15.12.1965
Sameinað þing: 22. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

Aluminíumverksmiðja

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal viðurkenna, að ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir ástæðum, sem til þess lægju, að hv. stjórnarandstæðingar óskuðu nú á þessu stigi málsins eftir umr. um þetta mál. Það er hins vegar alger misskilningur, sem haldið hefur verið fram, að þessi skoðun mín eigi nokkuð skylt við það að vilja komast hjá umr. um málið, og þeir, sem hafa haldið því hér fram í umr., eru bara fákunnandi um það, sem fram hefur farið í þinginu, umr. fyrr og síðar um málið. En ég held nú helzt, að hinir ágætu fulltrúar Alþb. í þmn., sem hefur fjallað um þetta mál, hafi óskað eftir þessu fyrir sitt leyti, til þess að veita einum af sínum varaþm. bara litla jólaglaðningu, svo hann fengi nú að láta til sín heyra þann tíma, sem hann er hér rétt fyrir jólin. Og ég ætla ekki að ergja hann neitt með því að fara að munnhöggvast við hann um það, sem hann hafði fram að færa. Það var að mestu leyti, að mínum dómi, svo langt utangátta, að það er alveg óþarfi. Spurningin er svo aftur um form. Framsfl., hvað honum hafi gengið til og Framsfl. að vilja óska eftir þessum umr. núna. Það fór að kvisast hér í göngum í dag í þinginu, að formanninum væri búið að takast að leggja beizli við alla sína liðsmenn og hann langaði til að fá tækifæri til að lýsa því yfir fyrir jólin líka við þjóðina, að þeir ætluðu að standa allir sem einn á móti þessu máli. En það getur verið nokkur ástæða til þess, þegar svona stendur á, að óska eftir viðræðum til þess að lýsa slíkri afstöðu. Það var hins vegar vitað, að Framsfl. tók þátt í því í fyrra, og lagði til menn í þmn. fyrst stjórnarandstöðuflokkanna, vegna þess að flokkurinn hafði, ég held fyrir réttu ári síðan, eða 6. des. í fyrra, tekið þá ákvörðun, að hann vildi kanna til hlítar þann möguleika að koma upp alúminíumbræðslu hér á Íslandi. Að þessu vék nú hv. l. þm. Austf. einnig, en hann taldi þó, að nú á þessu stigi málsins væri einmitt ástæða til þess að vera búinn að átta sig og lýsa því yfir, að flokkurinn væri algerlega á móti málinu. Samt veit hann, form. Framsfl., frá sínum fulltrúum í þmn., að það er verið þessa dagana að ganga frá samningsuppköstum, frumdrögum að samningum, sem átt hafa sér stað milli samninganefndarmanna, íslenzkra og erlendra, í þessu máli, og alveg næstu daga veit hann einnig, að þessi frumdrög verða afhent í fyrstu mynd sinni fulltrúum Framsfl. í þmn. En einmitt, þegar að þessu er komið þykir ástæða til þess, áður en þetta liggur fyrir, að taka þessa mikilvægu ákvörðun fyrir jólin, að Framsfl. skuli nú vera á móti málinu. Ég get ekki annað en látið í ljós undrun mína yfir þessu, vegna þess að það hefur ekki farið á milli mála, að það hefur verið tilgangur og ætlun ríkisstj., alveg á næstu dögum, svo fljótt sem hún gæti við komið og einmitt í því hléi, sem vitað er um að verður á þingfundum, að láta ekki aðeins fulltrúum í þmn., heldur öllum þm. í té frumdrög að þeim samningsuppköstum, sem samninganefndarmenn hafa komið sér saman um, til þess að mönnum gæfist nægur tími og tækifæri til að hafa uppi gagnrýni sína á þessum samningsuppköstum, ef að því skyldi koma, að ríkisstj. sjálf teldi ástæðu til þess að leggja þau fyrir þingið.

Nú, en þetta er ekki annað en að menn óska að hafa mismunandi aðferðir við málið.

Ég vil hins vegar út af ræðu hv. I. þm. Austf. aðeins nefna örfá atriði á þessu stigi málsins. Hann segir, að okkur sé vel viðráðanleg bygging raforkuvera án nokkurra tengsla við alúminíumverksmiðju. Hann veit þó ósköp vel, að lagðar hafa verið fyrir þingið skýrslugerðir og ýtarlegar upplýsingar frá starfsmönnum Raforkumálaskrifstofunnar, sem eru ekkert fremur embættismenn ríkisstj. en annarra þm., í sambandi við raforkuframkvæmdir og áætlanir í þessu landi, sem sýna, að það er engin virkjun okkur jafn viðráðanleg og sú stórvirkjun, sem ráðgerð er við Búrfell í sambandi við stóriðju og þá alúminíumbræðslu hér á landi. Og allir aðrir virkjunarmöguleikar, sem gerð hefur verið grein fyrir svo tugum skiptir, kosta hundruðum millj. kr. í stofnkostnaði meira en þessi virkjun og hundruðum millj. kr. í rekstrarkostnaði á 10–15 árum en nokkur önnur virkjun. Svo lætur þessi hv. þm. sig ekki muna um að segja hér, að þetta skipti engu máli. Það skipti bara engu máli. Þetta sé allt vel viðráðanlegt og ekkert erfiðara fyrir okkur að ráða við stórvirkjun einir núna við Búrfell en við Sogsvirkjunina á sínum tíma. Það kynni nú að vera, að við hefðum fengið dálitla aðstoð við Sogsvirkjunina á mörgum stigum málsins. Og þetta sögðu nú reyndar sömu mennirnir, sem töluðu hér fyrir hönd Alþb., þó að þeir væru nú ekki afskaplega hrifnir af þeirri aðstoð, sem Ameríkanar veittu Íslendingum í sambandi við virkjunarframkvæmdir og aðrar stórframkvæmdir hér á landi á sínum tíma, bæði í Marshall-aðstoð og í óafturkræfum framlögum og öðru slíku, sem ekki er nú til að dreifa. En þegar menn eru komnir á það stig, að mönnum er bara alveg nákvæmlega sama, þó einhverjar framkvæmdir kosti hundruðum millj. kr. meira og rekstrarkostnaðurinn, sem áætlaður er næstu 10–15 ár, fari einnig hundruðum millj. kr. fram yfir það, sem ella stendur til boða, þá er von, að mönnum sé auðvelt að taka afstöðu til mála og segja: Ég er bara alveg á móti þeim. Það er ekki verið að færa skynsamleg rök fyrir því, af hverju menn eru á móti þeim.

Um vinnuaflsþörfina hefur mönnum orðið mjög tíðrætt. Mér er alveg ljóst, að það er eitt af þeim miklu vandamálum í sambandi við þetta mál, vinnuaflsþörfin hér á landi. Fyrir þessu var gerð ýtarleg grein í skýrslu stjórnarinnar frá því í maí-mánuði, og ég lýsti í þeim umr. áhyggjum mínum einmitt út af þessu atriði. Það var hins vegar ekki þessi gállinn á þessum herrum hér fyrir nokktum árum, þegar verið var að tala um það, að viðreisnarstjórnin væri að skipuleggja atvinnuleysi í landinu. Þá var verið að tala um móðuharðindi af manna völdum, og að ríkisstj. miðaði allt sitt ráð við það að skipuleggja atvinnuleysi í landinu, enda mundu verða hér þúsundir atvinnuleysingja eftir nokkur ár, ef viðreisnarstjórnin væri hér áfram við völd. Nú er það ekki atvinnuleysið, sem þeim vex í augum, þessum mönnum, nei, það er atvinnan. Það er skorturinn á vinnuaflinu og það er rétt, hér er mikið vandamál á ferðinni. Um það segir hv. 1. þm. Austf., að séu til engar áætlanir. Þær liggja fyrir í skýrslu ríkisstj., sem lögð var fyrir í maí-mánuði, og hann veit það líka, eða á að geta vitað það, í gegnum sína fulltrúa í þmn., að það er verið að endurskoða allar þessar áætlanir um vinnuaflsþörfina, og þessum þm. öllum verða látnar í té fyllstu og nýjustu áætlanir um þetta efni, ásamt með öðrum uppköstum að samningum, sem kynnu að verða lagðir hér fyrir á næstunni og upp úr áramótum. Svo segir þessi hv. þm., að nú sé farið að ráðgera að flytja inn etlent vinnuafl — nú sé farið að ráðgera — og þá sé kominn tími til fyrir Framsfl. að segja, nei, hingað og ekki lengra. Hér sé einhver ný stefna á ferðinni um erlent vinnuafl, sem aldrei hafi verið rædd áður. Nú, það hefur verið flutt inn vinnuafl í landbúnaðinn, það hefur verið flutt inn vinnuafl í útgerðina hjá okkur, og það hefur alltaf verið ráðgert, frá því að þmn. kom á laggirnar, og var í fyrsta uppkastinu frá því í maí, að möguleiki væri á því að flytja inn erlent vinnuafl fyrir alúminíumverksmiðjuna á grundvelli þeirra íslenzku laga, sem eru fyrir hendi um rétt útlendinga til atvinnu hér á Íslandi. Og aðalatriði þessara I. hafa oft verið rædd í þmn. og eru þau, að félmrh. verður að veita leyfi sitt til þess, að hann verður að fá umsögn verkalýðssamtakanna um þetta, og í framkvæmdinni hefur það alltaf ráðið, aldrei verið gengið á móti þeirra tillögum í þessu sambandi. Það er þess vegna alls engin ný stefna, sem hér hefur verið ráðgerð, og þetta hefur verið ráðgert, en engin athugasemd hefur komið fram um þetta fyrr. Hitt er annað mál, að hið svissneska fyrirtæki og fyrirsvarsmenn þess hafa alltaf sagt, að þeir mundu leggja megináherzlu á það að hafa ekki erlent vinnuafl, heldur íslenzkt vinnuafl, og æfa íslenzkt vinnuafl til þeirra starfa, sem nauðsynlegt er að hafa nokkra æfingu í í verksmiðjunni. En fyrst í stað hafa þeir alltaf viljað áskilja sér rétt til þess að hafa allt að 50 erlenda aðila, sérhæfða menn við reksturinn, og e.t.v. einhverja fleiri fyrst í stað við byggingarframkvæmdirnar.

Þetta var nú ekki geigvænlegra en það eftir því, sem mér er sagt, í Húsnesi í Noregi, sem hér hefur verið vitnað til, að meðan á byggingarframkvæmdum stóð og vinnuaflsskorturinn var þar mestur, höfðu þeir skip með verkafólki liggjandi við bryggjuna til þess að bæta úr vinnuaflsskortinum, sem var fyrir hendi. Og það kemur fram í skýrslu ríkisstj. frá því í maí, og hefur margsinnis verið áréttað, að vinnuaflsskortur verður mestur, þegar fer saman vinnuaflsþörfin, ef af þessum framkvæmdum verður, við sjálfa byggingu alúminíumbræðslunnar og við stórvirkjunina við Búrfell, á árinu 1968, um takmarkaðan tíma.

Ég skal ekki spá neinu né fullyrða neitt um það, hvernig bezt eða haganlegast verður að leysa vandræðin, sem af þessum toppi leiðir, en auðvitað er það engin fjarstæða, um takmarkaðan tíma, að erlent vinnuafl yrði tekið til þessara þarfa, ef allt annað yrði stórhættulegt íslenzkum atvinnurekstri, eins og hér er verið að gera skóna.

Annars er þetta ekki nýtt deiluatriði og mér er alveg tjóst, að það er alvarlegt, en ríkisstj. lýsti því líka yfir í skýrslu sinni, að hún mundi ekki aðeins láta fara fram endurnýjaða rannsókn á vinnumarkaðinum, heldur gera ráðstafanir til þess, þegar vinnuaflsþörfin væri mest, að það yrði ekki öðrum íslenzkum atvinnuvegum að tjóni. En þær framkvæmdir er ekki hægt að gera nema í sambandi við áframhald fjáröflunar- og framkvæmdaáætlana ríkisstj. og að sjálfsögðu verður það haft í huga af hálfu stjórnarvaldanna, ef af þessum framkvæmdum verður. Hitt er svo annað mál, að þó það yrði samþ. hér á þinginu, þá er ekki ráðgert, að bygging alúminíumbræðslu mundi hefjast fyrr en á árinu 1967. Og þörfin fyrir hið mesta vinnuafi yrði ekki fyrr en á árinu 1968. En svo vil ég vekja athygli á því, að enda þótt engin alúminíumbræðsla verði byggð, þurfum við raforkuver. Og þá þurfum við annars konar raforkuver en við erum nú að byggja, þess konar raforkuver, sem þurfa meira vinnuafl, bæði í stofnkostnaði og í rekstri, miðað við afköstin, en það orkuver, sem hér er verið að tala um. Það er þess vegna algerlega óséð enn, en mun liggja fyrir á sínum tíma, hvað vinnuaflsþörfin eykst mikið vegna byggingar sjálfrar alúminíumbræðslunnar.

Hv. 5. þm. Austf. sagði alveg réttilega: Reksturinn, þegar að honum er komið, skiptir ekki afgerandi máli, 500–600 manns eftir 6 ár, eftir þá fjölgun, sem orðið hefur á vinnuaflsmarkaðinum á þessum árum, sem þangað til líða, sem eru þúsundir nýrra vinnandi handa. Ja, hvað skyldi það vera? Það skyldi kannske vera eitthvað um 10% af því nýja vinnuafli eða langt innan við það, sem kemur til á þessum tíma, þangað til reksturinn er kominn í gang með fullum afköstum. Fyrst er gert ráð fyrir að byggja 30 þús. tonna verksmiðju, síðan stækka hana um 15 þús. tonn og svo aftur um 15 þús. tonn. Og allur þessi tími getur orðið samanlagt um 4–6 ár, þó ekki lengri en 6 ár, en e.t.v. getur þetta orðið 4–5 ára tímabil. Það er þess vegna alveg rétt hjá hv. 5. þm. Austf., að sjálfur reksturinn getur ekki skipt okkur verulega miklu máli í þessu sambandi. Og ég held, að það sé ekki of mikil bjartsýni að gera sér vonir um, að við getum stýrt okkar málum þannig á tveggja ára tímabili, þegar reksturinn er mestur, að það verði ekki öðrum ísl. atvinnuvegum að tjóni. Það er líka alger misskilningur, að við getum ekki búizt við því að auka framleiðslu okkar nema með fleiri höndum. Þessu er ég reyndar alveg hissa á að heyra jafnreyndan og raunhæfan atvinnurekanda eins og hv. 5. þm. Austf. halda fram og vanan í útgerðinni, sem veiðir nú með helmingi færri mönnum en fyrir nokkrum tugum ára 30–40 sinnum meira magn af fiski, vegna aukinnar tækni. Og alúminíumbræðsla er ein af þeim atvinnugreinum, þar sem er verulega ráðandi hin nýjasta tækni og þar af leiðandi meiri framleiðni, meiri framleiðsla miðað við færri vinnandi hendur. Mér finnst, að viljinn til að reyna að koma fótum fyrir mál megi ekki leiða menn út í svona bersýnilegar ógöngur í röksemdum fyrir sínu máli.

Að verulegu leyti má segja, að ræður bæði hv. 5. þm. Austf. og 4, þm. Norðurl. e. hafi verið endurtekningar á umr., sem hér fóru fram í vor. Þó hefur ýmislegt nýtt blandast inn í það, og auðvitað er margt af því, sem fram kom hjá þeim, atriði, sem við eigum eftir að ræða og rökræða miklu meira um og deila um, þegar samningsuppköst liggja nánar fyrir, og ég virði það hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að vilja ekki gera neina tilraun til þess að brjóta trúnað um þá vitneskju, sem hann hefur um innihald einstakra greina í samningsuppköstum og sem ég veit, að hann hefur vissar efasemdir um, eins og kom fram í ræðu hans.

Hann vék að þátttöku hins ísl. alúminíumfyrirtækis, dótturfyrirtækis svissneska fyrirtækisins, í atvinnurekendasamtökum og viðhorfi, sem mundi skapazt gagnvart verkalýðnum hér á landi, miklum áhrifum erlends fjármagns o. s. frv. Hann fór ekkert nánar inn á þetta, en það er óhætt að segja það alveg strax, að um þetta hefur aldrei verið rætt við þessa aðila. Þegar þeir hafa spurt okkur um það, hvert væri viðhorf okkar til atvinnurekendasamtakanna, hvert væri viðhorf okkar til þess, að þeir tækju þátt í atvinnurekendasamtökunum, annaðhvort landssambandi þeirra eða iðnrekendasamtökunum, og þegar þeir hafa viljað fá upplýsingar hjá okkur um viðhorf verkalýðssamtakanna, Alþýðusambandsins og verkalýðsfélagsins, í þessu tilfelli í Hafnarfirði, þá höfum við sagt: Farið þið og talið við þessa menn. Og mér er kunnugt um, að þeir hafa, eins og eðlilegt er, leitað sér upplýsinga hjá fulltrúum verkalýðssamtakanna, bæði Alþýðusambandsins og einstakra verkalýðsfélaga, og átt sínar viðræður við fulltrúa atvinnurekenda, en þetta hefur ekki verið samningsatriði milli okkar, viðsemjenda ríkisstj. og þessa fyrirtækis.

Mér er alveg ljóst, að á þessu hafa menn sjálfsagt mismunandi skoðanir. Ég held því miður, að það sé ákaflega margt rangt og byggt á misskilningi, sem sagt hefur verið hér um raforkumálin. Reyndar má segja, að það væru margir aðrir miklu hæfari mér til að fjalla um jafn teknísk mál eins og þar er um að ræða, en ég held, að það hafi ekki verið hrakið, hvorki af þeim þm., sem hér hafa talað, né heldur af hv. þm. í umr. í vor, sem fram hefur verið haldið af öllum sérfræðingum á þessu sviði, sem stjórnin hefur haft sér til ráðuneytis, og á ég þar fyrst og fremst við Raforkumálaskrifstofuna, að Búrfellsvirkjun í sambandi við alúminíumbræðslu, eins og ráðgert er, væri sú langhagkvæmasta virkjun, sem við ættum völ á. Og svo skulum við ekki vera með neinar umbúðir í kringum þetta. Ef þetta er langhagkvæmasta virkjunin, getur bara ómögulega verið, að við séum að leika eitthvað af okkur með því að ráðast í slíka virkjun. Og þessir menn verða bara að koma og sýna fram á, að þetta sé rangt, sem hér hefur verið haldið fram, að þetta sé hagkvæmasta virkjunin. Um það liggja fyrir áætlanir og greinargerðir frá sérfræðingum á þessu sviði. Þess vegna fær það með engu móti staðizt, að raforkusala til alúminíumbræðslunnar, vegna þessara fyrirhuguðu framkvæmda, leiði til þess, að Íslendingar sjálfir þurfi að borga meira eða dýrara rafmagn í framtíðinni. Þá væri þetta ekki hagkvæmt fyrir okkur. Nei, það leiðir til þess, að hækkun rafmagns verður væntanlega minni en ella mundi verða, en því orða ég þetta þannig, að við höfum undanfarna daga verið að tala um nauðsynlegar hækkanir á raforku hér innanlands, án hliðsjónar af þessu, en sem yrði að vera allverulega miklu meiri, ef ekki yrði af þessari virkjun, þ.e.a.s. í Þjórsá við Búrfell. Þetta er líka alveg ótvírætt, og hefur verið í öllum viðræðum álit þeirra sérfræðinga í fjármálum, sem Alþjóðabankinn hefur sent hingað og ættu að vera óháðir aðilar í þessu sambandi og eru að líta á það, hvað þeim finnst sjálfum hagkvæmt og eðlilegt að lána Íslendingum til þessara hluta. Ja, við höfum ástæðu til þess að ætla, segja þeirra. fyrirsvarsmenn, að þið munið fá lán til Búrfellsvirkjunarinnar, eins og hún er ráðgerð. Okkur er ómögulegt að gefa ykkur nokkra fullvissu um það, að þið fengjuð frá Alþjóðabankanum lán til annarra virkjana, sem okkur hafa verið sýndar, enga fullvissu um það. Og allavega eru þær miklu erfiðari fyrir ykkur í upphafi. Því hefur verið haldið fram, eins og ég sagði, að bræðslan mundi fyllilega standa undir sínum hluta af virkjuninni og hér hefur ekkert komið fram með gildum rökum, sem kemur í bága við það. Það er rétt, að verðhækkanir hafa orðið innanlands, sem hafa áhrif á um 30% af áætluðum stofnkostnaði við virkjunarframkvæmdir, frá þeim tíma, sem þær áætlanir voru gerðar og lagðar voru fyrir skýrslur ríkisstj. í vor, en það er enn álit sérfræðinga á þessu sviði, að fyrri áætlanir hafi verið það rúmar, að reikna megi með sama stofnkostnaði og áður.

Að sjálfsögðu fæst betur úr þessu skorið í janúarmánuði, þegar tilboðin eru komin í þessar framkvæmdir, og það var m.a. ein ástæðan til þess, að ég hélt, að þm. þætti æskilegra, að efnisumr. um málið færu einmitt fram, þegar uppköst að samningum lægju fyrir og við sæjum, hvernig við stæðum í sambandi við tilboð í virkjanirnar. Hins vegar hef ég svo sem ekkert á móti því, að við höfum eina æfingu hér í kvöld eins og ég sagði áðan. Ef reiknað er með þeim tölum, sem liggja fyrir frá fyrri tíma, áætlast rekstrarkostnaður 210 þús. megawatta Búrfellsvirkjunar, miðað við eðlilegar afskriftir og fjármagnskostnað, sem næst 180 millj. kr. á ári, að kostnaði af varastöðvum meðtöldum, og tekjurnar af 60 þús. tonna bræðslu í raforkusölunni einni verða um 108 millj. á ári miðað við 21/2 mill eða 60% af árlegum gjöldum, sem er sama hlutfall og orkunotkun bræðslunnar í toppi í hlutfalli við framleiðslugetu virkjunarinnar. Þessar staðreyndir liggja fyrir og hafa ekki verið vefengdar. Bygging alúminíumbræðslunnar gerir því kleift að ráðast í stóra og hagkvæma virkjun mörgum árum fyrr heldur en ella og það kemur fram í hagstæðara verði á raforku innanlands en annars hefði orðið. Tekjurnar af sölu til bræðslunnar einnar munu standa undir öllum erlendum lánum, sem til Búrfellsvirkjunar þarf að taka. Það hefur verið talað um 25 ára lán til Búrfellsvirkjunar, og þá er bræðslan búin að borga öll erlendu lánin til þessarar virkjunar að þeim tíma liðnum.

Auðvitað má alltaf metast um það, hvort þetta er nægjanlega hátt rafmagnsverð eða ekki. Og það er vitnað til þess, að Norðmenn selji raforku sína á 3 mill í staðinn fyrir 21/2 mill eða 20% hærra o.s.frv. Menn sækjast kannske frekar eftir raforku í Noregi heldur en hér nyrzt á hjara veraldar, eins og við tölum stundum um og það hefur auðvitað nokkur áhrif í öðrum kostnaði, svo að ég tali nú ekki um, að það hefur auðvitað sín áhrif líka, þegar verið var að tala um í fyrra og semja við þessa menn um bræðslu fyrir norðan, þegar allt var umlukið af ís. Menn mega ekki alveg loka augunum fyrir svona staðreyndum. Það er ekki víst, að menn vilji alveg koma hingað með jafnglöðu geði og með jafnhægu móti eins og til annarra staða. Hins vegar er ekki um aðra staði að ræða í Evrópu en Noreg nú, þar sem þeir geta fengið raforku með kjörum, sem þeir sætta sig við, og svo hér. Norðmenn leggja mikið kapp á að auka sínar raforkuframkvæmdir með alveg sérstökum hraða og mér er kunnugt um, að það er mjög deilt um það í Noregi, hvort það sé rétt, hvað þeir halda raforkuverðinu uppi eða hvort þeir eigi að lækka það úr þessum 3 mill. Og það kynni kannske svo að fara, áður en við erum búnir að ljúka þessum umr., að eitthvað hefði skeð í því efni og það er vegna þess, að Norðmenn eru hræddir um, að þeir séu að missa af strætisvagninum. Þeir þurfa að flýta sér að virkja fallvötnin, meðan raforkan er ekki orðin ódýrari annars staðar frá kjarnorkuofnum eða einhverjum öðrum orkugjöfum, sem ég kann nú ekki að greina. Og eitt er víst, að Svisslendingarnir eru þegar byrjaðir samninga við þetta sama fyrirtæki, við þýzkt fyrirtæki um að reisa alúminíumbræðsluna með raforku frá kjarnaofnum nú þegar. Það getur tekið nokkuð langan tíma, en þeir eru byrjaðir þessar viðræður og þeir keyptu á s.l. sumri til helminga á móti 7–8 öðrum áströlskum fyrirtækjum báxítnámur í Ástralíu og þeir ætla sér að flytja báxítið þaðan, þegar búið er að vinna úr því alúmína, hingað til Íslands í bræðsluna, af því að enn sem komið er borgar sig að flytja það alla leið hingað, af því að þeir hafa ekki sambærilega orku í Ástralíu. En þau gerðu alveg grein fyrir því, áströlsku blöðin, sem ég sá í sumar, að þeir mundu áreiðanlega innan skamms tíma setja þarna upp bræðslu, þegar raforka til bræðslunnar frá öðrum orkugjöfum stæðist samanburð við vatnsaflsvirkjanir og sparaði þeim þann mikla kostnað, sem af því leiðir að keyra alla leið norður í Íshaf frá Ástralíu, kringum hálfan hnöttinn.

Það er náttúrlega ekki hægt að fullyrða um þetta, en sérfræðingar á þessu sviði og alveg sérstaklega norskir hafa varað sínar landsstjórnir við að verða ekki of seinar að hagnýta vatnsaflsvirkjunina og eins hafa sérfræðingar aðvarað okkur, því að um það eru menn sammála, að ef búið er að byggja vatnsaflsvirkjun og tækifæri fæst til þess að afskrifa virkjanirnar á 10–20–25 árum, er engin orka, sem vitað er um í heiminum í dag, ódýrari en frá afskrifuðum vatnsaflsvirkjunum.

Það hefur verið endurtekið hér tvisvar til þrisvar í umr. að við höfum samið til 55 ára. Samningstíminn er 25 ár, sem talað hefur verið um, frá fyrsta virkjunarstigi, og síðan tveir 10 ára valkostir til viðbótar þar frá af beggja hálfu, til 35 ára og 45 ára. Þetta þýðir sem sagt frá fyrsta stigi 45 ára samningur, en frá því stigi, þegar alúminíumbræðslan hefur náð fullum afköstum, 39 ára samningstími. Hins vegar er mönnum sennilega kunnugt um, að við höfum rætt um það við þá, að þeir fengju einhvern tíma, þegar samningstíminn væri liðinn, til þess að hagræða sínum hlutum til brottflutnings eða á annan hátt, en vinnsluréttindi hafa þeir engin eftir þennan tíma, 39 eða 45 ár. Þeir hafa viljað semja við okkur um að halda bræðslunni áfram lengur. Það er, held ég, ekkert leyndarmál heldur. Við Íslendingar gætum þá eignazt svo og svo mikið af henni, þriðja part eða helminginn, eftir þann tíma. Það hefur verið okkar skoðun, sem í þessum samningaviðræðum höfum staðið, að aðstaða Íslendinga væri slík þá, að það væri langbezt að tala ekkert um þetta þá, þeir hefðu öll ráð í sinni hendi, gætu þá alveg eins eignazt meira en þriðja part af verksmiðjunni eða helminginn, ef þeir óskuðu að halda áfram alúminíumbræðslu í einhverri samvinnu við þá og þannig standa þessi mál. Ég vil leiðrétta þennan misskilning um samningstímann.

Ég skal svo ekki þreyta hv. þm. með meiri umr. um þetta núna. Það var alveg af ásettu ráði, sem ég hafði mína skýrslu stutta, því að ég bjóst ekki við, að menn óskuðu eftir að endurtaka umr. frá því í vor. Ég gat vel skilið það, ef menn vildu gefa einhverjar sérstakar yfirlýsingar um breytt viðhorf í málinu. Það er skiljanlegt út af fyrir sig, og í mínum huga mundu þá í þeim efnisumr., sem fram fara hér fyrr eða síðar um samningsuppköstin, einstakar greinar margháttaðra og töluvert flókinna samninga koma til athugunar eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í marzmánuði. Þm. ættu þá að geta verið búnir að hafa þessi skjöl á milli handa mjög lengi. Menn geta auðvitað alltaf gagnrýnt meðferð svona máls, sem er í eðli sínu samningur, og sagt: Það er lagt fyrir þingið í því formi, að það verður að velja eða hafna. Þetta er alveg rétt. En svona er það um alla samninga. Þess vegna höfum við verið að reyna að gera okkar ýtrasta til þess að fá fram sjónarmið og viðhorf þm. áður í þmn. og auðvitað allra þm., eftir að þm. geta haft málið til meðferðar, að vísu í trúnaði, og koma þannig fram aths. sínum við einstakar gr. alllöngu áður en málið yrði opinberlega lagt fram í Alþingi.