03.05.1966
Sameinað þing: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

Almennar stjórnmálaumræður

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það var ekki rismikil stjórnarandstaða, sem hóf eldhúsdagsumræður hér á hv. Alþ. í gærkvöldi. Það vantaði að vísu ekki fullyrðingarnar og ekki hafa þeir, sem hafa talað hér í kvöld, bætt þar um. Fullyrðingar þeirra hafa verið með þeim hætti, að allir skyni bornir menn, sem fylgzt hafa með gangi þjóðmála síðustu áratugi, urðu furðu lostnir, en það var varla við öðru að búast. Mennirnir, sem 1960 spáðu móðuharðindum af völdum ríkisstj. og stuðningsflokka hennar, mennirnir, sem 1960 spáðu stöðnun og samdrætti og reiknað höfðu út, að 4000 Íslendingar yrðu atvinnulausir, ef stefna ríkisstj. og stuðningsflokka hennar næði fram að ganga, virtust ekkert hafa lært og öllu gleymt. Þeir virtust ekkert hafa séð af þeim stórfelldu framförum, sem átt hafa sér stað í þjóðlífi Íslendinga á s.l. árum. Þeir virtust ekki hata heyrt um hina hagstæðu þróun, sem átt hefur sér stað í gjaldeyris- og peningamálum þjóðarinnar. Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því, að almenningi á Íslandi hefur aldrei liðið betur en nú. Þeir voru haldnir algerri pólitískri blindu, sem sennilega verður erfitt að lækna. Skylt er hins vegar að vekja athygli þjóðarinnar á slíkum málflutningi. Hv. 5. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, skellti sér fyrstur á skeiðið. Hann vantaði ekki lýsingarorðin, hann Hannibal, þegar hann var að lýsa ástandi íslenzkra þjóðmála frá sínum bæjardyrum séð, að hans dómi alls staðar eymd og volæði, afturför og samdráttur. Hv. þm. treysti sér þó ekki til eða vék sér undan að segja söguna um þær framfarir, sem átt hafa sér stað á sviði sjávarútvegsmála í tíð núv. stjórnarsamstarfs, og hann brá fyrir sig erindi eftir skáldið Þorstein Erlingsson, þar sem segir: „Sækt'ana í Hafnarfjörð söguna þá, þeir segja hana betur en ég.“ Og svo bætti hann við: Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. — Þetta orðtak mætti Hannibal Valdimarsson oftar hafa í huga.

Já, suður í Hafnarfirði og suður með sjó og víðs vegar í útgerðarslöðum þessa lands er sú saga sögð á annan hátt en Hannibal Valdimarsson vildi láta í skína hér í gærkvöldi. Hins vegar kom form. Framsfl., hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, eins og vanalega með fullyrðingar út í loftið um málefni sjávarútvegsins og hélt því blákalt fram, að allt væri hér í kaldakoli og ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar beinlínis stefndu að því að koma sjávarútveginum á kné.

Hv. þm. komst þó ekki fram hjá þeirri staðreynd, að í tíð núv. ríkisstj. hefur sjávarafli landsmanna tvöfaldazt. Hann var 1960 593 þús. smál., en 1965 1.196 millj. smál. Hann komst heldur ekki fram hjá þeirri staðreynd, að útflutningsverðmæti sjávarafurða 1960–1964 höfðu aukizt úr 2.650 millj. kr. í 4.380 millj. kr.

Eysteinn Jónsson hafði hins vegar skýringar á hlutunum. Það voru hinir dugmiklu íslenzku sjómenn og stjórnsömu útgerðarmenn, sem hér voru að verki. Hann reyndi að telja þjóðinni trú um, að hægt hefði verið að draga svo mikinn afla úr sjó, sem raun ber vitni, með þeim fiskiskipakosti, sem hér var til, er vinstri stjórnin gatst upp. Hann reyndi einnig að halda því fram, að þau fiskvinnslufyrirtæki, sem í landinu voru við lok vinstri stjórnarinnar, hefðu haft möguleika til þeirra afkasta, sem fiskvinnslustöðvarnar hafa í dag. Sízt sæti á mér að gera lítið úr hlut sjómanna og útgerðarmanna. Mér er fullkomlega ljóst, að án þeirra hefði þetta aldrei gerzt. Ég veit líka fullvel, að engir gera sér betur grein fyrir því en sjómennirnir og útgerðarmennirnir, að hefði ekki verið breytt um stefnu 1960, þá hefðu ekki hinar stórkostlegu framfarir í sjávarútveginum átt sér stað.

Hverjir voru nú möguleikar íslenzks sjávarútvegs, þegar vinstri stjórnin skildi við og Eysteinn Jónsson lét af störfum fjmrh.? Átti þá íslenzka þjóðin gjaldeyrissjóði til kaupa á nýjum fiskiskipum? Hafði vinstri stjórnin beitt sér fyrir því, að Stofnlánadeild sjávarútvegsins yrði gerð virk á ný? Hafði vinstri stjórnin beitt sér fyrir hagræðingu á sviði fiskiðnaðarins? Svarið er: Nei.

Ástandið í þessum málum var, eins og öllum er í fersku minni, þannig: Öllum gjaldeyrissjóðum hafði verið eytt, og við höfðum meira að segja orðið að taka sérstök yfirdráttarlán erlendis til þess að flytja inn nauðþurftir okkar. Innflutningur fiskiskipa var háður leyfum og sjávarútvegur almennt í samdrætti.

Hver hefur hins vegar þróunin í sjávarútvegsmálum verið í tíð núv. ríkisstj.? Stefna ríkisstj. og stjórnarflokkanna í efnahags- og peningamálum hefur leitt til þess, að safnazt hafa saman stórkostlegir gjaldeyrissjóðir, sem valdið hafa því, að innflutningur fiskiskipa hefur verið gefinn frjáls, eins og nær allur annar innflutningur landsmanna, enda aukning fiskiskipastólsins á árunum 1960–1965 rúm 33% eða um 20 þús. smálestir og er nú um síðustu áramót rúmar 80 þús. smálestir.

Stofnlánasjóðir sjávarútvegsins hafa verið efldir, frystihús byggð, síldarverksmiðjur byggðar. Afkastageta frystihúsa hefur aukizt 1961–1965 úr 1927 lestum í 2503 lestir, miðað við 16 klst. vinnu, eða um 25%. Bræðsluafköst síldarverksmiðja hafa aukizt úr 70.840 málum í 120.250 mál á sólarhring. Þróarrými síldarverksmiðja hefur aukizt úr 414 þús. málum í 700 þús. mál.

Dettur nokkrum manni í hug, að þetta hefði verið hægt, ef stefna Eysteins Jónssonar í þessum málum væri enn við lýði? Í ræðu sinni í gærkveldi gerði Eysteinn Jónsson álbræðslusamninginn að umræðuefni. Það er þar, eins og í öðrum framfaramálum, sem núv. stjórnarflokkar hafa beitt sér fyrir, sem pólitískt ofstæki formanns Framsfl. virðist ráða ferðinni og tæplega 8 ára útivist hans úr stjórnarráðinu virðist gjörsamlega hafa ruglað hann í ríminu.

Það er vissulega lærdómsríkt fyrir okkur, sem eigum heima í Reykjaneskjördæmi, að heyra málflutning framsóknarmanna í þessu máli, en einn þm. Framsfl. sagði: Staðsetningin ein veldur því, að Framsfl. er á móti málinu. Það skiptir engu máli, hversu mikið hagsmunamál þetta er fyrir þjóðina, þaðan af síður fyrir byggðarlögin við sunnanverðan Faxaflóa, þó sérstaklega Hafnarfjörð.

Form. Framsfl. lagði á það megináherzlu í gærkveldi, að Framsfl. væri allur á móti máli þessu og hefði beinlínis þá skoðun, að hér væri um alranga og stórhættulega stefnu ríkisstj. og stuðningsflokka hennar að ræða.

Ég vil leyfa mér að benda á nokkur mjög mikilsverð atriði þessa stórmáls og afstöðu framsóknarmanna til þeirra.

Framsóknarmenn halda því fram, að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt, að raforka frá Búrfellsvirkjun verði 28% ódýrari fyrir almenning en ella mundi og allt upp í 60% ódýrari fyrstu árin. Framsóknarmenn halda því fram, að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt, að gjaldeyristekjur þjóðarinnar geti aukizt um 300 millj. kr. á ári, sem getur skapað auknar þjóðartekjur um 1.200 millj. Framsóknarmenn halda því fram, að skattgjald af álbræðslunni, sem mun nema um 1.400 millj., muni ekkert gott af sér leiða. Framsóknarmenn halda því fram, að það sé óhagkvæmt fyrir Hafnfirðinga að eignast nýja og fullkomna höfn, sem greidd væri af rekstri álbræðslunnar, að það sé óhagkvæmt fyrir Hafnfirðinga að fá 12 millj. að meðaltali á ári í auknum tekjum til bæjarsjóðs, að það sé óhagkvæmt fyrir Hafnarfjörð að fá 5 millj. í lóða- og gatnagerðargjöld og það sé óhagkvæmt fyrir byggðarlögin hér syðra, að atvinnumöguleikarnir vaxi.

Hér er um stórmál að ræða, sem skapa mun nýja möguleika til atvinnuaukningar í landinu og þá er Framsókn auðvitað á móti.

Hvað segir sagan um afstöðu Framsfl. til hinna ýmsu stórmála á undanförnum áratugum? Þegar sjálfstæðismenn vildu ráðast í virkjun Sogsins, voru framsóknarmenn á öndverðum meiði. Þegar sjálfstæðismenn höfðu forystuna í nýsköpun atvinnuveganna eftir heimsstyrjöldina, voru framsóknarmenn á móti. Þegar ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. beitti sér fyrir lausn landhelgisdeilunnar, var Framsókn á móti. Þeir voru á móti viðreisnarstarfi núv. ríkisstj. og nú eru þeir á móti einhverju mesta framfaramáli, sem ráðizt hefur verið í hin síðari ár.

Hafi það komið fyrir, að þeir hafi ekki fundið eitthvert þjóðþrifamál til að vera á móti, þá hafa þeir bara verið á móti Esjunni og líkt henni við mykjuhaug.

Góðir áheyrendur. Í dag einkennist íslenzkt þjóðlíf af grósku og uppbyggingu. Hvarvetna blasa við stórstígar framfarir, sem bera vott um bjartsýni og trú þjóðarinnar á sjálfa sig og framtíðina. Öll eigum við mikið í húfi, að vel takist til um málefni okkar og þjóðin haldi áfram á braut framfara og hagsældar. Enginn á meira í húfi en hin upprennandi kynslóð. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætið gert sér grein fyrir því, að æska þessa lands er fær um að taka þátt í uppbyggingarstarfi því, sem unnið er, taka á sig sinn skerf af þeirri ábyrgð, sem fylgir því að vera þegn í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Þess vegna hefur Sjálfstfl. ávallt falið ungum mönnum og konum frumkvæði og forystustörf á vettvangi opinberra mála, og því trausti hefur ekki verið brugðizt. Í þeim kosningum, sem í hönd fara, setur æskan mikinn svip á þann baráttuhóp, sem er í fylkingarbrjósti fyrir Sjálfstfl. Því ganga sjálfstæðismenn bjartsýnir til þeirra kosninga, í trausti þess, að góður málstaður og dugmiklir baráttumenn muni sigurs njóta. — Góða nótt.