26.10.1965
Neðri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

18. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. (SE) spurði um það, hvort einhverjar reglur væru um birtingu á nöfnum þeirra manna, sem hefðu verið teknir ölvaðir við akstur. Um þetta eru mér vitanlega engar sérstakar reglur. Blöðin, sem eru gefin út frjáls hér á landi, ráða mestu um þetta sjálf. Það hefur oft verið varpað fram því, að það ætti að skylda þau til þess að skýra frá nöfnum í sambandi við umferðarslys. Ég fyrir mitt leyti sé ekki nokkra ástæðu til þess að halda yfir þessu nokkurri leynd og tel sjálfsagt, eins og hv. þm. líka, að það gæti orðið til bóta, að það yrði tekinn upp sá siður, annaðhvort af frjálsum vilja í samvinnu milli blaða og dómstóla eða þá með þvingunarráðstöfunum, ef annað fæst ekki.