02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

Almennur lífeyrissjóður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð út af ræðu hæstv. forsrh. Ég greindi aðeins frá staðreyndum í þessum efnum og lagði engan dóm á þær. Ég skýrði frá því, að Framsfl. hefði ásamt Alþfl. staðið fyrir fyrstu .alþýðutryggingalöggjöfinni gegn mjög harðri mótstöðu, sem er alveg rétt, og síðan hefði Framsfl. stutt, að því að ég bezt vissi, allar endurbætur á alþýðutryggingalöggjöfinni og nýja tryggingalagabálka, eins og atvinnuleysistryggingar og annað slíkt, en aðeins einu sinni lagt til, að frv. um endurbætur á alþýðutryggingalögunum yrði frestað og málið undirbúið betur, en látið fylgja sterka yfirlýsingu frá sér um, að flokkurinn styddi fullkomnun alþýðutrygginganna. Þetta var það, sem ég rakti, og þetta eru staðreyndir. Ég skal ekki fara að ræða hér, af hverju Sjálfstfl. var á móti alþýðutryggingalöggjöfinni fyrst, — ég gerði það ekki í minni fyrri ræðu og skal ekki gera það frekar nú. Ég sagði aðeins frá staðreyndum. Þetta var lögfest af Alþfl. og Framsfl., en andstaða gegn því var mjög sterk af hálfu Sjálfstfl. Ég held því alveg óhikað fram, að þeir, sem unnu að því að koma á fyrstu alþýðutryggingalöggjöfinni við þessi skilyrði, hafi unnið þýðingarmesta og erfiðasta verkið í öllu málinu og það hafi verið miklu auðveldara að byggja ofan á síðan. Og það var ekki sízt þess vegna, sem ég vildi koma á framfæri þessum ummælum mínum í sambandi við það, sem hæstv. utanrrh. sagði.