03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2668 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

Almennar stjórnmálaumræður

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Heiðruðu hlustendur. Enda þótt mikið hefi verið rætt um álmverksmiðju í Straumsvík að undanförnu, bæði innan þings og utan, hefur þó einni staðreynd málsins lítt verið haldið á lofti, en hún er sú, að álmverksmiðjur reynast öllu lífi umhverfis sins hinn mesti vágestur. Þetta er mikilsvert atriði í heilbrigðislegu tilliti og hvarvetna vandamál, sem leitazt er við að leysa eftir mætti. Hér virðist það hins vegar að mestu sniðgengið og látið eins og ekkert sé. Á þessa hlið málsins benti ég við umr. í hv. Ed., en ekki var sú ábending látin tefja afgreiðslu þess um svo mikið sem eina mínútu, og játaði þó hæstv. iðnmrh., að upplýsingar mínar kæmu honum á óvart. Mér þykir rétt, þótt seint sé, að kynna landsmönnum lítillega, hvað hér er um að ræða. Alþm. benti ég á það í tæka tíð. Frá öllum álmverksmiðjum berast eiturefni út í umhverfið, aðeins misjafnlega mikið eftir því, hvernig um hnútana er búið. Hættulegust þessara efna eru flúorsamböndin, einkum flúorvetni, enda eru þau talin með sterkustu eiturefnum, sem til eru. Ef maður neytir 5—10 gramma af flúorsalti, er honum dauðinn vís innan fárra klukkustunda. Ef flúorvetni í andrúmsloftinu nær 100 mg í einum rúmmetra, þolir það enginn maður í heila mínútu. Sé magnið fjórum sinnum minna eða 25 mg, má þola það örstutta stund. Flúorinn ertir og særir húð og slímhúðir og af því leiðir einkenni hinnar bráðu eitrunar, svo sem húðsár, hósta, andarteppu og verki í kviðarholi. Á vægu stigi kemur sú eitrun fyrir í sambandi við rekstur álmverksmiðju. Hitt er þó algengara, að þar sé hættan meiri á hægfara eitrun. Þá verður sérkennileg breyting á beinum líkamans, þau verða að útliti eins og mölétin, út úr þeim vaxa beinaukar hér og þar, en óþægindin verða verkir og stirðleiki í líkamanum. Þessari hægfara eitrun á háu stigi verður hver sá maður örugglega fyrir, sem fær 20–80 mg af flúor daglega í mörg ár. Það er atvinnusjúkdómur, sem starfsmenn álmverksmiðja fá, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar þeim til verndar. Svipað gildir um fólk, sem lengi býr í nágrenni þessara verksmiðja. Það verður fyrir óhollum áhrifum flúorsins, ef varúðar er ekki gætt. Eiturefnin frá álmverksmiðjunum eru ekki aðeins varasöm mannlegri heilsu, þau eru einnig skaðleg dýrum og jurtagróðri. Ég sá nýlega ritgerð eftir norskan prófessor. Greinin, sem ber yfirskriftina „Álmverksmiðjur og skógur“, hefst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Blöðin segja öðru hverju frá tjóni, sem orðið hefur á skógi, graslendi og húsdýrum umhverfis nokkrar af álmverksmiðjum okkar. Tjónið hefur stundum verið mjög mikið og hvað skógana snertir jafnvel hrein eyðilegging.“

Þannig farast þessum fræðimanni orð og síðar ræðir hann nánar eyðilegginguna á trjágróðrinum. Þótt blöð í Noregi segi frá slíku tjóni þar, er ekki haft hátt um það hér á landi. Graslendið í nágrenni álmverksmiðja eitrast einnig af flúor, og sauðfé, geitur og nautpeningur, sem á þeim gróðri nærist, veikist oft alvarlega og fellur. Þannig er þetta bæði í Evrópu og í Ameríku. Það fer því ekki á milli mála, að úrgangsefnin frá álmverksmiðjum eru hættuleg mönnum, dýrum og jurtagróðri. Erlendis er lögð áherzla á að draga sem mest úr þessari hættu, en hvað skal gert í því efni hér á landi? Mér skilst, að það sé harla lítið. Í verksmiðjunni í Straumsvík er ákveðið að nota opna bræðsluofna, sem sleppa meira af eiturlofti en nokkur önnur ofnategund. Um 70% af flúornum, sem þar myndast, fer beint út í umhverfið. Í Noregi eru mest notaðir lokaðir ofnar af svo nefndri Söderbergs gerð. Frá þeim fara aðeins 30–40% af eiturefnunum út í andrúmsloftið. Í Straumsvík á engan útbúnað að hafa til þess að hefta og eyða reyk og ólofti. Slíkur öryggisútbúnaður er þó alls staðar talinn sjálfsagður, einnig þar sem hentugust gerð bræðsluofna er notuð. Hvers vegna skulu þessar varnir vanræktar á Íslandi? Er það ekki fyrst og fremst til að spara hinu erlenda fyrirtæki kostnað? Reykvarnar- og eyðingartækin eru mjög dýr. Sú afsökun, sem höfð er á takteinum, er, að hér þurfi ekki öryggisráðstafana við, landslag og veðurfar sjái um dreifingu og eyðingu eiturefnanna. Hvort þetta reynist rétt, veit enginn nú og það er vitavert gáleysi að haga ekki vörnum svo sem gert er í öðrum siðmenntuðum löndum.

Þegar verksmiðjan í Straumsvík er tekin til starfa, dreifir hún daglega út í umhverfið 1900 kg af flúorefnum og eftir stækkunina 3800 kg af þessu eitri. Þessi verður skammturinn dag hvern árið um kring. Þetta flúormagn dreifist víðs vegar um og mengar vatn og sjó, jarðveg og jurtir og allt kvikt, sem fyrir því verður. Rannsóknastofnun iðnaðarins hefur gefið skýrslu um þessa væntanlegu mengun. Hún er þannig unnin, að stofnunin biður erlenda álmbræðslufyrirtækið um upplýsingar og byggir síðan niðurstöður sínar á þeim. Þetta tel ég hæpin vinnubrögð, enda má í skýrslunni finna ýmislegt, sem stangast á við skoðanir erlendra fræðimanna. Þar er t.d. sagt, að ósannað mál sé, að menn í nágrenni álmbræðslna hafi veikzt af völdum flúors. Þetta er ekki rétt, því að það hefur komið fyrir a.m.k. í einu landi í Evrópu. Þar var um að ræða skólabörn í nágrenni álmverksmiðju.

Fullyrt er í skýrslunni, að hættumarkið hvað heilsufar manna snertir, liggi við 3 mg flúors í einum rúmmetra lofts. Í merku fræðiriti ensk-amerísku, útgefnu árið 1965, er þetta hættumark sett við 2 mg. Hér ber því talsvert á milli. Yfirleitt eru hættumörk ákveðin nokkru hærri í skýrslunni en gerist í fræðiritum um þessi efni og hlýtur slíkt að vekja á henni nokkra tortryggni. Ég gerði nánari grein fyrir þessum mismun í hv. Ed. nýlega, en get ekki endurtekið það hér tímans vegna. Niðurstaða þessarar skýrslu er öll heldur óljós og helzt á þá leið, að ekkert verði um hættuna sagt fyrr en eftir á. Það á að treysta á vind og veður þar syðra. Nú er suðvestanvindur þar tiltölulega algengur og þá leggur reykinn beint frá verksmiðjunni inn yfir Hafnarfjarðarbæ. Ef lognstundum staðarins er bætt við, verða þær stundir allmargar, sem flúorloftið berst inn yfir Hafnarfjörð og magnið eigi lítið, einkum eftir stækkun verksmiðjunnar. Þá verður flúormagn 30–50 mg í hverju kg þurrfóðurs og er það talsvert yfir hættumark. Í og umhverfis Reykjavík getur flúormagnið þá orðið 20–30 mg í einu kg þurrefnanna, og er það á mörkum þess að sýkja búpening.

Ég verð að telja það ólíklegt, að svo mikið flúormagn sé með öllu hættulaust heilsufari manna til langframa. Hér bar stjórnvöldum okkar að hafa vaðið fyrir neðan sig, en það hafa þau sannarlega ekki gert. Eðlilegar varúðarráðstafanir eru forsómaðar. Slíkt þekkist ekki í siðmenntuðum löndum, hvorki í Evrópu né í Vesturheimi. Í þessu efni á að setja okkur Íslendinga skör lægra en aðrar siðmenntaðar þjóðir og líklega að skipa okkur á bekk með nauðstöddum Afríkuþjóðum.

Ég fæ ekki skilið, hvers vegna gert var út um þetta mál án þess að leita álits sérfræðinga heilbrigðisþjónustunnar íslenzku. Mér vitanlega var það ekki gert. Það sýndist þó eðlilegt í svo mikilsverðu heilbrigðismáli. Mengun andrúmsloftsins í þéttbýli nútímans er vaxandi vandamál. Tóbaksreyk er kennt um aukinn tíðleika lungnakrabba. Sumir fræðimenn efast um þetta og vilja frekar kenna öðru um, svo sem mengun frá útblæstri bifreiða og uppgufun tjöruefna frá malbiki. Um flúor er það sannað, að hann ertir og særir slímhúðir manna. Hvaða áhrif sú erting getur haft á löngum tíma, er rannsóknarefni, en það er rík ástæða til að vera á verði og gera sér ekki leik að voðanum.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að skora á hæstv. ríkisstj. að láta þegar í stað fram fara ýtarlega athugun á þeirri hlið málsins, sem ég hef nú gert að umtalsefni, ekki neina málamyndarathugun, heldur hlutlæga rannsókn. Einnig skora ég á hana að beita sér af alefli fyrir því, að sem fullkomnastur öryggisútbúnaður verði settur í væntanlega álmverksmiðju í Straumsvík. Hentugir bræðsluofnar og öflug reykeyðingartæki er lágmark þess, sem krefjast verður. Tryggilegast er að bíða með staðfestingu l. um álmbræðslu, þar til vissa er fengin fyrir, að væntanleg verksmiðja fullnægi lágmarkskröfum um hollustuhætti. Eftir á verða verksmiðjueigendur áreiðanlega erfiðari viðfangs, því að öryggisútbúnaðurinn er dýr. Það er út af fyrir sig gott að bæta mönnum heilsutjón með fé, en miklu meira er um hitt vert að verja fjármunum til þess að firra menn slíku tjóni. — Góða nótt.