26.10.1965
Efri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2409)

33. mál, verðjöfnunar- og flutningasjóður síldveiða

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í maí og júnímánuði s.l.. fjallaði verðlagsráð sjávarútvegsins um lágmarksverð á bræðslusíld til vinnslu í verksmiðjum, veiddri á Norður og Austurlandssvæði. Samkomulag náðist ekki um bræðslusíldarverðið, og var ágreiningsatriðum vísað til sérstakrar yfirnefndar skv. l. nr. 60 1964, um breyt. á l. nr. 97 1961, um verðlagsráð sjávarútvegsins. Yfirnefnd kvað upp úrskurð sinn 25. júní s.l., og var niðurstaða meiri hluta yfirnefndarinnar, að verðið yrði 190 kr. á mál til og með 14. júní, en 220 kr. á mál á tímabilinu 15. júní til 30. sept., en við síðara verðið bættist gjald skv. brbl., dags 24. júní, 15 kr., verðið yrði 235 kr. á mál.

Verðþróun á síld til söltunar og bræðslu hafði orðið sú, að í s.l. júnímánuði var sú hætta á ferðum, að örðugt mundi reynast að fá síld til söltunar á komandi sumri að óbreyttum aðstæðum og gæti það ástand dregið verulega úr síldarsöltun, þetta ástand gæti spillt erlendum mörkuðum og rýrt stórkostlega afkomumöguleika þeirra, sem atvinnu hafa af síldarsöltun. Þá hafði ekki náðst samkomulag í verðlagsráði, eins og sumarið 1964, að leggja hluta af andvirði bræðslusíldar í sérstakan sjóð til að greiða fyrir siglingu veiðiskipa með bræðslusíldina til hafna norðanlands og draga þannig úr bið fiskiskipa í Austfjarðahöfnum. Til þess að bæta úr þessu ástandi voru sett brbl. 24. júní s.l., sem eru shlj. þessu stjfrv., sem hér liggur fyrir til umr., um verðjöfnunar- og flutningasjóð síldveiði skipa, og lagt er fyrir Alþ. skv. 28. gr. stjskr.

Eftir birtingu úrskurðar yfirnefndar um lágmarksverð bræðslusíldar og birtingu téðra brbl. var síldarflotinn stöðvaður, og sigldu skipin til heimahafna sinna. Í tilefni af þessari fyrirvaralausu og óvæntu stöðvun síldveiðiflotans gaf ríkisstj. út tilkynningu 28. júní, svo hljóðandi:

„Hinn 24. þ.m. voru gefin út brbl. um verðjöfnunar- og flutningasjóð síldveiða árið 1965. Efni þeirra er í höfuðatriðum þetta: Að ríkisstjórninni sé heimilt að ákveða, að af allri bræðslusíld, sem veiðist frá 15. júní til ársloka árið 1965 fyrir Norður- og Austurlandi, skuli greiða 15 kr. fyrir hvert mál í sérstakan sjóð. Að heimilt sé að verja af fé sjóðsins til hækkunar á fersksíldarverði til söltunar allt að 30 kr. á hverja uppsaltaða tunnu. Að greiða síldveiðiskipum, sem sigla með eigin afla af veiðisvæðum sunnan Bakkaflóadýpis til hafna vestan Tjörness, 15 kr. flutningsstyrk á hvert mál bræðslusíldar. Styrkurinn er bundinn því skilyrði, að löndunartöf sé á Austurlandshöfnum og Raufarhöfn, enn fremur að hlutaðeigandi verksmiðjur greiði síldveiðiskipum til viðbótar 10 kr. á hvert mál, eða samtals 25 kr., þegar svo er háttað sem að framan greinir. Að verja allt að 4 millj. kr. til flutnings á söltunar- og frystingarhæfri síld til Norðurlandshafna. 7 manna sjóðsstjórn á að annast innheimtu gjaldsins og dreifingu þess.

Fyrir lágu upplýsingar um það, að hækkun á bræðslusíldarafurðum, þ.e. lýsi og mjöli, hefði orðið miklu meiri en tilsvarandi hækkun á þeirri saltsíld, sem líkur eru til að framleidd verði á þessari vertíð. Af því leiddi hættu á því, að síld fengist ekki til söltunar sökum þess, hve hráefnisverð hennar yrði lágt, samanborið við bræðslusíldarverð. Útflutningsverðmæti saltsíldar er nær þrefalt miðað við magn, borið saman við afurðir úr bræðslusíld, og liggur mismunurinn að verulegu leyti í meiri verðmætasköpun innanlands. Það hefur tekið áratuga starf að afla markaða fyrir íslenzka saltsíld. Markaðir þessir eru í augljósri hættu, ef verulega dregur úr síldarsöltun. Gæti það valdið óbætanlegu tjóni íslenzkum sjávarútvegi á þeim landssvæðum, þar sem söltun aðallega fer fram, og þjóðarbúinu í heild. Sú lækkun, sem verður á bræðslusíldar verðinu af þessum sökum, rennur óskipt til sjómanna og útgerðarmanna í hækkun hráefnisverðs um allt að 30 kr. miðað við uppsaltaða tunnu.

Á s.l. ári náðist um það samkomulag í verðlagsráði milli fulltrúa sjómanna og útvegsmanna annars vegar og fulltrúa síldarkaupenda hins vegar að leggja hluta af andvirði bræðslusíldar í sérstakan sjóð til að greiða fyrir siglingu veiðiskipa með eigin bræðslusíldarafla til hafna norðanlands, þegar þrær verksmiðjanna eystra væru fullar og löndunartöf á Raufarhöfn. Ríkisstjórninni var kunnugt um, að sams konar samkomulag mundi ekki takast að þessu sinni í verðlagsráði sjávarútvegsins, þó að meiri hluti fulltrúa væri því meðmæltur. Til þess að koma í veg fyrir stórfelld töp síldveiðiflotans sökum löndunarbiðar á Austfjörðum bar brýna nauðsyn til að stuðla að því, að þetta flutningafyrirkomulag síldveiðiskipa héldi áfram og væri styrkt þannig, að heildargreiðslur til þeirra, þegar svo stæði á, hækkuðu úr 16 kr. á árinu 1964 í 25 kr. á hvert mál. Sérstaklega skal tekið fram, að sjóðurinn greiðir ekki neinn kostnað af rekstri flutningaskipa, sem síldarverksmiðjur hafa tekið á leigu eða gera út til síldarflutninga.

Brbl. heimila að verja allt að 4 millj. kr. til flutnings á kældri síld, sem hæf sé til söltunar og frystingar, frá miðunum við Austurland til Norðurlandshafna. Er hér um merkilega nýjung að ræða til að leysa það vandamál, sem af því stafar, að síldargöngur hafa leitað á nýjar slóðir svo og að helztu síldarverkunarstaðir norðanlands hafa búið við langvarandi skort á hráefni og þar af leiðandi atvinnuörðugleika. Ef tilraunin heppnast, eykur það atvinnuöryggi allra þeirra, sem við síldarútveg fást á sjó og landi.

Að öðru leyti vísast til grg. oddamanns yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins og stjórnarformanns framkvæmdastjórnar síldarverksmiðja ríkisins.“

Þannig hljóðaði yfirlýsing ríkisstj., sem hún gaf út 28. júní, þegar síldarflotinn hafði siglt heim í höfn.

Ríkisstj. hóf nú viðræður við fulltrúa síldveiðiskipa og L.Í.Ú. um lausn þessarar deilu, og 1. júlí náðist samkomulag um óbreytt bræðslusíldarverð, þó þannig, að sumarverðið skyldi gilda frá 10. júní, og lögðu síldveiðiskipin úr höfn þá um kvöldið. Sama dag, þ.e. 1. júlí, birti ríkisstj. eftirfarandi fréttatilkynningu:

Ríkisstj. hefur m.a. með viðræðum við fulltrúa síldveiðiskipstjóra og L.Í.Ú. kannað, með hverjum hætti unnt væri að tryggja, að síldveiðar hefjist tafarlaust að nýju, og lýsir af sinni hálfu yfir því, sem nú skal greina:

1) Ríkisstj. mun beita sér fyrir, að síldarverksmiðjur á Austur- og Norðurlandi greiði á tímabilinu frá og með 10.–14. júní sama síldarverð og ákveðið hefur verið fyrir tímabilið 15. júní til 30. sept. 1965.

2) Þar sem náðst hefur samkomulag um verð á síld til söltunar, án þess að á jöfnunarverði þurfi að halda, og í trausti þess, að samkomulag náist um, að af 235 kr. verðinu, sem greiðist fyrir bræðslusíld í sumar, renni 3 kr. í flutningasjóð, sem starfræktur sé á sama hátt og var á s.l. ári, en greiðslur úr sjóðnum séu 15 kr. á mál til veiðiskips, enda greiði verksmiðjan, sem síld er flutt til, einnig 10 kr. á mál, þá mun ríkisstj. ekki nota heimildir skv. brbl. frá 24. júní 1965.

3) Ríkisstj. mun mæla með því, að áður en sumarsíldveiðar hefjast sumarið 1966, verði upp tekin vigtun á síld, sem lögð er inn í síldarverksmiðjur.

Ríkisstj. telur sig hafa öryggi fyrir, að með framansögðu sé tryggt, að síldveiðar hefjist nú þegar.“

Í framhaldi af 3. lið þessarar yfirlýsingar vil ég skýra frá því, að sérstök nefnd hefur nú hafið störf til könnunar á því, hvað þurfi helzt að gera i hinum ýmsu síldarverksmiðjum, til þess að það loforð, sem þar er gefið, verði uppfyllt.

Þennan sama dag var könnuð afstaða verksmiðjanna á Austur- og Norðurlandi til þessa samkomulags, og samþykkti þá þegar meiri hluti þessara síldarverksmiðja að greiða sama síldarverð frá og með 10. júní til 14. júní og yfirnefndin hafði ákveðið fyrir tímabilið 15. júní til 30. sept. 1965.

Daginn áður, eða 30. júní, ákvað verðlagsráð sjávarútvegsins lágmarksverð á fersksíld til söltunar, sem veidd yrði á Norður- og Austurlandssvæði frá upphafi síldarsöltunar til septemberloka 1965, þannig, að verð hverrar uppmældrar tunnu, 108 kg, skyldi vera 257 kr. og verð hverrar uppsaltaðrar tunnu skyldi vera 350 kr.

Í 2. gr. brbl. er heimilað að verja allt að 4 millj. kr. af 15 kr. bræðslusíldargjaldinu skv. 1. gr. til þess að flytja með flutningaskipi kælda síld til söltunar eða frystingar til Norðurlandshafna og til að veita sérstakan stuðning þeim síldveiðiskipum, sem skila eigin afla til þessa svæðis. Enda þótt ákveðið hafi verið að nota ekki heimildir brbl., voru flutningar á kældri síld framkvæmdir til Norðurlandshafna m.a. með Þorsteini þorskabit, þótt ekki hafi tekizt allt of vel, og eins hafa einstök veiðiskip verið styrkt til flutninga á sömu hafnir, og er kostnaðurinn við þessar ráðstafanir greiddur úr ríkissjóði.

Margar grg. frá deiluaðilum umfram það, sem nú þegar hefur verið minnzt á, voru á þessum tíma birtar í dagblöðum og útvarpi auk grg. oddamanns yfirnefndar, en ég tel ekki þörf á að rekja það, enda yrði of langt mál að rekja efni þeirra eða lesa þær upp. Ég hef hér reynt að draga fram staðreyndir um aðdraganda að setningu þessara brbl. Eins og fram kemur í frétt ríkisstj. frá 1. júli s.l., var ákveðið að nota ekki heimildir l., og hefur það ekki verið gert. Samkv. ákvæðum í stjskr. landsins, svo sem fyrr er á minnzt, ber að leggja slíkar aðgerðir fyrir Alþ., hvað og gert er hér með.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.