11.11.1965
Neðri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

46. mál, bygging leiguhúsnæðis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) tók af mér ómakið með því, sem hann sagði síðast, að þegar borið er saman ástandið nú við það, sem áður var, þá verða menn auðvitað enn, — og það skulum við játa, — að borga óhæfilega mikinn kostnað til húsnæðis, en kröfurnar eru líka svo ósambærilega miklu meiri, eins og hann sagði, að nálgast himnaríki miðað við helvíti. Eðlilegt er, a.m.k. skiljanlegt, skulum við segja, að menn þurfi að borga verulega fyrir það. Annars get ég sagt það, að nú eins og oft ella, þegar þessi hv. þm. vill það við hafa, þá getur hann talað skynsamlega um mál og er gaman að eiga f rökræðum við hann. Hann vill ekki alltaf það við hafa, ég skal játa það. En sumir þeir sem hér tala mikið á þingi, vilja það aldrei við hafa. Á þeim er verulegur munur.

Ég hygg, að það sé nokkuð íhugunarvert einmitt, hvernig stendur á því, sem hv. 3. þm. Reykv. vakti réttilega athygli á, að áður fyrr voru það margir menn, sem höfðu af því verulegar tekjur, við getum sagt atvinnu, að eiga hús, byggja hús og leigja út, en nú skuli þetta vera fallið niður. Hvernig stendur á því, að á þeim verðbólgutímum, sem við höfum lifað síðustu 20 ár, — hvort vöxtur hennar er meiri eitt árabil eða annað, skiptir ekki máli, — hann er nokkuð sá sami í heild, ívið hægari seinna tímabilið en hið fyrra, það má benda á hröð tímabil, sem koma inn á milli, en þróunin er þessi sama, að það er verðbólga, sem hefur ýtt undir menn að eignast fasteignir, þó er eftirtektarvert, að á síðasta árabili hefur mjög aukizt, að menn legðu fé í sparisjóð, það er önnur saga, — en hvernig stendur á því, að á þessu tímabili skuli það nánast vera úr sögunni, að menn byggi til þess að leigja? Ein af ástæðunum til þess er hinn stórbætti efnahagur, sem gerir það að verkum, að nú eru til kaupendur að íbúðunum, þannig að það eru orðnir svo miklu fleiri menn, sem eru húseigendur, íbúðareigendur en áður, ekki aðeins fleiri menn í tölum, heldur einnig hlutfallslega, svo að við gerum nú ráð fyrir öllu og ekki verði misskilið það, sem sagt er. Þetta er eitt vitni hinnar almennu velmegunar í landinu, og það er vitni gegn þeirri kenningu hv. 3. þm. Reykv., að hér hafi mjög komið upp hin síðari ár einhver auðmannastétt, sem sérstaklega sé í Sjálfstfl. og hindri eðlilegar framfarir í landinu. Ég efast ekki um það, að töluvert af mönnum hefur efnazt vel hin síðari ár. Það hefur löngum verið töluvert af efnuðum mönnum hér, frá því að ég fyrst man eftir mér. Munurinn á því, sem var á okkar æskudögum, og því, sem nú er, er sá, hversu margir eru orðnir efnaðir, hversu það er orðið almennt, að menn geti veitt sér þann munað, það, sem mjög fáir gátu gert áður. Þetta er meginmunurinn. Og ein af ástæðunum til þess, að svo margir hafa getað leyft sér þetta, er m.a. það, sem við erum allir sammála um að fordæma, skattsvik og annað slíkt. Þetta verðum við að játa, ef við erum heiðarlegir og viljum viðurkenna, hvaða vandamál við er að etja. Hv. þm. sagði: Það kemur til að reyna mest á kjark sjálfstæðismanna um það, hvort þeir vilja eiga þátt í því að reyna að lækka húsnæðiskostnaðinn hér í bænum. — Við skulum hælast minnst í máli, metast heldur of val felldan. Við skulum sjá, þegar farið verður að gera þá tilraun, sem menn komu sér saman um á s.l. vori, á hverjum stendur mest, að sú tilraun verði gerð af fullri hreinskilni og fullri alvöru. Við er að etja hagsmuni, sem áreiðanlega gefast ekki upp alveg fyrirhafnarlaust. Við skulum ekkert vera að ásaka hver annan um hlífð við þá hagsmuni eða segja, hvar þeir séu, við skulum bara sjá, hvort við fáumst til þess að ganga einlæglega að því verki, sem við höfum þarna sagt að við ætlum að reyna að leysa.

Hitt er svo annað mál, sem við skulum einnig hafa í huga, að það tjáir ekki að kenna illum stjórnarháttum á Íslandi um það, að menn borgi hér meiri hluta af tekjum sínum til húsnæðis heldur en annars staðar. Í fyrsta lagi er það svo, að sjálf húsin eru vandaðri og dýrari, og það er óhjákvæmilegt vegna okkar veðráttu. Það er eðlilegt. Í öðru lagi eru menn inn á við á sínum heimilum eða hafa a.m.k. til skamms tíma verið hér á Íslandi, bæði sótt minna út í náttúru, ef svo má segja, og á skemmtistaði og veitingastaði heldur en annars staðar. Afleiðing af því er m.a. sú, að ekki einhver yfirstétt, heldur allur almenningur gerir miklu meiri kröfur til húsnæðis á Íslandi en annars staðar. Hann ætlast til þess að fá miklu meira gólfrými hér, fleiri herbergi en annars staðar er tíðkað. Það er alger blekking að vera að tala um þetta mál og bera saman, hvað er borgað í húsnæðiskostnað hér og annars staðar, nema menn játi þetta hreinskilnislega og segi þetta einn hluta af vandamálinu. Þetta er eitt af því, sem gerir það að verkum, að launþegar hér segja: „Við þurfum hlutfallslega hærri tekjur hér en annars staðar,“ — þ.e. ef þeir ætla að veita sér til viðbótar þessum aukna kostnaði annað það, sem menn í öðrum löndum einnig veita sér.

Hv. 3. þm. Reykv. fæst til að tala um þessi mál öðru hvoru af rökum, og þá er sjálfsagt að taka þátt í umræðum við hann um það. Ég er því alveg sammála, og það er grundvallarsannfæring mín, að án tillits til þess, hver flokkur er við stjórn hverju sinni, tekst ekki að leysa verðbólguvandamálið nema með víðtæku samstarfi ríkisstjórnar, Alþingis og almannasamtaka. Þetta er ekki nein ný kenning mín. Ég hef haldið því fram lengi, að ekki dygði að beita almannasamtökunum á móti ríkisvaldinu, það yrði báðum til bölvunar. Ég hygg, að reynslan hafi nógsamlega sannað það. En jafnvel þó að ég hefði haldið einhverju öðru fram, þá segi ég: Reynslan hefur nógsamlega sannað, að jafnvel þeir, sem hafa trúað einhverju öðru en þessu, þeir hljóta að hafa sannfærzt um það nú, að það er öllum til hags, án tillits til þess, hver fer með stjórnina hverju sinni, og í þingræðislandi hlýtur það ætíð að breytast. Eðlilegt er, að stjórnarandstaða hafi nokkurt hóf á sinni stjórnarandstöðu og að þeir, sem í almannasamtökunum hafa forustu, vinni að lausn sinna vandamála af jafnheilum hug með þeim, sem eru settir til forustu ríkisins hverju sinni, hvort sem þeir eru þeim sammála í ýmsum stjórnmálum eða ekki.