu.

Ég legg svo mikla áherzlu á þennan þátt stjórnarfarsins, að betri vitneskja um skipun efnahagsmála er alger undirstaða og forsenda þess, að efnahagsmálum þjóðarinnar verði vel stjórnað. Þessi mál verður að taka föstum tökum, eins og núv. ríkisstj. er að gera. Ríkisvaldið verður að hafa fasta stjórn á þjóðarbúskapnum og þjóðin verður að horfast í augu við niðurstöður þeirra athugana og mikilvægi fjárfestingar í einstökum greinum, sem fyrir liggja. Ég vek athygli á því, að núv. ríkisstj. hefur tekið upp áætlunarbúskap, sem gefur stjórnendum tækifæri til að beina fjármagni og vinnuafli þjóðarinnar hverju sinni að þeim viðfangsefnum, sem skila þjóðinni mestum arði, eru mikilvægastar á hverjum tíma. Hvort það tekst eða ekki, er mikilsverður mælikvarði á hæfni hverrar stjórnar. Þjóðartekjurnar s.l. 3 ár hafa vaxið um 7–8–9%, sem er nær einsdæmi. Sterk stjórn á þjóðarbúskapnum í heild er að sjálfsögðu alger forsenda fyrir, að það markmið náist, sem ég ætla, að forystumenn allra flokka hljóti og verði að stefna að. En það er mikil aukning þjóðarframleiðslu og þjóðartekna og réttlát skipting þeirra á milli landsmanna. En ég vil leggja áherzlu á, að það er ekki einhlítt, að þessi árangur náist í þjóðarbúskapnum í heild. Að því verður að stefna, að framfarir og gróska ríki í öllum landshlutum.

Á árinu 1960 bar ég fram í Sþ. till. um heildarskipulag Suðurlandsundirlendis, þar sem lagt var til, að ríkisstj. léti rannsaka og gera áætlanir um æskilega þróun byggðar, svo að ríkisvaldið geti á þeim grundvelli með sérstökum aðgerðum stuðlað að hraðari uppbyggingu þeirra landsvæða og byggðarlaga, sem undangengnar rannsóknir sýndu, að væru bezt til búsetu fallin, beina fjárfestingu inn á brautir, sem mest gildi hafa. Gert var ráð fyrir, að slík áætlunargerð færi fram í öllum landshlutum um land allt. Ríkisstj. ákvað nokkru síðar að beita sér fyrir landshlutaáætlun um Vestfirði. Að henni var unnið með aðstoð norskra sérfræðinga. Það hefur verið unnið mikið starf að gerð Vestfjarðaáætlunar og á seinasta ári var unnið að slórkostlegri mannvirkjagerð víða á Vestfjörðum í samræmi við niðurstöður þeirrar athugunar á sviði samgöngumála, gerð vega, flugvalla og hafna. Nú hefur verið ákveðið að hefjast handa um gerð framkvæmdaáætlunar fyrir Norðurland og mér er kunnugt um, að sveitarstjórnir á Austurlandi ætla í júlímánuði n.k. að stofna til samtaka, sem yrði ætlað fyrst og fremst það hlutverk að standa að slíkri áætlunargerð með ríkisvaldinu, að gerð landshlutaáætlunar fyrir Austurland, sem byggir á þeirri reynslu, sem fengin er á Vestfjörðum. Með slíkri áætlunargerð einstakra landshluta er farið inn á algerlega nýja braut í stjórn efnahagsmála á Íslandi, sem mikið má vænta af í framtíðinni. Ég vek athygli á því, að í l. um atvinnujöfnunarsjóð er slík áætlunargerð lögfest og Efnahagsstofnuninni falið að annast hana. Fyrst um sinn hefur Vestfjarðaáætlunin miðast við framkvæmdir ríkisins og opinberra aðila, en næsta skrefið er að veita öflugan stuðning við framkvæmdir einkaaðila, einstaklinga og þær, sem undangengnar rannsóknir leiða í ljós, að séu þjóðhagslega hagkvæmar og arðsamar. Fyrir slíkum stuðningi við einkaaðila er séð með stofnun atvinnujöfnunarsjóðs, sem kemur til með að verða öflugur framkvæmdasjóður strjálbýlisins á sínum tíma, þegar honum vex fiskur um hrygg og álbræðslan er komin í gang. Forsenda þess, að landshlutaáætlanir nái tilgangi sínum eru að sjálfsögðu, að horfzt verði af fullri einurð og festu í augu við staðreyndir og fjárfestingu hagað eftir því. En það er ekki einhlítt að gera áætlanir, þótt stórhuga séu. Þær verður að framkvæma, þær verður að undirbúa vel. Þess vegna er mikilvægt, að fólkið sjálft, íbúar heimabyggðanna, fái aðild að undirbúningi landshlutaáætlunar fyrir viðkomandi byggðarlög. Í þessum efnum hefur Vestfjarðaáætlun verið áfátt. En þar er mikil eining um það verk, sem hefur verið unnið, og kemur ekki að sök. Það verður yfir höfuð að stuðla að lífrænni þátttöku fólksins í landinu að stjórn efnahagsmála og atvinnumála. Til að svo geti orðið, verða hinar félagslegu einingar fólksins, hrepparnir, sveitarfélögin að verða almennt mun stærri og sterkari heildir heldur en verið hefur. Með þetta í huga flutti ég á árinu 1960 till. um eflingu héraðsstjórnar og síðar aðra um fækkun og stækkun sveitarfélaga. Sú till. náði að vísu ekki fram að ganga, en efni hennar hefur mætt vaxandi skilningi. Mér er ánægja í því að mega skýra frá því nú, að félmrh. Eggert G. Þorsteinsson hefur ákveðið að skipa 9 manna n. til að fjalla um þetta mikla mál og taka til allsherjar athugunar skipan sveitarstjórna í landinu. Mér er ljóst, að hér er um mjög umfangsmikið verk að ræða, en þörfin, sem kallar ái þessu, er brýn óg er að verða hverjum manni augljós. Annars vegar er hér um að ræða nokkurn vanda í þéttbýlum sveitarfélögum, kaupstöðum og nærliggjandi hreppum, svo sem tvö tilvík sýna, tvö frv., sem liggja fyrir hinu háa Alþ. nú um stækkun lögsagnarumdæmis Keflavíkurkaupstaðar og breyt. á mörkum Hafnarhrepps og Nesjahrepps í Austur-Skaftafellssýslu. Að hinu leytinu kallar framkvæmdaþörfin í dreifbýli á stærri og öflugri einingar. Flest þau verkefni, sem nú bíða úrlausnar í dreifbýli, kalla á stærri félagseiningar heldur en gömlu hrepparnir geta verið. Þetta er þegar viðurkennt í löggjöf um ýmsa mikilsverða málaflokka. Þannig kallar bygging hinna nýju skóla, sem verður að reisa til að tryggja æskunni í dreifbýlinu jafna aðstöðu og æsku þéttbýlisins til náms og framhaldsnáms, á stærri fræðsluhéruð, stærri einingar heldur en hrepparnir geta ráðið við.

Félagsheildir í búnaðarsamtökum eru stærri en hrepparnir. Afleiðingin af þessu hefur orðið sú, að heildirnar í dreifbýlinu hafa óskað þess beinlínis smám saman, að af þeim verði létt ýmsum framkvæmdum, sem eru þeim ofviða, svo sem vegamál og framfærslumál. Sömu sögu og hreppanna er að segja um sýslurnar. Þær eru þess algerlega ómegnugar að standa fyrir nokkrum stórvægilegum framkvæmdum, enda eru samanlagðar tekjur allra sýslusjóða í landinu á s.l. ári ekki nema 18 millj. kr. Ég hygg, að þetta verkefni sé eitt það brýnasta, sem bíður úrlausnar í okkar landi, að gera aðild fólksins að hinum dreifðu byggðum lífrænni og öflugri. Það er enginn vafi á því, að fjárhagslega öflug sveitarfélög geta haft mikilsverðu hlutverki að gegna á sviði rafvæðingarmála og ýmissa þátta landbúnaðarmála, með því að kaupa með aðstoð ríkisins þær jarðir, sem ekki eru arðsamar, til að auðvelda bændum að yfirgefa búskap og flytjast til annarra arðsamari starfa, og til að flýta fyrir rafvæðingu á þau býli, sem augljóst er að verða byggð áfram. Stórar einingar á sviði sveitarstjórna eiga mikilsverðu hlutverki að gegna í sambandi við undirbúning að gerð landshlutaáætlana, sem stefna að því að byggja upp í dreifbýlinu öflug atvinnutæki, einkum á sviði iðnaðar, með það fyrir augum, að vöxtur þjóðarframleiðslu og þjóðartekna geti átt sér stað sem jafnast um landið allt, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Það er í ljósi þessarar heildarstefnu, sem verður að líta á einstaka þætti í framvindu atvinnumála. Það er staðreynd, að þeim þjóðum vegnar bezt, sem hafa tileinkað sér vélvæðingu og aukinn iðnað. Við verðum að gera skipulega áætlun um uppbyggingu iðnaðar í þorpum og sjávarplássum um land allt, svo að unga fólkið, sem vex upp í sveitunum, hinum dreifðu byggðum, verði ekki að hverfa úr sínum landshluta, úr sínu héraði, heldur geti snúið sér að arðsömum verkefnum í sínu héraði.

Við verðum að leggja áherzlu á að nýta þær auðlindir, sem Ísland býr yfir, orkuna í fallvötnum, og stuðla að betri nýtingu sjávarafla með skipulögðu átaki. Við Íslendingar eigum þess nú kost að ráðast í þá hagkvæmustu virkjun, stórvirkjun við Búrfell, sem völ er á, með því að selja verulegan hluta orkunnar til álbræðslu við Straumsvík. Við eigum völ á því að nýta nokkur auðæfi á botni Mývatns. Ég hygg, að það sé ekki áhorfsmál, að hvort tveggja miðar í rétta átt, ekki bara vegna þeirra peninga, sem koma til landsins, heldur ekki síður vegna þess, að við erum að fá nýja tækni, ný vinnubrögð, vonir um að geta ráðizt í enn þá stærri verkefni á eigin spýtur. Þjóðinni fjölgar mjög ört. Stórir árgangar ungra manna og kvenna koma til starfa ár hvert. Það er frumskylda hverrar ríkisstj. að leggja grundvöll að því, að hver vinnufús hönd fái verk að vinna. Við verðum 400 þús. manna þjóð eftir 34 ár, um aldamótin. Þetta verkefni er það stærsta, sem við blasir. Framsóknarmenn virðast ekki sjá nema eina leið í atvinnumálum, að efla landbúnað, auka landbúnaðarframleiðsluna. Ritari Framsfl. hefur staðið fyrir flutningi till. á Alþ. um að efla byggð í Selvogi til aukinnar mjólkurframleiðslu, eins og það sé nú höfuðnauðsyn íslenzkra efnahagsmála í dag. Við okkur blasa mikil verkefni, hvert sem litið er. Við verðum að vinna skipulega að lausn þeirra eftir fyrirfram gerðum áætlunum. Við verðum að tileinka okkur í ríkara mæli þau vinnubrögð, sem nútíminn og framtíðin kallar á, úrræði jafnaðarstefnunnar og Alþfl. Þessi verkefni kalla á öfluga samstöðu vinnandi fólks til sjávar og sveita á sviði stjórnmála. Eina leiðin til að tryggja afl og mátt umbótafólksins í landinu, eins og nú standa sakir, er að efla Alþfl. Ég heiti á alþýðu manna, hvar í flokki sem þeir hafa áður staðið, að snúa bökum saman og efla íslenzka jafnaðarmannaflokkinn, Alþfl., til aukinna áhrifa á gang þjóðmála.