16.12.1965
Neðri deild: 34. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

93. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að því í fjmrn. og af tollamálanefnd að undirbúa eftir beiðni minni fastar og ákveðnar reglur um tollmeðferð þess varnings, sem ferðamenn og farmenn á sjó og í lofti hafa meðferðis, er þeir koma frá útlöndum til landsins. Um þennan varning hafa engar fastar reglur gilt til þessa, og hefur þetta skapað mikla erfiðleika í framkvæmd, bæði fyrir tollgæzluna og einnig fyrir viðkomandi aðila sjálfa, sem hafa ekki í rauninni vitað með neinni vissu, hvað mátti og mátti ekki í þessu efni. Þessum undirbúningi er alllangt á veg komið. En við nánari athugun málsins kom í ljós, að þróazt hefur í þessum efnum á undanförnum árum og jafnvel áratugum margs konar venjur, sem algerlega brjóta í bága sumar hverjar við gildandi íslenzk lög og aðrar byggja á mjög hæpnum heimildum í lögum. Margt af þessum venjum hefur þó verið með þeim hætti, að það hefur verið í samræmi við það, sem tíðkazt hefur í nálægum löndum, og hefur ekki þótt verða hjá því komizt að hafa þann hátt á framkvæmd þessara mála. Engu að síður hlýtur öllum hv. þdm. að vera það ljóst, að með engu móti er hægt við það að una, að þessi mál séu byggð á hæpnum eða engum lagafyrirmælum, heldur á einhverjum venjubundnum reglum, sem í rauninni eru þó engar reglur, heldur eru meira og minna handahófskenndar. Það er hin brýnasta nauðsyn, sem ég veit að allir hv. þdm. eru mér sammála um, að koma tollgæzlumálum í sem traustast horf og reyna með öllum ráðum að tryggja það, að ekki sé um ólöglegan innflutning til landsins að ræða. Er ekki hægt að ætlast til þess, að það takist og tollgæzlan fái viðunandi starfshætti, nema hún fái fastar reglur til að fara eftir.

Þegar það lá fyrir, að ekki mundi vera auðið að setja þessar reglur nema þá með svo ströngum mörkum, að það er í rauninni engin von til þess, að það væri hægt að framfylgja þeim, ef það ætti að byggja á augljósum lagafyrirmælum, sem nú eru til, varð niðurstaðan, að rétt þótti að leita eftir þeirri heimild, sem felst í frv. því, sem hér er flutt til breytinga á l. um tollskrá. En heimild þessi felur í sér, að fjmrn. geti sett reglur um tollfrjálsan innflutning ferðafólks og farmanna, er miðist við það, sem eðlilegt má telja í þessum efnum, og yrði þar þá að sjálfsögðu stuðzt við alþjóðlegar venjur í því sambandi og þessar heimildir rn. takmarkist ekki af sérlögum nema að svo miklu leyti sem sjálfsagt er og eðlilegt að verði að vera vegna sóttvarna eða annarra öryggisráðstafana.

Ef heimild sem þessi fengist, væri ótvírætt hægt að ganga frá þessum reglum, sem rn. hefur í undirbúningi, og koma þessum málum í eðlilegt horf. Fáist þessi heimild ekki, er ekki nema annað tveggja fyrir hendi, að láta þessi mál þróast eins og verið hefur eða þá framfylgja til hins ýtrasta gildandi l., sem nánast að mati allra aðila, sem þetta þekkja, bæði tollgæzlu og annarra, yrði gersamlega óframkvæmanlegt. Að minni skoðun er nauðsynlegt, að regla, sem sett yrði, eða reglur væru í samræmi við það, sem má telja réttarmeðvitund heiðarlegs borgara í þessu sambandi. Ef lengra er gengið, verður það eingöngu til þess að eyðileggja möguleika á að koma þessum málum í fast horf. Hins vegar er ljóst, að ýmislegt hefur þróazt í þessu efni, sem er óheilbrigt og verður því að takmarka. En meginsjónarmiðið hlýtur að verða það að setja reglurnar í þeim anda, að almennur heiðarlegur borgari telji, að þær séu viðhlítandi, og hafi ekki tilhneigingu til þess að brjóta þær. Að sjálfsögðu verður allur slíkur innflutningur bundinn við það, að um þann innflutning einan sé að ræða, sem sé ætlaður til eigin nota, en ekki sé um neins konar söluvarning að ræða. Hygg ég, að það yrði ærið erfitt í framkvæmd að ætla nú að taka af t.d. að öllu leyti ýmsar venjur, sem jafnvel hafa tíðkazt um tveggja áratuga bil, og ég held, að það yrði ákaflega erfitt að sannfæra viðkomandi aðila með því að vitna til þess nú, að það hafi verið ólöglegt, sem hafi verið látið tíðkast í tvo áratugi eða lengur. Býst ég við, að hv. þdm. geri sér það ljóst.

Frv. þetta mætti mjög góðum skilningi í hv. Ed. og var afgreitt þar með miklum hraða, og ég hefði mikla löngun til að fara fram á það við þessa hv. d., að hún vildi líta á þetta mál með svipaðri vinsemd og skilningi og reyna að haga meðferð málsins svo, að hægt væri að afgreiða það áður en þinghlé verður, vegna þess að þá væri hægt að ganga frá þessum reglum í janúarmánuði. Það tekur að sjálfsögðu nokkurn tíma að koma þeim í framkvæmd, vegna þess að þær verður að kynna vel og gera mönnum ljóst, hvaða breytingar hafi orðið frá þeim venjum, sem kunna að hafa skapazt, svo að það verði eðlileg framkvæmd á málinu öllu. Það er að sjálfsögðu skylt að afsaka það, að málið kom ekki fyrr fyrir Alþ. en raun ber vitni um. En það hefur verið í athugun að undanförnu, hvaða leiðir gætu verið helzt heppilegar til þess að leysa þann vanda, sem ég gat um, og þessi leið hefur þótt sú eðlilegasta að fara, sem hér hefur orðið niðurstaðan að leggja til við hið háa Alþ.,samþ. verði.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.